Viðar Gíslason var fæddur 29. október 1972. Hann lést 26. mars síðastliðinn. Foreldrar hans eru Gísli Júlíusson, f. 31.3. 1946, og Alda Guðmundsdóttir, f. 18.1 1949, d. 22.1. 1976. Bróðir Viðars var Elvar Gíslason, f. 14.9. 1968, d. 29.5. 1996. Fósturmóðir Viðars er Sigríður Þorvaldsdóttir, f. 8.8. 1948, og fósturbróðir hans er Daníel Birgir Ívarsson.

Útför Viðars fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Löng þá sjúkdómsleiðin verður, lífið hvergi vægir þér, þrautir magnast, þrjóta kraftar, þungt og sárt hvert sporið er, honum treystu, hjálpin kemur, hann af raunum sigur ber. Drottinn elskar, - Drottinn vakir daga' og nætur yfir þér. (S. Kr. Pétursson.)

Sjálfsvorkunn og sérplægni er nokkuð sem margir þekkja í fari annarra en fæstir vilja þó kannast við í sínu eigin. Eftir að ég kynntist Viðari Gíslasyni fór ég að átta mig á þessum löstum í fari mínu og skammast mín fyrir þau skipti er ég grét örlög mín. Ég hugleiddi hve lánsamur ég í rauninni væri og sorgir mínar aðeins hversdagslegt hjóm miðað við þær raunir sem lagðar voru á Viðar og hans fjölskyldu. Í áratug barðist Viðar við þann illskeytta sjúkdóm sem nú hefur lagt hann.

Ég vil þakka Viðari fyrir kynnin og vona að hann sé kominn í betri sveit þar sem hann hittir fyrir ástvini að nýju. Gísla og Sigríði sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Viðars Gíslasonar.

Grímur Atlason.

Elsku Viðar! Þau verða víst ekki fleiri skiptin sem ég get komið til þín á milli afmælisdaganna okkar og strítt þér á því að ég sé jafngömul þér í fjóra daga. Ég man þegar við vorum hjá ömmu í "Kóp" að leika okkur og ég montaði mig allan daginn að nú væri ég sex ára alveg eins og þú, en það fór í taugarnar á þér að stelpa eins og ég gæti verið jafngömul þér. Þú sagðir að stelpur væru vitlausar, en ég held að það hafi breyst með árunum; þegar ég heimsótti þig á Hlein var þar stór hópur vinkvenna.

Elsku Viðar, þú varst svo yndislegur þótt þú gætir ekki tjáð þig með orðum og varst alltaf svo brosmildur og léttur í lund þegar við Lísa og Alexander komum að heimsækja þig.

Elsku Viðar, nú ertu farin og ég veit að mamma þín og Elvar bróðir þinn taka vel á móti þér.

Löng þá sjúkdómsleiðin verður,

lífið hvergi vægir þér,

þrautir magnast, þrjóta kraftar,

þungt og sárt hvert sporið er,

honum treystu, hjálpin kemur,

hann af raunum sigur ber.

Drottinn elskar, - Drottinn vakir

daga' og nætur yfir þér.

(S. Kr. Pétursson.)

Ættingjum og vinum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur, megi Guð gefa ykkur styrk á erfiðum stundum.

Helena frænka.

Það er sitthvað gæfa eða gjörvileiki. Viddi virtist hafa flest til að bera er prýtt gat einn dreng, geðþekkur og myndarlegur strákur sem skaraði fram úr í íþróttum, vinamargur og farsæll í námi. Það sem við gátum helst sett út á hann var að hann var í lélegu félagi að okkar mati, að öðru leyti sagði enginn styggðaryrði um Vidda. En arfgengur sjúkdómur var þegar búinn að kveða upp dauðadóm yfir þessum góða dreng. Það segir kannski nokkuð um hversu fjarstæðukennt manni fannst að svona glæsilegur piltur væri haldinn svo illvígum sjúkdómi að þegar hann veigraði sér við að skalla bolta á knattspyrnuvellinum vegna sjúkdómsins fannst okkur þetta vera hálfgert væl. Þótt við vissum að Elvar bróðir hans væri heltekinn á þessum tíma einfaldlega trúðum við því ekki að Vidda biðu sömu örlög.

Við TBR-félagarnir þekktum Vidda á badmintonvellinum þar sem hann vann til fjölda verðlauna og var erfiður andstæðingur jafnaldra sinna í TBR. Hann var unglingalandsliðsmaður og lék fyrir Íslands hönd á erlendri grund. Á knattspyrnuvellinum var hann samherji okkar og lék með TBR í 4. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í nokkur ár í byrjun tíunda áratugarins. Áhugi okkar var í engu samræmi við getuna og voru sigrar sjaldgæfir sem lóur á jólum. En það vantaði ekkert upp á leikgleðina og andinn í liðinu var alltaf betri en árangurinn. Viddi var alltaf léttur í skapi og húmoristi góður, einkum laginn í svokölluðum "múrarabröndurum" sem Víkingarnir sérhæfðu sig í með góðum árangri. Það var því mikið áfall fyrir okkur þegar hann fékk fyrsta áfallið sitt og eftir það lék Viddi aldrei með okkur aftur. Við tók langt veikindastríð sem er loks núna á enda. Það er ömurlegt til þess að hugsa að svona gjörvilegur drengur skuli einungis hafa notið rúmlega tveggja áratuga lífs við fulla heilsu. Foreldrar hans og fjölskylda eiga samúð okkar allra. Blessuð sé minning elsku Vidda.

F.h. badminton- og knattspyrnufélaga úr TBR,

Ármann Þorvaldsson.

Það var um verslunarmannahelgi á Laugarvatni 1988 sem við kynntumst Vidda fyrst og eftir það varð ekki aftur snúið. Viddi var einstakur á allan hátt, hann var mikill gleðigjafi og sjaldan í vondu skapi, hann kom okkur alltaf til að hlæja og ekki síst þegar hann og Andri besti vinur hans settu skemmtiatriðin í gang. Hann var fjölhæfur íþróttamaður og var í drengjalandsliðshópi í fótbolta og unglingalandsliði í badminton. Minnisstæðar eru sumarbústaðaferðir, bíóferðir og margskonar ferðir, en þær voru allar mjög skemmtilegar og var alltaf hlegið jafn mikið.

28. des. 1991 veiktist Viddi, en þrátt fyrir veikindin var hann jákvæður og kappkostaði að ná því sem hægt var úr lífinu. Aldrei lét hann sig vanta í veislur svo sem afmæli, brúðkaup eða aðrar uppákomur. Hann lét sig ekki muna um að ferðast þrátt fyrir að vera bundinn hjólastól; fór norður á Akureyri á badmintonmót, skrapp til Spánar með starfsfólki og vistmönnum Hleinar og svo hringferð um landið. Fyrir veikindin áttum við góðar stundir saman en þær voru ekki síðri eftir að hann veiktist. Við hittumst oft hjá Vidda, á afmælinu hans og á aðfangadag og gamlársdag reyndum við ávallt að koma. Síðustu tvö árin var orðið erfiðara fyrir hann að tjá sig við okkur en þó var alltaf stutt í hláturinn. Elsku Gísli og Sigga, það er svo margt sem við vildum segja en efst í huga okkar er þakklæti fyrir að hafa kynnst Vidda, við eigum yndislegar minningar um yndislegan vin sem við varðveitum í hjarta okkar.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer,

sitji Guðs englar yfir mér.

(H. Pétursson.)

Elsku Viddi, Guð geymi þig.

Þínir vinir

Frímann, Sigurveig, Kristján, Sólrún, Þórunn, Brandur,

Eydís, Axel, Helga og Sóley.

Kæri vinur.

Frá því að ég frétti af andláti þínu hefur hugur minn reikað aftur til þess tíma er við kynntumst, þess tíma er þú fluttir í Smáíbúðahverfið og við urðum samferða í skólann og á æfingar. Við vorum tólf ára stráklingar og áttum framtíðina fyrir okkur.Frá þeim tíma að við byrjuðum að æfa saman má segja að við höfum verið óaðskiljanlegir, jafnt innan vallar sem utan.

Ef að annar okkar gerði eitthvað var nánast öruggt að hinn fylgdi með. Ég minnist allra þeirra stunda sem við höfum átt í gegnum tíðina, allar ferðirnar sem við höfum farið í innanlands sem erlendis, ánægjustundir í tengslum við okkar íþróttaiðkun og alla samveruna með okkar vinum. Já, okkar vinum. Vinir og fjölskylda er það mikilvægasta sem maður á og að eiga vin sem þig var sem að eiga fjársjóð. Fjársjóð sem var á sínum stað og hægt var að treysta á.

Ég man þann dag er þú sagðir mér í einlægni að þú hefðir greinst með þann sama sjúkdóm og Elvar heitinn hafði verið greindur með. Ég man hvað það var erfitt að átta sig á því hve alvarlegt það var þegar ég þekkti svo lítið til afleiðinganna. Ég man þann dag er ég frétti af þinni fyrstu blæðingu og tímann þar á eftir þegar þér tókst að ná þér að mestu leyti.

Ég man þann tíma er kom þar á eftir, þegar næstu blæðingar létu á sér bera og hve viljasterkur, bjartsýnn og jákvæður þú varst. Ég man þá daga er við gátum hlegið að öllu og öllum, rifjað upp gamla tíma, sagt sögur og fréttir af vinum okkar og notið þess að hafa hvorn annan.

Á síðustu árum höfum við fjarlægst hvorn annan, ég búandi erlendis og þú í tengslum við þinn sjúkdóm. Þú átt samt alltaf þitt pláss í mínu hjarta og í mínum huga. Pláss sem er hlaðið góðum minningum, gleði og ánægju. Er ég hugsa til minna bestu minninga frá unglingsárunum ert þú við hlið mér, sem félagi og vinur í raun.

Kæru Gísli, Sigga og Danni. Ég vil að lokum senda ykkur samúðarkveðjur frá mér og minni fjölskyldu. Þó að minn besti vinur sé horfinn á braut munum við í sameiningu minnast hans með gleði í hjarta.

Viddi minn, þakka þér fyrir öll góðu árin. Þú lifir enn í minningunni og í huga mínum.

Þinn

Andri.

Aukin tæknivæðing og þekking hefur á undanförnum árum rutt sér til rúms í heilbrigðiskerfinu eins og annars staðar í okkar samfélagi. Stöðugt fleiri lifa nú af slys og veikindi og margir einstaklingar verða þannig skyndilega og fyrirvaralaust fangar í eigin líkama. Oft er um að ræða ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref til sjálfstæðrar tilveru og horfir fram á veginn fullt eftirvæntingar. Enginn velur sér það hlutskipti að búa við langvinna sjúkdóma eða fötlun, en allir vita af þeirri staðreynd að ákveðin prósenta af þegnum samfélagsins eru í þessum hópi. Einn af þeim var ungur vinur okkar, Viðar Gíslason.

Viðar bjó á sambýlinu Hlein við Reykjalund frá opnun þess 1993 til dauðadags. Viðar hafði sterkan persónuleika til að bera, hann hafði ákveðnar skoðanir á lífinu og tilverunni og lét þær óhikað í ljós meðan heilsan leyfði. Við sem kynntumst honum eftir að hann fatlaðist kynntumst vel þessum sterka persónuleika sem einkenndi Viðar. Hann var alla tíð staðráðinn í að njóta þeirra lífsgæða sem heilsan frekast leyfði og lét ekki hreyfihömlunina hindra framgang þeirra markmiða sem hann setti sér fyrr en í fulla hnefana. Hann sótti skóla meðan hægt var, fór í ferðalög bæði innanlands og utan, fylgdist vel með fréttum og því sem var að gerast í samfélaginu almennt. Íþróttir voru honum mjög hugleiknar enda hafði hann verið framúrskarandi íþróttamaður áður en hann fatlaðist, hann fylgdist vel með öllum íþróttum þó að badminton væri alltaf uppáhaldsgreinin.

En allt hefur sinn tíma og tími Viðars að yfirgefa okkur var kominn. Góður vinur er látinn, erfiðri baráttu við illvígan sjúkdóm er lokið. En við eigum minninguna um góðan dreng, hlýtt bros og glettni í augnaráði sem fylgdi léttum húmor Viðars og við kynntumst vel sem vorum í nánu sambandi við hann síðustu æviár hans. Við erum ríkari en áður að hafa kynnst Viðari Gíslasyni og getum yljað okkur við minningar um margar góðar stundir sem við áttum með honum síðustu árin.

Elsku Gísli og Sigga, við sendum ykkur og öðrum vandamönnum og vinum innilegustu samúðarkveðjur. Guð gefi ykkur styrk og kraft til að takast á við sorgina.

Starfsfólk Hleinar

Reykjalundi.

Grímur Atlason.