Aðalheiður Lilja Jónsdóttir fæddist 8. ágúst 1910 í Arnarfelli í Þingvallasveit. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akranesi 29. mars sl. Foreldrar hennar voru Agnes Gísladóttir, f. 13. maí 1865 í Butru í Fljótshlíð, d. 31. janúar 1948, og Jón Ólafsson, f. 12. janúar 1871 í Lónakoti í Hraunum, d. 24. maí 1918. Bróðir Aðalheiðar var Guðjón Magnús Jónsson, f. 7. ágúst 1900, d. 10. nóvember 1955. Aðalheiður giftist 11. nóvember 1930 Eggerti Guðmundssyni frá Eyri í Flókadal, f. 20. október 1897, d. 19. ágúst 1979. Foreldrar hans voru Kristín Kláusdóttir og Guðmundur Eggertsson. Börn Aðalheiðar og Eggerts eru: 1) Kristín, fv. forstöðumaður Kaffistofu Norræna hússins, f. 16.9. 1931. 2) Guðmundur, prófessor í líffræði, f. 24.4. 1933, maki Bergþóra Elva Zebitz kjólameistari, f. 16.4. 1930, d. 31.8. 1985. Dóttir þeirra er Aðalheiður Lilja, BA í heimspeki, f. 2.5. 1968, maki Einar Garibaldi Eiríksson, prófessor við Listaháskóla Íslands, f. 22.1. 1964. Uppeldisdóttir er Guðrún Ara Arason sjúkraliði, f. 19.6. 1960, dóttir hennar er Hjördís Stefánsdóttir nemi, f. 19.9. 1979. 3) Jóna, forstöðufélagsráðgjafi á Landspítalanum Fossvogi, f. 10.1. 1937. 4) Guðrún, bókari hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, f. 25.3. 1940, dóttir hennar er Heiður Hörn Hjartardóttir, grafískur hönnuður, f. 3.12. 1970, maki Þorsteinn Arilíusson sendibílstjóri, f. 27.9. 1972, dætur þeirra eru Anna Margrét, f. 21.1. 1998, og Inga Lilja, f. 17.4. 1999. 5) Jón Agnar, um árabil formaður Verkalýðsfélags Borgarness, f. 5.1. 1946, d. 11.1. 1993, maki Ragnheiður Jóhannsdóttir kennari, f. 27.7. 1955, synir þeirra eru Eggert Sólberg nemi, f. 17.12. 1984, og Magnús Elvar nemi, f. 20.1. 1987.

Aðalheiður flutti fjögurra ára með foreldrum sínum frá Arnarfelli í Þingvallasveit að Ásgarði í Grímsnesi og ólst upp þar og í Kaldárhöfða í sömu sveit. Hún flutti til Reykjavíkur 15 ára gömul. Aðalheiður og Eggert hófu búskap í Vatnshorni í Skorradal 1930 og bjuggu þar til 1933 er þau fluttu að Bakkakoti í Skorradal. Árið 1938 fluttu þau að Bjargi í Borgarnesi og þar bjó Aðalheiður til dauðadags. Aðalheiður var mjög virk í félagsmálum. Hún tók þátt í störfum Kvenfélags Borgarness og var formaður þess í 5 ár. Samband borgfirskra kvenna beitti sér fyrir stofnun Dvalarheimilis aldraðra í Borgarfirði og vann Aðalheiður að því máli af miklum áhuga og dugnaði. Hún var formaður dvalarheimilisnefndar SBK í 21 ár, var í byggingarnefnd hússins og sat í stjórn dvalarheimilisins til ársins 1995. Hún varð heiðursfélagi SBK árið 1986 og var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1987 fyrir störf að félagsmálum.

Útför Aðalheiðar fer fram frá Borgarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Láttu nú ljósið þitt loga við rúmið mitt. Hafðu þar sess og sæti, signaði Jesús mæti. (Höf. ók.)

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Elsku amma! Manstu eftir því þegar þú kenndir okkur bræðrunum þessa bæn þegar við gistum á Bjargi. Við vorum litlir þá en við munum það enn.

Það er hálfskrítið að koma þangað og þar er engin amma. Við vitum samt að þú verður alltaf hjá okkur og við eigum alltaf eftir að eiga góðar minningar um þig. Skilaðu kveðju til pabba og afa.

Eggert Sólberg

og Magnús Elvar.

Það er sumt fólk sem mætir manni alltaf með hlýju. Því er eðlilegt að draga fram veitingar ef maður birtist og komi maður með félaga með sér er þeim tekið sem hluta af fjölskyldunni. Ef unnt er að greiða götu manns á einhvern hátt er það ekki umræðumál og engan veginn flokkað undir greiðasemi frekar en aðrir sjálfsagðir hlutir.

Þetta fólk er ekki alltaf áberandi. Það tranar sér ekki fram heldur réttir fram hönd þegar þörf er á án þess að ætlast til endurgjalds.

Afasystir mín, Heiða á Bjargi, var ein úr þessum hópi. Hún fór að vísu ekki hljóðlega í allt. Það geislaði af henni hvar sem hún fór og hún hikaði ekki við að koma sér á framfæri til að koma því fram sem skipti hana máli. Markmiðið var hins vegar ekki að sjást eða sýnast, heldur að vera til gagns og gera öðrum lífið auðveldara.

Ég man eftir henni lítill drengur þegar hún kom við hjá foreldrum mínum að reka erindi kvenfélagsins í bænum, koma fram málum sem sneru að elliheimilinu í Borgarnesi eða bara líta inn.

Ég hef líklega verið 6 ára þegar ég var fyrst hluta úr sumri hjá Heiðu ásamt ömmu. Þar var indælt að vera. Nonni frændi sem var heldur yngri en ég leiðbeindi mér, fákunnandi borgarbarninu, kenndi mér að sækja kýrnar og sinna öðrum almennum verkum í sveitinni. Dúfa systir hans var líka góður félagi þótt hún væri heldur eldri og reyndar þær systur allar. Bróðirinn var hins vegar kominn að heiman og honum kynntist ég þá lítið.

Þegar ég var orðinn fullorðinn kom ég reglubundið í heimsókn þegar ég átti leið hjá og var þá stundum með nokkurn hóp með mér. Alltaf var jafn-vel tekið á móti, hverjir sem voru í fylgdarliðinu. Heiða fylgdist fram á síðustu stundu með öllu sem var að gerast. Líkaminn var farinn að gefa sig en hugsunin var alltaf skýr og minnið með eindæmum þótt hún væri komin á tíræðisaldurinn. Seinni árin hringdi hún stundum til mín þegar henni leiddist og sagði mér þá oft sögur af afa mínum sem hún hélt mikið upp á. Minnið var hins vegar ekki bundið við gamla tíma, hún ræddi gjarnan um það sem efst var á baugi á hverjum tíma. Hún hafði ákveðnar skoðanir en lét þær ekki trufla viðhorf sín gagnvart fólki. Ekki segi ég henni hafi verið vel við alla menn en henni var ekki tamt að tala illa um fólk og það truflaði ekki samskiptin að fólk væri henni ósammála. Hún fylgdist af áhuga með öllu sem var að gerast og var vel heima á flestum sviðum. Hún ræddi þjóðmálin við pabba sem var hennar uppáhaldsfrændi, verkalýðsmálin við mig og sálarrannsóknir við mömmu. Hún var stórgreind og bjó yfir þessum fjölþætta fróðleik sem sérhæfingarþróun samtímans er að eyða.

Heiða var létt í skapi og kom manni ósjálfrátt í gott skap hvernig sem maður var stemmdur þegar maður hitti hana. Það var því óhjákvæmilegt að hún laðaði til sín fólk. Ég man aldrei eftir að heyra hana kvarta. Hvorki yfir veikindum húsbóndans, sínum eigin eða öðrum erfiðleikum sem við var að etja. Ekkert ýtti jákvæðninni til hliðar. Hún horfði ekki til fátæktar æsku sinnar sem sorgartíma. Faðir hennar veiktist illa þegar hún var barnung og var borinn á kviktrjám austan úr Þingvallasveit til Reykjavíkur og átti ekki afturkvæmt til starfa. Sú minning setti auðvitað spor, en hún rifjaði upp það jákvæða, þegar hún fylgdi móður sinni í húsmennsku og fékk svo móður sína á sitt heimili þegar hún var farin að búa. Fjölskyldan skipti Heiðu öllu máli. Hún hefur alltaf verið límið sem bindur fjölskylduna saman.

Það á ekki að koma manni á óvart þegar fullorðið fólk fellur frá. Eitt sinn skal hver deyja. Samt kemur það að óvörum. Heiða hefur alltaf verið til og það er erfitt að skilja að hún verður það ekki áfram. Það er stutt síðan ég heimsótti hana ásamt foreldrum mínum á sjúkrahúsið á Akranesi. Þar fannst okkar öllum hún vera til skammtímadvalar. Innan skamms yrði hún aftur komin aftur heim.

Við munum sakna hennar og ég votta öllum hennar nánustu innilegustu samúð og flyt kveðjur frá öllum í minni fjölskyldu.

Ásmundur Stefánsson.

Við frétt af andláti góðrar vinkonu okkar hjóna fljúga mörg minningabrot í gegnum hugann og vil ég rekja hér nokkur þeirra.

Aðalheiður Jónsdóttir og Eyrún Runólfsdóttir, móðir mín, kynntust sem ungar stúlkur í Reykjavík á heimili Magnúsar bróður Heiðu eins og hún var alltaf kölluð á heimili okkar systkina að Langholtsvegi 29 í Reykjavík.

Þær unnu þá sem vinnukonur á betur settum heimilum í "bænum" eins og kallað var. Þeirra kynni urðu að ævilangri vináttu sem síðar þróaðist í náin kynni á milli fjölskyldna þeirra þegar tímar liðu fram. Þetta var á árunum 1925-1930.

Þessar ungu stúlkur sáu auglýsingu í dagblaði þar sem ungur maður, Eggert Guðmundsson frá Eyri í Flókadal, þá bóndi að Vatnshorni í Skorradal, auglýsir eftir tveimur kaupakonum til starfa við býli sitt sumarið 1929.

Vinkonurnar höfðu báðar alist upp í sveit og kunnu vel til verka og það verður úr að þær eru ráðnar sem kaupakonur að Vatnshorni.

Á þessum árum var ekki orðin nein vélvæðing í sveitum, líklega eina vélin skilvindan í búrinu. Allur heyskapur var framkvæmdur með handaflinu einu.

Atvikin þróuðust svo að ástir tókust milli Aðalheiðar og Eggerts bónda og þar með ílentist önnur kaupakonan í Skorradalnum. Vinkonurnar minntust oft dvalar sinnar að Vatnshorni þetta sumar, þar á meðal ballferða unga fólksins úr sveitinni. Þá var lokið við mjaltir að kvöldi, gengið yfir fjallið milli Skorradals og Lundarreykjadals með ballskóna í poka á bakinu og fólk dansaði og skemmti sér fram eftir nóttu í samkomuhúsi í Lundarreykjadalnum. Síðan var þrammað til baka sömu leið á tveimur jafnfljótum og mætt til mjalta að morgni.

Fyrstu minningar mínar af kynnum við fjölskyldu þessara hjóna voru að Bakkakoti í Skorradal, næsta bæ við Vatnshorn, en þangað voru þau flutt árið 1937 með tvö elstu börn sín. Við vorum tvö systkin þá á ferð að sumri til með móður okkar á leið til heimsóknar að Bakkakoti. Faðir okkar ekki með í ferð, var á síldveiðum fyrir norðan land. Þetta var mikið ævintýri fyrir ung börn að hossast í rútubíl fyrir Hvalfjörð að Grund í Skorradal, síðan var róið árabát inn allt Skorradalsvatn, 17 km að innri enda vatnsins eða fram eftir eins og sagt er.

Að Bakkakoti lærðu kaupstaðabörnin að þekkja "peningablóm" og "flugublóm" og kynntust börnunum Stínu og Gumma og sveitalífinu. Þessar sæluferðir í sveitina til hjónanna Heiðu og Eggerts voru síðan endurteknar til heimilis þeirra að Bjargi við Borgarnes en þar hófu þau búskap 1938.

Á næstu árum varð barnafjölgun í fjölskyldum þessara ungu vinkvenna, Jóna, Guðrún (Dúfa) og Jón fæddust að Bjargi og tvær dætur bættust í fjölskyldu móður minnar svo oft heyrðist hljóð í horni þegar börnin komu saman til að ærslast.

Þegar farið var að Bjargi var siglt með Laxfoss til Borgarness með viðkomu á Akranesi, stundum tók Eggert á Bjargi við landfestum skipsins þegar komið var að bryggju í Borgarnesi en hann vann mörg ár hjá útgerð Laxfoss, Skallagrími H/F, ásamt bústörfum sínum.

Á þessum árum áttu nokkrir Borgnesingar kýr og var þeim komið í sumarbeit að Bjargi og mjólkaðar í fjósi þar ásamt heimakúm. Þetta var mikil vinna að handmjólka kýrnar, húsmóðirin gekk í flest störf með bónda sínum eins og siður var á þessum tímum. Börnin hjálpuðu til við ýmis störf; rekstur í haga fram og til baka, heyskap o.fl.

Mörg börn vina og skylduliðs fengu að dvelja að Bjargi um lengri eða skemmri tíma því hjónin voru barngóð og ætíð gestkvæmt á heimili þeirra og gestum tekið frábærlega vel.

Við hjónin eigum sameiginlegar minningar um dvöl okkar að Bjargi í sumarleyfum okkar þegar við vorum ung og nýtrúlofuð. Tjaldað var undir "brekkunni", þar voru settir upp "hringarnir", tekið til hendinni við heyskaparstörf. Margs er að minnast, oft glatt á Bjargi, lífgandi og smitandi hlátur húsmóðurinnar og þetta hlýja viðmót til gesta hafa afkomendur Bjargshjóna erft. Nú er kominn vísir að myndarlegri bændagistingu að Bjargi. Mikið hefur verið byggt á seinni árum í Bjargslandi og búskapur löngu lagður af.

Heiða hafði mikið yndi af allri ræktun. Hún kom upp myndarlegum trjá- og blómagarði framan við bæinn og í klettóttu landi skammt vestan við bæinn komu þau hjónin upp myndarlegri skógrækt. Oft fóru þau að loknum vinnudegi á fallegum sumarkvöldum út í skógræktargirðingu að hlúa að gróðri og gróðursetja.

Þann 7. ágúst síðastliðinn heimsóttum við hjónin ásamt mörgum gestum Aðalheiði og fjölskyldu hennar að Bjargi í tilefni af 90 ára afmæli hennar en þann dag hefði Magnús bróðir Heiðu orðið 100 ára en hún var fædd þann 8.

Hún hafði mikla ánægju af, fylgdist með öllu og ræddi við fólk af miklum áhuga, skýr og hress eins og hún hafði alltaf verið í viðmóti til vina sinna.

Aðalheiður starfaði mikið með Kvenfélagi Borgarness og hún átti stóran þátt í því að byggt var dvalarheimili í Borgarnesi. Þegar árin færðust yfir vildi hún ekki heyra á það minnst að hún færi þar til dvalar, hún vildi dvelja sem lengst með sínum að Bjargi, en nú í spítalavist sinni á Akranesi þar sem hún lá síðustu mánuðina lærleggsbrotin, hafði hún haft orð á því að nú væri best fyrir alla að hún færi til vistar á dvalarheimilinu, ef hún fengi pláss, þegar hún kæmist af spítalanum en forlögin gripu þá inn í líf þessarar góðu vinkonu okkar. Við vitum að för hennar úr þessari tilvist er upphaf af öðru tilverustigi. Þessu trúði Heiða sjálf og sagði eitt sinn við mig: "Hvers vegna er ég látin vera ein svo lengi hér en þau öll farin fyrir mörgum árum?" Við vitum að móttökur hafa orðið góðar og fagnaðarfundir.

Bestu kveðjur og þakkir fyrir hönd fjölskyldna okkar systkina.

Hafsteinn Erlendsson.

Ásmundur Stefánsson.