Baldur Þorvaldsson flugvélstjóri fæddist 15. nóvember 1942. Hann lést á Filippseyjum 13. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru þau Áróra Guðmundsdóttir, f. 4. júlí 1912, d. 27. apríl 1990, og Þorvaldur B. Þorkelsson yfirprentari, f. 20. desember 1893, d. 17. ágúst 1958. Systur Baldurs eru Hólmfríður Þorvaldsdóttir, f. 13. júlí 1947, og Katla Ólafsdóttir, f. 6. febrúar 1929, hálfsystir, samfeðra.
Sambýliskona Baldurs 1965-1973 var Theódóra Emilsdóttir, sonur þeirra er Birgir, f. 17. mars 1967, sonur hans er Birkir, f. 7. janúar 1993. Baldur kvæntist 10. júlí 1975 Kank Aew Kan Kam (Nok Noi) Kristínu Þorvaldsdóttur frá Taílandi, f. 8.7. júlí 1956. Þau skildu 5. september 1984, barnlaus. Hann kvæntist síðan eftirlifandi eiginkonu sinni, Siony, frá Filippseyjum og átti með henni tvö börn, Jackeline Guðrúnu, f. 17.8. 1986, og Geraldine Milagros, f. 10.11. 1990.
Baldur útskrifaðist sem flugvirki frá Spartan School of Aeronautics í Tulsa, Oklahoma, 20. desember 1963. Hann starfaði sem flugvirki hjá Loftleiðum og síðar sem flugvélstjóri hjá Cargolux í Lúxemborg fljótlega eftir að það flugfélag var stofnað. Þar starfaði hann allt þar til hann fór á eftirlaun árið 1998. Baldur bjó í Lúxemborg frá því um 1970 og þar til hann fór á eftirlaun en fluttist þá til Filippseyja þar sem hann andaðist.
Útför Baldurs fer fram frá Lágafellskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.
Sofðu litla barnið mitt og láttu vel þig dreyma,þá líður hugur þinn um undraheima. Þar gerast ýmsir hlutir sem er gaman að og gætu ei hér í heimi átt sér stað. En þegar höfgi svefnsins hnígur á, nýr heimur opnast, fagurt er að sjá. (Ólafur Gaukur.)
Elsku bróðir minn er farinn í sína hinstu ferð. Á vit sólar og stjarna og laus undan erfiðleikum lífsins sem oft reyndust honum þungir í skauti. Baldur var mér alltaf allra besti bróðir sem hægt er að hugsa sér. Þegar ég var bara pínulítið, organdi korn í vagni þá sagði hann, "mamma, láttu hana ekki gráta, gefðu henni pelann". Svona var hann mér alla tíð, verndandi og góður. Minningin um þennan góða dreng, fallegu hlýju augun hans og milda brosið mun aldrei fölna í huga mínum.
Sofðu litla barnið mitt og láttu vel þig dreyma,þá líður hugur þinn um undraheima.
Þar gerast ýmsir hlutir sem er gaman að
og gætu ei hér í heimi átt sér stað.
En þegar höfgi svefnsins hnígur á,
nýr heimur opnast, fagurt er að sjá.
(Ólafur Gaukur.)
Ég kveð þig elsku besti bróðir minn og veit að við munum hittast á ný á sólbjörtu vori eilífðarinnar - farðu heill og Guð geymi þig.
Þín litlasystir,
Hólmfríður.
Nokkur kveðjuorð til systursonar míns og vinar, Baldurs Þorvaldssonar.
Þar sem hann dvaldi flest sín manndómsár fjarri ættjörðinni fækkaði fundum okkar. Hann kom og fór eins og farfugl og það liðu oft æðimörg ár án þess að við hittumst en þá sjaldan það var, þá var eins og við hefðum sést í gær, engin vandræðaleg þögn né feimni og ekki heldur tilbúin kursteisisorð okkar í millum. Á mínum ungu árum, á tímum afglapa og axarskafta, meðvitaðra og ómeðvitaðra, átti ég ætíð hauk í horni hjá unglingnum Baldri sem bæði tók upp þykkjuna fyrir mig og blés á allt slúðrið. Hann var ekki þeirrar gerðar að velta sér upp úr slíku og nú skal þökkuð tryggðin og vináttan. Þar sem þú hefur nú hafið þitt síðasta flug og stefnir ótrauður að óskastjörnunni, heill og ósár, þá er komið að því að segja góða ferð og Guð blessi þig.
"og kannski á upprisunnar mikla morgni
við mætumst öll á nýju götuhorni".
(Tómas Guðmundsson.)
Víst er þetta löng og erfið leið,
og lífið stutt og margt, sem útaf ber.
En tigið gegnum tár og hvers kyns neyð
býr takmarkið og bíður eftir þér.
(Steinn Steinarr.)
Börnum hins látna, systur hans og öðrum ættingjum sendi ég mínar hlýjustu kveðjur,
Hrefna.
Þín "kærasta"
Áróra Kristín (Róra Stína.)
Honum kynntist ég fyrst haustið 1972 er ég átti leið um Luxembourg. Hann bjó þá í stóru húsi úti í sveit, nálægt þorpinu Mamer, ca. 15 km vestur af höfuðborginni. Húsið kölluðu hann og félagar hans Rúmstokk. Þá bjuggu í þessu húsi alls 7 íslenskir ungkarlar auk gesta. Húsið er á 4 hæðum, kjallari með tilheyrandi þvotta- og hreinlætisaðstöðu, síðan aðalhæð með stofum, stóru eldhúsi ásamt býtibúri, einnig hjónasvíta. Miðhæðin samanstóð af 4 svefnherbergjum ásamt baðherbergi. Rishæðin hafði 3 svefnherbergi og stórt geymslurými. Við húsið stóð gömul sögunarmylla svo og garður sem heimilismenn nýttu til ræktunar. Einkum íslenska garðávexti, t.d. rófur.
Þá var á lóðinni hænsnahús með mörgum hænum og hönum.
Sumarið 1973 fékk ég starf á flugvallarskrifstofu Loftleiða í Luxembourg og var Rúmstokk þá heimili mitt. Það sumar kynntist ég Baldri ágætlega og höfum við verið ágætir vinir síðan. Á sama tíma bjuggu þar Kristján Karl Guðjónsson, nú látinn, þá flugstjóri hjá Cargolux, hann var okkar elstur.
Aðrir íbúar voru Magnús Stefánsson, nú flugstjóri hjá sama félagi, Kristinn Halldórsson, nú flugvélaverkfræðingur hjá Flugleiðum, Óttar Jóhannsson, nú flugmaður hjá Cargolux, Jóhannes Kristinsson, nú flugstjóri hjá Cargolux, Emil Sigurbjörnsson, nú eftirlaunaþegi, og ágæt eiginkona hans Jórunn Ingvarsdóttir, nú látin. Einnig Haukur Alfreðsson, nú rekstrarverkfræðingur í Reykjavík, og undirritaður. Allir vorum við starfsmenn Loftleiða eða Cargolux á Findel-flugvelli í Luxembourg.
Á þeim tíma var mikill uppgangur í flugstarfsemi Íslendinga í Luxembourg. Þar höfðu aðsetur 5 CL-44 vélar Cargolux og daglega viðkomu 5 DC-8 vélar Loftleiða og Air Bahama, dótturfélags þess. Hundruð Íslendinga bjuggu þar og tugir fóru þarna í gegn á leið sinni á hverjum degi. Þetta voru skemmtilegir tímar bæði í starfi og leik og þá var ekki verra fyrir ungan mann að fá að búa í skjóli Baldurs og félaga á Rúmstokk, því myndarbýli.
Fyrir kom að veislur voru haldnar á þessu stórbýli og stjórnaði Baldur þeim af myndarskap og með glöðu geði. Kom stundum fyrir að vín var haft um hönd.
Ýmsar skondnar sögur eru til frá þessum tíma og er nokkurra þeirra getið í ágætri bók um innrás Íslendinga í Luxembourg sem út kom fyrir nokkrum árum.
Skemmtilegastar finnst mér minningarnar um fjölskylduboðin sem haldin voru í garðinum. Þá glóðarsteikti Kristján Karl íslenskt lambakjöt fyrir þá fullorðnu en Baldur var inni og hitaði kókó og útbjó poppkorn af mikilli snilld fyrir unga fólkið. Mikil gleði og samkennd var í þessari íslensku byggð. Menn og konur tóku lagið stundum við undirleik og söng hins þjóðkunna söngvara Vilhjálms heitins Vilhjálmssonar sem þá var flugmaður hjá Luxair í Luxembourg og seinna ábúandi á þessu stórheimili.
Baldur kom snemma inn í Íslendingabyggðina í Luxembourg. Hann varð einn þriggja fyrstu starfsmanna Cargolux. Áður hafði hann verið flugvirki og flugvélstjóri hjá Loftleiðum bæði á DC-4 og DC-6 en á þeirri vélartegund var hann þátttakandi í hinum miklu hjálparflutningum frá Sao Tome til Biafra. Það voru reynslumiklir tímar og hlutu margir íslenskir flugmenn og flugvirkjar sína eldskírn þar. Baldri fannst þetta fyrst og fremst skemmtilegir tímar og naut þess sérstaklega að vinna undir stjórn Þorsteins E. Jónssonar og Katrínar konu hans og að vinna þar með fleira góðu fólki.
Á uppgangstímum Loftleiða bauð félagið ungum mönnum til flugvirkjanáms og kostaði félagið nám og uppihald sem menn fengu að endurgreiða eftir nánara samkomulagi. Baldur var einn af þessum mönnum og lærði hjá Spartan School of Aeronautics í Tulsa, Oklahoma-fylki í USA. Þá naut hann einnig fjárstyrks frá hinum rausnarlega Ásbirni Ólafssyni heildsala. Hópur Baldurs taldi 22 unga íslenska menn, af þessum hóp er góð ljósmynd í bókinni Fimmtíu flogin ár, 1. bindi. Hann útskrifaðist 20. desember 1963. Baldri sóttist námið vel, hann var duglegur og úrræðagóður flugvirki er hann var kominn til starfa hjá Loftleiðum og uppgangur hans þar skjótur. Á flugvirkja- og flugvélstjóraskírteini hans eru fyrst færð réttindi á áðurnefndar vélar, síðan réttindi á CL-44 árið 1970, DC-8 árið 1972 og loks réttindi á Boeing 747 árið 1979. Sú vélartegund varð hans vinnustaður þar til 1998 en þá fór hann á eftirlaun og fluttist með fjölskyldu sína til Filippseyja.
Þátttaka Baldurs í flugstarfsemi spannar síðasta þriðjunginn af síðustu öld sem jafnframt er fyrsta öld flugsins. Miklar tæknibreytingar voru á þessum tíma og naut Baldur þess að vera þátttakandi í þessari hröðu þróun og þeim mikla uppgangi sem var hjá Loftleiðum og Cargolux á þessum starfstíma hans.
Vert er að geta þess að honum voru boðin störf við kennslu á flugvirkja- og flugvélstjóranámskeiðum hjá Cargolux en hann afþáði slíkan frama en naut þess stundum að kennarar ráðfærðu sig við hann í kennslustundum. Ýmsir töldu hann yfirburðamann í sinni starfsgrein.
Baldur fylgdist ekki bara vel með í sínu fagi. Hann var bókhneigður og vel að sér í fornsögunum og vitnaði títt til þeirra. Einnig las hann nútímabókmenntir og var hrifinn af meistara Þórbergi. Sumarið 1983 fékk ung dóttir mín far með B747-vél Cargolux til Houston í Texas og til baka til Luxembourg. Baldur var flugvélstjóri á heimleiðinni og hafði áhyggjur að telpunni myndi leiðast þetta langa flug. Hann færði henni því bókina Bréf til Láru með þeim tilmælum að ákveðinn kafli væri alltaf jafnskemmtilegur.
Svona var þessi drengur, vel að sér í sínu fagi en einnig víðlesinn. Hann átti það til að setjast niður við ritstörf og semja vísur, jafnvel heila kvæðabálka sem hann vildi svo senda vinum sínum og varð hann þá stundum að notast við símskeytastöðina í sínu heimalandi og stafa skáldskapinn ofan í ritara þar. Gæti ég trúað að svipurinn á þeim hafi verið skrítinn er þetta stóð yfir. Við þessi tækifæri var hann stundum þunghugsi og Bakkus með í spilinu.
Í mörg ár heimsótti ég hann reglulega á heimili hans. 1974 var hann fluttur af Rúmstokk og í íbúð í Itzig, þar var mikil Íslendingabyggð og þekkti ég þar marga. Hverfið gekk stundum undir nafninu Landakot. Seinna flutti hann í nýbyggt einbýlishús í Junglinster og í því hverfi bjó einnig margur landinn. Hann var þægilegur nágranni og greiðvikinn að annarra sögn enda hafði hann góða og trausta nærveru. Nú verða þessar heimsóknir ekki fleiri.
Baldur fékk hægt andlát á heimili sínu í Filippseyjum 13. mars síðastliðinn, aðeins 58 ára gamall. Flugveður hefur verið gott undanfarna daga og síðasta ferðin hans kyrrlát.
Syni hans, Birgi, dætrunum Jacquline Guðrúnu og Geraldine og sérstaklega einkasystur hans, Hólmfríði, og fjölskyldum þeirra sendum við Guðrún og börnin einlægar samúðarkveðjur.
Sigurður Karlsson.
Með nokkrum orðum langar okkur að minnast vinar okkar Baldurs Þorvaldssonar sem við kynntumst þegar við áttum öll heima í Lúxemborg.
Það er gott að kynnast mönnum eins og Baldri, hann var drengur góður.
Við sendum öllu hans skyldfólki okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Guð blessi minningu Baldurs.
Ólína og Páll Andrésson.
Vinur minn Balli og samstarfsfélagi til margra ára er farinn í síðustu ferðina. Balli starfaði hjá Cargolux sem flugvélstjóri í Lúxemborg en lét af störfum þegar störf flugvélstjóra voru lögð niður með nýrri og fullkomnari flugvélum. Engum kom á óvart Þegar Balli söðlaði um og flutti til Filippseyja og bjó þar um árabil, en þangað hafði hugur hans alltaf stefnt. Balli var nokkuð sérstakur, fór ekki troðnar og hefðbundnar slóðir heldur markaði sér lífsstíl sem menn virtu, sérstaklega með tilliti til þess að Balli var traustur og kunni sitt fag. Var sérstaklega gott að vera með Balla í flugi ef hlutirnir gengu ekki upp, þá kom í ljós hversu Balli var vel lesinn og úrræðagóður, yfirvegaður og bjó yfir einstakri ró sem smitaði út frá sér og gerði flókin mál einföld. Á ferðum okkar vítt og breitt um heiminn þar sem hótel voru okkar annað heimili fór ekki hjá því að menn kynntust, stundum mjög náið þegar menn eru fjarri fjölskyldunni, oft til lengri tíma, er þá víða komið við í umræðum, varð því þráðurinn sem þannig myndaðist mjög sterkur. Við Balli náðum vel saman, komum víða við, andleg mál voru Balla ofarlega á baugi, voru fjörlegar umræður og stundum langar um þau málefni. Balli var tifinningamaður undir hrjúfu yfirbragði þeim sem ekki þekktu hann. Ég minnist ávallt atviks, þegar við Balli vorum á göngu í fátækrahverfi í Bombay umkringdir börnum að biðja um ölmusu og Balli gaf óspart, fannst mér þetta frekar tilgangslaust þar sem fjöldinn var slíkur, ekki var vinur minn Balli á sama máli, sagði að sá sem gæfi fátækum lánaði Drottni, "og ég fæ þetta margfalt til baka, Siggi minn".
Nú hefur Balli fengið flugtaksheimild fyrir sitt síðasta flug, til þess ákvörðunarstaðar sem okkar allra bíður. Ég óska vini mínum Balla góðrar ferðar í þá ferð sem ekki er skráð í hefðbundna áhafnarskrá heldur af þeim sem öllu ræður.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. SI: 23.2.
Góða lendingu.
Sigurður Óskar Halldórsson.
Hólmfríður.