Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir fæddist í Sjóbúð á Akranesi 22. júlí 1913. Hún andaðist hinn 22. mars síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík 29. mars.
Það er með söknuði sem ég kveð elskulega frænku mína Petrúnellu eða Petu frænku eins og við systkinin kölluðum hana. Peta var systir ömmu minnar Dínu og man ég vel hvað ávallt ríkti á milli þeirra mikil vinátta og hlýhugur. Það er ljúf minning að hugsa til baka til bernskuáranna þegar Peta var að koma í heimsókn á Langholtsveg, það varð allt svo glaðvært í kringum Petu. Það sem ég minnist sérstaklega er hvernig Peta talaði við okkur krakkana, hún tók okkur alltaf eins og jafningjum, talaði við okkur eins og að við skiptum máli, hún sýndi okkur áhuga og því sem við vorum að fást við. Þær systurnar áttu samliggjandi sumarbústaði við Þingvallavatn og þegar við vorum í heimsókn hjá ömmu og afa var það ekki svo sjaldan að við kíktum yfir til Petu frænku því þar var alltaf tekið svo vel á móti manni og ég fann fyrir þessum mikla hlýhug sem Peta sýndi okkur systkinunum ávallt. Það var ekki hægt annað en að endurgjalda þennan hlýhug og þegar ég hugsa til baka sé ég að kynni mín við Petu hafa verið mér afar kær. Ekki síður eftir að amma Dína dó, en þá fannst mér böndin við hana jafnvel styrkjast því hún var fyrir mér síðasti fulltrúi kynslóðar hennar og ömmu, brunnur visku og hlýju, fulltrúi kynslóðar sem hafði önnur gildi en við í dag, hafði alltaf tíma þó næg væru verkefnin. Það er með trega sem ég kveð Petu frænku en þó minnist ég hve oft hún talaði um það þegar hún loksins fengi að hitta aftur eiginmann sinn Jón og ömmu Dínu og aðra látna ástvini sem hún saknaði, ég held að Peta hafi kvatt þennan heim sátt, enda dagsverkið orðið gott. Elsku Peta, ég veit að þú ert nú meðal þeirra ástvina og bið góðan guð að blessa þig og minningu þína. Aðstandendum Petu votta ég innilega samúð.
Ruth Sigurðardóttir.
Mig langar til að senda kveðjuorð til minnar kæru Petu, eins og við kölluðum hana. Já, nú er hún horfin en minning hennar lifir með okkur og vil ég þakka henni samfylgdina öll árin, en þau eru orðin mjög mörg. Þó ttvið værum ekki á sama aldri áttum við oft skemmtilegar samræður, bæði í síma og heima við, því þessi yndislega manneskja var svo lifandi og skapgóð að unun var að umgangast hana.
Foreldrar mínir og Jón og Peta voru vinir og þessi heiðurshjón komu oft á heimilið og eitt sinn er foredrar mínir voru að skipta um húsnæði bjuggum við í húsi þeirra hjóna um tíma. Þá var oft glatt á hjalla og hefur oft verið minnst á það.
Peta var trúuð kona og lifði samkvæmt því, talaði vel um alla og var hreinskiptin. Heilsa hennar var ekki sem best hin síðari ár, en þó var kátínan og gleðin í fyrirrúmi og oft hlógum við saman.
Ég vil að lokum þakka henni fyrir alla tryggðina og Ingimarsfjölskyldan mun muna hana.
Börnum hennar og öllum aðstandendum sendi ég hlýjar samúðarkveðjur.
Hvíl í friði.
Martha Ingimarsdóttir.
Ruth Sigurðardóttir.