Eyþór Gíslason fæddist á Þorljótsstöðum í Vesturdal í Skagafirði 18. apríl 1920. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Fossvogi 29. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Gísli Jónasson og Sigurlaug Árnadóttir. Eyþór átti þrjár alsystur, Ragnheiði Jónínu sem dó ung, Ingibjörgu sem er látin og Ragnheiði sem búsett er á Akureyri. Einnig átti hann tvær hálfsystur, samfeðra, Indíönu og Kristínu, og eru þær báðar látnar.

Árið 1944 kvæntist Eyþór Sæunni Jónsdóttur, f. 23. okt. 1924, d. 28. maí 1997. Eyþór og Sæunn eignuðust sex börn: 1) María, f. 1944, bókasafnsfræðingur í Reykjavík. 2) Birna, f. 1945, starfar á heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Var gift Braga Sveinssyni og eiga þau fjögur börn, Kristínu, f. 1967, Þóru, f. 1970, Aðalheiði, f. 1973, og Björn Braga, f. 1978. Fóstursonur Ingólfur Þorbergsson, f. 1984. 3) Gísli, f. 1950, húsasmiður í Kópavogi, kvæntur Sigrúnu Þorvarðardóttur og á hann fimm börn: Ágúst, f. 1971, móðir Guðbjörg Ágústsdóttir, Eyþór, f. 1972, Þorvarð Hrafn, f. 1976, Erlu Maríu, f. 1978, og Ólaf, f. 1980. 4) Ingibjörg, f. 1954, starfar á heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og á hún þrjár dætur: Kolbrúnu Ösp Gestsdóttur, f. 1980, Berglindi Örnu Gestsdóttur, f. 1981, og Sæunni Marín Harðardóttur, f. 1991. 5) Kári, f. 1958, kvæntur Pamelu Wright og eiga þau þrjá syni: Kára Þór, f. 1977, Erni, f. 1980, og Ómar, f. 1990. 6) Jón Hörður, f. 1967, starfar við sjómennsku á Ólafsfirði, í sambúð með Heiðu Jónu Guðmundsdóttur. Þau eiga tvo syni, Guðmund Inga, f. 1996, og Grétar Óla, f. 1998.

Eyþór og Sæunn voru fyrstu búskaparár sín í Breiðagerði í Skagafirði en bjuggu síðan nokkur ár á Sauðárkróki. Vorið 1950 fluttu þau í Vesturhlíð þar sem þau bjuggu næstu 15 árin en þaðan lá leiðin til Reykjavíkur þar sem Eyþór lærði múrverk og starfaði við það meðan kraftar entust.

Útför Eyþórs fer fram frá Áskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Ég ætla að minnast pabba míns fáum orðum. Þó svo fátt væri ósagt á milli okkar þá langar mig að segja frá hversu góður vinur þú varst.

Ég man fyrst eftir þér þegar ég var mjög ungur en kynntist þér lítið fyrr en ég var 15 ára, eftir að aðstæður höguðu því þannig einn daginn að við urðum tveir einir í heimili og vissum hvorki hvernig þvottavélar væru notaðar hvað þá annað. Í gegnum þessar þrautir fórum við saman og var því samband okkar náið og sterkt þrátt fyrir fjörutíu ára aldursmun. Sérstaklega man ég eftir því hvað þú varst hvetjandi við mig, þú sagðir mér hvað þú dáðist að áræði mínu og jafnvel þegar illa gekk hjá mér tókst þú á þig þungar byrðar sem voru af mínum völdum, jafnvel þá var stuðningurinn og hvatningin hvað mest við mig.

Á síðustu tíu árum varð ég þess aðnjótandi að hafa þig hjá mér á mínum vinnustað og þrátt fyrir að þú værir kominn á áttræðisaldur hef ég sjaldan haft jafnoka þinn í vinnu og ég veit að börnin mín og eiginkona nutu þess jafn-vel og ég að vinna með þér.

Ég er þess fullviss að þessi góði tími sem ég átti með þér hefur gert mig að betri og þroskaðri manni og eitt af mörgu sem ég dáðist að í fari þínu var hversu laus þú varst við að dæma aðra. Þegar ég sneri mér frá atvinnurekstri og fór í nám varstu jafnáhugasamur og alltaf um það sem ég var að gera.

Það fór ekki fram hjá neinum að á síðasta ári tók að halla undan fæti hjá þér hvað heilsuna varðar. Þú veiktist hastarlega fyrir nokkrum vikum og ljóst varð hvert stefndi. Daginn áður en þú fórst sagðir þú við mig, Kári, á morgun ætla ég að klára þetta. Þannig man ég þig, þú tókst ákvörðun og fylgdir henni.

Við höfum alltaf verið sáttir og góðir vinir, elsku pabbi, það var ómetanlegt að vera samferða þér í lífinu.

Kveðja,

Kári og Pamela.

Eyþór tengdafaðir minn var maður hófseminnar sem naut þess að vera í góðra vina hópi þar sem ekki var verra ef sagðar voru fréttir að norðan og ég tala nú ekki um ef kveðskapur kom þar við sögu, því hann átti mjög sterkar rætur til Norðurlandsins og fannst hann alltaf tilheyra Skagafirði og þangað leitaði hugur hans jafnan.

Hann hefur ekki haldið margar skálaræður í kokteilboðum í gegnum árin og ekki staðið upp til að tala mikið á fundum því það var einfaldlega ekki hans stíll.

En hann hefur í gegnum ævina staðið upp fyrir þeim sem minna mega sín og honum hefur fundist halla á, þá var oft ekki mikið sagt en hjálp boðin fram án þess að setjast í dómarasætið eða ætlast til einhvers í staðinn.

Börnin hans og þeirra fólk hafa í gegnum tíðina oft notið góðs af þessum kærleika og því umburðarlyndi sem hann sýndi öðru fólki sem var í raun hans aðalsmerki því þau vissu alltaf að hann var til staðar fyrir þau. Ef hann hafði minnsta grun um að eitthvað væri að þá gaf hann sig fram.

Mig langar með fáeinum orðum að kveðja mann sem sl. 30 ár hefur haft svo mikil áhrif á tilveru mína og kennt mér hvað það er sem skiptir máli í þessu lífi.

Hann hefur kennt mér að það eru ekki alltaf bestu kennararnir sem hafa hátt og mikið ber á. Menn eins og tengdafaðir minn eru oft þeir sem skilja mest eftir sig til komandi kynslóða. Því hvað er heillavænlegra til árangurs en veganesti sem inniheldur kærleik, fordómaleysi og umhyggju fyrir öðru fólki?

Elsku Eyþór, við kveðjum þig með söknuði en þó með þakklæti í huga fyrir að þú þurftir ekki að þreyja langt og erfitt dauðastríð. Því það má segja að þú hafir dáið eins og þú lifðir, með reisn, hljóðlega og án þess að kvarta.

Sigrún Þorvarðardóttir.

Kári og Pamela.