10. apríl 2001 | Íþróttir | 332 orð | 1 mynd

Bræðurnir afgreiddu Þróttara

Íslandsmeistarar ÍS í blaki, sem fögnuðu einnig bikarmeistaratitlinum á dögunum. Aftari röð frá vinstri: Guðmundur Helgi Þorsteinsson, Galin Antonov Raditchkov, Izmar Hadziredzepovic, Martin Antonov Raditchkov og Hreggviður Norðdal liðsstjóri. Fremri röð:
Íslandsmeistarar ÍS í blaki, sem fögnuðu einnig bikarmeistaratitlinum á dögunum. Aftari röð frá vinstri: Guðmundur Helgi Þorsteinsson, Galin Antonov Raditchkov, Izmar Hadziredzepovic, Martin Antonov Raditchkov og Hreggviður Norðdal liðsstjóri. Fremri röð:
ÞAÐ tók Íþróttafélag stúdenta aðeins eina klukkustund að leggja lið Þróttar frá Reykjavík í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla sem fram fór í Hagaskóla á laugardag. ÍS sigraði sannfærandi 3:0 (25:51, 25:21:25:23) og gerði þar með út um vonir Þróttara um að brjóta á bak aftur yfirburði ÍS-liðsins í vetur, sem tekið hefur til sín öll verðlaun sem í boði voru í vetur.
Þjálfarar beggja liða tóku í svipaðan streng þegar blaðamaður Morgunblaðsins innti eftir skýringum á gengi liðana. "Það sem vantaði í okkar lið var trúin að við gætum sigrað feikisterkt lið ÍS. En það er ekki hægt að skjóta sér undan því að leikmenn ÍS léku mjög vel," sagði Jón Árnason þjálfari Þróttar.

"Leiktíminn var óvenjulegur en hentaði okkur ágætlega þar sem margir okkar voru við vinnu í dag," sagði Zdravko Demirev þjálfari og leikmaður ÍS í gamansömum tón, en leikurinn fór fram um kvöldmatarleytið á laugardag. "Ég held að leikmenn Þróttar hafi verið annars hugar megnið af leiknum og við vorum mun betri aðilinn," bætti Demirev við.

Rúmlega hundrað áhorfendur urðu vitni að fjölda mistaka leikmanna beggja liða í fyrstu hrinu og jafnt var á flestum tölum þar til í stöðunni 18:18. Móttaka Þróttara var slök það sem eftir lifði hrinunnar og gerði uppspilara þeirra, Val Guðjóni Valssyni, erfiðara um vik. Hávörn ÍS sá um að stöðva máttlausar sóknaraðgerðir leikmanna Þróttar og lokastaðan í 1. hrinu varð 25:21.

Í annarri hrinu gekk samvinna Vals Guðjóns og Jounes Hmine betur. Skemmtilegar fléttur frá þeim félögum enduðu með góðum og kraftmiklum skellum og héldu leikmönnum ÍS við efnið. Búlgörsku bræðurnir í liði ÍS, uppspilarinn Martin Antonon Raditchkov og Galin Antonon Raditchkov, náðu vel saman og virtust hafa hreyfingar og hugsanir hvors annars á hreinu. Galin var iðinn við að ljúka sóknum ÍS af krafti og áttu Þróttarar ekkert svar við stórleik þeirra bræðra í 2. hrinu sem lauk líkt og þeirri fyrstu, 25:21.

Í þriðju hrinu var staðan jöfn 23:23 og var einbeitingarleysi ÍS um að kenna, því leikmenn liðsins gerðu ekki meira en til þurfti en tóku sig til og skoruðu stigin tvö sem vantaði uppá.

ÍS er með líkamlega yfirburði í styrk og hæð yfir liði Þróttar. Galin og Izmir Hadziredzepovic eru lítt árennilegir í sókn og vörn og allar aðgerðir liðsins voru vel skipulagðar.

Hið unga lið Þróttar á samt framtíðina fyrir sér og með aukinni reynslu á liðið að geta gert góða hluti.

Lars Sprenger skrifar

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.