ÞÝSKIR ferðamenn sækja í auknum mæli í sumarbústaðaferðir til Íslands.

ÞÝSKIR ferðamenn sækja í auknum mæli í sumarbústaðaferðir til Íslands. Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Katla Travel, sagði að fyrir fimm árum hefði ekkert verið spurt um sumarbústaðaferðir en í sumar væri von á 400 til 500 ferðamönnum í slíkar ferðir á vegum ferðaskrifstofunnar. Því mætti reikna með meira en 1.000 erlendum ferðamönnum í ár, sem gagngert koma til landsins í sumarbústaðaferðir.

"Við höfum aldrei séð nokkuð líkt því sem er núna, en eftirspurnin hefur þrefaldast á síðustu tveimur árum," sagði Bjarnheiður. "Við erum í því núna að hringja út um allar trissur og reyna að hafa uppi á húsum fyrir fólkið."

Bjarnheiður sagði að þessi mikla spurn eftir sumarbústöðum hefði valdið nokkrum vandræðum því lítið skipulagt framboð væri af þeim á Íslandi. Hún sagði að engin leigumiðlun fyrir sumarbústaði væri starfandi hérlendis, þær hefðu verið tvær á sínum tíma en báðar lagt upp laupana.

Að sögn Bjarnheiðar eru Danir mjög framarlega á þessu sviði, en þar er t.d. stórt fyrirtæki með fjölda sumarbústaða á skrá sem fólk er tilbúið að leigja. Hún sagðist viss um að þetta væri líka hægt að gera hérlendis enda notaði fjöldi sumarbústaðaeigenda bústaðina sína aðeins nokkrum sinnum ári.

Bjarnheiður sagði að þessi ferðamáti væri afar vinsæll á Norðurlöndunum, sem og víða annars staðar í Evrópu, og að fólk í ferðaþjónustunni hérlendis væri búið að bíða eftir því í nokkurn tíma að þessi þróun myndi ná hingað til lands. Bjarnheiður sagði að það væri helst fjölskyldufólk, sem ekki vildi gista á hótelum, sem sækti í þessar ferðir. Hún sagði að þetta væri fólk sem vildi vera út af fyrir sig úti í náttúrunni og að það gisti oft í tveimur eða þremur mismunandi bústöðum á ferðalagi sínu um landið.

Mun ódýrara er fyrir ferðamenn að gista í sumarbústöðum en á hótelum, að sögn Bjarnheiðar, sérstaklega ef margir ferðast saman. Hún sagðist samt ekki halda að spurn eftir hótelrýmum myndi minnka í kjölfarið á þessari þróun. Líklegast væri um hreina viðbót ferðamanna að ræða.