Ekki líkar öllum að hafa þennan skemmtilega fugl nærri sér á vorin af ótta við flóna sem á honum lifir - sem er þó á öðrum fuglum líka.
Ekki líkar öllum að hafa þennan skemmtilega fugl nærri sér á vorin af ótta við flóna sem á honum lifir - sem er þó á öðrum fuglum líka.
FÓLK er byrjað að kvarta undan staraflónni þótt enn sé fuglinn ekki orpinn að því er menn best vita. Þó er ljóst að hann er farinn að viða að sér efni til hreiðurgerðar. Starinn er tiltölulega nýr landnemi á Íslandi.

FÓLK er byrjað að kvarta undan staraflónni þótt enn sé fuglinn ekki orpinn að því er menn best vita. Þó er ljóst að hann er farinn að viða að sér efni til hreiðurgerðar. Starinn er tiltölulega nýr landnemi á Íslandi. Fyrsta hreiðrið vilja sumir meina að hafi uppgötvast á Mýrum árið 1912 en það mun ekki vera óyggjandi.

Í Reykjavík fannst hreiður árið 1935 en ekki komu egg í það. Upp úr 1960 fór starinn að verpa í Reykjavík í kjölfar mikillar göngu flækingsfugla haustið 1959 og hefur verpt árlega í borginni síðan. Íslenski starinn er eindreginn staðfugl. Varptíminn er í seinni hluta apríl eða fyrri hluta maí. Útungun tekur 11-15 daga og eru ungarnir svo í hreiðrinu í 21 dag eða svo.

Þegar starinn verpir á húsum, t.d. í opnum loftræsirásum, gerist það stundum að fló sem á honum lifir berst inn í híbýli manna og veldur þar ama og hefur komið rammasta óórði á fuglinn. Þetta er dálítið óréttlátt því ýmis skordýr, og þ.á m. flær, eru á allflestum fuglategundum. Þær sjúga blóð úr fuglunum, verpa svo eggjum í hreiðrin og þar dveljast lirfurnar vetrarlangt og þroskast með hækkandi sól. Að vori, þegar fuglarnir koma aftur, hafa þær myndbreyst í fullorðin dýr sem taka að sjúga og verpa. Komi engir fuglar í hreiðrið leggjast kvikindin stundum í flakk sökum hungurs. Akkilesarhæll starans er að hann er mannelskari, eða kannski fremur húselskari, en aðrir fuglar, að gráspör og maríuerlu e.t.v. undanskildum, og því á flóin greiðari aðgang inn í ylinn sem frá íbúðunum eða húsunum stafar. Leggst hún þá á fólk en getur ekki þrifist á mannablóði til lengdar. Umrædd fló lifir á mörgum tegundum dúfna og einnig á hænsnum.

Margir hissa á að starinn skuli vera alfriðaður

Morgunblaðið hafði samband við Meindýravarnir Reykjavíkurborgar í gær til að kanna hvort fólk væri farið að leita þangað um aðstoð og fengust þau svör að fyrsta upphringingin hefði þá einmitt verið að berast.

"Við aðstoðuðum fólk vegna slíks hérna áður fyrr en það var eingöngu vegna þess að það voru engir aðrir til þess, en núna er orðið töluvert um sjálfstætt starfandi meindýraeyða svo að við komum eiginlega ekki nálægt þessum hlutum lengur, nema þegar um borgarstofnanir er að ræða," sagði Guðmundur Björnsson, aðspurður um málið. "Þegar fólk hringir í okkur bendum við á meindýraeyðana úti í bæ eða aðra sem fást við þetta. En í raun og veru getur hver sem er bjargað sér og við gefum þess vegna ráð, ef eftir þeim er leitað."

Ráðin sem Meindýravarnir Reykjavíkurborgir gefa eru á þann veg að sé fuglinn ekki orpinn, heldur einungis farinn að bera inn, skuli fólk loka gatinu þar sem hreiðrið er. Séu egg hins vegar komin má ekkert gera við þau eða hreiðrið, því starinn er alfriðaður. "Margir verða hissa á þessum upplýsingum og að ekkert megi því gera við hann sjálfan eða egg hans," sagði Guðmundur.

"En í þeim tilvikum verður að bíða eftir að ungarnir séu flognir burt og hefja þá nauðsynlega vinnu. Í því felst að eitrað er í hreiðrið, það svo fjarlægt og svæðinu lokað þannig að fuglinn komist ekki inn þangað á nýjan leik. Hann fær sem sagt að komast út með sitt hafurtask, ef hann er byrjaður, í samræmi við lög og reglur. En eins og ég nefndi geta flestir leyst þetta mál sjálfir; ef þarf að eitra er hægt að fá nauðsynleg efni hjá Sölufélagi garðyrkjumanna eða í öðrum sambærilegum verslunum. Að öðrum kosti er hægt að leita til meindýraeyða sem víða er að finna á höfuðborgarsvæðinu eða þá iðnaðarmanna, ef eingöngu þarf að loka."

Fagmaður kostar um 10.000 krónur

"Fólk var byrjað að hafa samband við mig upp úr 15. mars út af því að flóin væri tekin að bíta," sagði Sigurður I. Sveinbjörnsson en hann er einn af þeim meindýraeyðum í borginni sem tekur að sér að eitra fyrir starafló. "Þetta eru svona 3-4 hreiður á viku og allt upp í 10-12 þegar mest er að gera hjá mér. Ef flærnar eru komnar inn í hús eru þær gjarnar á að sækja að rúmunum, eða m.ö.o. þar sem hitinn er. Þess vegna er nauðsynlegt að eitra í kringum rúmin og á gólfin. Fólk verður að yfirgefa húsnæðið á meðan í fjórar klukkustundir eða svo meðan gufan er að sjatna. Þetta hefur aldrei klikkað; flóin virðist mjög næm fyrir eitrinu. Eftir að þessu er lokið tek ég hreiðrin niður og eitra þar í kring." Að sögn Sigurðar er misjafnt hvað þetta kostar og fer það eftir því hversu mikið þarf að rífa og síðan bæta; oftast liggur kostnaðurinn þó öðru hvoru megin við 10.000 krónurnar.