Björn Knútsson flugvallarstjóri afhendir Mark H. Anthony, yfirmanni flugflotastöðvar varnarliðsins, blómvönd í tilefni af viðurkenningu sem slökkvilið varnarliðsins vann til. Haraldur Stefánsson slökkviliðsstjóri stendur við hlið Mark Anthony. Viðstaddir a
Björn Knútsson flugvallarstjóri afhendir Mark H. Anthony, yfirmanni flugflotastöðvar varnarliðsins, blómvönd í tilefni af viðurkenningu sem slökkvilið varnarliðsins vann til. Haraldur Stefánsson slökkviliðsstjóri stendur við hlið Mark Anthony. Viðstaddir a
"MEÐ því að halda okkar striki, standast staðla og reglur fyrir þessa þjónustu og reyna heldur að bæta í," segir Haraldur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Keflavíkurflugvelli.

"MEÐ því að halda okkar striki, standast staðla og reglur fyrir þessa þjónustu og reyna heldur að bæta í," segir Haraldur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Keflavíkurflugvelli. Slökkviliðið fékk í gær afhent æðstu verðlaun á sviði brunavarna í samkeppni allra slökkviliða Bandaríkjaflota, í þriðja skiptið í röð.

Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli hefur oft fengið verðlaun í samkeppni slökkviliða Bandaríkjaflota. Það hefur til dæmis hafnað í einu af þremur efstu sætunum í stórhúsbrunadeild keppninnar síðastliðin fimmtán ár og vinnur nú til fyrstu verðlauna þriðja árið í röð. "Við verðum að fara að hætta þessu, annars fara þeir að leggja keppnina niður. Það er ekki eins gaman þegar sömu mennirnir vinna alltaf," segir Haraldur.

Mark H. Anthony, yfirmaður flugflotadeildar varnarliðsins, afhenti í gærmorgun Haraldi farandbikar til staðfestingar árangrinum við athöfn í slökkvistöðinni.

Ekkert brunatjón í fjögur ár

Slökkviliðið útbýr nákvæma skýrslu um starfsemi sína og sendir inn í keppnina og er starfið dæmt samkvæmt sérstöku punktakerfi. Eins og þetta sýnir hefur slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli náð góðum árangri í brunavörnum á undanförnum árum. Þannig hefur ekki orðið neitt brunatjón síðastliðin fjögur ár og ekki tapast mannlíf í húsbruna í 25 ár. "Við leggjum mikla áherslu á að virkja fjölskyldurnar. Fólk veit hvernig það á að bregðast við þegar eldur kemur upp."

Slökkvilið varnarliðsins er skipað íslenskum starfsmönnum, samtals 128. Níutíu þeirra annast brunavarnir allra mannvirkja á varnarsvæðunum, að meðtalinni Flugstöð Leifs Eiríkssonar, svo og allra flugvéla sem leið eiga um flugvöllinn og 38 starfa í flugþjónustudeild.

Opið hús

Slökkvistöðin á Keflavíkurflugvelli verður opin almenningi laugardaginn 5. maí en þá verður opið hús hjá varnarliðinu í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna.