"Hvernig eiga þeir sem hafa íslensku að öðru máli að fá rödd í íslensku samfélagi þegar þeir sem hafa íslensku að móðurmáli eru sífellt ávíttir ef þeir fara ekki rétt með málið?"
"Hvernig eiga þeir sem hafa íslensku að öðru máli að fá rödd í íslensku samfélagi þegar þeir sem hafa íslensku að móðurmáli eru sífellt ávíttir ef þeir fara ekki rétt með málið?"
"Hryggjarstykkið í lýðræðissamfélögum nútímans felst í því að viðurkenna og virða, ekki bara margbreytileika í flokkspólitískum skoðunum heldur líka menningarlegan margbreytileika innan þjóðríkisins, og mismunandi málafbrigði þess tungumáls sem talað er innan ríkisins."

TITILL greinarinnar er spurning sem ég ætla að svara. Svar mitt við þessari spurningu er já, ég tel þetta vera ósættanlegar andstæður. Til að varpa ljósi á hvers vegna ég svara spurningunni játandi tel ég nauðsynlegt skoða hreinleikahugtakið, eitt af hryggjarstykkjunum í íslenskri þjóðernishyggju og þar með íslenskri þjóðarímynd. Með íslenskri þjóðarímynd á ég við hugmyndir Íslendinga sjálfra um hvað það er sem gerir þá að þjóð. Þessar hugmyndir eru skilgetið afkvæmi þjóðernishyggjunnar og hafa með kerfisbundinni og markvissri innrætingu svarið sig inn í vitund þjóðarinnar og öðlast svo veglegan sess að þær líta út fyrir að vera náttúrusprottnar, en ekki mannanna smíð, sem eiga tilvist sína undir pólitísku og félagslegu valdi.

Ástæðan fyrir því að ég tel þessa spurningu þess verða að svara henni er einfaldlega sú að fjölmenningarlegur veruleiki er orðinn staðreynd á Íslandi. Í könnun sem Reykjavíkurborg lét gera um málefni nýbúa í apríl 2000 kom fram að erlendir ríkisborgarar voru í árslok 1999 um 3% af heildartölu íbúa landsins og jafnframt um 3% borgarbúa. Þessir 7.271 erlendu ríkisborgarar voru upprunnir úr 117 löndum og áttu lögheimili á Íslandi í árslok 1999. Fjöldi móðurmála innflytjenda er yfir áttatíu. Ef bætt er við heildartöluna þeim útlendingum sem hlotið hafa íslenskan ríkisborgararétt en eru fæddir í öðrum löndum en EES-löndunum og Norður-Ameríku hækkar talan í 4%. Á árinu 1999 fjölgaði erlendum ríkisborgurum um 750 eða um 12% að meðaltali. Haldist hagvöxtur óbreyttur á næstu árum mun fjölgun útlendinga að öllum líkindum haldast óbreytt.

Í þessari könnun kom einnig fram að nærri 42% aðspurðra finnst fjölgun útlendinga í Reykjavík vera jákvæð en ríflega 24% finnst hún neikvæð, 34% taka ekki afstöðu. Það er athyglisvert að fjórði hver aðspurðra telur fjölgun útlendinga neikvæða þegar hagvöxtur er í miklum blóma og enginn skortur er á atvinnu og ennfremur hvers vegna svo margir aðspurðra kusu að svara spurningunni hvorki játandi né neitandi. Ógerningur er að ætla sér að svara með einhverri vissu hvers vegna niðurstöður þessarar könnunar eru eins og raun ber vitni, en með því að skoða mýturnar um hreinleika, sem liggja til grundvallar íslenskri þjóðarímynd og þar með málpólitík er hægt að verða einhvers vísari.

Íslensk málstefna hefur einkennst af því að uppræta sk. "málvillur" sem og orð og önnur málfarsatriði af erlendum uppruna, sem gjarnan hafa talist "illgresi í tungunnni", "slettur" eða "flekkun við hreinleika málsins". Á sama tíma hefur mikil áhersla verið lögð á að "hlú að" og "leggja rækt við" sk. "hreinleika" íslenskrar tungu þ.e. orð og önnur málfarsatriði sem eru óyggjandi talin vera af "hreinum" íslenskum málstofni. Þessar hugmyndir hafa ekki einvörðungu mótað sjálfsmynd Íslendinga heldur og líka afstöðu þeirra til útlendinga. Hugmyndir um hreinleika tungumálsins og hreinleika kynstofnsins/þjóðarinnar eru þegar grannt er skoðað af sama meiðinum. Ég mun í þessu erindi aðeins taka til umfjöllunar hugmyndir um hreinleika tungumálsins. Hreintunguhugmyndir hafa ennfremur mótað bæði opinbera og almenna afstöðu til tjáningar á opinberum vettvangi afstöðu, sem fer illa saman við hugmyndir um fjölmenningarlegt lýðræði.

Hvernig er hreinleikinn skilgreindur? Hvenær er eitthvað hreint? Mannfræðingurinn Mary Douglas benti á það fyrir rúmum þremur áratugum að hreinleiki væri í raun skynjun og ekki til nema, sem andstaða við eitthvað sem er óhreint eða skítugt. En það er ekkert til heldur, sem er algjör skítur eða óhreinindi, því óhreinindi eru líka skynjun sem "exísterar" fyrst og fremst í augum sjáandans eða eyrum heyrandans. Skilningur Douglas á skít/óhreinindum, sem einhverju, sem ekki er á réttum stað eða sem óskipulagi, gerir kleift að skilja hreinleika sem spurningu um skipulag, þannig að verndun hreinleikans snýst í raun um verndun á tilteknu skipulagi. Innan hreinleikaskipulagsins eru óhreinindi skynjuð sem hætta, því þau raska tilteknu valdaskipulagi.

Menningarlegt heimavarnarlið

Það er viðtekin venja að halda því fram að íslensk tunga sé það menningarlega einkenni sem geri Íslendinga að þjóð og aðgreini þá frá öðrum þjóðum. Þessar hugmyndir liggja til grundvallar íslenskri málpólitík og ganga þvert á alla flokkadrætti í pólitísku landslagi þjóðarinnar. Í frægum ljóðlínum eftir Snorra Hjartarson, "Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein", endurspeglast þessar hugmyndir, sem ríkt hafa síðan um miðbik 19. aldar þ.e. að landið, þjóðin og tungan séu heilagt þríeyki, sem öll eru innbyrðis háð og geti ekki án hvers annars verið.

Íslendingum er uppálagt frá blautu barnsbeini að "hlúa að tungunni", "leggja rækt við málið", og "sletta" ekki útlendum orðum. Gífurleg áhersla er lögð á að farið sé "rétt" með beygingar, því yfir þeim hvílir mikill og forn heilagleiki. Ekki má t.d. segja hellirar eða læknirar. Eða, "það kom skilaboð frá Guðrúnu Þorsteinsdóttir, henni langar svo að heyra í þér". Þetta orðalag klingir öllum viðvörunarbjöllum í höfði þeirra, sem "kunna að fara rétt með málið". Ekki er heldur alls kostar laust við að þetta sama fólk sé þannig innstillt að í huga sínum efist það um vitsmunaþroska og/eða gáfnafar mælandans. Að tala lýtalausa og "hreina" íslensku hefur jafnan verið lagt að jöfnu við miklar gáfur.

Margt fólk hefur hlotið þannig máluppeldi að það setur sig í stellingar og finnst, sem "vegið sé að tungunni" þegar málfræðireglum og málvenjum er ögrað eða þegar "slett er" og notuð eru hugtök, sem ekki hafa öðlast sk. "þegnrétt" í íslensku máli eins og það heitir á fagmáli málverndunarsinna. Margir telja það heilaga skyldu sína sem sannir Íslendingar að leiðrétta málfar samferðamanna sinna, og skyldi engan undra enda mikið lagt upp úr því að innræta þessar hugmyndir meðal landsmanna. Hér fer Ríkisútvarpið í fararbroddi og þar eru málfarsþættir, sem allir ganga meira eða minna út á að vanda um fyrir fólki, kenna því að "fara rétt með málið". Heill her fólks er á launum hjá hinu opinbera við hið sama, þ.e. leiðrétta málfar fólks, blessa það eða úthúða því, eins konar menningarlegur iðnaður einsog franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu kallar fyrirbærið. Þessi "her" eða menningarlegt heimvarnarlið, telur það æðstu skyldu sína að "verja" og "vernda" íslenska tungu og menningu frá sk. óæskilegum spillingaráhrifum, annaðhvort útlenskum og eða einhverri grunaðri meinsemd, sem liggur innan hinna þjóðlegu marka, samkvæmt skilgreiningu. Hlutverk heimavarnarliðsins er að gæta þess í hvívetna að að hinn almenni talandi, bregði ekki út af hinum pólitíska rétttrúnaði hreinleikans, raski ekki með "ógætni" sinni ró hins heilaga skipulags, slíkt er álitið helgispjöll, flekkun við hreinleika tungunnar.

Þegar hinar stífu leikreglur íslenskrar málstefnu eru hafðar að leiðarljósi er það ytra byrðið, sem hefur forgang framyfir innihaldið. Þetta mætti umorða og setja fram í fullyrðingu: íslensk málstefna eða hreintungustefna hefur með stífni sinni snúist upp í dýrkun á umgjörðinni sjálfri en ekki því sem umgjörðin inniheldur. M.ö.o. einskonar skurðgoðadýrkun, þar sem skurðgoðið sjálft er upphafið og dýrkað en guðinn, sem það tákngerir verður aukaatriði, líkt og sr. Toshiki Toma hefur bent á. Það skiptir meira máli hvernig fólk segir hlutina heldur en hvað það segir.

Af hverju eru menn að hafa áhyggjur af enskuslettum, svo ekki sé minnst á eins gamaldags fyrirbæri og dönskuslettur? Hvers vegna er verið að eyða stórfé í að "vernda tungumálið" frá áhrifum hvort heldur sk. "slettum" eða "röngu" eða "vitlausu" málfari?

Hvers vegna í ósköpunum er verið að eyða tíma og fé í að finna upp ný hugtök og skálda upp ný orð fyrir allan þann aragrúa nýrra hugmynda og hluta sem hingað berast utanlands frá? Hugtök, sem í velflestum nágrannatungumálum okkar eru þau sömu, með örlitlum breytingum á stafsetningu og framburði þegar best lætur. Nýlegt dæmi er hugtakið "kynþáttahyggja", sem á víst að vera þýðing yfir hugtakið rasismi. Kynþáttahyggja hefur akkúrat enga skírskotun í mínum huga - kannski er þetta einhver splunkuný og spennandi hugmyndafræði? Ég hef hins vegar haft brennandi áhuga á rasisma undanfarna tvo áratugi eða svo og það hugtak hefur í mínum huga mjög afgerandi og neikvæða merkingu. Hverju spillir það að íslenskan deili hugtökum með öðrum tungumálum?

Ennfremur má benda á nýyrðið "nýbúi", sem fundið var upp nóta bene eftir að fólk af erlendum uppruna, öðrum en hvítum evrópskum, fór að setjast hér að, sem er afar merkilegt í sjálfu sér. Hversvegna hefur orðið "nýbúi " í hugum margra mjög neikvæða merkingu? Er mögulegt að þetta aðflutta fólk sé skynjað sem einhvers konar flekkun við "hreinleika" þjóðarinnar?

Flestum er í fersku minni að til skamms tíma þurftu útlendingar, sem sóttu um ríkisborgararétt á Íslandi að skipta um nafn, taka upp íslenskt nafn sem samræmdist hugmyndum yfirvalda um "hreinan" íslenskan málstofn. Íslensk nafnapólitík er dæmi um pólitískan rétttrúnað hreintungustefnunnar. Nafnalögunum hefur verið breytt að hluta og valdboðið er ekki eins algert hvað þetta varðar í nýju lögunum, en það er mjög athyglivert í sjálfu sér að ríkisvaldið skuli vera að hlutast til um hvaða nöfn fólk ber, hvort heldur skírnarnöfn eða eftirnöfn. Fólkinu er hreinlega ekki treyst sjálfu til að finna nöfn á börnin sín, heldur verður nafnið að vera á lista yfir sk. samþykkt nöfn. Brjóti fólk í bága við þessi lög, er því skylt samkvæmt lögum að borga 1.000 kr. á dag, hvern dag eftir að barn þeirra nær sex mánaða aldri (sjá Mannanafnalög nr. 45/1996, kafli IX 25 gr.). Ennþá er bannað að taka sér ættarnafn á Íslandi, þau eru aðeins leyfð fáum útvöldum, sem fengu einkaleyfi fyrir ættarnafnabann, sem sett var á árið 1925 og er enn í fullu gildi. Börn innflytjenda, sem fædd eru á Íslandi verða eftir sem áður líka að að bera íslenskt nafn "par definisjón". Opinber nafnapólitík af þessu tagi hefur tíðkast í löndum eins og Singapore, Indónesíu og Búlgaríu, ríki sem hafa getið sér orðs á alþjóðavettvangi fyrir margt annað en lýðræðislega stjórnarhætti (Jernudd 1994).

Pólitískur rétttrúnaður

Hinn pólitíski rétttrúnaður hreinleikastefnunnar kallar ennfremur á að hugtök sem eru upprunnin úr ensku eða einhverju öðru máli, megi ekki sjást á prenti eða heyrast í fjölmiðlum þó svo að fjöldinn noti þau. Hér mætti nefna orð eins og brása, dánlóda, pródúsera, impróvísasjón, inspírasjón, frústrasjón, kötta, peista, díla o.s.frv., orð sem öll eru beygð samkvæmt íslenskum beygingarreglum en mega ekki heyrast eða sjást opinberlega, þó svo að fjöldinn noti þau. Afhverju eru þessi orð álitin "flekka," "spilla" eða "menga" tunguna? Er það af því þau eru útlensk, ekki af hreinum íslenskum málstofni? Svari nú hver fyrir sig. Hvers vegna þessi tvískinnungur? Hvaða guðum er verið að þóknast? Hvað er í gangi?

Afhverju er ekki hreinlega tekið pragmatískt á málunum og farið að ráði nágrannaþjóða okkar, sem hafa aðlagað þessi hugtök sínu máli - hvort heldur þau eru upprunnin úr ensku eða öðrum tungumálum? Venjan hefur verið að svara þessari spurningu á þann hátt að ef við vernduðum ekki íslenska tungu fyrir ágangi þessara útlendu orða væri hættan sú að Íslendingar glötuðu niður tungu sinni og þar með væri botninn dottinn úr þjóðinni, hún hefði ekki lengur neinar forsendur til að kalla sig þjóð og ætti þar af leiðandi ekki neitt tilkall til pólitísks sjálfræðis, Íslendingar gætu þá bara gleymt því að vera þjóð. Er þetta óyggjandi staðreynd?

Í rannsókn minni á tilurð og þróun íslenskrar þjóðarímyndar komst ég að annarri niðurstöðu. Í fyrsta lagi, eru hugmyndirnar sem liggja til grundvallar íslenskri málpólitík jafnframt kjarninn í íslenskri þjóðernishyggju og kjarninn í okkar þjóðlegu trúarbrögðum, sem ég mun víkja nánar að síðar. Í öðru lagi komst ég að því að málvernd og/eða málpólitík fjallar ekki nema á yfirborðinu um tungumál, en undir liggur spurningin um vald, eða opinbert umboð til að skilgreina veruleikann. Ég nota hér kenningar franska heimspekingsins Mihael Foucault um vald. Hann skilgreinir "vald", ekki sem eitthvert áþreifanlegt og afmarkað fyrirbæri, heldur sem skipulögð tengsl og segir valdið óaðgreinanlegt frá sannleikanum, það þarf vald til að skilgreina, eða framleiða sannleikann. Öll samfélög hafa einskonar "veldi sannleikans" ("régime of truth") eða "almenna pólitík um sannleikann", þ.e. hvers konar orðræður það samþykkir og fúnkera sem sannleikur. Í vestrænum lýðræðissamfélögum er þetta veldi sannleikans bundið í ýmsar stofnanir samfélagsins. "Sannleikurinn og "valdið er aldrei algert, heldur er það sífellt efni pólitískra deilna og félagslegra átaka. Félagsstaða og starfsstaða fólks markar með hvaða hætti það getur tekið þátt í samningsumleitunum um vald, yfirráð og stjórnun á skilgreininum á veruleikanum. Hugmyndir Foucaults hafa verið mjög hjálplegar til að auka við skilning á hinu "pólitíska" í daglegu lífi fólks og um leið umbreytt skilningi á valdahugtakinu. Orðin sem slík hafa ekkert vald eða mátt heldur er það staða þeirra sem þau segja sem gefur þeim máttinn. Ef málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins segir að betra sé að nota "eyðni" - sem beygist eins og beiðni - en orðið almæmi yfir sjúkdóm sem á ensku er kallaður AIDS - eins og heyrðist á dögunum, þá hefur hann í krafti stöðu sinnar gefið fyrra orðinu meiri tilvistarrétt en því síðara. Augljóst neikvæði orðsins eyðni náði hins vegar hvorki því að raska mál- né heldur siðferðisvitund viðkomandi málfarsráðunautar.

Málpólitík, hvort sem við kjósum að kalla hana málvernd, málrækt eða hreintungustefnu, er tæki til félagslegar stjórnunar. Hin ráðandi öfl hafa tök á því að setja reglurnar um hvernig og með hvaða orðum á að túlka þann veruleika sem íslenskumælandi fólk býr í.

Málleg þjóðernishyggja

Þegar talað er um verndun íslenskrar tungu er í raun verið að tala um verndun á tilteknu málafbrigði af íslensku, sem venjulegast er skilgreint sem "hrein íslenska". Málverndunarsinnar leggja íslenska tungu og sk. hreina íslensku að jöfnu.

Íslenska mýtan um hreinleikann gerir ráð fyrir því að hagsæld þjóðarinnar hvort heldur vitsmunaleg, efnahagsleg, eða pólitísk svo ekki sé talað um lífslíkur íslenskrar menningar - samkvæmt skilgreiningu, standi í beinum tengslum við málfarslegan hreinleika. Mýtan gerir ráð fyrir að þjóðin geti ekki verið trú sínum "sanna þjóðaranda" nema íslensku máli sé haldið "hreinu". Samkvæmt kenningunni var þessi hreinleiki hvað best varðveittur í fornbókmenntunum, þar fannst hinn hreini þjóðarandi hvað tærastur og óspilltur af útlenskum áhrifum. Þess vegna m.a. verður að umgangast fornbókmenntirnar af stakri virðingu og þær hafa öðlast þann sess að verða helgirit. Ef orð eða orðatiltæki finnst í fornbókmenntunum er það álitið "hreint" og fær sjálfkrafa virðingarsess, ef ekki hefur staða þeirra í hinu íslenska málsamfélagi verið dregin í efa. Nýyrðastefnan, sem er snar þáttur í íslenskri málpólitík, gengur út á að skálda upp ný orð, sem eru af "hreinum" íslenskum "stofni". Þar með er orðum sem ekki falla að þessari skilgreiningu hafnað á þeim forsendum að þau séu flekkun við "hreinleika tungunnar". Litið er á útlend orð sem skít eða óhreindindi, sem ógna hreinleikanum. Hugmyndafræði hreinleikans krefst þess að þessum orðum sé útrýmt með öllum tiltækum ráðum.

Ofangreindar hugmyndir um að íslensk tunga, þ.e. "hrein tunga" geri Íslendinga að þjóð, á rætur sínar í þýskri rómantískri þjóðernishyggju. Rómantíski skilningurinn á þjóð, menningu og tungu sem einskonar náttúrusprottnum fyrirbærum er allsendis ófær um að sundurgreina tengslin á milli menningar, þjóðar og tungu annars vegar og valds hins vegar. Þ.e.a.s. ófær um að sundurgreina hvernig valdið til að skilgreina veruleikann og skipuleggja hann er tilkomið; valdið til að skilgreina hvað gerir þjóðina að þjóð, hvað telst til menningarinnar og hvað ekki og ennfremur hvernig mörk tungumálsins eru skilgreind. Í þessu sjónarhorni er aldrei efast um valdið til þessara skilgreininga, því ef það er svo gott sem náttúrusprottið þarf ekki spyrja. Skilgreiningarnar virðast liggja í hlutarins eðli, vera eðlilegar en ekki spurning um mannanna stjórn. Sama gildir um málstefnu eða pólitík hún verður aðeins spurning um að lúta einskonar náttúrulögmálum. Í þessum hugmyndum er öll áherslan á einsleitni, hvort heldur málfarslega eða menningarlega.

Tungumál sem kapítal

Hrein íslenska er það málafbrigði, sem er hið lögmæta málafbrigði og nýtur mestrar virðingar í samfélaginu, er ríkismálið. Ef við hugsum okkur "tungumál, sem einskonar kapítal", einsog franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu gerir, þá er hrein íslenska það málafbrigði, sem hefur víðtækast gildi á markaðnum. Sumur framburður, málfræði og orðsafn hefur meira gildi en önnur. Á gjaldeyrismarkaði íslenskunnar má hugsa sér að hrein íslenska hafi sama gildi og amerískur dollar á alþjóðamarkaði, alstaðar hægt að fá eitthvað fyrir hann. Önnur málafbrigði íslenskunnar t.d. málafbrigði, sem eru full af "slettum eða "vitlausum beygingum", "flámæli", "þágufallsýki" að ógleymdri íslensku sem töluð er með útlenskum hreim, eru hins vegar einsog rúblan, undir hælinn lagt hvar er hægt að fá eitthvað fyrir hana, og alltaf spurning hversu mikið - m.ö.o. gildið rokkar. Bourdieu bendir jafnframt á að þessu mállega kapítali sé ekki dreift jafnt um samfélagið heldur sé dreifing þess í nánum tengslum við dreifingu á annarri gerð kapítals þ.e. bæði efnislegu og táknrænu. Þetta þýðir í íslensku samhengi að það fólk sem hefur "hreina íslensku" á hreinu, hefur alla jafna miklu greiðari aðgang inn í formlegan markað samfélagsins, þ.e. inn í opinberan valdastrúktúr, fjölmiðla, opinbera geirann, menntakerfið o.s.frv. Á þessum opinbera markaði hefur "hrein" íslenska mest gildi, hún er það málafbrigði, sem drottnar og nýtur mestrar virðingar og hefur fyrir tilstilli íslenskrar málstefnu verið náttúrugert og því yfir alla gagnrýni hafin. Afleiðing þessa er í rauninni sú að þeir talendur, sem ekki ráða yfir hreinni íslensku eiga afskaplega erfitt með að fá rödd eða áheyrn í samfélaginu.

Einsleitnin á hinum opinbera málmarkaði og einlægur ásetningur yfirvalda og annarra þeirra, sem lúta þessum kennisetningum um að viðurkenna aðeins eitt málafbrigði íslenskunnar, sem náttúrulegt og eðlilegt gerir það að verkum að öll önnur málafbrigði hvort heldur íslenska með hreim eða málfar sem er fullt af slettum eru brennimerkt félagslega og sett skör lægra. Í þessu sjónarhorni hefur gjarnan verið fólgin sú afstaða - sem minnst var á fyrr - að þeir talendur sem ekki ráða yfir "hreinni" íslensku séu á einhvern hátt heimskari en hinir sem tala "hreint" mál. Þetta þjóðlega máluppeldi hefur líka orðið þess valdandi að talendur eru sífellt á varðbergi um eigið málfar, einkum þegar þeir tala einhvers staðar opinberlega eða eru í hópi þar sem grunur leikur á að félagar úr heimavarnarliðinu séu á staðnum. M.ö.o. fólk setur sig í stellingar og ritskoðar eigið málfar, passar sig á að sletta ekki útlendum hugtökum og láta ekki einhverjar "málvillur" út úr sér, sem gætu komið upp um það. Passar sig á að "flekka ekki málið." Í verstu tilvikum hefur þessi pólitík leitt til málótta hjá þeim, sem halda sig ekki geta valdið þessu málafbrigði "hreinni íslensku". Málpólitík eins og sú íslenska er rakið dæmi um það, sem Bourdieu kallar "symbolic violence" eða táknrænt ofbeldi. Þ.e. talendurnir eru þvingaðir til hlýðni við skipulagið, ef þeir lúta því ekki er þeim refsað m.a. með því að fá ekki rödd eða áheyrn.

Þjóð, menning, tunga og vald

Ef þjóðir eru ekki náttúruspottnar einingar hvað eru þær þá? Í sundurgreiningu minni og rannsókn á íslenskri þjóðernishyggju, geng ég útfrá grunnhugmyndum kenndum við svokallaða módernista og póstmódernista sem líta á þjóðina, þjóðríkið og fylgifiska þeirra, þjóðmenningu, þjóðarímynd og þjóðtungu, sem ný söguleg fyrirbæri. Í árum talið fæðist þjóðríkið ekki fyrr en með frönsku byltingunni í lok 18. aldar. Þegnar ríkisins urðu þá þjóð, og farið var nota skilgreiningar þýskra rómantíkera á þjóðinni. Á þessu söguskeiði er fyrst í veraldarsögunni sett fram sú krafa að pólitísk, menningarleg og málleg mörk haldist algerlega í hendur og á sama tíma leit kerfisbundin stöðlun tungumála fyrst dagsins ljós. Hér er ekki litið svo á að þjóðin sem samfélag, né heldur þjóðmenning hafi einhverjar eðlislægar eigindir, en hins vegar gengið út frá því að þjóðarímynd og þjóðmenning - afurðir þjóðernishyggjunnar - séu mótanleg og lifandi fyrirbæri, undirorpin áhrifum, sem sumum hverjum er hægt að stjórna og öðrum ekki.

Þessi túlkun á þjóðernishyggju þýðir ekki að sameiginlegt landsvæði, tungumál eða menning skipti ekki máli fyrir sameiginlega ímynd eða vitund. En til að þessi vitund verði þjóðleg í þeirri merkingu að hún nái til allra þegna þjóðríkisins eru kerfisbundin pólitísk afskipti nauðsynleg. Hér á landi fór saman stöðlun íslenskunnar, og mótun íslenskrar þjóðarímyndar. Ekki er ráðrúm til að rekja þetta ferli í smáatriðum hér, en hlutur Hins íslenska bókmenntafélags og vaxandi blaða- og bókaútgáfa á 19. öldinni auk Lærða skólans áttu mjög drjúgan þátt í að staðla tungumálið einsog flestir vita. Seinna með tilkomu íslenska þjóðríkisins tóku ýmsar ríkisstofnanir við þessu hlutverki, m.a. Ríkisútvarpið. Hugmyndin um "hreina íslensku" var notuð í pólitískum tilgangi til að kollvarpa ríkjandi skipulagi, ekki einungis hinu pólitíska skipulagi heldur líka hugarfari fólks. Upphafið í pólitískri innleiðingu og réttlætingu á því hvernig ætti að skilgreina veruleikann og grunnurinn að hugmyndinni um hvað væri "hrein íslenska" var lagður þarna, um leið og hugarfar fólks var mótað um hvað þyrfti til, til að teljast sannur Íslendingur.

Af hverju varð málleg þjóðernishyggja svona vinsæl á Íslandi?

Til að skilja mátt rómantískrar/mállegrar þjóðernishyggju og þar með íslenskrar málstefnu, fyrr og nú er heillavænlegast að líta á hana sem viðbrögð við aukinni hnattvæðingu. Hnattvæðingin - sem verið hefur að gerjast undanfarin árhundruð - kallar á þörfina til að skilgreina "sig" frá "þeim". Hið hnattræna og það þjóðlega eru tveir pólar á sama ás og virka hvor á annan. Ennfremur og ekki síður er hægt að líta á þjóðernishyggju og alla pólitík í kringum mótun þjóðarímyndar, sem veraldleg trúarbrögð. Þessi nýju "trúarbrögð" urðu til í kjölfar stórfelldustu umbrota í mannkynssögunni og má skoða sem viðbrögð við þeim. Hér er vísað til þeirra gífurlegu félags-, efnhagslegu og pólitísku breytinga, sem urðu í kjölfar frönsku byltingarinnar og iðnbyltingarinnar, samfara framgangi vísindanna og minnkandi valdi kirkjunnar/eiginlegra trúarbragða. Í því stórfellda raski, sem þessar massífu byltingar höfðu á líf fólks liðaðist gamla skipulagið sundur og þar með talinn grunnurinn í ídentíteti fólks. Þjóðernishyggjan kom eins og frelsandi í þessu upplausnarástandi og færði fólki nýja sköpunarsögu og nýjan tilvistarlegan tilgang og um leið öryggi í öllu þessu umróti.

Þjóðernishyggjan persónugerir þjóðina, upphefur hana á stall og sveipar hana geistlegum blæ. Hugmyndir og skilgreiningar um hvað það er sem gerir þjóð að þjóð eru meðhöndlaðar sem heilagur sannleikur. Hollusta við þessa "heilögu kennisetningu" verður svo mælikvarði á svokallaða þjóðhollustu. Óhollusta við hana er að sama skapi skynjuð sem ögrun einskonar helgispjöll. Íslensk þjóðhollusta er jafnan mæld í því hvernig talendur málsins "fara með það" eftir því sem þeir eru nær því að tala "hreina íslensku" því sannari Íslendingar eru þeir. En hollustan er í raun hollusta við valdhafana, sem hafa náttúrugert vald sitt í nafni "þjóðarinnar".

Niðurlag

Málstjórnun eða málpólitík, hvaða nafni sem hún nefnist, þar sem málafbrigðum er raðað á ás eftir virðingarstöðu, snýst ekki nema á yfirborðinu um tungumál eða það að viðhalda stöðugleika og stöðlun á máli. Í raun snýst hún um vald eða opinbert umboð til að segja fólki með hvaða orðum og hvaða málfari það má skilgreina þann veruleika sem það býr í. Málvernd samkvæmt þessu snýst því ekki um að vernda einhvern heilagleika móðurmálsins, heldur miklu fremur að vernda og tryggja samfélagslega stöðu þeirra sem þetta málafbrigði tala. Um leið útilokar hún hina frá aðgangi að pólitísku valdi og efnahagslegum resúrsum/gæðum.

Á tímum íslenskrar sjálfstæðisbaráttu var þessi pólitík tæki til að bola Dönum burt úr íslenskri stjórnsýslu um leið og sett voru mörk um það hverjir kæmust til valda innan hins nýja þjóðríkis. Þessar hugmyndir hafa þjónað tilgangi sínum.

Í samfélagi nútímans eru þær tímaskekkja vegna þess að stífnin og valdboðið, sem í þeim felst gengur þvert á aðrar hugmyndir sem eru okkur Íslendingum hugleiknar, nefnilega lýðræðishugsjónina. Hryggjarstykkið í lýðræðissamfélögum nútímans felst í því að viðurkenna og virða, ekki bara margbreytileika í flokkspólitískum skoðunum heldur líka menningarlegan margbreytileika innan þjóðríkisins, og mismunandi málafbrigði þess tungumáls sem talað er innan ríkisins.

Þjóðarímynd Íslendinga er ekki greypt í stein, heldur er hún lifandi ferli þar sem sífellt er tekist er á um hvað í henni felst. E.t.v. mætti færa fyrir því rök að áhersla á menningarlega og mállega einsleitni hafi verið nauðsynleg í sjálfstæðisbaráttunni, en slíkar áherslur í samfélagi nútímans samrýmast ekki lýðræðislegum hugmyndum um margbreytileika. Það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur sem á þessu landi búum að taka til gagngerrar endurskoðunar, þessar þjóðernsimýtur um hreinleika, hvort heldur í tengslum við tungumálið eða annað. Fram að þessu hafa Íslendingar aldrei þurft að horfast í augu við þær, takast á um þær, og fæstir hafa þorað að gagnrýna þær, af ótta við einhverskonar útskúfun. Gagnrýni á þjóðernismýtuna um hreinleikann hefur til þessa jafngilt helgispjöllum, því drottnun þessarar veraldlegu trúarbragða hefur verið alger. Hingað til hefur mýtan getað lifað ágætislífi enda nærð í hvívetna, upphafin og dásömuð á fjölmörgum vígstöðvum. Til þessa hefur enginn etnískur minnihlutahópur verið nógu stór til að eiga sér rödd í íslensku samfélagi. Með síauknu streymi innflytjenda til landsins er þetta ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær það verður að veruleika og þessi mýta verður að bitbeini, nema gripið sé í taumana núna. Hvernig eiga þeir sem hafa íslensku að öðru máli að fá rödd í íslensku samfélagi þegar þeir sem hafa íslensku að móðurmáli eru sífellt ávíttir ef þeir fara ekki rétt með málið? Ég sé það ekki gerast að öllu óbreyttu. Fjölmenningarlegt lýðræði snýst ekki um að geta farið á taílenskan veitingastað og fengið sér exótískan mat þegar manni býður svo við að horfa. Það snýst um að þeir, sem ekki eru eins og fjöldinn - í þessu samhengi ekki innfæddir Íslendingar - fái rödd í samfélaginu og ennfremur og ekki hvað síst, að þessi margleiti hópur fái líka aðgang að pólitísku valdi og efnahagslegum resúrsum samfélagsins til jafns við okkur hin.

Heimildir:

Bourdieu, Pierre. Language and Symbolic Power. Ritstjórn og inngangur eftir John B. Thompson. Þýðendur Raymond og Adamson. Cambridge Massachusetts: Harvard University Press, 1991.

Douglas, Mary. Purity and Danger. London: Ark Paperbacks, 1966.

Foucault, Michel. Power and Knowledge. Ritstjóri Colin Gordon. Þýðendur Gordon et al. New York: Pantheon Books, 1980.

Málefni nýbúa: höfuðborgarvagn apríl 2000. Reykjavík, Íslenskar markaðsrannsóknir aðilar að Gallup International.

Jernudd, Björn. "Personal names and human rights". Skutnabb-Kangas og Phillipson ritstj. Linguistic Human Rights Overcoming Linguistic Discrimination. New York: Mouton de Gruyter, 1994.

Lög um mannanöfn 1996 nr. 45. 17 maí.

Greinin er byggð á doktorsritgerð höfundar: Purity and Power. The Policy of Purism in Icelandic Nationalism and National Identity, og að hluta úr samnefndu erindi, sem flutt var á málþingi Stofnunar Sigurðar Nordals um viðhorf til íslensku, hinn 17. mars sl.

Greinin er byggð á doktorsritgerð höfundar: Purity and Power. The Policy of Purism in Icelandic Nationalism and National Identity, og að hluta samnefndu erindi, sem flutt var á málþingi Stofnunar Sigurðar Nordals um viðhorf tilíslensku 17. mars sl.

EFTIR HALLFRÍÐI ÞÓRARINSDÓTTUR

Höfundur er mannfræðingur.