28. apríl 2001 | Minningargreinar | 4916 orð | 1 mynd

Torfi Steinþórsson

Torfi Steinþórsson fyrrverandi skólastjóri að Hrollaugsstöðum í Suðursveit lést á hjartadeild Landspítalans í Fossvogi þriðjudaginn 17. apríl síðastliðinn. Torfi fæddist 1. apríl 1915 að Hala í Suðursveit, eldra barn hjónanna Steinþórs Þórðarsonar, f. 10.6. 1892, d. 20.1. 1981, og Steinunnar Guðmundsdóttur, f. 25.11. 1988, d. 14.5. 1981. Systir Torfa er Anna Þóra 28.4. 1917 búsett í Reykjavík. Torfi stundaði nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni 1935-37 og lauk námi frá Kennaraskólanum 1942. Kennsla varð hans ævistarf. Til að byrja með stundaði hann farkennslu; í Borgarhafnarhreppi í Suðursveit 1934-35, í Geithellnahreppi 1937-39 og í Svarfaðardal 1942-45. Árið 1945 gerðist Torfi skólastjóri við barnaskólann að Hrollaugsstöðum í Suðursveit sem þá var nýstofnaður. Torfi kom ekki einsamall að Hrollaugsstöðum því að í Svarfaðardal kynntist hann lífsförunaut sínum Ingibjörgu Zophoníasdóttur, f. 22.8 1923, frá Hóli, dóttur Zophoníasar Jónssonar, f. 11.2. 1894, d. 29.9. 1991, og Súsönnu Guðmundsdóttur, f. 6.2. 1884, d. 15.2. 1980. Torfi og Ingibjörg giftust 24. október 1944 hjá Sigurði Eggerts sýslumanni á Akureyri og fluttu vorið eftir í Suðursveit. Frá 1948 til 1966 bjuggu þau hjón ásamt börnum sínum í heimavistarskólanum á Hrollaugsstöðum á veturna en sumrum og öðrum fríum eyddu þau við bústörf með foreldrum Torfa á Hala. Árið 1966 fluttust þau hjón alfarið að Hala en Torfi var skólastjóri í Hrollaugsstaðaskóla til vors 1985 er hann hætti fyrir aldurs sakir. Torfi tók virkan þátt í félagsstörfum, ekki síst þeim er sneru að ungu fólki. Hann var formaður ungmennafélagsins Vísis í Suðursveit frá 1946-66. Stjórnarmaður í ungmennasambandinu Úlfljóti frá 1939-60 lengst af sem ritari og formaður Úlfljóts 1967-76. Torfi var formaður áfengisvarnarnefndar Borgarhafnarhrepps í mörg ár og í stjórn félags áfengisvarnarnefnda frá stofnun 1958-76. Safnaðarfulltrúi var hann í Kálfafellsstaðarsókn 1967-82 og hreppstjóri Borgarhafnarhrepps og umboðsmaður skattstjóra frá 1964-86. Auk þessa var hann umboðsmaður Brunabótafélags Íslands í tíu ár frá 1976-86, umboðsmaður Dýraverndunarfélags Íslands í mörg ár, stjórn Menningarsambands A.-Skaft. frá stofnun 1962-69, í stjórn Alþýðubandalagsfélags A.-Skaft. í nokkur ár og fleira mætti telja.

Torfi átti lögheimili að Hala allt sitt líf og hélt tryggð við ætt sína og uppruna. Torfi og Ingibjörg eignuðust 10 börn og eru 9 þeirra á lífi. Ættleggur þeirra er stór, barnabörnin eru orðin 33 og barnabarnabörnin 14. Torfhildur Hólm Torfadóttir, f. 16.2. 1945, bóndi að Gerði í Suðursveit, gift Þorbergi Erni Bjarnasyni. Þau eiga 6 börn og 10 barnabörn. Steinþór Torfason, f. 29.2. 1948, bóndi að Hala í Suðursveit, kvæntur Ólöfu Önnu Guðmundsdóttur. Þau eiga þrjú börn. Drengur f. 27.4. 1950, d. 28. 4. sama ár. 1. október 1952 fæddust þeim hjónum tvíburarnir Fjölnir og Steinunn. Fjölnir Torfason er fiskeldisbóndi búsettur að Hala í Suðursveit. Sambýliskona hans er Þorbjörg Arnórsdóttir og eiga þau fjóra syni. Steinunn Torfadóttir er lestrarráðgjafi við KHÍ, á tvö börn og gift Birni Magnússyni. Þau búa í Kópavogi. Þórbergur, f. 12.3. 1954, veiðieftirlitsmaður búsettur í Reykjavík. Hann hefur eignast átta börn en eitt lést á unga aldri. Barnabörn hans eru fjögur. Sambýliskona Þórbergs er Jónína Vilhjálmsdóttir. Zophonías Torfason, f. 6.7. 1956, kennari á Höfn, kvæntur Guðrúnu Ingólfsdóttur. Þau eiga 4 börn. Súsanna Björk Torfadóttir, f. 2.4.1960, ritstjóri og tveggja barna móðir búsett á Höfn. Hún er gift Ásmundi Þóri Ólafssyni. Margrét Torfadóttir, f. 16.6. 1961, gæðaeftirlitsstarfsmaður búsett í Reykjavík. Margrét á einn son og sambýlismaður hennar er Indriði Þorkelsson. Þórgunnur Torfadóttir, f. 24.11. 1965, kennari á Höfn gift Ásgrími Ingólfssyni. Þau eiga þrjú börn.

Útför Torfa fer fram frá Kálfafellsstaðarkirkju í Suðursveit í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Hvert svífið þið svanir af ströndu með söngum í bláheiðageim. Ég sé það af öllu, þér ætlið í ósýnis fjarlægan heim. Þér kvödduð og komuð ei framar með kliðinn sem lengst hef ég þreyð. En svanir kemst ég þá til yðar ef ómurinn vísar mér leið. (Steingrímur Thorsteinsson.)

Tengdafaðir minn, Torfi Steinþórsson, skólastjóri á Hala í Suðursveit, lést þriðjudaginn 17. apríl, áttatíu og sex ára að aldri. Þó að árin hafi verið orðin mörg og löng lífsganga sé að baki er erfitt að sætta sig við að hann Torfi er ekki lengur á meðal okkar. Á hugann leita minningar um samskipti við mætan mann þar sem aldrei bar skugga á, hvorki þar sem við störfuðum saman innan veggja skólans á Hrollaugsstöðum í Suðursveit né heima fyrir í dagsins önn. Ég kynntist Torfa fyrst þegar ég flutti að Hala fyrir réttum 29 árum. Þá var margt um manninn á heimili þeirra Torfa og Ingibjargar. Við eldhúsborðið á Hala voru þá gjarnan 15-18 manns á matmálstímum, hið gamla bændasamfélag var þá enn við lýði. Það kom fljótlega í ljós að hér var um einstakt heimili að ræða þar sem sagðar voru sögur frá gamalli tíð, börnin ólust upp við söngl og barnagælur, draugasögur voru enn í fullu gildi, stjórnmál voru rædd af miklum hita yfir hádegismatnum, gamansögur af viðburðum daganna voru krydd í tilveruna, veðurhræðsla var alþekkt tilfinning og umræður um veður og nákvæmar veðurathuganir tóku dágóðan tíma dag hvern. Á þessu heimili hafði Torfi alið nær allan sinn aldur. Sem lítill strákur sá hann frönsku skúturnar sigla undir fannhvítum seglum úti fyrir ströndinni og beið spenntur eftir að fá að taka þátt í ævintýrum lífsins. Þegar ég fór að hlusta eftir frásögnum Torfa innan um skvaldur mannlífsins á Hala fór ekki á milli mála hvað höfðu verið stórviðburðir í daganna amstri. Þegar hann var tíu ára gamall fékk hann að fara í alvörusilungsveiði, hann fékk að fara í göngu í Staðarfjall og þriðja hetjudáð þess árs var að fá að fara á sjó. Alla tíð síðan var veiði og sjósókn, klettaferðir og göngur, það sem áhugi hans beindist mjög að. Með mikilli nákvæmni gat hann sagt frá hverri einustu sjóferð sem hann tók þátt í, hvaða mánaðardag var róið, hvaða ár, hvað klukkan var þegar lagt var af stað, hvernig veðrið var þann dag, hverjir reru, hve mikið veiddist, hvernig sjólag var, hve margir fiskar voru í hlut, jafnvel hvað rætt var um borð. Þegar Torfi sagði hæversklega frá birtist sú frásagnargáfa og það stálminni sem hann hafði fengið í vöggugjöf og er landsþekkt í ritverkum og frásögum Steinþórs föður hans og Þórbergs Þórðarsonar föðurbróður. Eftir að Suðursveitungar hættu að sækja sjóinn á opnum bátum beint frá fjörunni leið aldrei sá dagur að Torfi liti ekki til sjávar og kannaði hvort væri sjóveður. Veraldarhafið í suðrinu var honum fram á síðasta dag lifandi veröld stórra viðburða sem ástæða var til að gefa gaum.

Á sama hátt gat Torfi sagt nákvæmlega frá erfiðum göngum og smalamennskum um fjöllin sunnan við Steinasand. Klettaferðir, þar sem þræddar voru örmjóar rákar, og sigið í svelti til að bjarga kindum frá hungurdauða voru hluti af spennu daganna. Að fara í Veðurárdalinn á björtum haustdegi, ganga inn Breiðamerkurjökul, og þræða síðan fram einstigi og rákar með fjárhópinn á undan sér, það hlýtur að hafa verið "hápunktur ólympíaðsins" í lífinu hans Torfa. Þannig varð lífsbarátta fólksins að einu ævintýri þar sem reyndi á þrek og útsjónarsemi, en um leið sú ögrun er efldi unga menn til að taka þátt í lífsbaráttunni og takast á við umhverfi sitt og aðstæður. Síðari árin kynntist ég af eigin raun miklum veiðiáhuga Torfa og eljusemi þegar hann hélt áfram að draga björg í bú og stundaði silungsveiði í Breiðabólstaðarlóni öll sumur fram að áttræðisaldri. Þó að Torfi væri ekki mikill bóndi í sér þá vann hann alltaf að bústörfum með fjölskyldunni yfir sumartímann. Allt það sem hann tók sér fyrir hendur var unnið af einskærri nákvæmni og vandvirkni, netalagnir urðu að listgrein, aldrei hnökrar á skriftinni í fjárbókinni eða dregnar skakkar línur, heyböggunum raðað í hlöðurnar af kostgæfni og fylgst með í smalamennskum og fjárragi meðan kraftar leyfðu.

Torfi fór til náms á Laugarvatni og lauk síðan kennaranámi frá Kennaraskóla Íslands árið 1942. Kennsla varð síðan hans ævistarf. Í fjörutíu ár var hann í senn skólastjóri og lengst af eini kennarinn við grunnskólann á Hrollaugsstöðum og bar þannig ábyrgð á menntun barna og ungmenna heillar sveitar um langt árabil. Því starfi sinnti Torfi eins og honum var einum lagið. Af einstakri trúmennsku og samviskusemi var mætt til vinnu hvern dag, kennslan var hnitmiðuð og skipulögð en jafnframt mátti alltaf greina glettni, létta lund og hæfileika til að mæta því sem að höndum bar með ljúfmennsku og jafnaðargeði. Skólastarfið var fjölbreytt, hann kenndi íþróttir fram að sjötugu og efldi mjög áhuga ungmenna á íþróttum og félagsstarfi, danskennsla var sjálfsögð eins og lestur á bók, hann kenndi börnum að spila félagsvist og síðar bridge, og allt þetta kenndi hann einnig utan veggja skólans. Þannig varð kennslan hans Torfa undirstaðan í félagslífi heillar sveitar þegar fram liðu stundir, allir urðu virkir þátttakendur í skemmtunum, spilamennsku og íþróttum og allt þetta efldi samfélagið og jók samkennd og samhug íbúanna. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að starfa með Torfa tengdaföður mínum að kennslustörfum í tólf vetur. Það var góður skóli fyrir nýúskrifaðan kennara að fá notið leiðsagnar hans fyrstu skrefin. Fyrir allt það ber að þakka nú að leiðarlokum. Eftir lifa ótal minningar frá skemmtilegu skólastarfi með nemendum og samstarfi við fjölskyldur þeirra og sveitungana. Heimahagarnir urðu Torfa alltaf uppspretta ótal tækifæra og þær urðu ógleymanlegar gönguferðirnar með honum og skólabörnunum niður í Bjarnahraunssand. Þar lá útróðraskipið Svanur undir Töðuhrauni, þar sýndi hann okkur hvernig taka ætti lagið þegar róið var út frá fjörunni, og meðan að ungviðið lék í fjöruborðinu horfði Torfi til sjávar og mat aðstæður af glöggskyggni, rétt eins og hann ætlaði að fara að ýta skipi sínu á flot og renna færum. Fyrstu þrjá veturna eftir að Torfi útskrifaðist úr Kennaraskóla Íslands var hann kennari norður í Svarfaðardal. Þar kynntist hann Ingibjörgu konu sinni, sem varð lífsförunautur hans. Það var honum mikið gæfuspor, börnin urðu tíu, níu þeirra komust á legg og á meðan Ingibjörg bar hitann og þungann af heimilishaldi hjá stórri fjölskyldu og á gestkvæmu menningarheimili, bar Torfi ævinlega björg í bú og aflaði tekna til að sjá fjölmennu heimili farboða. Það var lærdómsríkt að kynnast því æðruleysi sem einkenndi allt líf þeirra hjóna. Lífsbaráttan varð að mikilli sögu þar sem viðfangsefni daganna urðu að ævintýrum, sem nú er hægt að segja barnabörnum og barnabarnabörnum. Alltaf var tími til glaðværra stunda og að taka á móti gestum og gangandi af einstakri alúð og hlýju. Á góðum stundum þegar fjölskylda og vinir hittust var gjarnan spilað bridge fram eftir nóttu, þar var Torfi á heimavelli og fljótlega eftir að börnin og barnabörnin fóru að þekkja spilin varð það metnaðarmál að læra bridge til að geta tekið þátt í spilamennskunni.

Hann Torfi kveður átthaga sína að vori þegar náttúran er að vakna af vetrardvala. Það minnir okkur öll á hverfulleika lífsins. Brátt mun krían fara að argast í Aurnum, maðkaflugurnar suða í sólskininu, og fjallshlíðarnar sunnan við Steinasand grænka mót hækkandi sól. Á kveðjustundu stöndum við mannfólkið með söknuð í hjarta og eigum engin svör við lífsgátunni, - það fær enginn stöðvað tímans þunga nið.

Hvert svífið þið svanir af ströndu

með söngum í bláheiðageim.

Ég sé það af öllu, þér ætlið

í ósýnis fjarlægan heim.

Þér kvödduð og komuð ei framar

með kliðinn sem lengst hef ég þreyð.

En svanir kemst ég þá til yðar

ef ómurinn vísar mér leið.

(Steingrímur Thorsteinsson.)

Svanirnir svífa á braut með klökkvandi kvaki og koma ei framar til hans Torfa. En við vitum það öll að ómurinn af kvaki þeirra mun vísa honum leiðina í þann fjarlæga heim sem nú tekur við. Að lokum þakkar fjölskyldan mín honum Torfa afa fyrir sambýlið og allar góðu samverustundirnar. Við biðjum góðan Guð að styðja og styrkja hana Ingibjörgu ömmu á erfiðum stundum.

Hvíl í friði,

Þorbjörg Arnórsdóttir.

Komdu blessaður, Torfi heiti ég, velkominn að Hala, spilar þú bridge. Þetta voru fyrstu kynnin mín af honum tilvonandi tengdaföður mínum. Ekki efast ég um að spurnar- og undrunarsvipurinn á andlitinu á mér hafi verið kostulegur. En svona var hann bara, kom til dyranna eins og hann var klæddur. Ég hafði þó af að stynja upp að bridge hefði ég aldrei spilað og árla næsta morgun var hann mættur með spilastokkinn, að reyna nú að berja í hausinn á mér leyndardóma þess göfuga spils.

Hann hætti heldur ekki kennslunni fyrr en hægt var að segja og standa tvo spaða nokkurn veginn hnökralaust.

Mér er ofarlega í minni hversu opinn og þægilegur hann var strax við fyrstu kynni og þar eignaðist ég ekki aðeins tengdaföður, heldur vin og samherja sem vildi veg manns alltaf sem bestan, fyrir nú utan kímnigáfuna hjá honum, hann átti nefnilega mjög auðvelt með að koma auga á skondnu hliðar tilverunnar, en ef hann gerði einhver glappaskot hló hann manna mest að því sjálfur. Samanber mjólkurtankinn, hann var nefnilega með nokkuð marga þumalputta, í sumum tilvikum, hann var sendur í fjósið að sækja mjólk og þaðan kom hann aftur mjög snögglega, með tóma fötuna, og þegar farið var að spyrja hafði vafist fyrir honum hvort ætti nú að hreyfa við krananum eða hespunni sem hélt stútnum á mjólkurtanknum, og hespan varð fyrir valinu og innihaldið geystist um allt mjólkurhúsið og út á hlað. En hann tók því með stóískri ró og sagði bara: "Hvað eru nokkrir mjólkurlítrar á milli vina." Eitt sinn er hann var á leið frá Hornafirði á gamla moskowitch ásamt eiginkonu og ófrískri tengdadóttur sprakk hjólbarði á bifreiðinni á Steinasandinum og hann afréð að ná í aðstoð og lagði af stað gangandi, en fljótlega varð á vegi hans dráttarvél med mykjudreifara og keyrði hann á henni heim og sagan segir að allan tímann hafi dreifarinn verið í gangi. Seinna þetta sama kvöld kom einn sonurinn í heimsókn og þá sat kall fyrir framan sjónvarp og horfði á þáttinn Onedin skipafélagið, sem var í miklu uppáhaldi hjá honum. Syninum fannst eitthvað fámennt í kotinu og spurði: "Hvar er mamma?" Þá hrökk sá gamli illilega í kút og sagði: "Ansans ég hef víst gleymt þeim austur á sandi." Það voru gerðar ráðstafanir til að sækja þær og ekki veit ég til þess að þeim hafi nokkuð orðið meint af ferðalaginu. Oft er búið að rifja þetta upp og hló þá Torfi manna mest.

Þegar talað var um að veiða silung í Lóninu gustaði af kalli og fyrsta sumarið sem ég dvaldi þar varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fara með í veiði. Ekki var afraksturinn mikill í þeirri ferð og fékk ég óspart að heyra það, að ekki væri það nú efnilegt með mig, að sem sjómaður hlyti ég þann heiður að vera fiskifæla númer eitt hjá honum og það tók mig langan tíma að kasta af mér þeirri nafnbót, en ég held nú að það hafi á endanum tekist.

Ekki ætla ég mér hér að rifja upp störf hans í gegnum tíðina, þau eru flestum kunn, enda þyrfti ég nú meira pláss til þess.

Þegar heilsu tók að hraka sat hann tíðum og hlustaði á hljóðsnældur, en var nú ekki uppteknari af því en það, að ef hefðist að smala saman á græna borðið var öllu sópað til hliðar og gefið í bridge.

Nú þegar komið er að kveðjustund renna í gegnum hugann minningar, allar ljúfar, um kynni okkar og ekki man ég eftir að okkur hafi nokkurn tíma orðið sundurorða, því hann Torfi á Hala var nefnilega einn af þessum hetjum hvunndagsins sem var ekkert fyrir það gefinn að trana sér fram.

Ég veit að þér líður vel þar sem þú ert núna, í hinum eilífu veiðilendum, þar sem alltaf er sólskin og grasið sígrænt. Takk kærlega fyrir samfylgdina.

Elsku Ingibjörg, missir þinn og okkar er mikill og stórt skarð höggvið við fráfall Torfa. Ég bið alla góða vætti að styrkja þig og styðja.

Kveðja frá tengdasyni.

Ásmundur Þórir Ólafsson.

Mig langaði að minnast afa míns með nokkrum kveðjuorðum.

Elsku afi, nú ertu eflaust kominn á betri stað þar sem þér líður betur og þú ert á meðal forfeðranna. Ég var svo heppin að fá að kynnast þér og eiga tíma og minningar um þig. Þegar ég kom í fyrsta skipti á Hala átta ára fékk ég að sofa í holunni við hliðina á þér og ömmu og þar var ég fyrstu tvö sumrin mín. Þá var hvergi betra að vera. Þú varst mikill sögumaður og ég man þegar ég var stelpa á Hala og það komu gestir stundum á sumarkvöldum og sest var inn í eldhús og þú sagðir sögur, en við krakkarnir fengum ekki að heyra þær vegna þess að þetta voru draugasögur og ekki hollt fyrir okkur að heyra. En við Júlíanna systir bjuggum til okkar eigin draugasögur og allt voru það "sannar" sögur þar sem þú varst aðalhetjan. Á morgnana á Hala fór ég á fætur með þér til að fara að vitja í netin á lóninu, sú minning er mér einna kærust um þig, elsku afi minn. Þú varst skólastjóri og hreppstjóri þegar ég var stelpa og ég man eftir að hafa montað mig af því þegar ég fór heim á haustin, mér þótti ansi merkileg staða sem afi minn gegndi. Ég er þakklát fyrir að þú hafir hitt frumburðinn minn og þegar hann stækkar get ég sagt honum frá þér og þegar að hann hitti þig í þessi tvö skipti á Hala. Ég er líka ánægð að hafa fengið að hitta þig á spítalanum áður en þú fórst, þar ræddum við framtíðarbarneignir mínar og menntun. Elsku afi, ég kveð þig í hinsta sinn og ég veit að við hittumst aftur vegna þess að þú átt enn eftir að segja mér draugasögurnar sem gengu í eldhúsinu á Hala. Guð blessi elsku ömmu mína og styrki hana í missi sínum.

Heiða Björk Þórbergsdóttir.

Elsku afi. Við nutum þeirra forréttinda að fá að alast upp í Suðursveit eins og þú og gátum á hverjum degi gengið eða skriðið upp að Hala að hitta þig og ömmu. Þegar við hugsum til uppvaxtarára okkar er ekki laust við að þú komir oft upp í hugann. Þar ber fyrst að nefna skólagöngu okkar í Hrollaugsstaðaskóla þar sem þú varst skólastjóri og kenndir okkur flestallt sem þá var kennt í barnaskólum. Þú varst iðinn við að kenna okkur að fara rétt með íslenskt mál og varst ófeiminn að minna okkur á ef einhverjir hnökrar voru þar á. Þú varst manna fróðastur um örnefni í sveitinni og nutum við góðs af því. Þótt aðeins væri verið að fara frá Hala að Hrollaugsstöðum þá gastu alltaf bent á eitthvað markvert á leiðinni. Oft fórum við með þér í smalamennsku þar sem þú bentir okkur á hvar við ættum að smala og síðan að standa fyrir. Þessum ferðum fylgdi ætíð hafsjór af fróðleik. Þú varst mikill áhugamaður um frjálsar íþróttir og hvatamaður að því að þær voru stundaðar í sveitinni. Okkur er það minnisstætt þegar þú kenndir okkur Fosbury-stílinn í hástökki svo og aðra tækni í ýmsum frjálsíþróttagreinum. Áhugi þinn við að fara með okkur á íþróttaæfingar og íþróttamót var mikill og þú tókst alltaf virkan þátt í mótshaldi. Við búum að því enn þann dag í dag að hafa fengið að taka þátt í þessu með þér. Við viljum þakka þér samfylgdina í gegnum árin og biðjum guð að blessa þig. Elsku amma, þú hefur misst góðan mann og margs er að minnast. Við vonum að góðar minningar hjálpi þér í sorg þinni.

Ingibjörg og Bjarndís.

Það var á sjöunda afmælisdegi Sæbjörns, eftir að við komum heim úr fjallinu og hittumst öll fjölskyldan í sundlauginni í glaða sólskini að ég frétti að þú, Torfi, værir dáinn. Auðvitað vissi ég að þú hafðir verið veikur síðustu vikuna en samt kom mér fréttin í opna skjöldu. Ég hafði einmitt verið að hugsa svo mikið til þín þegar ég var á skíðum með litlu krakkana og glöð yfir að hafa þau. Þú veist, ef það væri ekki afi, þá væru ekki börn! Ég man með þakklæti eftir sumrunum á Hala og þessari einstöku gestrisni sem mér fannst þið Ingibjörg sýna mér. Hvernig þú varst alltaf við matarborðið að bjóða okkur að fá okkur meira af því sem Ingibjörg hafði svo listilega eldað og hvetja mig sérstaklega að láta ekki framhjá mér fara slíkt góðgæti sem feitt hrossaket með sméri ef það var á boðstólum.

Skemmtilegt var líka að fá að fara með á Lónið og veiða. Þér hefur eflaust fundist ég vera hálflélegur háseti af því að ég skildi ekki hvernig ég átti að róa og halda stefnu á Breiðabólstaðabæinn þegar ég snéri bakinu í hann. En oft veiddum við mikið. Seinna þegar þú fórst ekki lengur sjálfur út að veiða, vildir þú alltaf fá að vita hversu mikið hafði veiðst og í hvaða net, og svo skráðir þú tölurnar í dagbókina.

Það var líka gaman að ræða við þig um gönguleiðirnar í grenndinni. Ef ég ætlaði mér að fara ein í gönguferðir lýstir þú fyrir mér mjög nákvæmlega hvert gott væri að fara og útskýrðir kennileitin og staðarheitin. Svo vildir þú fá fréttir þegar heim var komið og ég lærði fljótt að það var fréttnæmt ef maður hafði séð kindur og hversu margar á ákveðnum stöðum. Eitthvað sem mér hafði ekki dottið í hug að taka eftir áður.

Þú gast sagt mjög skemmtilega frá og tókst þér góðan tíma til þess og vandaðir málið alltaf afar vel. Mikið fannst mér það traustvekjandi. En satt að segja var ég alltaf svolítið feimin við að tala við þig af því ég vissi að sumt sem ég segði væri svo hroðalega vitlaust. En gaman var að hlusta á þig. Ein eftirminnilegasta ræða sem ég hef heyrt var þegar þú þakkaðir Ingibjörgu í sjötugsafmælinu þínu fyrir allt sem gerði lífið þitt gæfuríkt. Það fannst mér svo innilega fallega sagt og lýsir vel þeim kærleika og virðingu sem ríkti milli ykkar Ingibjargar.

En núna er kominn tími til að kveðja. Alltaf hefur mér nú fundist hálf vandræðalegt að kveðja þig, af því að ég vissi aldrei á hvorn vangann þú ætlaðir að kyssa mig. Núna eru vandræðin ennþá meiri.

Elsku Ingibjörg, það er sárt að kveðja Torfa. En hann er jú í kringum okkur í öllum ykkar börnum og barnabörnum og ljúf sé minning hans.

Anna María og börnin.

Torfi á Hala, sá mæti maður, hefur nú kvatt þessa jarðvist.

Ég læt öðrum það eftir að rekja æviferil og gera grein fyrir lífshlaupi Torfa en langar aftur á móti að rifja upp samleið mína með honum sem tengdist félagsmálastörfum hans. Þeim góðu og jákvæðu minningum er vert að halda á lofti og minnast með nokkrum orðum. Ég átti því láni að fagna að kynnast Torfa strax á unglingsárum mínum. Það var sameiginlegur áhugi okkar á íþróttum og ungmennafélagshreyfingunni sem dró okkur saman. Hann var þá leiðtoginn í ungmennasambandinu en ég íþróttahetja, rekinn áfram af barnslegu keppnisskapi, ódrepandi áhuga og draumum um mikil íþróttaafrek.

Ekki brást það að Torfi mætti á íþróttamót með sitt fólk úr Suðursveitinni og jafnframt til að stjórna mótum eða leggja mótshöldurum lið. Sem mótsstjóri hafði hann hvorki hátt né fór með bægslagangi og tímaáætlanir voru ekki alltaf heilagar. En hann sá til þess að mótin voru haldin, ungdómnum til óblandinnar ánægju. Það var með ólíkindum hvað Torfi gat verið rólegur, sama á hverju gekk. Eftir á að hyggja finnst mér þetta hafa verið einn af bestu mannkostum Torfa sem varð til þess að hann flestum öðrum hafði betra úthald til að sinna þessum málum og skapaði afslappað andrúmsloft í öllum metingnum.

Það vakti oft undrun þegar mætt var á Úlfljótsmótin hvað keppnishópurinn hans Torfa úr litlu Suðursveitinni var stór og vel skipaður. Enda máttum við þéttbýlisbúarnir oft lúta í lægra haldi í keppni um verðlaun og stig. Það var ekki alltaf auðvelt að sætta sig við slíka ósigra en þó bætti úr skák að keppnisfólkið og leiðtogi þeirra kunnu jafnvel að taka sigrum sem ósigrum. Það var áberandi hversu góður íþróttaandi var í hópi þeirra Vísismanna og hann kom fram jafnt utan vallar sem innan. Þetta skildi ég síðar þegar ég var sjálfur var undir stjórn Torfa í keppnum við önnur héruð. Torfi var vakinn og sofinn að reyna að hvetja okkur til dáða og fá okkur til að stunda æfingarnar af meiri samviskusemi. Eitt sumarið var ég á humarvertíð og lítill tími til íþóttaæfinga enda löndunarstoppin stutt og nokkra daga útivera í hverjum túr. Þegar ég kom í land voru ósjaldan skilaboð frá Torfa varðandi æfingar og mót. Þannig hélt hann áhuganum við án þess að pressan yrði of mikil því Torfi þekkti mörkin eins og sannast á löngum ferli hans með börnum og unglingum. Ég verð Torfa ævinlega þakklátur fyrir að eiga þátt í að beina mér inn á þessa braut sem var þroskandi og holl fyrir óharðnaðan ungling. Þó ég hafi hér mest rakið kynni mín af Torfa varðandi samskipti okkar í félagsmálum þá verður hans fyrst og fremst minnst sem góðs skólamanns. Hann átti óvenju langan og farsælan feril að baki við kennslu og sem skólastjóri. Þar nutu sín fjölþættir kostir hans og það segir sig sjálft að það þarf þolinmæði, lagni og væntumþykju til að umgangast ungviðið á þann hátt sem hann gerði.

Það lýsir Torfa vel að allt frá fyrstu kynnum fannst manni hann alltaf vera jafningi okkar ungmennanna og þar er kannski lykillinn að góðu og farsælu samneyti hans við börn og unglinga í leik og starfi á langri lífsleið.

Það er stundum talað um hógværð og lítillæti Skaftfellinga. Í þeim skilningi var Torfi ekta Skaftfellingur eins og hann átti kyn til.

En Torfi var ekki einn á báti í félagsvafstrinu og skólanum og það væri ósanngjarnt að minnast starfa hans án þess að geta um stuðning Ingibjargar konu hans og áhuga hennar á öllum hans verkefnum. Sömuleiðis tóku börnin þeirra strax virkan þátt í íþrótta- og félagsstarfinu um leið og þau höfðu þroska til og voru ávallt framarlega í afreksmannahópi héraðsins. Það er væntanlega fullt starf að ala upp níu fjörkálfa en alltaf höfðu þau hjónin samt tíma til að sinna öðrum. Samheldni þeirra fór ekki framhjá neinum sem með fylgdist; einlægnin var ósvikin og smitaði út frá sér.

Það er hverju samfélagi ómetanlegt að eiga svona hugsjónafólk sem ekki spyr um tíma eða laun þegar leggja á góðum málum lið. Sama gildir um önnur félags- og framfaramál í litlum einangruðum samfélögum eins og var í Austur-Skaftafellssýslu. Torfi lagði drjúgan skerf til fjölmargra mála og ég leyfi mér á kveðjustund að flytja honum þakkir okkar íbúa og samferðamanna í héraðinu um leið og ég sendi fjölskyldu hans einlægar samúðarkveðjur.

Albert Eymundsson.

Með Torfa á Hala kveður eftirminnilegur maður með mikið og farsælt ævistarf að baki. Hann ólst upp á landsþekktu menningarheimili, þar sem faðir hans og afi höfðu búið og sett svip á umhverfi sitt. Torfi hélt starfi þeirra áfram, búinn ágætum hæfileikum, aflaði sér staðgóðrar menntunar, fyrst við Alþýðuskólann á Laugarvatni 1935-36 og síðar við Kennaraskólann þaðan sem hann útskrifaðist 1942. Hafði hann áður stundað farkennslu eitt ár í heimabyggð og tvo vetur austur í Álftafirði. Nýútskrifaður réðst Torfi norður í Svarfaðardal þar sem hann kenndi í þrjá vetur 1942-45. Þar kynntist hann sínum lífsförunaut, Ingibjörgu Zóphóníusardóttur frá Hóli í Svarfaðardal. Flutti hún með bónda sínum um landið þvert að Hala þar sem Torfi gerðist skólastjóri 1945 við nýstofnaðan heimavistarskóla á Hrollaugsstöðum í Suðursveit. Á Hala áttu þau síðan heima alla tíð. Börn þeirra urðu tíu, eitt lést nýfætt en níu eru uppkomin, mannvænlegur hópur sem starfar að meirihluta heima í héraði, frændgarðurinn með tengdafólki orðinn bæði stór og gildur.

Torfa verður lengi minnst sem skólamanns og farsæls uppalanda. Í fjörutíu ár 1945-1985 stóð hann við stjórnvölinn í skólanum á Hrollaugsstöðum og útskrifaði þaðan fjölda nemenda þótt hver árgangur væri ekki ýkja fjölmennur. Þá var þetta heimavistarskóli og þau Torfi og Ingibjörg héldu þar til vetur hvern með börnum sínum og veittu skólaheimilinu forstöðu.

Lengst af mun nemendahópnum hafa verið tvískipt og var hvor hópur hálfan mánuð í senn í skóla en heima þess á milli. Félagsheimili sveitarinnar var frá upphafi tengt skólanum á Hrollaugsstöðum og skólastjórinn var jafnframt forustumaður í æskulýðs- og íþróttastarfi í sveitinni um áratugi. Torfi var í senn þéttur á velli og þéttur í lund, með rólegt fas og yfirbragð en léttur og skemmtinn þá hann vildi það við hafa og þá ekki síst í hópi ungmenna. Frásagnarhæfileika hafði hann fengið í heimanmund og var prýðilega ritfær. Eftir hann liggur fjöldi greina og ritgerða og eru meðal annars eftirminnilegar frásagnir hans og föður hans af sjósókn í Suðursveit og víðar við sandana en þær birtust í tímaritinu Skaftfellingi.

Torfi var í félagsbúi með Steinþóri föður sínum til 1966 og stóð fyrir hefðbundnum búskap á Hala ásamt fjölskyldu sinni til 1975 að synir hans, Fjölnir og Steinþór, tóku við ásamt tengdadætrum. Það kemur utansveitarmönnum nokkuð á óvart að búmannsáhugi Torfa beindist ekki síður að sjósókn en landbúnaði. Þótt róðrardagar væru að jafnaði fáir úr Suðursveit var útræði frá Bjarnahraunssandi og síðar með hjólabátum af Breiðabólsstaðarfjörum bæði drjúgt búsílag á mannmörgum heimilum og krydd í tilveruna. Skemmtilegir og fróðlegir annálar úr Borgarhafnarhreppi sem Torfi ritaði um árabil í Skaftfelling bera þessu vitni. Annáll hans 1984 hefst með þessum orðum: "Ef sett er jafnaðarmerki milli "logn" og "gott veður" þá var gott veður í Suðursveit árið 1984 og veðrið lék við allt líf. Það var fágæt stilla. Aðeins tvo daga sást sjór rjúka og þó með lítillæti ..."

Félagsmálaáhugi Torfa tók einnig til stjórnmála. Hann fylgdi sósíalistum og Alþýðubandalaginu að málum og skipaði nokkrum sinnum sæti framarlega á framboðslista þess til Alþingis í Austurlandskjördæmi. Fyrir þingmann var gott að eiga hauk í horni þar sem Torfi var en vegna aldursmunar urðu samskipti mín þó meiri við afkomendur hans og tengdadóttur sem tók við skólastjórninni á Hrollaugsstöðum. Til Torfa sótti ég margs konar fróðleik um heimabyggðina, þar á meðal um fjalllendi Suðursveitar og gengnar kynslóðir.

Við fráfall Torfa á Hala sendum við Kristín innilegar samúðarkveðjur til Ingibjargar, barnahópsins stóra og alls venslafólks. Eftir stendur minningin um traustan og mætan mann.

Hjörleifur Guttormsson.

Þorbjörg Arnórsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.