Þór Whitehead sagnfræðiprófessor.
Þór Whitehead sagnfræðiprófessor.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þór Whitehead sagnfræðiprófessor gerir í samtali við Ásgeir Sverrisson grein fyrir þeim erfiðu úrlausnarefnum sem íslenskir stjórnmálamenn stóðu frammi fyrir þegar leið frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

MEÐ hernámi Breta í maí 1940 hafði sannast að Ísland gat hugsanlega fallið erlendu stórveldi í skaut. Hlutleysisstefnan, sem fylgt hafði verið af nánast trúarlegri sannfæringu frá því lýst var yfir fullveldi 1918 hafði ekki reynst raunhæf. Vaxandi spenna var í samskiptum austurs og vesturs og öll utanríkisviðskipti í óvissu. Íslendingar höfðu hvorki mannafla né fé til að reka flugvellina, sem Bandamenn höfðu lagt hér. Margir töldu að þriðja heimsstyrjöldin væri skollin á er ófriður blossaði upp í Kóreu 1950. Íslendingar brugðust þá við ófriðarhættunni með því að gera varnarsamning við Bandaríkin.

Samfélag, sem lengi hafði talið sig í öruggri fjarlægð frá umheiminum, stóð frammi fyrir gjörbreyttum veruleika, eins og sannast hafði á heimsstyrjaldarárunum. Dirfsku og stjórnkænsku var þörf bæði í samskiptum við erlend ríki en ekki síst í samskiptum ráðamanna við þjóðina sem nýverið hafði fagnað langþráðum áfanga með lýðveldisstofnun.

Saga Íslands á þessum viðsjálu tímum er að sönnu heillandi viðfangsefni. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, er manna fróðastur um hana og hefur leitast við að setja hana í samhengi við átök stórveldanna í kalda stríðinu. Morgunblaðið leitaði því til Þórs í þeim tilgangi að fá yfirlit yfir þá þróun sem leiddi til varnarsamningsins við Bandaríkin.

Hlutleysi ógnað

"Hlutleysi Íslands," segir Þór, "var alltaf nátengt þjóðernisstefnunni. Í huga Íslendinga var það raunar ein hliðin á sjálfstæði landsins, yfirlýsing um að þeir ætluðu sér ekki aftur að verða öðrum þjóðum bundnir."

Þór segir að jafnframt hafi ráðamenn lagt "raunsætt mat á stöðu landins". Ísland lægi fjarri meginlandi Evrópu, vígvöllum, ófriði og hryllingi þar. Úthafið væri þjóðinni skjól og Ísland hefði litla eða enga hernaðarþýðingu. Breski flotinn drottnaði á Norður-Atlantshafi og "Ísland væri þess vegna á áhrifasvæði Breta og nyti óbeinnar varnar flotans". Þetta ástand átti eftir að breytast og það gerðist snögglega. Á fjórða áratugnum taka nasistar völdin í Þýskalandi og hefja útþenslu.

"Á þessum tíma er flugtækni í örri þróun," segir Þór Whitehead. "Hér lenda hvað eftir annað flugvélar stórþjóðanna sem eru að kanna leiðir yfir hafið. Fjarlægðir eru að styttast og samskipti landa að breytast til hins verra vegna þess að tvö af öflugustu ríkjum Evrópu, Þýskaland og Rússaveldi, eru undir grimmri alræðisstjórn. Flugvélar geta ráðist á herskipaflota langt úti í hafi og hugsanlega borið hingað her manns til að hremma landið og nota það til loftárása á siglingaleiðir Atlantshafs."

Þannig hefur Ísland í raun öðlast hernaðarmikilvægi á skömmum tíma. Vernd breska flotans virðist ekki jafnsterk og áður.

Þór Whithead segir að íslenskir ráðamenn hafi almennt forðast að opinbera áhyggjur sínar af þessum breytingum og almenningur tæpast skynjað að þær væru í vændum. "Á þessu er að vísu ein undantekning, þegar litið er til stærstu stjórnmálaflokkanna. Jónas Jónsson frá Hriflu, formaður Framsóknarflokksins og utanríkismálanefndar Alþingis, segir fullum fetum að lýðræðisríkin verði að reiða sig á vígbúnað Breta til mótvægis gegn herveldi Hitlers. Það er óneitanlega merkilegt að formaður utanríkismálanefndar þingsins skuli tala þannig á sama tíma og Ísland fylgir stefnu "ævarandi hlutleysis"."

Ráðamenn óttuðust ekki eingöngu hættu utan frá. Þór Whitehead segir að þeir leiði mjög hugann að því, þegar dregur nær heimsstyrjöld, að í landinu starfi flokkar kommúnista og nasista (íslenskra og þýskra) sem kunni að vera tilbúnir að ganga erinda flokksvelda sinna, ef þau seilist hingað. Á sama tíma skýrist landvinninga- og árásarstefna Adolfs Hitlers og stríðshætta fer vaxandi.

Ráðamenn taka að huga að ráðstöfunum til að efla öryggi landsins, m.a. með því að leita eftir nýju sambandi og viðskiptum við Bandaríkin. Lögregla er efld og komið á hana hernaðarsniði. Þór Whitehead segir, að Þjóðstjórnin svonefnda undir forystu Hermanns Jónassonar, Framsóknarflokki, hafi líklega ætlað að koma hér á fót nokkur hundruð manna öryggisliði sjálfboðaliða með föstum kjarna í lögreglunni.

Ísland hernumið

Heimsstyrjöld skellur á 1939. Þjóðverjar hertaka Danmörku og Noreg í apríl 1940 og Íslendingar gera sér ljóst að nú getur allt gerst; landið er óvarið með öllu og ekki dugði breska flotaverndin Noregi. Hitler fýsir að hremma landið, en breskt herlið verður á undan og gengur fyrirvaralaust á land í maí 1940. "Forsenda þess að Þjóðstjórnin tekur þegjandi og hljóðalaust upp samstarf við breska hernámsliðið er auðvitað sú, að hún er sannfærð um, að sjálfstæði og frelsi Íslendinga sé undir því komið að Þjóðverjar nái ekki landinu undir sig. Ráðherrar gæta þess hins vegar að sem minnst beri á samstarfi stjórnarinnar við Breta. Á þessum tíma lýsa íslenskir ráðamenn aldrei yfir því að hlutleysið hafi reynst gagnslaust. Gagnvart þjóðinni er allt óbreytt og einkum er lögð áhersla á að samskipti við erlenda hernámsliða geti ógnað göfugri menningu og þjóðerni Íslendinga. Fáir minnast á ógnina af Þýskalandi Hitlers 1940-1941 nema jafnaðarmenn í Alþýðublaðinu."

Árið 1941 gera Íslendingar herverndarsamning við Bandaríkin, en breski flug- og sjóherinn situr þó um kyrrt. Þór Whitehead segir að herverndarsamningurinn hafi í raun jafngilt efnislegri yfirlýsingu um að hlutleysi hafi brugðist við að tryggja lífshagsmuni þjóðarinnar í stríði. Þjóðverjar viðurkenndu að vísu enn hlutleysi Íslands en þeir höfðu jafnframt lýst því yfir að landið væri á hafnbannsvæði og höfðu þannig farið nærri því að lýsa beinlínis yfir stríði á hendur Íslendingum.

"Ég tel að þessi breyting, fráhvarfið frá hlutleysi, hafi þó verið gerð af hálfum hug. Almennt fer því fjarri að ráðamenn þjóðarinnar lýsi stöðunni eins og hún raunverulega er. Ríkisstjórnir þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af vörnum landsins og utanríkisviðskiptum, sem blómstra ekki síst vegna herverndarsamningsins. Stjórnmálamenn geta þess vegna einbeitt sér að innanlandsmálum, snúið aftur í sinn gamla heim og látið sem lítið eða ekkert hafi breyst í utanríkismálum.

Fleira kemur til. Mikil þjóðernisvakning fylgir stofnun lýðveldis 1944 og andrúmsloftið í samfélaginu leyfir tæplega umræðu um kosti þess og galla að segja endanlega skilið við hlutleysi. Ráðamenn hér á landi halda líka í þá von að Íslendingar geti endurvakið hlutleysið í nýrri mynd ef stórveldunum takist að koma á alþjóðlegu öryggiskerfi í nafni Sameinuðu þjóðanna."

Vandinn mikli í stríðslok

Ákvarðanir um íslensk öryggismál verða ekki flúnar, þegar frá líður. Undir stríðslok 1945 eru Bandaríkjamenn komnir að þeirri niðurstöðu að þeir þurfi hér nauðsynlega á herstöðvum að halda til langs tíma, helst 99 ára. Þær eiga einkum að nýtast flughernum, en einnig er talin höfuðnauðsyn á því að hindra að fjandmannaríki, Sovétríkin, geti náð Íslandi undir sig og notað landið til árása á siglingaleiðir og borgir Norður-Ameríku. Bandaríkjamenn leita til Ólafs Thors, forsætis- og utanríkisráðherra (Sjálfstæðisflokki), en hann biður þá að hreyfa ekki herstöðvamálum að svo stöddu og hafa samráð við Breta, helstu viðskiptaþjóð Íslendinga.

Aðstæður innlands eru ráðamönnum flóknar og erfiðar, að sögn Þórs Whitehead. "Sósíalistaflokkurinn, sem kommúnistar ráða, hefur komist í lykilstöðu eftir þingkosningar 1942 og ný ríkisstjórn varð ekki mynduð 1944 nema með þátttöku flokksins. Að auki hafa sósíalistar náð forystu í verkalýðshreyfingunni og Ólafur Thors þarf á stuðningi hennar að halda við "nýsköpunina"; endurnýjun á framleiðslutækjum þjóðarinnar eftir áralanga stöðnun í kreppunni miklu."

Þór telur, að við þessar aðstæður hafi íslenskum stjórnmálamönnum verið ófært að marka nýja utanríkisstefnu og semja við Vesturveldin um varnir og viðskipti.

"Ólafur Thors stóð frammi fyrir margþættum vanda. Hann vissi, að sósíalistar myndu aldrei samþykkja varnarsamning við Vesturlönd nema með samþykki og þátttöku Sovétríkjanna. Þar að auki er þjóðin tæplega búin undir breytingu á utanríkisstefnunni eftir þjóðernisvakningu lýðveldisársins og áralangan málflutning um að Íslendingum stafi ógn af dvöl erlends herliðs í landinu, þó að raunar megi vel hugsa sér öryggissamning á þessum tíma án hersetu."

"Þegar horft er út fyrir landsteina í stríðslok," segir Þór ennfremur, "sýnist mörgum stjórnmálaforingjum þó ekki blása byrlega fyrir endurreisn hlutleysis. Sovétríkin færa alls staðar út landamæri sín og völd og beita harðræði í hernumdu löndunum í Mið- og Austur-Evrópu. Einnig krefst sovétstjórnin landsvæða og bækistöðva af Norðmönnum. Þetta þykir benda til að Stalín ætli sér ítök á Atlantshafi.

Nú vita Íslendingar að bækistöðvar bandamanna hér höfðu ráðið úrslitum í átökum á Atlantshafi. Þetta var margstaðfest af hálfu forystumanna vesturveldanna sem töldu líka að flugleiðin um landið yfir Atlantshaf hefði verið bandamannaherjunum á meginlandinu ómetanleg við loftflutninga og ferjuflug. Þess vegna leikur nú ekki lengur neinn vafi á því 1945 að Ísland hafi öðlast gríðarlegt hernaðarmikilvægi. Því mátti ætla að einræðisríki í landvinningaham hlyti að sækjast hér eftir ítökum, ef það sæi kost á því á friðartímum, og reyndi að ná landinu á sitt vald í stríði. Jafnframt varð ljóst að vesturveldin hlytu að hernema landið í eigin þágu ef ný styrjöld hæfist. Þetta er algjört grundvallaratriði sem menn verða að hafa hugfast þegar farið er yfir þessa sögu. Íslenskir stjórnmálamenn töldu sig vita fyrir víst, að landið fengi undir engum kringumstæðum að vera óáreitt ef stríð brytist út. Þannig gæti einnig farið ef harka hlypi í valdabaráttu stórveldanna, jafnvel þótt "friður" ríkti.

Sósíalistar sáu þessi mál í allt öðru ljósi, enda tengdir alþjóðahreyfingu kommúnista, sem ráðstjórnin réð fyrir. Raunar var það ein aðalástæðan til þess að sósíalistar tóku þátt í nýsköpunarstjórninni 1944, að þeir vildu koma í veg fyrir samninga við vesturveldin um öryggismál og bækistöðvar á íslensku landi."

Annar vandi íslenskra ráðamanna var rekstur flugvallanna í Reykjavík og Keflavík. Þór segir að flugvallagerð Bandamanna á stríðsárunum hafi vissulega verið fagnaðarefni. Íslendingar hafi hins vegar hvorki verið undir það búnir að reka flugvellina né verja þá. Keflavíkurflugvöllur hafi verið einn stærsti flugvöllur í heimi í stríðslok.

"Flugvellirnir auka á öryggisvandann, því að þeir opna landið enn frekar fyrir skyndiárás. Nú er reyndar ljóst, að flugvallaleysið í upphafi stríðsins, sem stafaði af fátækt þjóðarinnar á kreppuárunum, bjargaði Íslendingum að öllum líkindum frá innrás Hitlers haustið 1940."

Í utanríkisviðskiptum blasir líka við mikill vandi í stríðslok. Landið var á barmi gjaldþrots þegar styrjöldin hófst. Þetta ástand hafði gjörbreyst á stríðsárunum, hagstæður markaður hafði galopnast í Bretlandi og með samningum við Bandaríkjamenn höfðu Íslendingar tryggt sér næsta ótakmarkaðan innflutning á varningi meðan aðrar Evrópuþjóðir liðu skömmtun, sáran skort og hungurdauða á stríðsárunum. "Með samstarfi við Atlantshafsveldin", segir Þór Whitehead, "brutust Íslendingar loks úr kreppu og nutu mestu velmegunar í sögu þjóðarinnar. Nú er ráðamönnum sá vandi á höndum hvernig tryggja megi áframhald þessara viðskipta og velmegunar. Uppi voru hugmyndir um að leysa málið með sama hætti og í herverndarsamningnum við Bandaríkin 1941, þ.e.a.s. að vesturveldin veittu Íslendingum viðskiptaívilnanir fyrir hernaðaraðstöðu."

Bandaríkjamenn biðja um herstöðvar

Haustið 1945 bera Bandaríkjamenn upp í trúnaði tillögu við Íslendinga um að taka hér á leigu herstöðvar til langs tíma þvert á óskir Ólafs Thors og Bretastjórnar.

"Eftir mikið þóf," segir Þór Whitehead, "lýsir ríkisstjórn Íslands yfir því að hún sé reiðubúin til viðræðna við Bandaríkin um samning um herstöðvar til skamms tíma en aðeins á grundvelli öryggiskerfis Sameinuðu þjóðanna sem menn binda þá nokkrar vonir við. Þessu hafna Bandaríkjamenn og ímynda sér að Ólafur einn standi í vegi fyrir óskum sínum, vegna þess að hann vilji tryggja völd sín með stuðningi kommúnista.

Eftir að Bandaríkjamenn bera hér upp tillögu sína skera sósíalistar upp herör gegn öllu varnarsamstarfi við Vesturlönd ásamt hlutleysissinnum úr öðrum flokkum (þjóðvarnarmönnum) sem eru sammála sósíalistum að því leyti að neita eigi Bandaríkjamönnum um herstöðvar á friðartímum. Alþingiskosningar eru framundan 1946 og nú hefst kosningabarátta. Þar hafa sósíalistar frábæra vígstöðu í upphafi; þeir einir hafa lýst yfir algjörri andstöðu við herstöðvaleigu til langs tíma á meðan enginn hinna flokkanna treystir sér til að marka afdráttarlausa stefnu í öryggis- og varnarmálum vegna þess að samningsgrundvöllur við vesturveldin virðist enginn vera sökum kröfuhörku Bandaríkjastjórnar. Í krafti þessarar vígstöðu knýja sósíalistar aðra stjórnmálaflokka til að lýsa yfir því, að þeir muni aldrei samþykkja herstöðvar á friðartímum á íslensku landi.

Bandaríkjamenn taka nú loks að átta sig á því hvílík mistök þeir hafa gert og hve mjög þeir hafa veikt stöðu sína í landinu. Þeir draga því mjög úr óskum sínum. Nýsköpunarstjórnin starfar áfram eftir kosningar og samningar hefjast. Hér ber að leggja áherslu á, að það voru Bandaríkjamenn sjálfir sem höfðu knúið fram þessa þróun mála því þeim stóð til boða að hafa hér áfram aðstöðu um óákveðinn tíma 1945. Aðalherafli þeirra hafði horfið héðan 1943, en eftir sátu í landinu í stríðslok nokkur hundruð bandarískir og breskir hermenn sem flestir störfuðu á flugvöllunum í Keflavík og Reykjavík. Allir skildu að herliðið þyrfti tíma til að undirbúa brottför sína, miklir loftflutningar voru um landið eftir að stríðinu lauk í Evrópu og Íslendingar þurftu að fá næði til að geta tekið við flugvallarekstrinum," segir Þór Whitehead.

Málum miðlað - Keflavíkursamningur

Þessu ferli lauk haustið 1946 með Keflavíkursamningi. Sósíalistar slitu stjórnarsamstarfinu hans vegna og sökuðu Ólaf Thors og stuðningsmenn hans úr Alþýðuflokki og Framsóknarflokki óspart um landráð. Þór leggur áherslu á að samningurinn hafi verið hálfgert kraftaverk eftir það sem á undan var gengið. Hann hafi verið málamiðlun milli Bandaríkjamanna og Íslendinga. Bandaríkjamenn hafi þurft að kalla heim allan liðsafla sinn og herverndarsamningurinn frá 1941 hafi fallið úr gildi. Bandaríkjamenn hafi á hinn bóginn fengið tiltekin réttindi á Íslandi: Bandarísku flugfélagi hafi verið falið að reka Keflavíkurvöll með borgaralegu starfsliði en stefnt hafi verið að því að Íslendingar tækju við rekstrinum með hjálp Bandaríkjanna.

"Ólafur Thors og samherjar hans halda því fram, að Keflavíkursamningur sé lítið annað en sáttmáli um flugvallarrekstur. En undir niðri vona menn að samningurinn geti orðið trygging fyrir öryggi landsins og utanríkisviðskipti; Bandaríkjamenn geti notað aðstöðu sína á Keflavíkurflugvelli til að hafa hér tiltækt herlið ef landinu sé ógnað. Vesturveldin launi Íslendingum að auki þessa aðstöðu með því að styðja utanríkisverslunina. Meginland Evrópu var að nokkru í rúst eftir heimsstyrjöldina og kaupgeta þar lítil.

Hlutleysi er ekki að fullu hafnað, en Jónas Jónsson frá Hriflu segir um Keflavíkursamning að hann tryggi, að Íslendingar geti kallast vestræn þjóð. Íslendingar verði sjálfs sín vegna að hafa gott samstarf við Atlantshafsveldin sem hér eigi lífshagsmuna að gæta. Einangrun, hvað þá fjandskapur við nágrannaríkin, hæfi ekki hnattstöðu, stjórnarfari, viðskipta- og öryggishagsmunum Íslendinga."

Varnarleysi á viðsjártímum

Nú gengur í garð tímabil þegar reynir á öryggisgildi Keflavíkursamnings. Sovétmenn herða tök sín á þjóðunum austan járntjaldsins og kommúnistar ræna völdum í Tékkóslóvakíu í ársbyrjun 1948. Þór segir:

"Þetta reynist vera mjög mikilvægur atburður sem almennt er talinn sönnun þess að kommúnistar í öllum löndum séu tilbúnir að gegna hlutverki svokallaðrar fimmtu herdeildar Sovétríkjanna. Í öðru lagi er þessi viðburður talinn merki um að Sovétmenn séu að blása til nýrrar sóknar í Evrópu með liðsinni kommúnista. Þá virðist stríðshætta magnast, þegar Stalín leggur bann við öllum landflutningum vesturveldanna til Berlínar."

Þór leggur áherslu á að viðhorf íslenskra ráðamanna hafi mótast af reynslu þeirra á styrjaldarárunum og útþenslu Hitlers. Valdaránið í Tékkóslóvakíu hafi af þeim sökum haft mikil áhrif á þá. En fleira kom til.

"Vorið 1948 birtist mikill floti sovéskra fiskiskipa við strendur Íslands. Íslendingar taka því að finna fyrir valdi Sovétríkjanna á sama tíma og stríðshætta eykst. Hundruð sovéskra sjómanna eru við strönd Íslands, hér eru engar varnir og íslenskir ráðamenn og vestrænir sendiherrar óttast að vopnað lið gangi á land úr sovéska fiskiflotanum ef til átaka dragi. Miklar sögur fara af njósnum Rússa og erfitt að dæma um sannleiksgildi þeirra."

Enn á ný vísar atburðarásin til reynslu úr heimsstyrjöldinni síðari. Þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku opnuðust þar lestarlúgur sakleysislegra þýskra flutningaskipa og út streymdi herlið sem talið var að hefði notið mikilvægs stuðnings fimmtu herdeildarmanna. Einnig ber að hafa í huga ógnvænlega reynslu sumra íslenskra ráðamanna, þegar hér skaut skyndilega upp flotadeild að morgni 10. maí 1940 og enginn vissi hvort þar voru Þjóðverjar eða Bretar á ferð. "Menn vildu sannarlega ekki þurfa að endurtaka óvissu þessarar morgunstundar."

Ísland gengur í Atlantshafsbandalagið

Sumarið 1948 kannar Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, hvaða áætlanir Bandaríkjamenn hafi um að nota herflug um Keflavíkurflugvöll til varnar landinu á þessum óvissutímum. Bjarni fær óljós svör, enda virðast engar slíkar áætlanir liggja fyrir í Washington. Þetta kemur honum áreiðanlega á óvart og ríkisstjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti jafnaðarmannsins Stefáns Jóhanns Stefánssonar tekur að ræða hvort gera þurfi nýjan varnarsamning við Bandaríkjamenn. Framsóknarmenn virðast hafa verið tregastir til aðgerða.

Um haustið hverfur sovéski flotinn af miðunum.

"Nokkru síðar," segir Þór Whitehead "fá Íslendingar boð frá nokkrum ríkjum sem eru að ræða stofnun Atlantshafsbandalags (NATO). Í stað þess að þurfa að leita eftir hervernd Bandaríkjanna bauðst nú sá kostur að tryggja öryggi landsins í félagi við Norður-Ameríkumenn og Vestur-Evrópuþjóðir, þar á meðal norrænu frændþjóðirnar. Von ráðamanna er sú, að samtakamáttur Atlantshafsbandalagsríkjanna geti bægt stríðshættunni frá og veitt landinu þá óbeinu vernd sem Keflavíkursamningur virðist ekki megna að veita því."

Það verður úr, að Ísland gerist eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins í apríl 1949. Hlutleysinu er endanlega hafnað, en aðildin þó bundin því skilyrði að hér verði enginn her á friðartímum og Íslendingar þurfi ekki að hervæðast. Bandalagið fær hins vegar vilyrði um aðstöðu í landinu á ófriðartímum svipaða þeirri sem Bandamenn höfðu hér á stríðsárunum.

Árásarhætta metin

Þór vekur athygli á, að í viðræðum um inngöngu í Atlantshafsbandalagið hafi íslensk ráðherranefnd, sem flaug til Washington, spurst fyrir um ársásarhættu í styrjöld.

"Mat bandarískra herforingja á þessari hættu var allmikilvægt.

Herforingjar telja líklegt að Sovétmenn reyni að fremja skemmdarverk á flugvöllum og jafnvel hertaka þá. Eindregnir kommúnistar kunni að hjálpa Sovéthernum. Bandaríkin myndu bregðast við hertöku af öllu afli og aldrei líða Sovétmönnum að halda hér fótfestu."

Nú er upplýst að sovétstjórnin gerði síðar mjög víðtækar áætlanir um spellvirki og árásir á herbækistöðvar og samgöngumiðstöðvar NATO-ríkja. Þessar áætlanir beindust sérstaklega gegn flugvöllum og vopnabúrum sem nýst gátu bandaríska sprengjuflugflotanum til kjarnorkuárása svo og gegn samgönguleiðum Bandaríkjahers.

"Sovéska öryggislögreglan," segir Þór, "var fyrst til að koma sér upp sérstöku úrvalsliði í þessum tilgangi, en hún studdist einnig við leynideildir kommúnistaflokka í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku sem áttu m.a. að aðstoða Sovétherinn við njósnir og hermdarverk í stríði. Menn hafa nýlega verið að grafa upp sendistöðvar, dulmálslykla og vopn frá þessum fimmtu herdeildarmönnum á meginlandi Evrópu, þ. á m. í hlutlausum ríkjum, eftir bendingum frá landflótta skjalaverði sovésku öryggislögreglunnar. Ekkert verður fullyrt um það hvort Sovétríkin hafi gert áætlanir um strandhögg eða skemmdarverk á Íslandi, en spyrja má: Hvers vegna hefðu Sovétmenn átt að hlífa Keflavíkurflugvelli ef þeir og hjálparmenn þeirra ætluðu á annað borð að ráðast á hundruð mannvirkja í Evrópu og Norður-Ameríku?"

Ef litið er á mikilvægi vallarins í stríðsáætlun Bandaríkjamanna fram að tíma langdrægra eldflauga á sjöunda áratugnum skýrist málið betur, að sögn Þórs.

"Gert var ráð fyrir að Sovétherinn hæfi styrjöld með stórsókn á meginlandi Evrópu. Þar voru varnir litlar sem engar og fámennir herir vesturveldanna áttu að hörfa undan til Rínar og Alpafjalla. Samtímis ætluðu Bandaríkjamenn hins vegar að hefja loftsókn gegn Sovétríkjunum úr ýmsum áttum. Kjarnorkuvopnum yrði beitt til að knýja óvininn til að leita friðar, þó að ekki væru menn mjög vongóðir um að það tækist. Miðstöð þessarar loftsóknar í Evrópu átti að vera á Bretlandi, en jafnframt skyldi aðstaða vera til taks fyrir sprengjuflugflotann í Keflavík. Sú aðstaða gat verið sérstaklega mikilvæg ef Sovétherinn hóf umsátur um Bretlandseyjar eða lagði þær jafnvel undir sig eftir meginlandssóknina. Auk þess var gert ráð fyrir að ferja um Keflavík bandarískar hersveitir á leið til meginlandsins, en sá liðsauki gegndi síðar mikilvægu hlutverki í varnaráætlunum NATO.

Allt sýnir þetta hvers vegna bandarískir herforingjar óttuðust mjög að Sovétmenn létu til skarar skríða gegn Íslandi. Viðvörunarorð þeirra við íslenska ráðherra voru fyllilega í samræmi við bandarískar hernaðaráætlanir sem gengu út frá því, að Sovétherinn hlyti að kappkosta að leggja undir sig óvarðar bækistöðvar á Íslandi. Með því gæti hann truflað loftflutninga Bandaríkjamanna og hugsanlega hindrað loftárásir á heimalandið í vissu þess, að fyrstu dagar og vikur ófriðar gátu ráðið úrslitum í þriðju heimsstyrjöldinni.

Ef ekkert væri gert til varnar hefðu íslenskir ráðamenn þess vegna ærna ástæðu til að óttast skyndiárás Sovétmanna og gagnárás vesturveldanna sem breytt hefði þéttbýlasta hluta landsins í vígvöll með öllum þeim ósköpum sem því fylgdi. Hér á landi vissu menn hvað fólst í sovésku hernámi, jafnvel þótt það stæði stutt. Flestir gerðu sér ágæta grein fyrir morðæði Stalíns."

Íslenskum ráðamönnum var að sjálfsögðu ekki skýrt frá stríðsáætlun Bandaríkjahers, "en hún vekur mesta óhugnað, þegar hugsað er til gereyðingarmáttar kjarnorkuvopna". En Þór Whitehead segir að stjórnvöld hafi samt haft grun um, að Bandaríkjamenn væru að búa sig undir að geta notað Ísland til árása, þegar þeir beittu fjárhagsþvingunum til að knýja fram lengingu brautar á Keflavíkurflugvelli 1948. Bandarísk dagblöð birtu fréttir um mikilvægi Íslands fyrir kjarnorkuflugflotann og "íslenskir sósíalistar héldu því ætíð fram að gera ætti Ísland að "atómstöð" í árásarstríði sem þeir fullyrtu ranglega að Bandaríkjamenn ætluðu að hefja að fyrra bragði". Bjarni Benediktsson gerði Bandaríkjamönnum grein fyrir því 1948 og síðar, að ríkisstjórn Íslands væri algjörlega andvíg því að landið yrði notað til árása.

Þór telur að þetta hafi eflaust litlu breytt um áform Bandaríkjamanna, þar hafi verið meira í húfi en velvild Íslendinga. "En hitt var ríkisstjórninni aftur á móti ljóst, að hernæmu Bandaríkjamenn Ísland gegn mótmælum hennar, og vitað var að það mundu þeir gera í neyð, höfðu ráðherrar alls ekkert um það að segja hvernig landið yrði notað í styrjöld."

Gæsla flugvalla

En hvernig gátu Íslendingar dregið úr hættu á árás á landið með því að ganga í Atlantshafsbandalagið án þess að taka við bandarísku varnarliði? Þetta var ein aðalspurningin sem íslenska ráðherranefndin bar upp við herforingja í Washington áður en ríkisstjórnin tók afstöðu til inngöngu. Þór segir frá:

"Herforingjar töldu mjög brýnt að Íslendingar stofnuðu eins konar varðlið til að halda uppi gæslu á flugvöllum í samstarfi við NATO. Að auki þurfi Íslendingar að taka þátt í gerð varnaráætlana fyrir landið og samhæfa krafta sína og þess liðsafla sem hingað verði sendur í neyð. Þannig geti þeir minnkað hættu á skyndiárás og spellvirkjum. Þetta var nákvæmlega sú hugmynd sem Bretar höfðu lagt fram við Bandaríkjamenn 1944, en þeir höfðu þá hunsað! Framsóknarmenn höfðu einnig viðrað svipaða lausn á varnarmálum vorið 1946 án þess að halda henni á lofti í kosningabaráttunni."

Hvað varð um þessa hugmynd um íslenskt varðlið? Lítið sem ekkert, að sögn Þórs Whitehead. Stuttu eftir inngöngu í NATO urðu hér stjórnarslit, kosningar fóru fram, en ekki tókst að koma á nýrri ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fyrr en í ársbyrjun 1950. Þá tókust menn á við gríðarlegan og uppsafnaðan efnahagsvanda eftirstríðsáranna og töldu sig sjálfsagt hvorki hafa fé né næði til að stofna umdeilt varðlið.

"Bandaríkjamönnum hnykkir því við þegar Bjarni Benediktsson tilkynnir þeim að Íslendingar séu engu að síður ákveðnir í að taka brátt við rekstri Keflavíkurflugvallar. Íslenskt varðlið er ekki ofarlega á dagskrá hjá ríkisstjórninni vorið 1950 og enn síður hefði hún tekið í mál að bandarískur her gætti flugvallarins á friðartímum."

Ófriður í Kóreu, nýr stríðsótti

Í júní 1951 ráðast kommúnistar í Norður-Kóreu skyndilega inn í Suður-Kóreu.

"Kóreustríðið breytir mjög viðhorfi íslenskra ráðamanna," segir Þór. "Hér eins víða annars staðar á Vesturlöndum óttast menn að innrásin í Suður-Kóreu kunni að vera upphafsleikur Stalíns í þriðju heimsstyrjöldinni. Raunar sýna sovésk og kínversk gögn um Kóreustríðið að Kim Il-sung, einræðisherra Norður-Kóreu, hlaut samþykki Stalíns til innrásar sem sovéskir herforingjar skipulögðu. Síðar fékk Stalín Kínverja til koma til liðs við Norður-Kóreumenn, eftir að Bandaríkjamenn blönduðu sér í leikinn. Hann hafði áður sagt að Sovétríkin þyrftu allmörg ár til að búa sig undir óhjákvæmilega styrjöld við vesturveldin, en nú kvað hann margt mæla með því að hefja heimsstyrjöld án tafar, þegar Maó, formaður kínverskra kommúnista, hikaði við að blanda sér í átökin í Kóreu.

Þegar Stalín samþykkti í upphafi innrás í Suður-Kóreu hefur hann líklega séð að framsókn hans í Evrópu hafði verið stöðvuð með stofnun NATO og bandarísku Marshall-hjálpinni (sem bjargaði Íslendingum frá miklum þrengingum). Hann var hins vegar í sigurvímu vegna nýlegrar byltingar kommúnista í Kína og taldi að líkindum að Asía væri orðin vænlegasti vettvangur heimsbyltingarinnar, enda hafði Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagt að Suður-Kórea væri utan varnarlínu þeirra. Sú yfirlýsing kann að hafa verið mjög afdrifarík og sannar hvílík höfuðnauðsyn var á því að sýna staðfestu gagnvart sovétstjórninni til að forðast heimsstyrjöld og kjarnorkubál."

Á meðan ríki Evrópu, innan sem utan Atlantshafsbandalagsins, grípa til varúðarráðstafana vegna stríðshættu sumarið 1950 standa flugvellir á Íslandi opnir og óvarðir. Og enn birtist hér sovéskur fiskifloti. Þór lýsir viðbrögðum Íslendinga:

"Ríkisstjórnin biður Breta og Bandaríkjamenn að halda hér úti herskipum, eins og ráðgert var að gera á hættutímum þegar Ísland gekk í NATO. Herskip koma og fara, en menn eru áfram uggandi. Bandaríski sendiherrann áttar sig á því að breytinga sé að vænta; í fyrsta sinn séu ráðherrar að ræða um það í fullri alvöru að fá varnarlið til landsins samkvæmt skilyrðum sem sett voru við inngöngu í NATO. Almenningsálitið sé líka að breytast í þessa átt.

Vesturveldin hafa áhyggjur af varnarleysi Íslands, en Bandaríkjamenn vilja láta NATO um málið. Bretar biðja þá líka að halda að sér höndum til að spilla ekki fyrir samningum eins og 1945-1946."

Í ágúst 1950 spyr NATO hvernig Íslendingar hyggist tryggja öryggi flugvalla. Um þetta leyti heldur Bjarni Benediktsson á sögufrægan fund í Atlantshafsráðinu í New York og tekur þetta mál upp að fyrra bragði. "Frumkvæði Bjarna var mikilvægt," segir Þór Whitehead. "Íslenska ríkisstjórnin var sjálf búin að ákveða að nú væri landvarna þörf.

Hermálaráðgjafar leggja til við Bjarna Benediktsson að um 1.200 manna varnarlið verði sent hingað með orrustuflugsveit og ratsjárdeild til að verja flugvelli. Kunnur franskur hershöfðingi leggur einnig fyrir Bjarna nýtt hættumat."

Í ljós kemur að herforingjar telja að Sovétríkin kunni að hefja mun öflugri atlögu gegn Íslandi á sjó, lofti og á landi heldur en menn ætluðu 1949. Mestu munar þar um hugsanlegar loftárásir, jafnvel fyrir upphaf styrjaldar. Þetta herðir á íslenskum ráðherrum að reyna að fyrirbyggja mannskæðar árásir og tjón.

Í október 1950 berast enn stórtíðindi frá Kóreu. Kínverjar skerast í leikinn eins og Maó formaður hafði lofað félaga Kim Il-sung.

"Mönnum sýnist friðurinn í Evrópu nú hanga á bláþræði," segir Þór Whitehead. "Helstu bandamenn Sovétríkjanna, Kínverjar, eru komnir í stríð við Bandaríkjamenn. Rætt er um að þriðja heimsstyrjöldin sé jafnvel hafin.

Bretar og Bandaríkjamenn ókyrrast enn, því það dregst að NATO gangi frá málum við ríkisstjórn Íslands. Í London virðist samin sérstök hernaðaráætlun um endurheimt Íslands úr höndum Sovétmanna.

Í desember 1950 leggur NATO loks fram nýja áætlun um varnir Íslands á vegum Bandaríkjanna. Væntanlegur fjöldi varnarliðsmanna er aukinn í 3.300 í samræmi við almennar varnaráætlanir. Ríkisstjórn Íslands tekur þessari áætlun vel og þykist nú viss um að hún hafi mikinn meirihluta þjóðarinnar á bak við sig."

Langdregnar samningaviðræður

Í febrúar 1951 hefja Bandaríkjamenn og Íslendingar viðræður um varnarsamning, en þær ganga í fyrstu heldur þunglega. Þór Whitehead segir að þar hafi ráðið mestu að Bandaríkjamenn hafi nú reynt að ná fram því markmiði sínu frá 1945 að fá hernaðaraðstöðu á Íslandi til langs tíma. Helst hefðu þeir einnig kosið að hafa frjálsar hendur um það, hvernig aðstaða þeirra hér á landi væri nýtt bæði með tilliti til bækistöðva og herafla. Þór lýsir framhaldinu:

"Þetta getur ríkistjórn Íslands alls ekki samþykkt, enda hefur hún fallist á viðræður með því að vísa til skilyrða sinna um inngöngu í Atlantshafsbandalagið, þ.e. að hér verði ekki her á friðartímum en til greina komi að taka við varnarliði á ófriðartímum. Auk þess hafnar ríkisstjórnin öllum samningsdrögum sem takmarka rétt Íslendinga til einhliða uppsagnar varnarsamningsins. Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, sem annast samningana fyrir ríkisstjórnina, lýsir yfir því, að frekar vilji Íslendingar hætta áfram á varnarleysi en víkja frá kröfunni um einhliða uppsagnarrétt. Í ágreiningnum við Bandaríkjamenn birtist skýrt meginstefna Íslendinga 1951: Varnarsamningnum er ætlað að koma í veg fyrir árás á Ísland á hættu- eða stríðstíma, en á ekki að gilda til frambúðar. Íslendingar vilja hafa það á valdi sínu hvernig vörnum verði háttað, m.a. til að hindra, eins og kostur er, að landið verði notað til árása. Tryggja ber fullveldi Íslendinga og yfirráð yfir eigin landi og girða jafnframt fyrir alla íhlutun Bandaríkjamanna í íslensk málefni. Bandaríkjastjórn þarf að veita vilyrði fyrir því að styðja Íslendinga til að taka við hlutverki varnarliðsins í einhverri mynd, þegar stríðshættu linnir.

Þetta síðastnefnda atriði var mikilvægt fyrir samheldni stjórnarflokkanna í varnarmálum. Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa verið kominn á þá skoðun, að Íslendingar yrðu að halda uppi landvörnum eins og aðrar þjóðir vegna þess að kalda stríðið ýtti Evrópu sí og æ fram á barm styrjaldar, þó að svo ætti að heita að friðartímar ríktu. Sjálfstæðismenn voru því reiðubúnir að sætta sig við lengri dvöl bandarísks varnarliðs í landinu heldur en Framsóknarflokkurinn sem hafði innan sinna raða marga stuðningsmenn hlutleysis, eins og fram hafði komið í heiftarlegum deilum um inngöngu í NATO. Stjórnarflokkarnir tveir gátu hins vegar komið sér saman um það, að Íslendingar ættu að stefna að því að taka sjálfir við öryggisgæslu í landinu, þegar stríðshættan hjaðnaði, og stofna hér hugsanlega eftirlitsflugdeild í þeim tilgangi. Gamlar hugmyndir um íslenskt öryggislið eða varðlið blönduðust þannig inn í gerð varnarsamningsins og hlutu fyrirheit um stuðning Bandaríkjamanna.

Þegar Bandaríkjamenn finna að Íslendingum verður ekki haggað í meginatriðum draga þeir í land. Að lokum semst svo um, að báðir aðilar geti óskað eftir áliti Atlantshafsráðsins á nauðsyn þess að Íslendingar leggi NATO til hernaðaraðstöðu og leyfi afnot af henni, ef áformað er að endurskoða samninginn eða segja honum upp. Takist aðilum ekki að jafna ágreining sinn á sex mánuðum frá því að óskað var eftir áliti Atlantshafsráðsins hafa báðir aðilar rétt til að segja samningnum upp, þannig að hann fellur úr gildi 12 mánuðum síðar. Þetta ákvæði var komið frá Bjarna Benediktssyni sem vildi sætta Bandaríkjamenn við að hafa látið í minni pokann í helstu ágreiningsmálum. Árið 1956 reyndi nokkuð á þetta ákvæði eftir að Alþingi samþykkti ályktun um endurskoðun varnarsamningsins á þann veg að varnarliðið hyrfi úr landi, en Íslendingar tækju að sér gæslu og viðhald varnarmannvirkja. Þá lýsti Atlantshafsráðið yfir því að full þörf væri enn á varnarliði á Íslandi."

Þór Whitehead er þeirrar hyggju að samningaviðræður hafi tekið langan tíma miðað við aðstæður. Aðdragandi varnarsamningsins hefjist í ágúst 1950 og ljúki ekki fyrr en átta mánuðum seinna. Hinn 5. maí 1951 ritaði Bjarni Benediktsson loks undir samninginn fyrir hönd Íslendinga og tveimur dögum síðar lentu bandarískar flugvélar á Keflavíkurflugvelli með fyrstu varnarliðsmenn innanborðs. Þá voru liðin um fjögur ár frá því að Bandaríkjaher hvarf úr landi samkvæmt Keflavíkursamningi sem nú var felldur niður með því að Íslendingar tóku við flugvallarrekstrinum.

Lítil andstaða

En hvernig brást þjóðin við komu varnarliðs eftir harða andstöðu og óeirðir á Austurvelli aðeins tveimur árum fyrr, þegar inngangan í NATO var samþykkt? Þór Whitehead segir að viðbrögð almennings við gerð varnarsamningsins hafi staðfest það sem ráðamenn töldu sig hafa vissu fyrir. "Andstaðan var hálfmáttlaus og mótmæli sósíalista, sem nú voru ærið einangraðir vegna stuðnings og tengsla við Sovétríkin, runnu út í sandinn. Ýmsir hlutleysissinnar í vinstri armi Alþýðuflokks og Framsóknarflokks, sem ekki höfðu samþykkt Keflavíkursamninginn 1946 og NATO-aðild 1949, studdu nú varnarsamninginn við Bandaríkin vegna þess að þeir töldu stríð vofa yfir. Þessir menn, eins og t.d. Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson, höfðu heldur aldrei verið andvígir því að hér væru landvarnir á ófriðartímum. Andúð þeirra, eins og margra þjóðvarnarmanna, á einræði og yfirgangi kommúnista var engu minni en helstu stuðningsmanna Atlantshafsbandalagsins. En sú sæmilega sátt sem ríkti um samninginn 1951 skýrir jafnframt þá hörðu andstöðu sem reis gegn varnarliðinu þegar það sat áfram í landinu og hugðist færa út kvíarnar eftir að átökum lauk í Kóreu. Sumir töldu sig svikna og bentu á það skilyrði fyrir inngöngu í Atlantshafsbandalagið og gerð varnarsamningsins, að hér ætti ekki að dvelja erlendur her á friðartímum. Hvernig þessi mál skipuðust á næstu áratugum er hins vegar önnur saga.

Sé litið yfir allt tímabilið 1939-1951 má segja að Íslendingar hafi verið að taka út þroska sinn í utanríkismálum og marka lýðveldinu nýja stefnu í samfélagi við nágrannaríkin. Skiljanlegt er, að þessi umskipti hafi kostað átök og deilur. Íslendingar þurftu m.a. að átta sig á því, að öryggismál landsins væru ekki "amerískt sérmál", eins og Ólafur Thors orðaði það. Þrátt fyrir bölsýnisspár um að samstarf við önnur vestræn ríki leiddi til tortímingar íslensku þjóðarinnar í kjarnorkustríði eða bandarísku ómenningarvíti virðist flestum koma saman um að hættan af heimsstyrjöld hafi snarminnkað við fall Sovétríkjanna, Íslendingar njóti fulls sjálfstæðis og bandarísk menningaráhrif séu hér engu meiri en gerist og gengur í öðrum löndum. Öllu varðar, að tekist hefur að varðveita frið í okkar heimshluta í meira en hálfa öld. Til þess hafa Íslendingar tvímælalaust lagt fram sinn skerf, þó að nú sé þess að vænta að þjóðin sjálf þurfi að taka á sig meiri byrðar af því að gæta öryggis landsins við nýjar aðstæður í heimsmálum. Þar gæti reynslan frá 1945-1951 komið einhverjum að notum."