17. maí 2001 | Viðskiptablað | 1446 orð | 3 myndir

Af hverju evra í stað krónu?

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um þessar mundir er staða krónunnar mikið í sviðsljósinu. Krónan er nú 25% lægri en hún var fyrir um einu ári, rétt áður en hún byrjaði að lækka, skrifar Þorsteinn Þorgeirsson. Þótt lækkunin hafi gengið að miklu leyti til baka undanfarna daga hefur hún þegar fært Ísland niður listann yfir tekjuhæstu þjóðir heims og stofnað fjármálastöðugleika margra fyrirtækja í hættu.
MARGIR horfa til þess að hugsanlega munigengi krónunnar styrkjast síðar á árinu og allt komast í sama horf og áður. Fyrir það fyrsta er alls ekki víst að það gerist. Það sem skiptir meginmáli er hinsvegar að krónunni fylgir ekki bara margvíslegur óstöðugleiki heldur eykur hún kostnað íslenskra fyrirtækja sem dregur úr mögulegum hagvexti og rýrir lífskjör í landinu. Að neðan er reifuð reynsla okkar af krónunni og sá ávinningur sem hlytist af upptöku evrunnar.

Lítil mynt er dýr fyrir hagkerfið

Rifjum aðeins upp nokkur atriði varðandi tilhögun peningamála á Íslandi á undanförnum árum og áratugum sem sýna berlega þann vandræðagang sem hefur fylgt krónunni. Allt frá sjöunda áratugnum og fram á þann tíunda máttu fyrirtæki í samkeppnisgreinum, eins og iðnaði, þola stjórnlausa hringrás verðbólgu, launahækkana og gengisfellinga, tengt sveiflukenndri afkomu í sjávarútvegi. Ekki bætti úr skák í miðstýrðu launakerfi að laun hækkuðu með samanburði milli greina og stétta, í stað þess að hækkanir byggðust á framleiðni einstakra starfa og fyrirtækja. Afleiðingin varð sú að fyrirtækin sömdu oftar en ekki um of há laun. Ástæðan var sú að fáir trúðu á stöðugleika gjaldmiðilsins og sömdu um fjárhæðir sem enginn tók mark á að héldust. Vegna verðbólgunnar var ekki sterk forsenda til að leita hagkvæmni í rekstri eða stýra fjárfestingu þannig að hún skilaði mestum arði. Þetta varð til þess að veikburða fyrirtæki í samkeppnisgreinunum hrundu þegar sjávarútvegurinn tók enn eina dýfu árið 1988. Nær 5.000 störf í iðnaði hurfu á nokkrum árum.

Í byrjun tíunda áratugarins, eftir að atvinnuleysi hafði gert hressilega vart við sig, mátti sjá fram á endalok verðbólgudraugsins. Um leið varð gengið stöðugra. Um miðbik áratugarins, þegar síðasta uppsveifla var að byrja, voru vextir, verðbólga og atvinnuleysi komin á það stig sem víða var að finna í Evrópu. Þessi blendni ávinningur varð skammvinnur. Vegna stórfelldra kerfislægra breytinga, þ.á m. tilkomu EES-samningsins og að fjármálaviðskipti voru gefin frjáls, og í skjóli fastgengisstefnu Seðlabankans, dafnaði hagvöxtur. Vaxandi umsvifa gætti helst í stóriðju, nýjum vaxtarsprotum í UT-iðnaði svo og ferðaþjónustu og mannvirkjagerð. Þegar atvinnuleysi fór minnkandi og kaupmáttur launa tók á rás, fóru innlendir vextir smám saman að síga fram úr þeim erlendu. Frá 1999 var eins og ekkert héldi aftur af hagvextinum, jafnvel eftir að vextir fóru ört hækkandi. Þá héldu landsmenn áfram að taka erlend lán í skjóli gengisfestu Seðlabankans. Sú mótsagnakennda staða að hækkandi vextir virtust ekki bíta á efnahagslífið er útskýrð með þessum erlendu lántökum. Í raun var gengið ekki fast. Það hækkaði jafnt og þétt milli 1995 og 2000, og veitti lántakendum falska öryggiskennd um að það gengi, sem þeim bauðst við endurgreiðslu lánanna, yrði það sama, ef ekki betra, en þegar þeir tóku lánin. Fyrir vikið fór viðskiptahallinn úr böndunum.

Þegar útlitið dökknaði skyndilega í sjávarútvegi í maí 2000 brast loks trúverðugleiki efnahagsstjórnarinnar og krónan tók að lækka. Seðlabankinn reyndi að halda aftur af genginu með því að hækka vexti meira og grípa inn í með miklum kaupum á krónum en allt kom fyrir ekki og krónan hélt áfram að falla. Þessi stjórnarstefna í peningamálum, að láta stjórnvöld festa verð á gjaldmiðli, átti ekki samleið með opnun fjármálakerfisins þar sem fjármagn flæðir eftir síbreytilegu verði á markaði. Samt viðgekkst það á meðan stöðugleiki krónunnar ýtti undir fjárfestingar og hagvöxt. Þeirri jákvæðu þróun fylgdi hinsvegar skuggi stóraukins viðskiptahalla sem var sprottinn af miklum stóriðjufjárfestingum og ört vaxandi kaupmætti. Launaþróunin fór langt fram úr framleiðninni og með nægu framboði á lánsfé neytti þjóðin mun meira en hún aflaði. Nú hefur gengið fallið sem má telja eðlilega aðlögun að þrálátum viðskiptahalla en veldur fyrirtækjunum samt margvíslegum vanda.

Það er ljóst að krónan er lítil mynt sem erfitt er að halda stöðugri til langs tíma vegna einhæfs og sveiflukennds efnahagslífs. En forsenda þess að fjölbreyttar samkeppnisgreinar geti þrifist er að myntin haldist nokkuð stöðug og nálægt því stigi sem samræmist jafnvægi í erlendum viðskiptum. En það getur hinsvegar krafist hærra vaxtastigs, sérstaklega ef launaþróunin er miklu örari en erlendis. Á undanförnum misserum hefur slík staða gert fyrirtækjum erfiðara fyrir. Til að komast hjá þessu hafa mörg fyrirtæki leitað eftir ódýrari fjármögnun erlendis. En gengisfallið hefur orðið þeim til tjóns.

Eins og meðfylgjandi myndir sýna hefur krónunni fylgt mikill óstöðugleiki. Íslensk fyrirtæki hafa lengst af búið við mikla verðbólgu og stanslausar gengisfellingar, en eftir að tókst að ná tökum á verðbólgunni hafa fyrirtækin hins vegar þurft að þola mun hærra vaxtastig en erlendir keppinautar þeirra. Undanfarna mánuði hefur gengisóvissan aukist til muna sem þýðir að virkni hins háa vaxtastigs hefur stóraukist. Seðlabankinn þarf því að lækka vexti með hraði áður en hávaxtastefnan knésetur fyrirtækin. Til þess að skapa íslenskum fyrirtækjum varanlegan stöðugleika og bjóða þeim sambærilega samkeppnistöðu þarf að taka upp evruna.

Af hverju er evran betri kostur?

Til að skilja af hverju það er betri kostur að taka upp evruna en að gera út á krónuna þarf bæði að skoða málið út frá þjóðhagslegum og rekstrarfræðilegum forsendum.

Frá þjóðhagslegu sjónarmiði má nefna að prófessor Robert Mundell, sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1999, skrifaði tvær veigamiklar greinar um hagkvæm myntsvæði (optimum currency areas) árið 1961 og 1970. Í fyrri greininni taldi hann að mynt með breytilegt gengi ætti að miðast við svæði með samskonar hagsveiflu - hið samhverfa myntsvæði.1 Sú röksemdafærsla átti lengi upp á pallborðið og síðast setti prófessor Paul Krugman hana fram í grein sem hann tók saman fyrir Seðlabanka Íslands fyrir áratug og taldi Íslendingum af þessum sökum fyrir bestu að standa utan myntsamstarfsins í Evrópu.2 Hinsvegar má líka benda á að prófessor Ronald McKinnon við Stanford-háskóla hefur lengi skrifað um neikvæð áhrif gengisflökts á flæði erlendra fjárfestinga.3 Í seinni grein sinni tók prófessor Mundell hinsvegar upp þá skoðun, sem nú er viðtekin, að ein mynt sé til hagsbóta fyrir ósamhverft hagkerfi. Í raun komst hann að þeirri niðurstöðu að því ósamhverfara sem myntsvæðið er því betra vegna þess að það jafnar út viðskiptasveiflur innan þess.4 Flæði vöru og fjárfestinga innan myntsvæðisins er stór þáttur í þeirri jöfnun sem heldur hagvexti meiri en ella á svæðinu. Samkvæmt þessu yrði það Íslandi til hagsbóta að taka upp stóra mynt eins og evruna þótt viðskiptasveiflan hér sé ekki alltaf sú sama og á meginlandi Evrópu.5 Það má einnig greina þessa hagkvæmni frá rekstrarfræðilegu sjónarhorni. Til þess þurfum við að rifja upp þau þrjú meginhlutverk sem mynt gegnir í efnahagslífinu en þau eru:

1.Reiknieining (unit of account)

2.Gjaldmiðill (medium of exchange)

3.Verðmætageymsla (store of value)

Hlutverk myntar sem reiknieiningar er að skapa mælikvarða til að meta virði vöru, þjónustu, vinnuafls og fjármagns. Til að efnahagslegar athafnir haldist hagkvæmar þarf reiknieiningin, sem þetta mat byggist á, að vera stöðug. Ef myntin er óstöðug vegna breytilegrar eða mikillar verðbólgu myndast ýmis aukakostnaður í hagkerfinu við skráningu og samanburð á verði sem hefur neikvæð áhrif á hagkvæmni í viðskiptum og dregur úr virkri samkeppni. Launamyndun, sem býr ekki við stöðuga mynt, leiðir til þess að tengsl rofna milli launa og framleiðni en það dregur úr stöðugleika fyrirtækja og hagvexti. Hægt er að fullyrða að launamyndun yrði raunhæfari í evrum en krónum og nátengdari framleiðni fyrirtækjanna en nú er. Að auki má benda á að bókhald íslenskra fyrirtækja er í krónum sem gerir erlendum fjárfestum erfiðara fyrir en ella að meta verð þeirra, sérstaklega þegar verð hennar sveiflast mikið. Slíkt dregur úr erlendum fjárfestingum í íslenskum fyrirtækjum.

Mynt hefur líka það hlutverk að vera miðill fyrir viðskipti. Því fylgir viðskiptakostnaður (transactions cost) að skipta úr einum gjaldmiðli yfir í annan. Sá kostnaður myndi stórlækka ef viðskiptin færðust yfir í evrur. Vegna gengisáhættu krónunnar hafa vextir verið mun hærri hérlendis en á evrusvæðinu en það hamlar fjárfestingum. Hlutverk myntar að varðveita fjármagn það sem í henni er bundið er grundvöllur þess að fjárfestingar séu hagkvæmar. Ef myntin varðveitir ekki fjármagnið vegna innlendra verðbreytinga (verðbólgu) eða erlendra (gengisbreytinga) dregur það úr hagkvæmni fjárfestinga og sjálfbærum hagvexti.

Ávinningurinn af evrunni er verulegur

Í þjóðhagslegu samhengi myndi upptaka stærri myntar eins og evrunnar því hafa bein áhrif í formi lægri vaxta og viðskiptakostnaðar og jafnari hagsveiflu. Óbeinu áhrifin eru líka mörg og birtast í aukinni hagkvæmni á vöru-, þjónustu-, vinnu- og fjármagnsmörkuðum. Slíkt leiðir til öflugri og fjölbreyttari starfsemi fyrirtækja, verður til hagsbóta fyrir neytendur, skapar hagrænni launamyndun og auknar fjárfestingar. Hinn hagræni ávinningur af upptöku evrunnar er því verulegur og gæti numið mörgum prósentustigum af vergri landsframleiðslu, nálægt umframarði þjóðarinnar af fiskveiðum.6

Endanlega er upptaka evrunnar samt pólitískt mál sem krefst að öllum líkindum ESB aðildar. Íslensk stjórnvöld mega ekki láta undir höfuð leggjast að kanna hvaða leiðir eru færar í þessu máli og undirbúa hugsanleg samningsmarkmið þjóðarinnar. Það er ljóst að með upptöku evrunnar kæmi varanlegri stöðugleiki og jöfnun í samkeppnisgrundvöll íslenskra fyrirtækja, sem mundi treysta forsendur þess að hagvöxtur og lífskjör í landinu gætu haldist há og sjálfbær um komandi ár.

Höfundur er hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.