Íslensku bókmenntaverðlaunin 1990: Fimmtán bækur eru tilnefndar FIMMTÁN íslenskar bækur, 7 handbækur, fræðirit, frásagnir o.fl. og 8 íslenskar skáldsögur, voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1990 við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands í...

Íslensku bókmenntaverðlaunin 1990: Fimmtán bækur eru tilnefndar

FIMMTÁN íslenskar bækur, 7 handbækur, fræðirit, frásagnir o.fl. og 8 íslenskar skáldsögur, voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1990 við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands í gær. Skipuð hefur verið lokadómnefnd til að velja þær tvær bækur, eina úr hvorum flokki, sem hljóta munu verðlaunin. Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, afhendir Íslensku bókmenntaverðlaunin 1990 eigi síðar en 15. febrúar á næsta ári. Þær bækur sem hér erutilnefndar voru ásamt öðrum bókum lagðar fram af forlögunum í samráði við höfunda.

Eftirtaldar handbækur, fræðibækur, frásagnir o.fl. hafa verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1990: Íslenskar fjörur eftir Agnar Ingólfsson, Hraunhellar á Íslandi eftir Björn Hróarsson, Perlur í náttúru Íslands eftir Guðmund P. Ólafsson, Skálholt ll-Kirkjur eftir Hörð Ágústsson, Íslensk samtíð 1991 er Vilhelm G. Kristinsson ritstýrði, Íslenska kynlífsbókin eftir Óttar Guðmundsson og Íslenska alfræði orðabókin. Tilnefningu síðasttöldu bókarinnar fylgir eftirtalinn rökstuðningur dómnefndar: "Íslenska alfræðiorðabókin er að hluta til frumsamið verk, að hluta til þýtt. Verkið er að mati nefndarinnar mikilvægur áfangi í útgáfu handbóka á íslensku og hinn frumsamdi hluti er veigamikill. Með vísun til þess tilnefnir dómnefndin verkið tilÍslensku bókmenntaverðalaun anna."

Eftirtaldar fagurbókmenntir hafa verið tilnefndar til verðlaunanna: Meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur, Svefnhjól eftir Gyrði Elíasson, Vegurinn upp á fjallið eftir Jakobínu Sigurðardóttur, Fótatak tímans eftir Kristínu Loftsdóttur, Einn dag enn eftir Kristján Árnason, Hversdagshöllin eftir Pétur Gunnarsson, Nautnastuldur eftir Rúnar Helga Vignisson og Síðasta orðið eftir Steinunni Sigurðardóttur.

Í lokadómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna sitja: Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, tilnefnd af Félagi íslenskra bókaútgefenda, Helga Kress, bókmenntafræðingur, tilnefnd af Háskóla Íslands fyrir hönd forseta Íslands, Snorri Jónsson, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Dóra Thoroddsen, tilnefnd af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Pálmi Gíslasson, tilnefndur af Ungmennafélagi Íslands.

Nefndin mun skila áliti sínu snemma á næsta ári og verða verðlaunin afhent eigi síðar en 15. febrúar.

Morgunblaðið/Ragnar Axelsson

Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur, tekur við viðurkenningu fyrir bók sína Síðasta orðið úr hendi Þórarins Guðnasonar, formanns dómnefndar um fagurbókmenntir. Allir höfundarnir fimmtán fengu slíka viðurkenningu.