Hér fagna rússnesku hjónin Aleksei Illarionovich og Maria Fedyorovna Kobyakov 50 ára brúðkaupsafmæli sínu í góðra vina hópi í Belgorod í Rússlandi fyrir tæpri viku síðan, 13. maí.
Hér fagna rússnesku hjónin Aleksei Illarionovich og Maria Fedyorovna Kobyakov 50 ára brúðkaupsafmæli sínu í góðra vina hópi í Belgorod í Rússlandi fyrir tæpri viku síðan, 13. maí.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki er sama hvar borið er niður, vilji maður komast að því hvað brúðkaupsafmælin eru kölluð og getur munað þar allmiklu frá einni heimild til annarrar. Einkum hefur þetta tekið breytingum með aukinni hagsæld íbúanna og framförum í tækni, sem m.a. hefur getið af sér marga nýja vöruna.

Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö ár sjö sinnum, svo að tími þeirra sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár. Og þá skaltu í sjöunda mánuðinum, tíunda dag mánaðarins, láta hvellilúðurinn gjalla. Friðþægingardaginn skuluð þér láta lúðurinn gjalla um gjörvallt land yðar, og helga þannig hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. Þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns, og þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til ættar sinnar. Fagnaðarár skal fimmtugasta árið vera yður. Þér skuluð eigi sá og eigi uppskera það, sem vex sjálfsáið það ár, né heldur skuluð þér þá lesa vínber af óskornum vínviðum. Því að það er fagnaðarár. Það sé yður heilagt.

Að halda upp á brúðkaupsafmæli virðist mega rekja til fagnaðarins, sem Drottinn Jehóva bauð Móse að halda fimmtugasta hvert ár, eins og lesa má í 3. Mósebók, 25. kafla, versum 8-12:

Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö ár sjö sinnum, svo að tími þeirra sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár. Og þá skaltu í sjöunda mánuðinum, tíunda dag mánaðarins, láta hvellilúðurinn gjalla. Friðþægingardaginn skuluð þér láta lúðurinn gjalla um gjörvallt land yðar, og helga þannig hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. Þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns, og þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til ættar sinnar. Fagnaðarár skal fimmtugasta árið vera yður. Þér skuluð eigi sá og eigi uppskera það, sem vex sjálfsáið það ár, né heldur skuluð þér þá lesa vínber af óskornum vínviðum. Því að það er fagnaðarár. Það sé yður heilagt.

Í fyrsta sinn héldu kristnir menn slíkt fagnaðarár árið 1300, að fyrirskipun Bonífacíusar páfa 8. Allir pílagrímar sem fóru til Rómar hlutu það ár fyrirgefningu syndanna. Hafa kaþólskir menn að jafnaði haldið þessum sið á fimmtíu ára fresti. Á 15. öld sést þessa fagnaðarárs getið í þýskum texta og kallast þar "gullið ár" eða "gullár". Skýringin á nafngiftinni er sú, að menn töldu sig komast að gullna hliðinu, við áðurnefnda fyrirgefningu syndanna. Á tímabili var svo einnig haldið fagnaðarár á tuttugu og fimm ára fresti, öðru hverju, og nefndist það "silfurbrúðkaup".

Elsta heimild um gullbrúðkaup frá 16. öld

Elsta dæmi um að fólk hafi tekið að halda upp á fimmtíu ára brúðkaupsafmæli sitt er frá Þýskalandi árið 1547. Það er nefnt "gullbrúðkaup" og báru hjónin gullna sveiga um höfuð sér. Afmælissiðurinn barst þaðan til Danmerkur og fleiri ríkja. Hans verður þó sjaldan vart meðal kóngafólks og aðalsmanna fyrr en líða tekur á 18. öld, og meðal almennings verður hann hvergi venja fyrr en um aldamótin 1900. Fyrstu íslensku hjónin sem vitað er til að héldu upp á gullbrúðkaup sitt hér á landi voru Þórunn Hannesdóttir og Bjarni Þorsteinsson, fyrrverandi amtmaður. Þetta var árið 1871. Ekki er vitað til að menn hafi fagnað öðrum en tuttugu og fimm ára og fimmtíu ára hjúskaparafmælum, fram yfir aldamótin 1900, og ber að auki öllu minna á silfurbrúðkaupunum. Þó er í enskri bók frá 1870 getið sjö mismunandi brúðkaupsafmæla (5, 10, 15, 20, 25, 50 og 60), en þau hin náðu ekki að skjóta hér rótum fyrr en um eða eftir síðari heimsstyrjöld, þegar kynni Íslendinga af engilsaxneskum þjóðum tóku að aukast, en siðurinn mun einmitt hafa notið mestra vinsælda þar ytra er fram liðu stundir.

Með bættum efnahag og auknu langlífi fjölgaði þeim sem tóku að halda upp á brúðkaupsafmæli, og menn fundu nöfn á önnur áratugarafmæli, og jafnvel hvert einasta afmælisár, a.m.k. fyrstu 15 og síðan hvert fimmta þaðan. Ekki er þó ljóst hvenær þetta nákvæmlega gerðist.

En um síðir komust menn upp í 75 ár og nýverið hefur mátt rekast á lista á Netinu, samantekinn af bókavörðum við upplýsingamiðstöð Almenningsbókasafnsins í Chicagohttp://www.chipublib.org/008subjectgenref/gisweding.html), þar sem efni hvers einasta brúðkaupsafmælis frá 1. ári og til og með 100. Rétt er samt að nefna, að hvergi er að finna með þjóðum heimsins neina ákveðna reglu eða hefð um þessi afmæli, og má iðulega sjá rugling hvað þetta varðar í bókum, tímaritum og á Netinu. Þó hefur myndast allnokkur samstaða um mörg þeirra, en í sumum tilvika er þar um tvennt að velja, sem ekki er þá gert upp á milli.

Nýir hlutir með breyttum tímum

Á síðustu árum er svo tekið að bera á nýrri skrá, þar sem mið er tekið af nútímanum og þeim aragrúa nýrra vörutegunda sem komið hafa fram síðan menn í upphafi tóku að gefa brúðkaupsárunum heiti, og kenna við pappír og leður og annað slíkt.

Við skulum nú líta á þau brúðkaupsafmæli sem þokkaleg eining er um, miðað við framansagt, og geta síðan þeirra afbrigða sem fundist hafa við nokkra yfirlegu í ritum og leit á Netinu. Afraksturinn er engan veginn tæmandi, og sumir fara í allt aðrar áttir (sbr. töfluna sem fylgir þessari grein), en það sem á eftir fer hér ætti þó að gefa dálitla innsýn í stöðu málsins fyrr og nú.

Yfirleitt er fyrsta brúðkaupsafmæli kennt við pappír, en þó nefna sumir bómull, plast og klukkur. Annað hjúskaparafmælið er oftast tileinkað bómull, en þó vilja sumir kenna það við pappír eða postulín. Flestir eru sammála um að hið þriðja sé leðurbrúðlaup, en þó finnast afbrigðin gler og kristall. Eins er með það fjórða; allnokkur samstaða er með því að nefna það blóma- og/eða ávaxtabrúðkaup, en einnig eru þó nefndir hlutir eins og lín, silki, nælon, bækur og rafknúin eldhústæki. Og fimmta árið er langoftast sagt vera trébrúðkaupsafmæli, þótt finna megi afbrigði með klukkum og silfurhnífapörum. Sjötta er yfirleitt kennt við sykur eða járn, en einnig finnst heimild fyrir tré á þeim stað. Sjöunda er oftast sagt vera ullar- eða koparbrúðkaup, en nútíminn hefur bætt við látúni og skrifborðsáhöldum, eins og t.d. pennasetti eða einhverju slíku. Áttunda búðkaupsárið er gjarnan kennt við brons, en einnig þó leir eða raftæki, og eins lín. Níunda hjúskaparafmælið er oftast nefnt leirbrúðkaup, en allmargir tengja það við pílvið; aðrir færri við leður, kopar eða postulín. Tíunda árið er svo langoftast kennt við tin, en einnig þó ál, og einhverjir nefna demant í því sambandi. Ellefta árið er stálbrúðkaup, með afbrigðunum módelskartgripir úr silfri eða gulli, sem ýmist mega þá vera gegnheilir eða húðaðir. Tólfta árið er oftast kennt við silki eða lín, en einnig koma rétt aðeins við sögu leður, perlur og skrautsteinar. Einungis ein heimild er með 12½ ár og segir það vera koparbrúðkaup. Þrettánda árið segja flestir að sé kniplingabrúðkaup; örfáir kenna það vefnaði eða loðfeldum. Fjórtánda árið er oftast sagt vera fílabeinsbrúðkaup, en til eru afbrigðið gull. Eins er með fimmtánda árið; yfirleitt er það nefnt kristalbrúðkaup, en aðrir tengja það við kopar, gler, tin eða úr.

Hvað skyldi vera gefið í atómbrúðkaupi?

Hér verða gjarnan skil og næst farið í tuttugasta hjúskaparafmælið, og svo eru afmælin tekin á fimm ára fresti, en það er samt ekki algilt, eins og áður var minnst á. Þeir sem halda áfram á sextánda ári kenna það við silfurskálar eða -könnur, það sautjánda við húsgögn, átjánda við postulín og nítjánda við brons. Tuttugasta árið er að jafnaði kennt við postulín, að gamalli venju, en sumir nefna þó platínu.

Plássins vegna er ekki gerlegt að tíunda hvert ár frá þessu síðasta, en farið næst í tuttugasta og fimmta brúðkaupsárið, sem er eitt fárra afmælisára, sem er með hefðina á bak við sig og er nefnt silfurbrúðkaup. Þrítugasta árið er perlubrúðkaup, en nútíminn hefur lagt því til demant eða grópavirki. Þrítugasta og fimmta er kóralbrúðkaup, þó með jaði sem nútíma afbrigði. Fertugasta hefur oftast verið kennt við rúbín, en nýlega hefur granat bæst þar við. Fertugasta og fimmta virðist nokkuð ákveðið bundið safír og það fimmtugasta er óþarfi að fjölyrða um. Fimmtugasta og fimmta er smaragðsbrúðkaup, með túrkís sem nýjan valkost, og það sextugasta er demantsbrúðkaup, þótt einhverjir nefni reyndar gull þar. Sextugasta og fimmta er króndemantsbrúðkaup, með afbrigðinu stjörnusafír eða platína. Sjötugasta brúðkaupsárið er tileinkað platínu, en sumir halda fram demanti, perlu eða járni. Sjötugasta og fimmta hefur löngum verið nefnt gimsteinabrúðkaup, en nútíminn segir atóm eða gull, eða þá hvaða eðalsteinar sem eru. Á lista bókasafnsins í Chicago er áttugasta brúðkaupsafmælið tileinkað demanti eða perlu, það áttugasta og fimmta demanti eða safír, nítugasta demanti eða smaragði og það hundraðasta tíu karata demanti.