VINNU við fornleifauppgröft við Aðalstræti 16 er nú nærri lokið og hafa fornleifafræðingar grafið niður á 17 metra langan skála frá víkingaöld sem liggur samsíða Aðalstræti.

VINNU við fornleifauppgröft við Aðalstræti 16 er nú nærri lokið og hafa fornleifafræðingar grafið niður á 17 metra langan skála frá víkingaöld sem liggur samsíða Aðalstræti. Útlínur skálans eru sjáanlegar af steinhleðslum sem marka austur- og vesturveggi hans en skálinn er 5,5 til 6 metrar á breidd þar sem hann er breiðastur og mjókkar til endanna sem er algengt sköpulag á víkingaaldarskálum.

Orri Vésteinsson fornleifafræðingur segir skálann vera af hefðbundinni stærð en inni í skálanum miðjum hafi hins vegar reynst vera einn stærsti langeldur sem fundist hefur á Íslandi. "Þetta er óvenju langur og glæsilegur langeldur, 4 metrar á lengd, og ber húseigendum gott vitni," sagði Orri. Spurður hvort eitthvað óvænt hefði komið í ljós í fornleifauppgreftrinum sagði hann svo ekki vera í raun þar sem fyrir fram hefði verið vitað að þarna væri leifar frá landnámsöld að finna. "Það var hins vegar afar ánægjulegt að komast að því að þarna er heill skáli sem er í ótrúlega heillegu ástandi og það má með sanni segja að það sé mikil heppni að finna svona gamalt hús í miðborg þar sem svo mikið hefur verið grafið og byggt um dagana."

Auk útlína skálans hefur uppgröfturinn einkum leitt í ljós undirstöður bygginga Innréttinganna og brunaleifar nokkurra húsa þeirra frá árinu 1764. Lítið hefur fundist af munum og er ástæðan fyrir því væntanlega sú að ef grafið er á bæjarstæðum finnast einkum tveir flokkar hluta, hlutir sem fólk annars vegar henti og hins vegar týndi. Þessa hluti er gjarnan að finna í reglulegum sorphaugum annars vegar og í moldargólfum hins vegar. Orri segir að nú sé að hefjast vinna í gólfinu í landnámsskálanum og því enn ekki útséð um hvort fleiri munir finnist.

Uppgröfturinn hófst um miðjan janúar og eiga fornleifafræðingarnir að hafa lokið störfum fyrir 15. júní. Orri sagði starfinu þó miða það vel að vinnunni verði væntanlega lokið um mánaðamótin.

Ástæða þess að fornleifauppgröfturinn fer fram við Aðalstrætið er sú að fyrirhugaðar eru nýbyggingar á svæðinu og ekki er leyfilegt að spilla fornminjum án undangenginna fornleifarannsókna. Forsenda þessarar framvindu var vitneskja um að einhverjar fornminjar væri að finna á svæðinu en sú vitneskja hefur legið fyrir um nokkurra áratuga skeið. Spurður hvað yrði um minjarnar þegar vinna við nýbygginguna hefst sagði Orri að formleg ákvörðun hefði enn ekki verið tekin um afdrif þeirra en hann vænti þess að minjarnar fengju að halda sér og þær yrðu gerðar aðgengilegar fyrir almenning. Þó að ákvörðun um þetta liggi ekki fyrir ætla fornleifafræðingarnir að hafa "opið hús" í Aðalstrætinu nk. sunnudag þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að skoða sig um í skála forfeðranna.