Síðhærðir skeggbragar kynna  Von í Rósenbergkjallaranum.  Ágúst Ævar Gunnarsson, Jón Þór Birgisson og Georg Hólm.
Síðhærðir skeggbragar kynna Von í Rósenbergkjallaranum. Ágúst Ævar Gunnarsson, Jón Þór Birgisson og Georg Hólm.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í tónlistarheiminum er um fátt meira rætt en íslensku hljómsveitina Sigur Rós. Árni Matthíasson rekur söguna af Sigur Rós.

SIGUR RÓS var stofnuð í desember 1994 og hefur nafn sitt eftir Sigurrós, systur eins hljómsveitarmanna, Jóns Þórs Birgissonar, sem fæddist skömmu áður en hljómsveitin var stofnuð. Framan af hét hljómsveitin þó Victory Rose upp á ensku en fyrsta lagið sem hún sendi frá sér hét Fljúgðu. Eftir að lagið kom út fannst þeim félögum asnalegt, að því þeir segja, að vera íslensk hljómsveit sem syngur á íslensku, en heitir upp á ensku. Victory Rose varð því að Sigur Rós.

Stofnendur Sigur Rósar voru þeir Jón Þór Birgisson, Georg Hólm og Ágúst Ævar Gunnarsson. Frumkvæðið kom frá þeim Jóni Þór og Ágústi og það var fyrir þeirra tilstilli að haldið var í hljóðver með fyrstu hugmyndina 1994. Georg Hólm kom svo til aðstoðar í hljóðverinu.

Ekki voru þeir nema sex tíma að taka Fljúgðu upp, en því var varla lokið að þeir fóru að æfa aðra gerð af tónlist, "Smashing Pumpkins-rokk" eins og Georg Hólm bassaleikari kallar það. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir tveimur árum sagði hann að það hefði síðan tekið þá félaga nokkurn tíma að átta sig á því hvað þeir vildu gera og snúa sér aftur að tónlist í ætt við þetta fyrsta lag. Jón Þór lék á gítar og söng vegna þess að enginn annar fékkst til þess, að hann segir sjálfur frá, Georg lék á bassa og Ágúst á trommur. Það setti snemma svip sinn á tónlist hljómsveitarinnar að Jón Þór tók að leika á gítarinn með hnéfiðluboga sem Ágúst fékk í jólagjöf, en áður höfðu þeir reynt fyrir sér með því að leika á bassann með boganum.

1994 hófu þeir þremenningar að taka upp efni á breiðskífu, en vinna sóttist seint, bæði var að þeir höfðu lítið fé á milli handanna að kaupa tíma í hljóðveri, en einnig voru þeir enn að móta tónlistina og skapa sér stíl og stefnu. Einnig seinkaði það vinnunni að Georg, einn liðsmanna, hélt utan til náms í kvikmyndagerð einn veturinn og lítið var unnið á meðan, en Jón Þór var einnig með annarri hljómsveit, Bee Spiders, sér til gamans, kallaði sig "Djonní Bí", og tók með henni þátt í Músíktilraunum Tónabæjar 1995 og aftur 1996.

Stærstur hluti plötunnar var tekinn upp í hljóðverinu Hvarf í Mosfellsbæ, en þeir félagar nutu velvildar rekstraraðila hljóðversins, Ólafs Ragnarssonar, og greiddu meðal annars fyrir hljóðverstíma með því að mála hljóðverið.

Á löngum vinnutíma breyttist platan talsvert sem vonlegt var og þannig voru talsverðar breytingar gerðar þegar frumeintakið var gert. Síðar sögðu þeir félagar að líklega hefði verið skynsamlegra að leggja til hliðar upptökurnar og byrja upp á nýtt, en það hefði hugsanlega tekið enn lengri tíma og jafnvel orðið til þess að lögin hefðu aldrei komið út, enda finnst þeim að sögn leiðinlegt að spila lög mörgum sinnum.

Byltingarkennd plata

Fyrsta platan, Von, kom svo út 1. september 1997 og fékk prýðis viðtökur þó ekki hafi hún selst að ráði. Í dómi í Morgunblaðinu sagði að platan uppfyllti allar væntingar þótt hún væri ekki plata sem gleypt yrði í einum bita "og vísast eiga hlutar af henni eftir að standa í nema hörðustu ævintýramönnum". Einnig segir að Von sé ferskur andblær í staðnað íslenskt rokklíf, "byltingarkennd plata ... og metin sem heild er hún framúrskarandi".

Á þessum árum voru þeir Sigur Rósarmenn hippalegir í útliti, síðhærðir skeggbragar. Mörgum þótti tónlistin líka minna á tilraunamennsku síðhippismans og ófáir drógu þá ályktun af öllu saman að á ferð væru hasshausar og skýrðu með því hvað þeir hefðu verið lengi að taka upp fyrstu plötuna. Þeir félagar sögðust í viðtali hafa lesið það um sig í dönsku blaði að þeir væru hasshausar og heróínfíklar. "Það er kannski hægt að hlæja að þessu en það er frekar leiðinlegt að lesa svona bull um sjálfan sig í útlöndum," sagði Georg, en þeir lentu meðal annars í hremmingum í framhaldsskóla úti á landi vegna gróusagna.

Um líkt leyti og platan kom út birtist viðtal við Jón Þór þar sem hann vildi reyndar lítið tala um tónlistina á plötunni; sagði að þeir hefðu verið orðnir svolítið þreyttir á verkinu, búnir að fæða og þroska afkvæmið og tími til kominn að það flytti að heiman, eins og hann orðaði það. Þegar Von var tekin upp voru liðsmenn Sigur Rósar þrír og Jón Þór lýsti því reyndar í viðtali í þeir félagar vildu helst ekki fjölga í hljómsveitinni því þrír væri svo "flott tala". Ekki leið á þó löngu eftir útgáfu plötunnar að Kjartan Sveinsson, sem lék á hljómborð, gítar og fleiri hljóðfæri, fór að leggja þremenningunum í Sigur Rós lið og smám saman varð hann að fjórða manninum í hljómsveitinni og hafði talsverð áhrif á þróun tónmáls Sigur Rósar.

Samið við Smekkleysu

Smekkleysa gaf Von út en þegar kom að því að taka upp aðra plötu bitust útgáfufyrirtækin Smekkleysa og Skífan um hvort fyrirtækið fengi að gefa þá plötu út. Smekkleysa hreppti hnossið og upptökur hófust þegar fyrir jól. Sigur Rós hafði þann háttinn á að byrja plötuvinnslu á að taka upp bassa- og trommugrunn og vinna útsetningar síðan ofan á þann grunn. Það er nokkuð frábrugðið vinnubrögðum flestra hljómsveita sem semja lög og æfa og taka síðan upp í að segja einni lotu og mun seinlegra. Upphaflega stóð til að gefa Ágætis byrjun út fyrir jólin 1998, en um haustið var orðið ljóst að ekki tækist að ljúka við plötuna og útgáfu því frestað fram á sumarið 1999.

Ísar Logi Arnarson, útgefandi Undirtóna, stakk að þeim félögum þeirri hugmynd að gefa út plötu með endurgerð Vonar, þ.e. að fá ýmsa tónlistarmenn til þess að endurhljóðblanda lög af plötunni. Meðal annars til að stytta biðina eftir næstu plötu Sigur Rósar var ráðist í þá útgáfu og Von-brigði kom út í ágúst 1998. Þess má geta að á henni var einnig eitt nýtt lag Sigur Rósar sem átti að vera með á Von en náðist ekki að útsetja að fullu.

Leikið undir rímnasöng

Um haustið lék Sigur Rós undir rímnasöng Steindórs Andersens, formanns Kvæðamannafélagsins Iðunnar. Það samstarf þótti þeim heppnast svo vel að Steindór kom fram með hljómsveitinni á tónleikum, meðal annars á útgáfutónleikum Gus Gus í flugskýli 4 á Reykjavíkurflugvelli þar sem Sigur Rós stal senunni.

Í framhaldi af því kviknaði mikill áhugi hjá Jóni Þór að vinna með fleiri rímnamönnum og meðal annars sótti hann um styrk til þess til Reykjavíkurborgar en fékk synjun.

Platan langþráða, sem fékk heiti sitt af samnefndu lagi á plötunni sem fjallar reyndar um það er þeir félagar hafa nýlokið við að koma frá sér Von, kom loks út 12. júní 1999. Þegar þar var komið sögu má segja að þeir hafi verið þrír eftir í hljómsveitinni Jón Þór, Kjartan og Georg, en Ágúst hætti á meðan á upptökum stóð. Hann lék þó á trommur á plötunni og á tónleikum um veturinn, en síðustu tónleikar hans með Sigur Rós voru í Íslensku óperunni þar sem útgáfutónleikarnir voru haldnir.

Platan var tekin upp í hljóðveri sem þeir Jón Þór og Kjartan komu sér upp í félagi við aðra tónlistarmenn, Núlist, en síðan var hún hljóðblönduð í næturlotum í Sýrlandi. Aðstaðan hafði sitt að segja með hve langan tíma tók að ljúka við plötuna og hefur kannski haft sitt að segja í því að eitt það fyrsta sem þeir félagar gerðu þegar þeir fengu greitt fyrir útgáfu Ágætis byrjunar erlendis var að koma sér upp eigin hljóðveri.

Límveislan mikla

Umslag plötunnar, sem skreytt er teikningum Gotta Bernhöft, vakti sína athygli, en Ágúst hannaði það. Það kostaði sitt að vinna það, að sögn kostaði hvert umslag með bæklingi og límingu um 300 kr., en venjulegt geisladiskhylki með bæklingi kostar um 35 kr. í framleiðslu.

Þegar diskarnir sjálfir komu svo til landsins átti eftir að setja saman umslögin og haldin var mikil límveisla þar sem hljómsveitarmeðlimir og félagar þeirra sátu við og límdu umslögin saman og aðrir stungu svo diskunum í. Þetta hafði aftur á móti óæskilegar hliðarverkanir í för með sér, því mjög margir diskanna spilltust við það að lím fór á þá og til að mynda keypti ég tíu diska til að gefa kunningjum úti í heimi og af þeim var einn í lagi.

Diskurinn fékk afbragðs viðtökur, fór þegar efst á tónlistann, sem er listi yfir söluhæstu plötur hér á landi, og situr þar reyndar enn eftir 96 vikur á listanum. Dómar voru og jákvæðir, en í umsögn í Morgunblaðinu segir meðal annars að Ágætis byrjun sé "ágætis byrjun fyrir íslenskt tónlistarlíf, ágætis byrjun á útgáfu ársins, ágætis byrjun á meiri metnaði fyrir íslenska tónlist".

Eftir útgáfutónleikana í Íslensku óperunni, sem seldist upp á á nokkrum tímum, gerði hljómsveitin stutt hlé á spilamennsku á meðan nýr trommuleikari, Orri Páll Dýrason, var æfður inn í sveitina. Fyrstu tónleikarnir með hann við settið voru í Kaffileikhúsinu 8. júlí en síðan hélt hljómsveitin í tónleikaferð um landið, lék í Keflavík, á Akranesi, Ísafirði, Blönduósi, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Vopnafirði og Selfossi.

Í þeirri tónleikaferð lögðu þeir áherslu á að spila ný lög, sögðust í viðtölum orðnir leiðir á að spila sífellt "gömlu" lögin. "Það er þreytandi að endurtaka og spila það sama aftur og aftur," sagði Georg í viðtali við Morgunblaðið og Jón Þór bætti við að þannig spiluðu þeir félagar aldrei lagið Flugufrelsarann sem var talsvert spilað í útvarpi þá um sumarið.

Samið við Fat Cat

Áður en Ágætis byrjun kom út hér á landi voru forráðamenn Smekkleysu byrjaðir að leita fyrir sér um útgáfu erlendis. ýmsir urðu til að sýna því áhuga að gefa plötuna út, þar á meðal enska fyrirtækið Fat Cat. Fat Cat á rætur sínar að rekja til plötuverslunar sem rekin var í kjallara fataverslunar fyrir nokkrum árum. Eigendur plötuverslunarinnar voru þeir Dave Cawley og Alex Knight. Fat Cat varð síðar að undirmerki hjá One Little Indian, sem gefur meðal annars út plötur Bjarkar í Bretlandi og gaf út Sykurmolana og Ham á sínum tíma, en haustið 1998 skildi leiðir og Fat Cat varð að sjálfstæðu fyrirtæki.

Sigur Rósarfélagar lögðu mikla áherslu á að hafa alla þræði í hendi sér með tónlistina, útsetningar og upptökur og ákváðu á endanum að semja við Fat Cat því eins og Jón Þór lýsti því þá voru þeir Fat Cat stjórar á "sömu bylgjulengd" og þeir, miklir tónlistarvinir og heiðarlegir.

Alex Knight sagði svo frá í viðtali við breska dagblaðið Guardian að hann hafi komið til Íslands fyrir kunningsskap við Einar Örn Benediktsson. Hann er plötusnúður meðfram útgáfuönnum og tróð upp á áðurnefndum tónleikum í Flugskýli 4. Í viðtalinu segir hann Sigur Rós hafa stolið senunni þetta kvöld og eftir að hljómsveitin lauk leik sínum hefði mátt heyra saumnál detta.

Samningur Sigur Rósar við Fat Cat náði til einnar smáskífu til að byrja með og Svefn-g-Englar kom út í september 1999 með tveimur aukalögum af útgáfutónleikunum í Íslensku óperunni. Vikuna áður en lagið kom út valdi tónlistarvikuritið New Musical Express hana svo smáskífu vikunnar. Í umsögn sinni sagði gagnrýnandi blaðsins að tónlistin væri svo viðkvæmnislega fögur og einlæg að hlustanda fyndist sem hann væri að hlusta sem óboðinn gestur.

Í kjölfarið fór hljómsveitin utan til tónleikahalds í Danmörku og á Englandi og til að taka upp nokkur lög í hljóðveri í Lundúnum. Eftir þá ferð lýsti Jón Þór þeirri skoðun sinni að það kæmi ekki til greina af sinni hálfu að flytjast til útlanda. "Ég held ég gæti aldrei búið í London eða einhverri stórborg. Mér finnst það eiginlega bara algjört rugl."

Lýsingarorðaskrúð

Í framhaldi af útgáfu smáskífunnar og tónleika Sigur Rósar ytra fóru að birtast umsagnir um sveitina í erlendum blöðum þar sem menn fóru ekki sparlega með lýsingarorðin. Í vikuritinu Melody Maker er tónlist Sigur Rósar lýst á þann veg að hún sé eins og "guð gráti gulltárum ofan úr himnaríki". Mjög hafa blaðamenn ytra verið gjarnir á að grípa til slíkra lýsinga á tónlist hljómsveitarinnar og einnig hefur fólk sent hljómsveitinni hástemmdar lýsingar á því hvaða áhrif lögin hafi haft á líf þess, eins og má til að mynda sjá á heimasíðu Sigur Rósar, www.sigur-ros.com. Blaðamaður breska tískuritsins The Face bætti um betur þegar hann sagði Sigur Rós vera síðustu stórsveit tuttugustu aldarinnar.

Umboðsmaður Sigur Rósar í Bretlandi, John Best, tók í sama streng í samtali fyrir rúmu ári og sagði að tónlist hljómsveitarinnar upphafna fegurð sem færði fólki lífsfyllingu. Fyrir rúmu ári spáði hann því að hljómsveitin ætti eftir að ná góðum vinsældum í Bretlandi og reyndar um heim allan. Í lok febrúar á síðasta ári kom svo út önnur smáskífa í Bretlandi, Ný batterí, en fyrsta eiginlega tónleikaferðin sem hljómsveitin fór um Bretland var í mars og í apríl, þegar henni var boðið að leika með kanadísku hljómsveitinni Godspeed You Black Emperor!

Ágætis byrjun kom svo út þar í landi fyrir réttu ári og þótt platan hafi ekki náð eins hátt á vinsældalistum í Bretlandi og hér seldist hún bærilega, hefur selst í um 40.000 eintökum þar í landi, en um 200.000 eintökum í Evrópu alls sem telst mjög gott.

Jákvæð umfjöllun varð eðlilega til þess að vekja athygli á hljómsveitinni, en einnig hafði talsverð áhrif að Sigur Rós var boðið að hita upp fyrir bresku rokkhljómsveitina Radiohead á tíu tónleikum, en Radiohead er með vinsælustu hljómsveitum nú um stundir. Ef marka má umsagnir plötukaupenda á vefsetri Amazon varð það til að mynda til þess að margir þeirra urðu sér úti um diskinn.

Ofarlega á árslistum

Í uppgjöri fyrir árið 2000 var platan víða áberandi vestan hafs og austan, þótt ekki hafi hún verið komin út í öllum löndum, og þannig var hún í 34. sæti á lista Amazon yfir bestu plötur ársins, komst inn á topp tíu í árlegu vali Village Voice á bestu plötum ársins, var á topp tíu í vali poppblaðamanns New York á bestu plötum, á nokrum listum poppfræðinga Spin-tímaritsins bandaríska, ofarlega á lista HMV plötubúðakeðjunnar og svo má telja.

Eins og getið er samdi hljómsveitin við Fat Cat um útgáfu í Bretlandi, en vestur í Bandaríkjunum hófst slagur plötufyrirtækja sem vildu gefa Ágætis byrjun út þar í landi. Að sögn bitust sjö stórfyrirtæki og átta smá um að fá að gefa plötuna út og kepptust um að yfirbjóða hvert annað. Hljómsveitarmeðlimir settu aftur á móti fram ákveðnar kröfur um lengd samnings, greiðslur fyrir hverja selda plötu og frelsi til að ráða því fullkomlega hvað á plötunum væri. Einnig gerðu þeir kröfu um að þeir myndu eiga útgáfuréttinn sjálfir, en leigja hann til útgáfunnar, nokkuð sem er fáheyrt í alþjóðlegri poppútgáfu, en þess má geta að Björk Guðmundsdóttir hefur þennan háttinn á. Krúnk heitir fyrirtæki Sigur Rósar og mun eiga útgáfuréttinn á tónlist hljómsveitarinnar. Á endanum samdi hljómsveitin við MCA-útgáfufyrirtækið, sem er hluti af Universal, en að sögn hefur hún til að mynda hagstæðari samning við þá útgáfu en breski tónlistarmaðurinn Sting, sem einnig er samningsbundinn Universal. Þess má geta að í samningi Sigur Rósar er hljómsveitinni í sjálfsvald sett á hvaða tungumáli hún syngur; það er ekki gerð krafa um að syngja á ensku.

Ástæður þess að svo mörg fyrirtæki kepptust um að fá Sigur Rós á samning er að sögn þeirra sem til þekkja vestan hafs ekki endilega að hljómsveitin eigi eftir að ná milljónasölu, heldur að útgáfurnar sjá sér akk í því að hafa á sínum snærum hljómsveit sem nýtur svo mikillar virðingar, því það muni hvetja aðrar og ef til vill sölulegri hljómsveitir, til að semja við viðkomandi útgáfu, eins og fjölmörg dæmi eru um. Þannig sagði Tom DeSavia, útgáfustjóri hjá Elektra, að Radiohead hefði þessi áhrif fyrir Capitol, Björk fyrir Elektra og Sonic Youth hafi meðal annars gert það að verkum að Beck og Nirvana kusu að semja við Geffen.

Hljóðver í gamalli sundlaug

Áður er þess getið að eitt það fyrsta sem þeir Sigur Rósarfélagar gerðu þegar þeir fengu greitt fyrir útgáfu Ágætis byrjunar erlendis var að koma sér upp eigin hljóðveri í Mosfellsbænum. Þar innréttuðu þeir gamla sundlaug sem fullkomið upptökuver. Eina af ástæðunum sögðu þeir vera að þeir yrðu að geta tekið sér þann tíma sem þyrfti til að taka upp; vera lausir við alla tímapressu.

Vinna hófst í hljóðverinu snemma á þessu ári, en þá var komið fyrir í því upptökubúnaði og frágangi lokið. Fyrsta verkefnið var að taka upp lög með Steindóri Andersen á smáskífu sem átti að selja á tónleikum hljómsveitarinnar á árinu, en í kjölfarið fóru piltarnir í Sigur Rós síðan að vinna að næstu hljómplötu sinni, sem á að koma út snemma á næsta ári. Vinna við þá plötu hefur aftur á móti gengið hægt enda hafa þeir jafnframt verið á þönum í tónleikahaldi og verður svo fram eftir sumri.

Vinna við þriðju plötu Sigur Rósar verður óvenjuleg fyrir hljómsveitina að þessu sinni því nú á að taka upp lög sem spiluð hafa verið og mótuð á tónleikum undanfarna mánuði, í stað þess að aðeins sé byrjað á bassa- og trommugrunni líkt og forðum. Að því Jón Þór hefur lýst upptökum sveitarmanna hafa þeir skipulagt vinnu sína svo að fullvinna aðeins þau lög sem eiga að fara á plötu, en ekki velja úr lagabunka eins og alsiða er.

Eins og getið er hafa hljómsveitarmenn verið á þönum við tónleikahald á milli þess sem þeir hafa reynt að grípa í upptökur í nýja hljóðverinu og þannig lék hljómsveitin á átján tónleikum víða í Evrópu í apríl og aftur á sex tónleikum í lok apríl og byrjun maí í Bandaríkjunum. Með í för voru Steindór Andersen og strengjakvartett íslenskra stúlkna.

Stjörnufans á tónleikum

Gríðarlegur áhugi var fyrir tónleikum Sigur Rósar vestan hafs, og þannig seldist upp á tónleika hljómsveitarinar í New York á fáum klukkutímum. Eftirspurnin var svo mikil reyndar að tónleikarnir voru fluttir í stærra hús. Ritstjóri sunnudagsútgáfu bandaríska stórblaðsins New York Times, Gerry Mazorati, spáði því að blöð myndu ekki síður flytja fréttir af því hverji sæktu tónleikana en að segja frá frammistöðu hljómsveitarinnar, enda spáði hann því að mikill stjörnufans yrði á tónleikunum vestur í Los Angeles, San Fransisco og í New York. Hann hafði rétt fyrir sér í því, því meðal gesta á vesturströndinni voru liðsmenn hljómsveitarinnar Red Hot Chili Peppers, ýmsir frægir leikarar, Beck Hansen og Lars Ulrich, trymbill hljómsveitarinnar Metallica, sem meðal annars skrifaði hljómsveitarmönnum þakkarbréf. Í New York herma sögur síðan að Moby hafi mætt og David Bowie. Að sögn starfsmanns útgáfu Sigur Rósar vestan hafs er honum minnisstætt þar sem þeir félagar sátu baksviðs og spjölluðu við liðsmenn Metallica, Chronos-kvartettsins og Gillian Anderson, sem er fræg fyrir leik sinn í X-Files meðal annars.

Að sögn Gerrys Mazoratis hefur eftirspurnin eftir plötu hljómsveitarinnar í Bandaríkjunum veri gríðarleg, en stutt er síðan hún kom loks út þar í landi. Að hans sögn höfðu sérverslanir með tónlist ekki undan að flytja inn plötur frá Bretlandi sem seldust jafnharðan upp þó þær væru mun dýrari en þær plötur sem gefnar eru út í Bretlandi. Mazorati segir að það segi sitt um áhuga manna á hljómsveitinni hve auðvelt hafi verið að verða sér úti um lög með henni á MP3-sniði í gegnum Napster-þjónustuna og það hafi verkað sem afbragðs auglýsing. Mönnum þótti, að hans sögn, líka hljómsveitinni til sóma að neita að stytta lög sín til að koma fram í sjónvarpsþætti Davids Lettermans, en henni voru ætlaðar fjórar mínútur til spilamennsku í þeim þætti.

Ágætis byrjun kom loks út í Bandaríkjunum 16. maí síðastliðinn og þess má geta að á vefsetri Amazon er hún í 62. sæti yfir söluhæstu plötur. Samkvæmt heimildum að vestan seldust um 20.000 eintök af innfluttum eintökum af plötunni, en síðan hún kom út hafa selst um 30.000 eintök. Þess bera að geta að platan er rétt að fara í almenna dreifingu um þessar mundir, en hún hefur þannig ekki verið til nema í stærstu plötuverslunum.

Eins og getið er stendur til að hljóðrita breiðskífu á árinu en ekki næst samfelld vinna í bili, því hljómsveitin er á leið til tónleikahalds á næstu dögum, leikur til að mynda á Sonar-hátíðinni í Barcelona um miðjan júní, en einnig lekur hún á djasshátíðinni í Montreaux í júlí og þar verða liðsmenn hennar með svonefnda vinnustofu í slagverki þar sem þeir hyggjast kenna börnum tónlist.