30. maí 2001 | Innlendar fréttir | 257 orð | 1 mynd

Andlát

Gísli Magnússon

GÍSLI Magnússon, píanóleikari og fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans í Garðabæ, lést í fyrradag, 72 ára að aldri. Gísli fæddist á Eskifirði 5. febrúar 1929, sonur Sigríðar Jónsdóttur húsfreyju og Magnúsar Gíslasonar, sýslumanns í Heydölum í...
GÍSLI Magnússon, píanóleikari og fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans í Garðabæ, lést í fyrradag, 72 ára að aldri. Gísli fæddist á Eskifirði 5. febrúar 1929, sonur Sigríðar Jónsdóttur húsfreyju og Magnúsar Gíslasonar, sýslumanns í Heydölum í Breiðdal. Gísli lauk burtfararprófi úr Tónlistarskólanum í Reykjavík 1949 og einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Zürich 1953. Hann stundaði framhaldsnám í píanóleik í Rómaborg á árunum 1954-55. Gísli starfaði sem píanókennari í Reykjavík á árunum 1956-1972 og við Tónlistarskóla Garðabæjar frá 1969. Árið 1984 var hann ráðinn skólastjóri Tónlistarskóla Garðabæjar. Gísli hélt sína fyrstu tónleika á vegum Tónlistarfélagsins í Reykjavík árið 1951. Hann var um árabil einn mikilvirkasti píanóleikari þjóðarinnar og hélt einleikstónleika víða innan lands og utan; var einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og tók þátt í kammertónlist af ýmsu tagi. Gísli lék einleik í frumflutningi nokkurra íslenskra píanókonserta og frumflutti mörg verk samin fyrir hann. Gísli var gestur á Listahátíðinni í Björgvin í Noregi 1977 og lék þar einleik í Píanókonsert Jóns Nordals. Samstarf hans við Gunnar Kvaran sellóleikara var giftudrjúgt og fóru þeir tvívegis í tónleikaferðir; til Norðurlandanna árið 1974 og til Bandaríkjanna 1979. Gísli hélt einnig fjölda tónleika með Halldóri Haraldssyni píanóleikara, meðal annars á Listahátíð 1978 og á tónleikum á Evrópuráðstefnu píanókennara í Lundúnum árið 1986. Með Halldóri hljóðritaði hann verk ýmissa tónskálda fyrir tvö píanó, bæði fyrir útvarp og til útgáfu á hljómplötum, en einleikur Gísla er líka varðveittur bæði í útvarpsupptökum og á hljómplötum.

Gísli Magnússon var í stjórnum Félags íslenskra tónlistarmanna 1965-68, Félags tónlistarskólakennara 1978-81 og Íslandsdeildar Evrópusambands píanókennara frá 1979 til 1995. Eftirlifandi eiginkona Gísla er Þorgerður Þorgeirsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.