VEIÐI í Mývatni hefur verið í lægð undanfarin ár og að sögn Guðna Guðbergssonar, fiskifræðings hjá Veiðimálastofnun, er allt útlit fyrir að svo verði einnig í sumar.
VEIÐI í Mývatni hefur verið í lægð undanfarin ár og að sögn Guðna Guðbergssonar, fiskifræðings hjá Veiðimálastofnun, er allt útlit fyrir að svo verði einnig í sumar. Guðni segir að menn séu nýfarnir að leggja net sín í Mývatni í sumarveiði og að fyrstu veiðitalna sé að vænta fljótlega.

"Ég vissi bara að veiði var léleg í vetur og í fyrra og útkoman úr rannsóknarveiðunum sem ég gerði í fyrra var döpur. Samkvæmt þeim mælingum voru horfurnar fyrir sumarið ekki mjög bjartar," segir Guðni og bætir við að tvær dýfur hafi átt sér stað í Mývatni frá árinu 1986, önnur 1988 og hrun árið 1997 sem stofninn hefur ekki enn náð sér eftir.

"Kísilvinnslan hefur ekki fjarvistarsönnun"

Guðni segir að í lífríki Mývatns séu þekktar sveiflur sem útskýri þessa lægð. "Það verður átubrestur og hafi silungurinn ekki nóg í sig um sumartímann verður fellir yfir þann tíma, hann brennur hreinlega upp."

Guðni segir að menn viti ekki hvað kemur þessum átubresti af stað en sjónir hafi beinst að botninum og setinu. Spurður um áhrif kísilvinnslunnar á þessar sveiflur segir hann erfitt að fullyrða nokkuð. "Það er ljóst að kísilvinnslan hefur ekki fjarvistarsönnun og er búin að vera þarna um býsna langan aldur. Vandræðin eru þau að ekki eru til rannóknir fyrir þann tíma, viðmiðun áður en vinnsla hófst er ekki til, þannig að menn hafa ekki beinar upplýsingar um hvort eitthvað hafi verið öðruvísi þá."

Guðni segir það yfirleitt þannig að röskun af mannavöldum hafi áhrif á lífríkið. Það sé því vel hugsanlegt að um tengsl sé að ræða þótt hann viti ekki hver þau eru. "Reyndar er ákveðin gáta sem við höfum ekki svör við, en veiðin í vatninu hefur verið að sveiflast um lægra meðaltal og hefur verið að minnka síðastliðin 30 ár," segir Guðni.