STUNDUM finnst manni að þegar talað er um einkavæðingu finnist sumum það vera eins konar skammaryrði, það er að segja hjá stjórnarandstöðuflokkunum sem beinlínis hafa ríkisrekstur á stefnuskrá sinni.
STUNDUM finnst manni að þegar talað er um einkavæðingu finnist sumum það vera eins konar skammaryrði, það er að segja hjá stjórnarandstöðuflokkunum sem beinlínis hafa ríkisrekstur á stefnuskrá sinni. Þessir flokkar fylgjast ekki með þróuninni og láta sem Ísland geti dagað uppi sem náttröll meðal vestrænna þjóða.

Svo lengi sem eðlileg og heilbrigð samkeppni ríkir með fyrirtækjum og stofnunum hlýtur sú stefna Sjálfstæðisflokksins, að ríkið eigi ekki að vera að vasast í rekstri fyrirtækja og stofnana, að vera rétt. Jafnvel í mennta- og heilbrigðismálum getur einkavæðing og samkeppni gengið að hluta. Einkavæðing á sem flestum sviðum er stundum forsenda fyrir betri lífskjörum og þar með betri starfsanda en hjá steinrunnum ríkisbáknum.

Síðustu tíu árin hefur stjórnarfar tekið svo örum breytingum að vafalítið eru þetta mestu byltingarár Íslandssögunnar. Það er engin tilviljun að Sjálfstæðisflokkurinn með Davíð Oddsson sem formann hefur stýrt þjóðarskútunni þessi ár. Stjórnmálamenn sem Davíð Oddsson fæðast ekki margir á öld; áræðinn, heilsteyptur og heiðarlegur, sem þjóðin lítur með stolti upp til. Góðærið er ekkert náttúrulögmál. Það er fyrst og fremst að þakka afburðastjórnvisku ríkisstjórnar sem ekki hefur glutrað niður þeim tækifærum sem stöðugleikinn títtnefndi, sem komst á með samningum verkalýðsfélaga og ríkisstjórnar, bauð upp á. Það er enginn vandi að glutra niður góðum tækifærum með því að lofa öllum öllu fyrir stundarvinsældir.

Stundarvinsældir eru slæmur förunautur stjórnmálamanns, hann verður aldrei langlífur á þingi. Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa notið góðra tækifæra og kunnað að nýta sér þau. Við eigum gjöful fiskimið sem gefa af sér 40-50% þjóðarteknanna ef þau eru skynsamlega nýtt. Þjóðin getur aldrei ljáð máls á því að láta risann í Evrópu, ESB, ráða yfir sér og skammta okkur sem öðrum þjóðum af okkar auðlind.

Stjórnarandstaðan sér fjandann í hverju horni og er þá ekki lengi að blása það upp sem þjóðargjaldþrot sé fram undan. Þá er ekki ónýtt að hafa sterka stjórn sem blæs á allan bölmóð og drífur kjark í þjóðina. Það er svo annað mál að þjóðin hefur nú um stund lifað um efni fram, enda ekki að furða þótt hún kunni sér ekki hóf eftir áratuga kyrrstöðu og stjórnleysi fyrri ára. Þegar fólk fær allt í einu svona lífsskilyrði eftir slíkt þarf það að endurnýja bílana sína og breyta um húsnæði. Þegar bjartsýni ríkir á öllum sviðum er oft erfitt að gæta hófs. En til að rugga ekki um of þjóðarskútunni þegar vel árar er um að gera að nema staðar og minnka um sinn útstreymi á gjaldeyri þjóðarinnar. Það sannast nefnilega alltaf gamla máltækið að það eyðist allt sem af er tekið.

Sem betur fer er gróska á öllum sviðum þjóðlífsins; nær ótakmarkaðir möguleikar, bæði í fiskveiðum, iðnaði og ferðamennsku, sem eru helstu stoðir undir góðum efnahag þjóðarinnar, og alls konar tækniþróun á ótal sviðum í besta standi. Markaðir fyrir vörur okkar erlendis virðast vera góðir og á hægt sígandi uppleið svo ekki þarf þjóðin að kvíða þess vegna. Stóru verslunarkeðjurnar og fyrirtækin sem hafa stækkað undanfarin ár með samruna og hagræðingu bera mikla ábyrgð gagnvart hinum almenna neytanda. Þeir verða að njóta þessa samruna og þeir sem ekki láta neytendur njóta þessa lága verðs og þjónustu sem ætti að koma við slíka hagræðingu verða að gæta að sér.

Fyrirtæki sem fara ekki að settum reglum um að framboð og eftirspurn eigi að ráða á mörkuðum verða alltaf að sjá að sér. Fyrst og síðast verða þau að skilja að án neytenda er þeirra fyrirtæki heldur lítils virði. Ef satt er að jafnvel muni tugum prósenta hvað verð á vörum í okkar helstu viðskiptalöndum sé lægra en hér hvernig fær það þá staðist, eins og stjórnarandstaðan heldur fram, að laun séu þar allt að 50% hærri? Þarna er einhver maðkur í mysunni. Er kannski eitthvað til í því að sumir haldi grasið grænna hinum megin við lækinn? Við skulum vona að við fáum að búa við þetta stjórnarsamstarf sem nú ríkir hér sem allra lengst.

KARL ORMSSON,

fv. deildarfulltrúi.

Frá Karli Ormssyni: