[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MARGT af þeirri tónlist sem tók sér bólfestu í græjunum mínum hér áður fyrr þolir því miður ekki aðra hlustun í dag og rykfellur því aftast í rekkanum.
MARGT af þeirri tónlist sem tók sér bólfestu í græjunum mínum hér áður fyrr þolir því miður ekki aðra hlustun í dag og rykfellur því aftast í rekkanum. Ég get þó alltaf stólað á Throwing Muses-plöturnar mínar og það sem meira er, hef getað treyst því að hver ný plata frá Kristin Hersh, forsprakka þeirrar hljómsveitar, sé engu síðri að gæðum en þær. Tónlist hennar hefur auðvitað breyst og þróast og stundum saknar maður ótemjunnar frá fyrstu árunum, en það er líklega ekki hollt að fara öskrandi í gegnum lífið. Throwing Muses leystist endanlega upp í kringum 1995 og Kristin Hersh gerðist þá sólósíld.

Á fyrstu plötunum sem hún sendi frá sér undir eigin nafni hafði hún órafmagnaðan gítarinn einan að vopni en á Sky Motel (1999) reyndi hún sig við fleiri hljóðfæri og skapaði fyllri og fjölbreyttari hljóm. Báðar þessar leiðir mætast á nýjustu plötu hennar, Sunny Border Blue. Kristin leikur á öll hljóðfæri sjálf og hefur sagt að hún hafi viljað reyna að ná Throwing Muses-hljómnum þótt hún hafi einnig þurft að taka tillit til þeirrar staðreyndar að hún þarf að leika lögin ein á tónleikum.

Sunny Border Blue er órólegri og klofnari en fyrri sólóskífur og ég er eiginlega óskaplega ánægð með það því hér fá mörg andlit Stínu að njóta sín. Það skiptast á blíð og órafmögnuð lög sem eru tær og einföld í útsetningum og margbrotnari smíðar þar sem Throwing Muses-hljómurinn er endurskapaður. Lögin eru frumleg sem fyrr og eiga það til að taka óvæntar beygjur og hliðarspor og stökkva í hinum og þessum taktinum á leiðarenda. Textarnir eru einnig fullir af andstæðum og eru sérstæð blanda af viðkvæmni og óþægilegu raunsæi.

Strax í fyrsta lagi plötunnar er tónninn sleginn, þar sem hún syngur (líklega um sinn kæra eiginmann): "You're so beautiful, you're so rude..." Kristin syngur um þá sem standa henni næst og setur engar bremsur á tilfinningar sínar, hvort sem þær eru myrkar eða bjartar. Stundum glittir í eitthvað sem ætti kannski ekki að fara út fyrir heimilisveggina. Eina mínútuna syngur hún af barnslegri einlægni um börnin sín, ást og hamingju en þá næstu er eins og henni sortni fyrir augum og reiði og ásakanir taka við, eins og gerist í hinu frábæra lagi "Spain". Það byrjar ósköp fallega á letilegum gítarnótum sem framkalla sólríka stemmningu en svo upphefst eitt allsherjar kaþarsis þar sem reiði og biturleiki fá óritskoðaða útrás.

Í "Listerine", mögnuðu lokalagi skífunnar, svífa ótrúlega fallegur rifinn gítar og orgel yfir hægum takti og kallast á við tregann í rödd Kristinar sem syngur um hljómsveitina sína og vonbrigðin sem fylgdu í kjölfar þess að hún hætti: "How did I trust a band who'd leave me one by one?" Um leið viðurkennir hún að hún hafi sjálf átt upptökin. Önnur lög eru hugljúfari, eins og t.d. "Ruby" sem væri næstum óbærilega sætt ef ekki kæmi til nokkuð sýrukenndur millikafli.

Það eru fáir veikleikar á þessari plötu, helst að mér finnist að hún mætti í sumum lögum gefa meira í. Eitt lag á plötunni er ekki eftir Kristinu sjálfa heldur Cat Stevens ("Trouble") og það fellur mjög vel inn í þá tilfinningaríku klippimynd sem Sunny Border Blue er. Kraftur plötunnar liggur í spennunni og togstreitunni sem einkennir hana. Og einlægninni. Kristin Hersh sækir lög sín og texta í sálardjúpið og færir okkur rjúkandi heitt á borðið. Lög hennar snerta mann því að hún er greinilega að segja satt og hefur reynt sannleikann á sjálfri sér.