Bridsfélag Siglufjarðar Þættinum hefir borist skemmtilegt fréttabréf frá Jóni Sigurbjörnssyni um það sem helzt er að gerast í bridsíþróttinni í Siglufirði en hann hefir sent okkur fréttir frá félaginu í vetur Mánudaginn 23.

Bridsfélag Siglufjarðar

Þættinum hefir borist skemmtilegt fréttabréf frá Jóni Sigurbjörnssyni um það sem helzt er að gerast í bridsíþróttinni í Siglufirði en hann hefir sent okkur fréttir frá félaginu í vetur

Mánudaginn 23. maí lauk þriggja kvölda tvímenningi, Skeljungsmótinu, þar sem verðlaun eru gefin af umboðsmanni félagsins á staðnum, Haraldi Árnasyni. Eftir harða baráttu stóðu uppi sem sigurvegarar:

Þorst. Jóhannss. og Stefán Bened.ss.107.

Anton Sigurbj.ss. og Bogi Sigurbj.ss.92

Ari M. Aras. og Ari M. Þorkelss.85

Friðfinnur Haukss. og Hreinn Magnúss.70

Ólafur Jónsson og Guðlaug Márusdótti59

Guðrún J. Ólafsd. og Kristín Bogad.57

Að venju var Bronsstigameistari félagsins í lok starfsársins útnefndur, en þann titil hlýtur sá spilari sem bestum árangri nær á vetrinum. Bronsstigameistari félagsins árið 2001 varð Bogi Sigurbjörnsson með 459 stig eftir gríðarlega jafna baráttu. Bogi varð einnig bronsstigameistari í fyrra, en þá með verulega betra skor, eða 645 stig. Sá stigafjöldi er nú viðmiðun til sérstakra peningaverðlauna en þeir sem ná hærra skori yfir veturinn en 645 stig fá sérstök peningaverðlaun. Ekki kom því til slíkra verðlauna í þetta sinn. Úrslit bronsstigakeppninnar urðu annars þessi:

Bogi Sigurbjörnsson459 stig

Guðlaug Márusdóttir451 stig

Ólafur Jónsson449 stig

Anton Sigurbjörnsson426 stig

Ari Már Arason419 stig

Ari Már Þorkelsson389 stig

Vetrarstarfinu lauk að venju með veglegu lokahófi miðvikudagskvöldið 23. maí en næsti dagur, fimmtudagurinn 24. maí, var uppstigningardagur og frídagur í vinnu. Lokahófið nú var að venju haldið með miklum glæsibrag þar sem borð svignuðu undan kræsingum og bjór flóði um öll borð í boði stjórnar. Svo vel undu bridsfélagar sér í veislunni að þeir sem síðast yfirgáfu samkvæmið dvöldu allt til hádegis daginn eftir. Í lokahófinu fór fram verðlaunaafhending fyrir öll mót vetrarins og kom þar margt merkilegt fram. Til dæmis kom það fram að í firmakeppni félagsins hafi það ótrúlega gerst að Benedikt Sigurjónsson hafði í þremur útdráttum alltaf dregist út til að spila fyrir Sparisjóð Siglufjarðar og til að toppa þessa einstæðu tilviljun vann hann firmakeppnina fyrir Sparisjóðinn sem þar með hlaut hin glæsilegu 1. verðlaun. Þetta afrek vann hann með tveimur makkerum sínum, þeim Georg Ragnarssyni og Erni Þórarinssyni. Í ræðu sem flutt var á lokahófinu kom fram að Benni hafði hlerað að Sparisjóðurinn myndi verðlauna hann sérstaklega með koníaki. Daginn fyrir lokahófið kom Benni þrisvar í Sparisjóðinn til að hitta Óla en hann var alltaf upptekinn í viðtölum eða í símanum. Guðrúnu móttökustjóra fannst mjög miður í þriðja skipti sem Benni kom, að hann skyldi ekki ná á Óla og spurði hvort hún gæti ekki tekið skilaboð. Þá svaraði Benni, nei ég ætlaði bara að vita hvað þetta yrðu margir lítrar. Fleiri fóru á kostum í samkvæminu, t.d. Friðfinnur Hauksson sem meðal annars færði makker sínum, Hreini Magnússyni, forláta eggjabikar að gjöf með þakklæti fyrir að hann hafði aldrei barið hann allan veturinn fyrir vitleysurnar sem hann taldi sig hafa gert við spilaborðið.

Ein sveit frá félaginu hefur skráð sig til þátttöku í Bikarkeppni BÍ. Sveitin sem ber nafnið "Síldarævintýrið" mun hefja baráttuna með heimaleik þar sem sveit af Austfjörðum, Austanvindurinn, kemur til Siglufjarðar samkvæmt útdrætti 1. umferðar.

Í lok spilavertíðar fannst fréttaritara áhugavert að skoða árangur siglfirsku bridsfjölskyldunnar á Íslandsmótum nýlokins starfsárs. Ber þá fyrst að telja Íslandsmeistaratitil þeirra hjóna Jóns Sigurbjörnssonar og Bjarkar Jónsdóttur í parakeppni. Þá urðu synir þeirra, Steinar og Birkir, Íslandsmeistarar í tvímenningi, Steinar í opnum flokki og Birkir í flokki yngri spilara. Bróðir þeirra Ingvar varð síðan Íslandsmeistari yngri spilara í sveitakeppni. Sveit Boga Sigurbjörnssonar varð í 4. sæti Íslandsmótsins í sveitakeppni en sveitina skipuðu auk hans Birkir Jónsson, Jón Sigurbjörnsson og Ólafur Jónsson. Bestum árangri einstakra para á mótinu náðu þeir Jón og Ólafur. Á Íslandsmóti kjördæmanna í sveitakeppni sem haldið var í Reykjanesi sl. vor urðu þeir Birkir og Bogi efstir í "Butler"-útreikningi 65 para. Þá tók sveit Boga Sigurbjörnssonar þátt í Bikarkeppni Bridssambands Íslands. Með Boga spiluðu Birkir, Stefanía og Jóhann. Því miður reyndi ekki á árangur þar sem sveitin þurfti að sæta útdrætti úr spilastokki eftir fyrsta leik sinn við sveit Roche.