[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bragi Ásgeirsson, listrýnir og listmálari, stendur á sjötugu. Hann lætur þó hvorki pennann né pensilinn síga, eins og lesendur Morgunblaðsins sjá á síðum þess og tveimur sýningum, sem nú standa í tilefni sjötugsafmælisins. Freysteinn Jóhannsson ræddi við manninn, sem deilir Braga með kennaranum, málaranum og rýninum.
Ég fæddist ekki með pensilinn í hendinni, síður en svo. Föður minn dreymdi eitt sinn skömmu fyrir jól, að til hans kom maður og sagði honum að hann ætti son sem yrði listmálari og mikill áhrifamaður á því sviði.

Faðir minn velti mjög fyrir sér, hver okkar bræðranna þetta gæti verið. Dag einn þrammaði hann svo í bæinn með mig og systur mína og keypti listaverkabækur handa eldri bræðrum okkar. Þegar þær komu upp úr jólapökkunum sýndu þeir takmarkaðan áhuga, en ég fór strax að skoða þær. Ég mátti svo eiga þær og á reyndar enn. Þessar bækur urðu mínir örlagavaldar því út á áhuga minn á þeim var ákveðið að reyna að koma mér í Myndlista- og handíðaskólann. Ég var sextán ára, þegar loks kom að því.

Fyrsta skólaárið var mjög slakt hjá mér, þrátt fyrir miklar vinnulotur. Kurt Zier, sem fór í leyfi eftir það, tók loforð af Lúðvíg Guðmundssyni um að hann léti mig hætta. En þá um sumarið fór ég að teikna vinnufélaga mína og tók svo miklum framförum, að Lúðvíg leyfði mér að halda áfram. Þegar Kurt Zier kom aftur var ég það fyrsta sem hann sá í skólanum og hann strunsaði bálvondur á fund Lúðvígs, að skamma hann fyrir að stoppa mig ekki.

Lúðvíg svaraði honum því að hann skyldi fara til Braga og skoða vel það sem hann væri að gera og ef honum fyndist ennþá eftir það, að það ætti að láta hann hætta, þá skyldi hann gera það. Kurt kom svo til Lúðvígs aftur og sagði, að aldrei þessu vant hefði hann rétt fyrir sér!

Ég var sex ára, þegar faðir minn, Ásgeir frá Fróðá, varð fertugur 1937 og Snæfellingar og Snæfellingafélagið gáfu honum stórt, aflangt og litríkt málverk eftir Kjarval, líkast til frá Snæfellsnesi. Hann var einn af stofnendum félagsins og formaður þess í aldarfjórðung. Ég fylgdist grannt með því, þegar þá bar að á Rauðarárstígnum með málverkið. Sjálft atvikið man ég enn og mig minnir að í málverkinu hafi sézt í hvítt hús með rauðu þaki. Það hefur líkast til verið bærinn á Fróðá. Málverkið stóð þó ekki lengi við, því veggurinn á kontórnum, þar sem það átti að hanga, var ekki nægilega langur, þannig að það náði annars vegar út yfir gluggakarm. Því var skilað og annað hálfu minna valið og var pabbi ekki alltof ánægður með þau málalok; hann hefði viljað fá tvö í staðinn! Það var dálítið kómískt umstang í kringum þetta og kannski má segja, að þá hafi vitundin um málverk og málaralist fyrst þrengt sér inn í líf mitt.

Tíu árum seinna, þegar pabbi varð fimmtugur, fékk hann frá sömu aðilum tvö málverk eftir Jón Þorleifsson, annað af Fróðá og hitt af gömlum húsum í Ólafsvík, og líka túsk/vatnslitamynd af Þingvöllum eftir Kjarval. Þetta var nú allt af íslenzkri list í húsinu utan tækifærisriss eftir Jón Engilberts og innrömmuð ljósmynd af málverki Ásgríms að ég held af Hjaltastaðablánni. Kannski hafa þessar myndir ýtt undir þann ásetning minn að fara að mála sjálfur og svo var pabbi líka farinn að taka mig með á einstaka listsýningar.

Þessi Kjarvalsmynd er með hægum undirtóni. Mér hefur alltaf líkað bezt við hægan undirtón í málverkinu; myndir, sem koma hægt og hljótt til manns.

Það er nefnilega ekki nóg að framsetningin í málverkinu sé óaðfinnanleg. Það þarf líka að hafa tilfinningalega dýpt, sem gefur af sér.

Það var menntað andrúmsloft á mínu æskuheimili. Pabbi ætlaði að verða stúdent. Hann las utanskóla samtíðis Tómasi Guðmundssyni, Sigurði frá Holti og Halldóri Laxness. Þeir féllu allir á latínunni, nema Sigurður. Tómas varð svo stúdent árið eftir, Laxness ákvað að hann hefði ekkert með stúdentsprófið að gera, en pabbi hafði ekki efni á að reyna aftur. Hann tók hins vegar þá ákvörðun, að öll hans börn skyldu verða stúdentar og það urðu þau öll nema ég!

En ég hef alltaf verið ákaflega fróðleiksþyrstur maður.

Heimilið á Rauðarárstígnum var mjög lifandi. Þar var mikill gestagangur og gaman að fylgjast með, sérstaklega þegar Snæfellingarnir fóru að deila um pólitík. Þá hitnaði nú oft í kolunum. Ég man, hvað ég var hissa, þegar þessir menn kvöddust með virktum eftir rifrildin. Þá uppgötvaði ég, að menn geta haft mismunandi skoðanir og haldið vináttu sem fyrr.

Við vorum öll fluglæs systkinin áður en við hófum nám í Austurbæjarskólanum. Mamma kenndi okkur að lesa. Henni var það metnaðarmál að við værum vel læs og skýrmælt. Foreldrar okkar fylgdust báðir með náminu, hlýddu okkur yfir og studdu okkur á allan máta.

Eitt sinn átti Sveinn bróðir að fara með ljóð í Ingimarsskólanum. Þá var nýkomin út ljóðabók eftir Jakob Jóhannesson Smára og mamma hreifst mjög af Þingvallaljóði í þeirri bók. Hún kenndi Sveini kvæðið og hvernig það yrði bezt flutt. Flutningur hans á kvæðinu vakti mikla athygli og var lengi í minnum hafður.

Mamma söng mikið og ég líka, áður en ég missti heyrnina. Ég var þá nær tíu ára og þegar á reyndi var enga haldbæra kennslu að hafa fyrir mig. Ég komst í tæri við þann glæp að sérþörfum barna er ekki sinnt, en mamma bjargaði mér frá honum. Hún fór og talaði við stjórnendur Austurbæjarskóla, sem höfðu engin úrræði, en vildu helzt ekki að ég hætti í skólanum. "Hvað á drengurinn þá að gera?" spurði mamma. "Sitja bara á rassinum?" Hún tók mig svo úr skólanum, þrátt fyrir hörð mótmæli.

Á þessum tíma kom Brandur Jónsson heim frá námi, uppfullur af nýjum hugmyndum um kennslu heyrnarlausra, og foreldrar mínir fengu hann til að kenna mér varalestur í einkatímum. Brandur varð svo skólastjóri Heyrnleysingjaskólans og ég fór með honum í skólann og tók þar fullnaðarpróf.

Ég missti heyrnina í inflúensufaraldri, sem brezka setuliðið bar með sér. Ég seldi blöð í nokkrum kömpunum og átti þar marga vini, meðal þeirra hershöfðingja nokkurn, sem oft bauð mér inn til sín að hlusta með sér á klassíska tónlist.

Ég hafði heyrnarleifar eftir veikindin, en þær fjöruðu smám saman út. Veikindunum fylgdi að ég missti þrótt og jafnvægisskyn og þurfti meðal annars að læra að ganga upp á nýtt. Það tók sinn tíma og lengi reikaði ég um eins og drukkinn maður. Þá fékk ég íþróttaæði, sem stóð óslitið fram að nítján ára aldri með ómældu kúlu- og kringlukasti og aflraunum, sem með grjótvinnu við Markarfljót gerðu mig vafalaust með sterkari mönnum í landinu. En svo uppgötvaði ég ávinning og yfirburði andlegra athafna og fann að ég hafði öllu meira til þeirra að sækja. Það tel ég hafa verið gæfu mína.

Bernskuheimili mitt á Rauðarárstígnum var í jaðri borgarinnar, næstum uppi í sveit. Við héldum fiðurfé og áttum að auki á tímabili gráskjöldótta belju, sem ég hugsaði um. Hún hét Fríða og undarlegt nokk máttu allir mjólka hana nema ég. Það var líka gaman að gefa pútunum. Ég held að hænur séu óvitlausar skepnur. Ég man eftir einni, sem var alveg hætt að verpa, og þegar foreldrar mínir voru orðnir úrkula vonar var talað um að aflífa hana. En viti menn. Vart var orðinu sleppt þegar hænan fór að verpa aftur. Hún varð helgigripur eftir það og dó í hárri elli!

Mér fannst líka ævintýri að taka upp kartöflur úr garðinum ofan við húsið á haustin. Þær voru svo góðar.

Hjá okkur ríkti góður heimilisbragur og við ólumst upp við íslenzkan mat, slátur, harðfisk og rúgbrauð. Ársskammturinn af gosi var eins og vikuskammturinn hjá unga fólkinu nú.

Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika átti ég mjög góða æsku. Á fullorðinsárunum hafa vanmat og fordómar gagnvart manni í minni aðstöðu tvímælalaust verið það versta.

En mér hefur lánazt að sjá spaugilegu hliðarnar á tilverunni. Mamma var mikill húmoristi og pabbi hló þannig, að hann hristist allur um axlirnar í innilegum og smitandi hrossahlátri og reyndu margir að líkja eftir honum.

Þegar ég vaknaði af heilahimnubólguóráðinu sat pabbi hjá mér grafalvarlegur á svip og fór að skrifa á spjald. "Af hverju gerirðu þetta, pabbi?" spurði ég. "Af því að þú ert búinn að missa heyrnina," svaraði hann. Ég fór að skellihlæja. "Hvað er svona fyndið við það?" spurði pabbi alveg gáttaður. Og ég sagði: "Nú getur hún Kristín gamla ekki kvartað lengur yfir því, hvað hún heyrir illa, fyrst ég er orðinn heyrnarlaus!" Kristín var móðir eiginmanns móðursystur minnar og var síkvartandi yfir því hvað hún heyrði illa.

Auðvitað birtust svo alvarlegri hliðar málsins seinna, en það er önnur og grafalvarlegri saga. -

Tilsvör Braga eru oft lýsandi dæmi um húmor hans. Fræg er sagan frá Rostock, sem Bragi segir mér svona:

Ég var í kvöldsamkvæmi hjá myndhöggvara nokkrum, þar sem var margt mektarfólk úr listgeiranum. Í þeim hópi voru nokkrir blaðamenn. Miklar og fjörugar umræður spunnust, sem að líkum lætur, en ég hafði mig lítið í frammi. En svo beindist athygli blaðamannanna að mér og þeir spurðu meðal annars hve margir listamenn væru á Íslandi. Ég svaraði að einmitt núna værum við Íslendingar 200.000 og þar af væru 199.999 listamenn. Þeir spurðu hver þessi eini væri, sem ekki væri listamaður, og þá benti ég á sjálfan mig. Það er auðvitað ekki hægt að svara svona spurningu, hún er abstrakt. Þeir skildu sneiðina, að hér væri heimskulega spurt, en létu ekki segjast og spurðu: Af hverju senda Íslendingar alltaf heyrnarlausan málara til Rostock? Það er af því að við eigum engan blindan málara til að senda ykkur, svaraði ég. Spurningarnar urðu ekki fleiri!

- Svo bætir hann við:

Nokkrum árum seinna sagði myndhöggvarinn mér, að til hans hefði komið sendinefnd svartra manna frá Afríku. Hann var opinber listamaður og þurfti að taka á móti sendinefndum víða að úr veröldinni. Eitthvað var hann illa fyrirkallaður og smám saman varð stemmningin svo neyðarleg, að hann örvænti, en þá kom ég upp í huga hans og hann spurði, hvort þeir vissu eitthvað um Ísland. Það fór kuldahrollur um gestina og þeir sögðu: eskimo, eskimo. En hann sagði kuldann minni en margur héldi vegna Golfstraumsins og þar byggi merkileg söguþjóð, fámenn að vísu, en þar virtust menn kunna að svara fyrir sig. Svo sagði hann þeim söguna af orðræðum mínum og blaðamannanna. Hann sagði mér, að það hefði verið kostuleg sjón að sjá mennina veltast um af hlátri. "Þar bjargaðir þú mér rækilega fyrir horn." -

Rauðarárstígurinn og Þverholtið voru eins og þorp á þessum tíma. Þarna var alls konar fólk, hestamenn, verkamenn, sjómenn, hundahreinsari, fyllibyttur, bakarar og embættis- og gáfumenn. Ein fyllibyttan var Kristófer kallaður Feri. Strákar gerðu það af skömmum sínum að elta hann fullan og hrinda honum ofan í skurði. Eitt sinn bar hann upp á baktröppurnar heima undan strákaskaranum. Þá tók mamma Fera undir sinn verndarvæng. Hún óð á móti strákunum og hundskammaði þá, en tók Fera inn í kaffi. Hann kom oft heim eftir þetta og elskaði mömmu út af lífinu. Hún kenndi okkur að virða alla menn, líka smælingjana, og pabbi var líkur henni, hvað það snerti. Hann var mikill sjálfstæðismaður, þótt hann væri kannski frekar félagshyggjumaður í háttum. Hann var skrifstofustjóri vegamála í 47 ár og vildi að vegir féllu inn í landslagið, yrðu hluti af því listaverki, sem landið er. Ég vil geta þess, að hann hafði frumkvæði að baráttu fyrir því að Búðahraun yrði friðað og stofnaði hlutafélag á sínum tíma um Hótel Búðir.

Hann var ekki prófmenntaður til starfans, en þegar hann hætti þurfti þrjá hámenntaða spekinga til að taka við af honum.

Eftir að mamma hafði kennt mér að lesa í litlum sumarbústað, Knútskoti við Gufunes, sem þá var langt uppi í sveit, opnaðist mér nýr heimur og ég las mikið af barnabókum. Þetta var sumarið, sem ég varð sjö ára. Ég á það móður minni að þakka, að ég var mun betur í stakk búinn til að mæta örlögum mínum tveimur árum seinna en ella hefði orðið með skólalærdóminn. Hins vegar var yfirleitt lítið ris á þeim bókmenntum, sem ég las á unglingsárunum. Þetta voru almennar skemmtisögur og dægurbókmenntir. Það var fyrst þegar ég var kominn uppundir tvítugt að heimur bókmenntanna opnaðist mér að marki. Og raunar annarra listgreina um leið, því ég hafði þann háttinn á varðandi sjálfsnám í dönsku að lesa alla listgagnrýni dagblaðanna, mest fyrir þann fróðleik, sem hún bar í sér. Löngu seinna hafði ég sama háttinn á varðandi þýzku; ég kom jafnan fyrstur í skólann í München á morgnana og las allt um listir í suður-þýzka dagblaðinu með morgunverðinum.

Þótt ég þekki mikið til í bókmenntum get ég ekki státað af því að vera víðlesinn á þeim vettvangi. Því veldur frekar tímahrak en að áhugann eða vilja vanti. En til þess að fylgjast með er ég alæta á dagblöð og listtímarit og gleypi í mig áhugaverðar og vel skrifaðar greinar og pistla í þeim. Ég væri fastur lesandi ýmissa útlendra blaða og tímarita, ef álagning á andlegt fóður hér á landi væri ekki enn meiri en hún er á það líkamlega.

En tónlistin hvarf úr mínu daglega lífi með heyrninni. Ég hafði alltaf haft gaman af tónlist og get reyndar enn numið hana í gegnum titringinn. Einu sinni, þegar Ragnar Björnsson spilaði fyrir hofróðuball Menningarfélagsins Loka, sem er félag manna, sem þykjast vera voðalega gáfaðir, tók ég mér stöðu við hljóðfærið og lagði á það höndina. Ragnar sagði að ég hefði eiginlega stolið frá honum senunni með þessu. En tíminn hefur liðið svo í heyrnarleysinu, að ég hef látið tónlistina vera. Þó á ég það enn til að taka dansspor. Ég þótti góður dansari hér áður fyrr og dansa enn, þegar færi gefst, mismikið reyndar eftir því í hvernig skapi ég er.

- Í annarri frægri sögu, sem gengur um tilsvör Braga kemur tónlistin við sögu. Hann var á tali við tónlistarmann, sem fór hörðum orðum um myndlistarskrif á Íslandi . Þóttu honum þau svo léleg, að hann væri alvarlega að hugsa um að taka sjálfur til við að skrifa um myndlist. Þá horfði Bragi í augu viðmælanda síns og sagði: Ef þú ferð að skrifa um myndlist, skrifa ég um tónlist!

Eftir námið í myndlistarskólanum fór ég til Kaupmannahafnar. En einhvern veginn kunni ég ekki að meta aðstæður þar þá. Í Höfn kynntist ég Jóni Stefánssyni, sem var mér vinsamlegur. Sagði reyndar að það væri nú ekki endilega vegna málverksins, heldur ætti persóna mín líka þar hlut að máli!

Að undirlagi Jóns fór ég til Osló og þar var allt annað upp á teningnum. Það var fínt andrúmsloft á akademíunni og við Guðmundur Erró slógum öllum við í iðni.

Síðar átti ég námsár í Kaupmannahöfn í steinþrykkinu og þá fór mér að líka betur og betur við Dani, því betur sem ég kynntist þeim meira. Þeir hafa þennan meginlandskúltúr, sem okkur skortir.

Mér hafði aldrei til hugar komið, að það ætti fyrir mér að liggja að kenna myndlist. Og þar hafði ég engan undirbúning. En eftir árið mitt í Grafíska skólanum í Kaupmannahöfn, sýningu mína þar um vorið og þátttöku í sýningu Norræna grafíksambandsins á Charlottenborg um haustið og allt það lof, sem ég fékk í dösnku pressunni, var Lúðvíg Guðmundsson eins og grár köttur á eftir mér að fá mig til að kenna grafík við Handíðaskólann. Ég taldi mig ekki eiga neitt erindi í skólann, en pabbi minnti mig á að ég ætti Lúðvíg skuld að gjalda, þar sem hann reyndist mér svo forkunnarvel í upphafi. Annað var, að Halldór Pétursson vildi gefa steinþrykkpressu, sem hann átti, ásamt allmörgum steinum, ef kennari fengist. Þetta var því nokkurt mál. Á endanum lét ég tilleiðast, en harðneitaði svo að koma árið eftir og skipti ekki um skoðun, fyrr en nemendurnir tóku af skarið og sóttu mig heim. Það voru þeir Gísli B. Björnsson og Elías B. Halldórsson, sem voru gerðir út af örkinni til þess að ná í kennarann!

Þetta eru minnisstæð ár. En svo hélt ég til Þýzkalands sem styrkþegi DAAD. Útlenzkum vinum mínum þótti of þröngt um mig á Íslandi og sendu nokkur steinþrykk eftir mig til stofnunarinnar í Bonn. Einhverjir listaprófessorar fengu þær til umsagnar með þeim árangri, að ég fékk eins árs styrk þrátt fyrir að kunna ekki neitt fyrir mér í málinu, sem þó var algjört skilyrði. Styrkurinn var veittur mér beint, án afskipta menntamálaráðuneytisins, en ég hafði nokkrum sinnum farið bónleiður til búðar eftir að hafa reynt að fá þar slíka styrki. Þeir hringdu meira að segja í pabba til að sverja af sér öll afskipti af styrkveitingunni! Styrkinn fékk ég svo endurnýjaðan og þegar ég kom heim, kvæntur þýzkri konu, var ég fljótlega kallaður í þýzka sendiráðið, þar sem mér var heitið allri mögulegri aðstoð, ef ég hygðist halda áfram. En ég gat ekki þegið það góða boð, eins og á stóð, og í hönd fóru erfið ár án viðunandi vinnuaðstöðu. Þessa vinnustofu hérna við Austurbrún fékk ég fyrst 1964.

En þessi sjöundi áratugur er mér minnisstæður, hvað kennslustarfið í Handíðaskólanum varðar, fyrir gríðarlegan áhuga og uppgang. Í lok áratugarins sá ég brýna ástæðu til þess að stofna kennarafélag og fékk Gísla B. Björnsson í lið með mér. Það er óhætt að fullyrða að kennslan var meiri og minni sjálfboðavinna, því laun voru engan veginn í samræmi við vinnu okkar og menntun, urðu það raunar aldrei. Litlu seinna gekkst ég fyrir því að stofnað yrði nemendafélag. Kennarafélagið átti að gæta hagsmuna kennara gagnvart skólastjórn, en nemendafélagið hagsmuna nemenda gagnvart kennurunum, en ekki var laust við að stundum slægi í brýnu.

Aðalstefnumál kennarafélagsins voru ný lög og mótun reglugerðar, en fyrri lögin voru dragbítur á skólastarfið og engin samþykkt reglugerð til. Við mættum góðum skilningi Gylfa Þ. Gíslasonar menntamálaráðherra, sem skipaði fljótlega í nefnd og bauð okkur, að lögin hefðu samflot á þingi með kennaraháskólafrumvarpi. Hann sagði reyndar litlar líkur á að frumvörpin yrðu samþykkt, en aðalatriðið væri að þau yrðu þá komin úr nefnd og fyrir þingið, sem skipti miklu máli. En við vorum ekki nógu snöggir og metnaðargjarnir. Ég lenti í minnihluta í nefndinni. Það merkilega gerðist svo, að kennaraháskólafrumvarpið var samþykkt, en við sátum eftir með sárt ennið. Þetta hafði afdrifaríkar afleiðingar. Skólinn komst ekki á háskólastig fyrr en rúmum aldarfjórðungi síðar og þá eftir mikið japl, jaml og fuður og ætli ekki eina 300 óþarfa fundi.

Æðri menntun í myndlist byggist á frjóu hugarflugi og menn eiga að bretta upp ermarnar, en ekki bara þenja raddböndin.

Sem kennari reyndi ég að vekja áhuga fólks og temja því vinnuaga. Kennarar verða að vera með á nótunum, hæfileikar til kennslu eru eitthvað, sem menn hafa í sér. Góður málari getur verið slæmur kennari og öfugt. Listnám er góð undirstaða fyrir lífið. Það hefur líka verið mér mikill lærdómur að kenna ungu fólki. Ungu fólki fylgja stöðugt ný viðhorf og kennarinn verður að hjálpa því að leysa alls konar vandamál, án þess að nemendurnir viti að það er verið að leysa einhver vandamál fyrir þá. Mikilvægasta kennslan er þegar nemandinn veit ekki að það er verið að kenna honum.

Árið 1977 var ég ákveðinn í að hætta að kenna. Ég var mjög óánægður með að lögin um skólann skyldu svífa í lausu lofti og auk þess gengu hlutirnir mjög vel í málverkinu. En þá fóru aftur erfið ár í hönd, sennilega þau erfiðustu í lífi mínu.

Hafi ég verið andsnúinn því að kenna kom mér aldrei nokkurn tíman til hugar, að ég ætti eftir að fást við listrýni. Þegar Valtýr Pétursson fór þess á leit við mig að ég skrifaði í Morgunblaðið hafði hann ekki hugmynd um þá fyrrum áráttu mína að lesa alla listrýni í dagblöðunum. Að eigin sögn byggðist málaleitan hans á löngu bréfi, sem ég sendi honum frá Provence og hann varð mjög uppnuminn af. Í þessu bréfi var ég reyndar að sækja um Listamannaskálann gamla. Ég var að mála í fjallaþorpinu Gordes í Provence með Picasso hinum megin við mikið flatlendi og ég lét fljóta með umsókninni frásagnir af ýmsu, sem ég upplifði þarna suður frá. Það voru þær frásagnir, sem fóru svona vel í Valtý! Samstarf okkar gekk nokkurn veginn hnökralaust. Við þekktumst, en vorum aldrei mjög nánir vinir. Nokkrum sinnum lentum við í hár saman á síðum blaðsins. Þá var ritstjórunum skemmt. Þeir sögðu slíkar uppákomur hollar og hressandi fyrir blaðið!

Ég vissi alveg að hverju ég gekk varðandi gagnrýni í þessu litla þjóðfélagi okkar. Því setti ég það skilyrði, að ég fengi líka að skrifa greinar um myndlistarviðburði úti í heimi, sem reyndist auðsótt mál. Þá voru slík skrif afar sjaldgæf; helzt að þau væru til hátíðabrigða í jólablöðunum. Allt almennt upplýsingastreymi á myndlistarsviðinu vantaði og ég var svo til einn á vettvanginum í mörg ár.

Markmið mitt var fyrst og fremst að gera heimslistina sýnilegri á síðum blaðsins og líka íslenzka list; allar hliðar íslenzkrar listar. Þetta vildi ég gera með því að skrifa almennt fyrir lesendur blaðsins en hvorki markaðssetja ákveðnar listastefnur eða kynslóðir. Mín kynslóð hafði hvunndaginn í kringum sig. Það voru beljur og hænsn á bænum, hestar í holtinu fyrir ofan okkur og bændur ráku sláturféð niður Laugaveginn með miklu hotteríi. Nú lifir fólk í vernduðu umhverfi frá vöggustofu til skóla og verður utangarðs í hvunndeginum. Við fengum hvunndaginn beint í æð á barnsaldri, en nú uppgötvar fólk hann fyrst á fullorðinsaldri og meðtekur hann sem eitthvað nýtt og ferskt.

Listin á helzt að skapa eitthvað nýtt fyrir ofan hvunndaginn, síður taka hvunndaginn og halda að með honum séu menn að finna upp hjólið.

Menntahroki er að mínu mati það auvirðilegasta. Leiðinlegasta fólk sem til er er prófgráðufólkið, sem lifir eins og heimurinn hafi stöðvazt þegar prófinu þeirra lauk. Þetta fólk lokast inni í prófinu í stað þess prófið opni því nýjar dyr.

Leyndardómurinn er að halda sér að hlutunum. Frelsi er ekki til að setjast á rassinn og gera einhverja vitleysu. Aginn er mesta frelsið.

Að hafa gleði af vinnunni; það er að finna lífsnautnina og vera ánægður með lífið. Þegar ég fer að sofa á kvöldin hlakka ég alltaf til morgundagsins og vinnunnar. Ég er ekki vinnufíkill. Í rauninni er ég hundlatur maður. En ég er alltaf að vinna, ekki vinnunnar vegna, heldur til að bæta þennan ágalla og vegna lífsfyllingarinnar.

Stundum kem ég hingað í vinnustofuna í þungu skapi, en það fellur af mér um leið og ég stíg hér inn. Hér get ég bara ekki verið í vondu skapi. Það er víma að mála og ég verð helzt að koma hingað á hverjum degi.

Áhuginn á myndlist hefur aukizt með árunum. Ég hef aldrei haft meiri áhuga en núna. Og ég er stöðugt að uppgötva eitthvað nýtt. Allt sem ég geri opnar mér sýn til nýrra átta.

Líti ég um öxl tel ég líkast til sjötta áratuginn beztu ár ævi minnar. Þá gat ég svo til óskiptur gengið að vinnu minni í málverkinu, nema hvað ég vann öll sumur til 1956 í vega- og brúar- og fyrirhleðsluvinnu. Flest gekk mér í haginn eftir erfið ár og ég vann ýmsa óvænta listasigra.

Hefði þetta haldið áfram og ég getað þegið boð prófessors míns, franska málarans J.J. Deyrolle, hefði ég haustið 1960 verið kominn inn á eitt af beztu grafíkverkstæðum heims í París. En pyngjan var tóm, ég giftur og átti fyrir fjölskyldu að sjá, og engin námslán eða marktæka styrki að fá.

Á einn veg hafði það slæm áhrif á mig. Ég leiddist út í óreglu á tímabili, sem ég hef löngu unnið mig upp úr. Nú þykir mér gott að fá mér glas af rauðvíni eftir góðan starfsdag.

Það er margt að brjótast í mér um framtíðina. Ég læt fæst af því uppi, en þó má koma fram, að mig fýsir að búa meira erlendis og vera þar hreyfanlegur. En jafnframt og umfram allt vil ég geta gengið óskiptur að list minni."

---

Sundin hafa skipt litum meðan við Bragi töluðum saman. "Sjáðu," segir hann og slær hendi til hafs. "Náttúran tekur engin próf. En almættið setur henni mjög strangar reglur og hún lifir eftir þeim."