ALLS verða um 200 þúsund blaðsíður úr tímaritum og dagblöðum sem gefin voru út á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi fram að 1920 aðgengileg á Netinu eftir u.þ.b. tvö ár, þar af um 160 þúsund blaðsíður úr íslenskum ritum.
ALLS verða um 200 þúsund blaðsíður úr tímaritum og dagblöðum sem gefin voru út á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi fram að 1920 aðgengileg á Netinu eftir u.þ.b. tvö ár, þar af um 160 þúsund blaðsíður úr íslenskum ritum. Þetta er liður í verkefninu Vestnord sem Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn átti frumkvæði að og er styrkt af Rannís og Nordinfo.

Í Landsbókasafni hefur verið unnið sl. eitt og hálft ár að tæknilegri þróun verkefnisins í samráði við þjóðbókasöfnin í Grænlandi og Færeyjum. Þorsteinn Hallgrímsson aðstoðarlandsbókavörður segir að elsta íslenska ritið sem gert verður aðgengilegt sé Islandske maanedstidninger, sem gefið var út í Hrappsey 1773-1776, alls 536 blaðsíður í þremur árgöngum.

Verkefnið felst í því að mynda allt efnið með stafrænni myndavél. Ráðgert er að þrír starfsmenn annist það verk og áætlað er að það taki um þrjú ár. Næsta haust er áætlað að búið verði að mynda um þrjú þúsund blaðsíður og að þær verði notaðar til þess að prófa allar vinnslulínur fyrir verkefnið.

Jafnframt fer fram mikil skráningarvinna og upplýsingar fylgja um sögu hvers verks. Myndirnar verða keyrðar í gegnum tölvulestur sem gerður verður leitarbær. Þannig verður hægt að leita í öllum texta þessara 200 þúsund blaðsíðna.

"Við erum sannfærðir um að notkun á þessu efni verður mikil. Í raun má segja að allir sem vinna í þeim fræðigreinum sem tengjast 19. öldinni hafi þarna aðgang að því efni sem er kannski hvað verðmætast hvað heimildir snertir," segir Þorsteinn.

Aðgangur að safninu verður notendum að kostnaðarlausu.