É g var þá lengi búinn að vera harðákveðinn í að leggja fyrir mig kvikmyndagerð," rifjar Ásgrímur upp.
Ég var þá lengi búinn að vera harðákveðinn í að leggja fyrir mig kvikmyndagerð," rifjar Ásgrímur upp. "Ég fann einhvern tíma stílabók þar sem ég svaraði átta ára gamall spurningunni um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór og þar stóð "meðal annars kvikmyndagerðarmaður". Einnig hugðist ég verða landfræðingur - og sjálfsagt tengist þetta tvennt í einhverjum skilningi. Við félagarnir í Lækjarskóla, m.a. Hallur Helgason og Stefán Hjörleifsson hjá Leikfélagi Íslands, vorum duglegir að búa til stuttmyndir og unnum til fjölda verðlauna. Helstu keppinautarnir voru í Álftamýrarskóla, þeir fóru síðan flestir í Versló en við í Flensborgarskóla og keppnin hélt áfram á milli okkar. Við unnum þá reyndar alltaf og ég man að Friðrik Þór var í einni dómnefndinni og sagði að munurinn væri sá að í myndum okkar drykkju unglingarnir brennivín í partíum og hlýddu ekki foreldrunum, en í myndum Verslinganna væri drukkið kók í partíum og þeir bæru virðingu fyrir foreldrum sínum. Nýlega var ég þó í dómnefnd í stuttmyndakeppni Verslunarskólans og sá að þetta hefur gjörbreyst, sem betur fer, og margt mjög sniðugt sem þar er gert núna."

Góð kvikmynd er að mati Ásgríms sú sem snertir mann og höfðar til sammannlegrar reynslu. "Kvikmyndir fjalla um fólk og maður þarf að hafa samkennd með því til að hafa áhuga á örlögum þess. Útfærslan getur síðan verið afar mismunandi, og ég hef mjög breiðan kvikmyndasmekk. Ég hef alveg jafn gaman af poppkornsmyndum frá Hollywood og hálistrænum myndum. Ég geri engan greinarmun á þessu, góð kvikmynd er bara góð kvikmynd. Þær snerta mann vissulega misjafnlega djúpt, en maður þarf fjölbreytnina. Stundum vill maður bara poppkorn, stundum næringarríka máltíð. Ég settist einu sinni niður og skrifaði beint úr minninu lista yfir uppáhaldsmyndirnar mínar og það urðu um 100 myndir. Síðan hef ég nokkrum sinnum farið yfir hann og bætt við mynd og mynd, en þær eru ekki miklu fleiri. Dæmi gætu verið Local Hero eftir Skotann Bill Forsyth, Gestaboð Babettu eftir Gabríel Axel og Guðfaðirinn, öll sagan, sem er sennilega eitthvert magnaðasta verk kvikmyndasögunnar."

Ásgrími finnst íslensk kvikmyndagerð stefna í rétta átt. "Hér er að verða til þokkalega stór hópur af góðu kvikmyndagerðarfólki. Það hlýtur að vera takmark okkar að skapa bylgju af athyglisverðum myndum til að koma okkur á kortið, eins og t.d. Danir hafa nýlega gert. Friðrik Þór getur það ekki einn. Og nú eru komnir fram menn eins og Baltasar Kormákur, Ragnar Bragason, Dagur Kári og Robert I. Douglas og enn fleiri bíða færis og munu birtast á allra næstu árum."