Inga Rós Ingólfsdóttir er ánægð með hversu vel hefur tekist til með Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju. Hátíðinni lýkur á morgun.
Inga Rós Ingólfsdóttir er ánægð með hversu vel hefur tekist til með Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju. Hátíðinni lýkur á morgun.
KIRKJULISTAHÁTÍÐ 2001 lýkur á morgun, annan í Hvítasunnu með tónleikum Mótettukórs Hallgrímskirkju sem hefjast kl. 20.
KIRKJULISTAHÁTÍÐ 2001 lýkur á morgun, annan í Hvítasunnu með tónleikum Mótettukórs Hallgrímskirkju sem hefjast kl. 20. Flutt verða "a cappella" kirkjuverk eftir norræn og norður-amerísk tónskáld en dagskrána hefur Mótettukórinn æft að undanförnu fyrir tónleikaferð sína til Kanada sem hefst strax að tónleikum loknum.

"Um er að ræða metnaðarfull verk sem eiga að sýna mikla breidd í því sem kórinn getur sungið best og er þar um að ræða verk eftir bæði íslensk tónskáld og erlend," segir Inga Rós Ingólfsdóttir sem annast hefur framkvæmd Kirkjulistahátíðarinnar. "Þar er að finna blöndu af gamalkunnum verkum úr starfi kórsins og spennandi verkum sem ekki hafa heyrst áður í Hallgrímskirkju. Byrjað verður á íslenska þjóðsöngnum til að skapa hátíðleika og leyfa gestum að finna þá stemmningu sem fylgir kórnum erlendis. Þá verður fluttur sálmurinn Víst ertu, Jesú, kóngur klár eftir Hallgrím Pétursson í útsetningu Jóns Hlöðvers Áskelssonar. Þar er að finna tengingu við Hallgrímskirkju, auk þess sem um er að ræða lag sem kórinn hefur tekið ástfóstri við." Önnur íslensk verk á efnisskrá eru Heyr, himna smiður og Kvöldbænir eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Ave Maria eftir Hjálmar H. Ragnarsson. "Þá verða flutt verk á borð við Ave maris stella eftir Trond Kverno og Magnificat eftir Arvo Pärt sem er mjög magnþrungið verk." Eftir hlé verða flutt kórverk eftir fræg norræn tónskáld, Knut Nystedt og Otto Olson. "Þannig verður fluttur hver gullmolinn á fætur öðrum, af verkum norður-amerísku tónskáldanna má t.d. nefna Agnus Dei eftir Samuel Barber, þ.e. umskrift tónskáldsins á Adagio fyrir strengjasveit. Það er mjög frægt verk sem á eflaust eftir að hrífa alla sem til heyra. Lokaverk tónleikanna, Vinamintra elitavi, flutti kórinn við upphaf Kirkjulistarhátíðarinnar og erum við þá kominn hringinn."

Inga Rós segir aðstandendur Kirkjalistahátíðar ánægða yfir hversu vel hafi til tekist. "Við erum ákaflega þakklát fyrir að hafa getað boðið upp á dagskrá með svo miklum fjölda hæfileikafólks, bæði erlendum og íslenskum," segir Inga Rós. Hún segir sérstaka hátíðarstemmningu hafa myndast í kirkjunni, sem jafnt áhorfendur sem flytjendur hafi orðið snortnir af. "Það var mjög bjart yfir hátíðinni allri en segja má að flutningur á Jósúa eftir Händel hafi markað hátind hátíðarinnar, og voru viðbrögð þeirra erlendu flytjenda sem hingað komu ekki síst hvetjandi fyrir það listastarf sem fer fram hér í kirkjunni. Ég held að yfirskrift hátíðarinnar, þ.e. "múrar falla", hafi gert það að verkum að opnast hafi landamæri í margar áttir, bæði í landfræðilegum og listrænum skilningi," segir Inga Rós að lokum.