Lampar steyptir í hálfgegnsætt plastefni eru nýjasta afurð Ólafs Þórðarsonar hönnuðar.
Lampar steyptir í hálfgegnsætt plastefni eru nýjasta afurð Ólafs Þórðarsonar hönnuðar.
SÝNING á verkum íslenska hönnuðarins og arkitektsins Ólafs Þórðarsonar var nýverið opnuð í verslun Norræna hússins í New York.
SÝNING á verkum íslenska hönnuðarins og arkitektsins Ólafs Þórðarsonar var nýverið opnuð í verslun Norræna hússins í New York. Þar ber mest á þremur gerðum nýrra lampa Ólafs og eru form þeirra bæði sótt til náttúru heimalandsins og skýjakljúfalandslags stórborgarinnar.

Á meðan einn lampinn minnir á skýjaklúf er annar sem gjósandi hver. Sá þriðji er sem hattur svepps, eða knúpur blóms, í örum vexti. Lamparnir eru gott dæmi um það hvernig Ólafur sækir sér innblástur til ólíkra átta, frá náttúrunni til umhverfisins í New York-borg þar sem hann hefur verið búsettur síðasta áratuginn. Allir eru lamparnir steyptir í fljótandi resínplastefni, sem ýmist er litað eða glært. Kastar ljósið frá sér mjúkri birtu um hálfgegnsætt efnið.

Fóturinn er úr hrárri steinsteypu sem kallast á við léttleika glóandi plastefnisins.

Töluverð vinna bjó að baki þessum verkum sem Ólafur segist hafa haft á teikniborðinu sl. tvö ár og smám saman þróað út frá sömu grunnbyggingunni. Lamparnir standa í hillu, sem einnig er eftir Ólaf, í glugga verslunarinnar til loka þessa mánaðar en innandyra er jafnframt að finna eldri verk Ólafs, s.s. snigillaga klukkur og vínrekka. Ólafur leitar gjarnan út fyrir hefðbundnar skilgreiningar iðnhönnunar og tvinnar saman hönnun og myndlist í verkum sínum. Þannig eru engir tveir gripir eins og hver formgerð er seld í fáum eintökum.

Ólafur lauk námi í arkitektúr við Columbia-háskóla í New York. Hann kennir nú iðnhönnun við Rhode Islands School of Design auk þess að starfrækja eigin hönnunarstúdíó, Dingaling Studio, og vefritið Das Boot, sem helgað er kynningum á verkum ungra hönnuða og myndlistarmanna.

Verslun Norræna hússins í New York hefur til sölu gjafavörur og minni gripi og hönnun frá Norðurlöndunum. Er þetta í fyrsta sinn sem efnt er til sýningar á verkum einstaks hönnuðar í versluninni.

New York. Morgunblaðið.