UNNIÐ er að endurskoðun á fasteignamati húsnæðis um allt land og lóða í þéttbýli og verður eigendum fasteigna send niðurstaðan eftir miðjan mánuðinn.
UNNIÐ er að endurskoðun á fasteignamati húsnæðis um allt land og lóða í þéttbýli og verður eigendum fasteigna send niðurstaðan eftir miðjan mánuðinn. Gera má ráð fyrir að endurskoðunin leiði til einhverrar hækkunar á fasteignamati eigna í landinu að meðaltali, þó það sé mismunandi eftir aldri eigna, staðsetningu og stærð, að sögn Hauks Ingibergssonar, forstjóra Fasteignamats ríkisins, en ekki liggja enn fyrir tölur í þeim efnum.

Haukur sagði að forsaga málsins væri sú að flest sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu beint erindi þess efnis til Fasteignamatsins á síðasta ári, að allar eignir í sveitarfélögunum eða stærstur hluti þeirra yrði endurmetinn og í kjölfarið hefði fjármálaráðuneytið beðið um endurmat á öllum eignum hér á landi. Tilgangurinn væri að samræma matið og þar með að auka jafnræði þannig að sambærilegar húseignir yrðu með hliðstæðu mati, en fasteignamat ætti að endurspegla gangverð fasteigna í nóvember ár hvert. Við matið væri notast við upplýsingatæknina og tölfræði og byggt á skráðum upplýsingum um hverja fasteign í landinu, auk upplýsinga úr 12 þúsund kaupsamningum frá síðustu tveimur til þremur árum.

Frestur til 15. september

Eins og fyrr sagði verða tilkynningarseðlar um nýja fasteignamatið sendir út seinni hluta mánaðarins og hafa fasteignaeigendur frest til 15. september í haust til að gera athugasemdir við það, en eftir þann tíma gengur hið nýja fasteignamat í gildi.

Haukur sagði aðspurður að hann gerði ráð fyrir að endurmatið leiddi fremur til hækkunar á mati eigna en lækkunar. Almennt mætti búast við að það myndi hækka eitthvað að meðaltali, en ekki væri hins vegar hægt að nefna tölur í því sambandi að svo komnu. Fasteignamat hefði verið ákveðið á mismunandi tímum og því mætti að líkindum búast við því að fasteignamat gamalla húsa hækkaði meira en nýlegra húsa og eins mætti búast við að fasteignamat minni eigna hækkaði meira en stærri eigna. Þá mætti einnig reikna með að fasteignamat lóða hækkaði meira en fasteignamat húsa, en kjarni málsins væri sá að fasteignamatið endurspeglaði gangverð eigna hverju sinni.

Fasteignaskattar sem renna til sveitarfélaganna eru grundvallaðir á fasteignamati og taka mið af því og sama gildir um eignaskatta, þar sem húseignir eru taldar til eignar samkvæmt fasteignamati.

Haukur sagði að það væri hlutverk Fasteignamatsins að ákvarða mat sem væri eins rétt og kostur væri og tryggja samræmi í mati þannig að allir sitji við sama borð, en það væri annarra aðila að taka ákvörðun um í hvaða tilvikum þetta mat væri notað sem skattstofn og þá um hvaða álagningarprósentu væri að ræða.