MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarndi athugasemd frá Ástráði Haraldssyni hæstaréttarlögmanni: "Með lögum nr. 34/2001 voru sjómenn sviptir samningsrétti og ákveðið að svokallaður gerðardómur skyldi ákveða kjör þeirra.
MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarndi athugasemd frá Ástráði Haraldssyni hæstaréttarlögmanni:

"Með lögum nr. 34/2001 voru sjómenn sviptir samningsrétti og ákveðið að svokallaður gerðardómur skyldi ákveða kjör þeirra. "Gerðardómurinn" er að vísu ekki gerðardómur en er nefndur svo í þeim tilgangi að skapa þá tilfinningu meðal almennings að unnt sé að hafa traust á störfum hans.

Á föstudag bárust fréttir af því að Hæstiréttur Íslands hefði nú skipað í "gerðardóminn". Meðal þeirra sem þar hafa fengið skipun er Garðar Garðarsson hæstaréttarlögmaður. Garðari mun jafnframt ætlað að veita forstöðu störfum "gerðardómsins". Þessi skipan vekur sérstaka athygli. Staðreyndin er sú að Garðar er einn af aðallögmönnum útgerðarmanna á Íslandi. Fyrir rúmum mánuði flutti hann dómsmál sem lögmaður LÍÚ. Það er alkunna meðal lögmanna að Garðar hefur um árabil haft með höndum umfangsmikil verkefni fyrir útgerðina.

Garðar Garðarsson er fullkomlega vanhæfur til að taka sæti í "gerðardómi" sem ætlað er að fjalla á hlutlausan hátt um kjör fiskimanna.

Garðar Garðarsson er hinn besti drengur og alls góðs maklegur. Skipan hans í hinn svokallaða "gerðardóm" til að ákveða kjör fiskimanna er hins vegar hneyksli. Þessi ákvörðun væri hlægileg ef málið væri ekki svona alvarlegt. Í frægum brandara er sagt að í helvíti séu þýskir lögreglumenn, belgískir dægurlagasöngvarar og breskir kokkar. Í helvíti búa Íslendingar til "gerðardómana"."