ÍSLENSKIR framleiðendur sýningarinnar Litla hryllingsbúðin, sem sett var upp í Chat Noir-leikhúsinu í Ósló í febrúar, hafa höfðað mál gegn rekstraraðilum leikhússins, ABC Teaterdrift, vegna brots á samningi þar sem rekstraraðilar hússins eru sakaðir um...
ÍSLENSKIR framleiðendur sýningarinnar Litla hryllingsbúðin, sem sett var upp í Chat Noir-leikhúsinu í Ósló í febrúar, hafa höfðað mál gegn rekstraraðilum leikhússins, ABC Teaterdrift, vegna brots á samningi þar sem rekstraraðilar hússins eru sakaðir um að hafa ekki skilað allri innkomu sýningarinnar til framleiðenda. Sýningin var sett upp um miðjan febrúar og hlaut góðar viðtökur á frumsýningu en áhorfendur létu sig hins vegar vanta í kjölfarið. Nokkurt tap varð því á sýningunni og m.a. hafa laun leikara ekki ennþá verið greidd að fullu.

Baltasar Kormákur stóð að sýningunni og segir hana alls ekki hafa gengið vel, en þar að auki hafi síðan komið í ljós þegar uppgjörstölur voru skoðaðar að tölur yfir fjölda sýningargesta og innkomu stóðust ekki. Þá hafi einnig komið í ljós að leikhúsið lagði allar debetgreiðslur inn á eigin reikning, sem þeim var ekki heimilt að gera samkvæmt samningi. Þá segir Baltasar að í ljós hafi komið að leikhúsið hafi handskrifað út miða, sem væri stórmál gagnvart skattayfirvöldum í Noregi.

Baltasar segir framleiðendur hafa staðið við allar fjárskuldbindingar fram að þeim tíma að uppvíst varð um samningsbrot rekstraraðila leikhússins. Þá hafi verið tekin ákvörðun um að frysta allar greiðslur þar til búið væri að leysa málið.

"Auðvitað er það mjög leiðinlegt gagnvart leikurunum en þeir geta ekki ætlast til að við borgum endalaust út á meðan við fáum ekki peningana sem við eigum. Þetta eru um 6 milljónir í launaskuldir en þeir halda eftir þarna a.m.k. helmingnum af þeirri upphæð."

Í frétt norska blaðsins Dagens Næringsliv segir Knud Dahl, sem sér um daglegan rekstur leikhússins, að engir samningar hafi verið brotnir og leikhúsið haldi engum peningum eftir sem ekki tilheyri því. Hann segir þetta erfiðan rekstur þar sem áhættan sé mikil, uppsetningin hafi gengið illa og framleiðendur verði að axla ábyrgðina á því.