REKSTUR sýkla- og veirudeilda Landspítalans í Fossvogi hefur verið sameinaður rekstri sýkla- og veirufræðideilda Rannsóknastofnunar Landspítala - háskólasjúkrahúss, en reksturinn í Fossvogi var á ábyrgð smitsjúkdómadeildar sjúkrahússins þar.
REKSTUR sýkla- og veirudeilda Landspítalans í Fossvogi hefur verið sameinaður rekstri sýkla- og veirufræðideilda Rannsóknastofnunar Landspítala - háskólasjúkrahúss, en reksturinn í Fossvogi var á ábyrgð smitsjúkdómadeildar sjúkrahússins þar. Sýkladeild verður áfram rekin með óbreyttu sniði í Fossvogi og verða notendur ekki varir við breytingar fyrst um sinn.

Unnið er að því í samvinnu við upplýsingatæknisvið spítalans að taka upp samtengt tölvukerfi fyrir sameinaða sýklafræðideild, þannig að hægt verði að hringja í eitt símanúmer og fá þar svör, án tillits til þess hvar sýni eru rannsökuð, sem hefur hagræði í för með sér fyrir notendur þjónustunnar. Prófessor Karl G. Kristinsson, yfirlæknir, mun veita þeim hluta sýkladeildar sem starfræktur verður í Fossvogi forstöðu, líkt og öðrum sýklarannsóknastofum sem reknar eru á vegum Rannsóknadeildar LSH.

Veirudeild hefur verið lögð niður í Fossvogi og veirugreiningar, sem áður fóru fram þar, verða nú gerðar á veirufræðideild Rannsóknastofnunar Landspítalans að Ármúla 1a. Arthur Löve, yfirlæknir og dósent í veirufræðum, veitir veirurannsóknastöðinni í Ármúla forstöðu.