RÍKISSTJÓRN Ariels Sharons segir að gripið verði til "nauðsynlegra ráðstafana" til að bregðast við sjálfsmorðsárásinni í Tel Aviv á föstudag og hægt verði að ræða um frið við stjórn Palestínu ef hún grípi til aðgerða gegn hryðjuverkum.
RÍKISSTJÓRN Ariels Sharons segir að gripið verði til "nauðsynlegra ráðstafana" til að bregðast við sjálfsmorðsárásinni í Tel Aviv á föstudag og hægt verði að ræða um frið við stjórn Palestínu ef hún grípi til aðgerða gegn hryðjuverkum. Kom þetta fram að loknum bráðafundi stjórnarinnar í gær. Ísraelska sjónvarpið sagði að fyrirhugaðri ferð Sharons til nokkurra Evrópulanda á mánudag hefði verið frestað vegna ástandsins. Auk tilræðismannsins fórust 17 Ísraelar í árásinni, aðallega ungt fólk sem var á leið í næturklúbb. Hátt í hundrað manns særðust. Ísraelsk stjórnvöld bönnuðu í gær alla umferð til og frá Vesturbakkanum.

Þess var víða krafist í Ísrael að Yasser Arafat, leiðtogi Palestínustjórnar, lýsti strax yfir vopnahléi til að reyna að koma í veg fyrir ofbeldisverk. Sharon lýsti fyrir nokkru yfir einhliða vopnahléi af hálfu Ísraela en vaxandi kröfur eru um að yfirlýsingin verði nú dregin til baka.

Arafat fordæmdi í gær árásina og sagðist vera reiðubúinn að vinna að friði. "Við erum reiðubúnir að leggja mjög hart að okkur við að stöðva blóðsúthellingar þjóðar okkar og Ísraela og gera allt til að tryggja að komið verði á tafarlausu og skilyrðislausu vopnahléi," sagði hann eftir fund með Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, í borginni Ramallah á Vesturbakkanum.

Stjórn Arafats hvatti einnig til þess að sáttasemjari á vegum Bandaríkjastjórnar, William Burns, kæmi strax aftur til Miðausturlanda til að reyna að stuðla að vopnahléi.

Islamska Jihad, samtök sem í fyrstu var talið að hefðu verið á bak við tilræðið í Tel Aviv, vísuðu þeirri fullyrðingu á bug og hafa enn engin samtök lýst ábyrgðinni á hendur sér. Hamas, fylking bókstafstrúarmanna, sem hefur staðið fyrir mörgum tilræðum, hefur áður sagt að fjöldi manna væri reiðubúinn að fórna lífi sínu fyrir málstað Palestínumanna og gera sprengjuárásir á Ísraela. Yfir 500 manns hafa fallið í átökunum sem hófust síðastliðið haust, langflestir þeirra eru Palestínuenn.

Ráðherra fjarskiptamála í stjórn Ísraels, Reuvlen Rivlin, sagði í gær að eitt af því sem kæmi til greina væri að þvinga Arafat til að yfirgefa heimastjórnarsvæði Palestínumanna ef honum tækist ekki að hindra hryðjuverk. "Arafat segist hafa töglin og hagldirnar hjá Palestínumönnum. Ef hann er ófær um það látum hann þá yfirgefa Palestínu," sagði Revlin. "Að sjálfsögðu álítum við að Arafat sé ábyrgur fyrir þessu. Hann er ekki bara við stjórn heldur skipuleggur hann öll hryðjuverkin sem unnin eru gegn Ísrael," bætti Rivlin við.

Jerúsalem, Tel Aviv, Nikosiu. AP, AFP, Reuters.