[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í kjölfar vinsælda Buena Vista-flokksins keppast menn við að leita að áhugaverðri þjóðlagatónlist víða um heim og þar á meðal í Evrópu. Árni Matthíasson segir frá rúmensku sígaunasveitinni Taraf de Haidouks.
ÞAÐ ER kannski til marks um tíðaranda í dögun nýrrar aldar að áhugi fyrir þjóðlegri og upprunalegri tónlist hefur ekki verið meiri í mörg ár. Víst ræður þar miklu mikil velgengni Buena Vista flokksins, en einnig að eftir því sem alþjóðavæðingin malar fleiri menningarkima í þjóðamjöl átta fleiri sig á, að vert er að varðveita það sem stingur í stúf. Áðurnefndur Buena Vista flokkur hafði það með sér meðal annars, að vera skipaður framúrskarandi listamönnum sem komnir voru af léttasta skeiði og hefur kallað á, að aldurhnignir tónlistarhöfðingjar víðar um heim hafa fengið uppreisn æru, eins og sannast á sögunni af sígaunasveitinni frá Rúmeníu, Taraf de Haidouks, sem nýtur sívaxandi vinsælda víðast á Vesturlöndum og hefur til að mynda leikið fyrir fullum húsum í helstu löndum, aukinheldur sem skífur sveitarinnar hafa selst bráðvel.

Fátt er skemmtilegra en sígaunatónlist eins og sannast hefur í gegnum aldirnar og tónskáld sótt þangað innblástur og hugmyndir. Ungverska tónskáldið Bela Bartok sagði eitt sinn, að ekki væri rétt að tala um sígaunatónlist, því ungversku sígaunarnir sem hann kynntist, væru einfaldlega að leika ungverska tónlist og svo má segja reyndar um sígauna víða í Mið-Evrópu, því þeir hafa öðrum fremur varðveitt þjóðlegar hefðir í tónlist, leikið þjóðlega sveitatónlist löngu eftir að borgarbúar voru búnir að þynna allt út með sölu- og yfirborðsmennsku.

Austur í Rúmeníu kallast sígaunar sem leika tónlist lautari, en svo voru nefndir hirðtónlistarmenn grískra konunga og tyrkneskra soldána á öldum áður, en flestir voru þeir Rúmenar eða Moldavar. Þegar þá vinnu þraut, sneru menn aftur til heimahéraða sinna og tóku til við að leika í brúðkaupum og jarðarförum og gera þar reyndar enn þann daginn í dag.

Lautar-mennska gengur í arf

Lautar-mennska gengur í arf frá föður til sonar eða náfrænda þegar svo ber við. Sá sem fæðist inn í slíka fjölskyldu fæst við tónlist frá blautu barnsbeini og lærir á mörg hljóðfæri til að tryggja atvinnumöguleika sína. Tónlistin dregur yfirleitt keim af héraðinu eða þorpinu sem hann elst upp í og sum héruð verða nafntoguð fyrir framúrskarandi tónlistarmenn, þar á meðal svæðið í kringum þorpið Clejani suður af Búkarest, sem kemur meira við sögu síðar.

Þegar menn hafa náð góðu valdi á hljóðfæraslætti komast þeir í hljómsveit, taraf, en orðið taraf er komið úr arabísku og undistrikar sterk áhrif frá tyrkneskri og arabískri tónlist. Smám saman ná menn að vinna sig upp, byrja í veigalitu hlutverki, en ef þeir standa sig vel kemur að því að þeir fá að snarstefja og verða ef til vill einn af leiðtogum slíkrar hljómsveitar þegar þeir eru komnir til vits og ára. Fjöldi liðsmanna í taraf-sveit er reyndar nokkuð á reiki, enda aðal slíkra sveita að geta lagað sig að aðstæðum, en löngum hefur það þótt til marks um ríkidæmi, hversu margir hljóðfæraleikarar eru í hljómsveitinni, þegar höfðingjar halda veislu.

Góður lautar verður að vera jafnvígur á mörg hljóðfæri eins og getið er, en hann verður líka að vera fær í flestan sjó þegar kemur að því að spila ólíkar gerðir tónlistar. Hljómsveitin á allt undir því að geðjast þeim, sem á hana hlusta og gildir einu hvort leitað er eftir fjörugri gleðitónlist, drykkjuvísum eða sorgarmarsi. Tónlistin er líka fengin að láni ef svo má segja; góður lautar er fljótur að ná lagi; það er nóg fyrir hann að heyra það einu sinni til að geta spilað það eftir eyranu og kennt öðrum í fjölskyldunni að spila það með sér.

Undir stjórn Ceausescus var bannað að spila fjölda þjóðlaga, því mörg sögðu þau frá hetjudáðum konunga og aðalsmanna. Í þeirra stað komu þjóðlög sem búið var að laga að sósíalískri hugsun, dauðhreinsa og staðla. Meðal sígauna lifði aftur á móti gamla hefðin með gömlu lögunum, enda skipti enginn sér af sígaunum, sem voru utan við hið stéttlausa þjóðfélag alþýðulýðveldisins. Fyrir vikið varðveittu sígaunarnir merkilegan þátt í rúmenskri menningu, þótt íbúar Rúmeníu fáist seint til að samþykkja það.

Eins og getið er, eru tónlistarmenn frá Clejani og nágrenni rómaðir fyrir færni og þekkingu og þaðan kemur einmitt hljómsveitin Taraf de Haidouks, sem nefnd er í upphafi þessarar samantektar. Upprunalega hét hljómsveitin Lautari de Clejani eða Taraf de Clejani, tónlistarmennirnir / hljómsveitin frá Clejani. Í desember 1986 tók franska ríkisútvarpið upp verk með Taraf de Clejani, sem gefið var út á plötu 1988 undir merki Ocora. Sú plata er býsna góð, en vakti ekki ýkja mikla athygli framan af.

Taraf de Clejani verður Taraf de Haidouks

Ungverskur tónlistarmaður Stéphane Karo, sem bjó í Brussel í Belgíu og hljómsveitarfélagi hans, Michael Winter, fóru í búð sem seldi notaðar plötur í leit að tónlist sem þeir gætu leikið með hljómsveit sinni, sem lék arabíska tónlist. Þar rákust þeir á Ocora-plötuna áðurnefndu og sumarið 1989 notaði Karo sumarfríið sitt til að reyna að hafa upp á tónlistarmönnunum sem skipuðu Clejani-hljómsveitina, Taraf de Cleijani. Um það leyti var Ceaucescu að missa völdin og ástandið í Clejani heldur aumt, en þar hitti hann meðal annars fyrir Nicolae Neacsu, sem var steinhissa á því að ungur maður hefði áhuga á tónlistinni sem hann var að spila, enda var hann búinn að leggja fiðluna á hilluna og beið eftir því að fá að deyja. Heimsókn Karos hleypti nýju lífi í Neacsu, sem kallaði til ættmenni sín og lék inn á band fyrir Karo nokkur lög.

Ekkert varð úr frekari upptökum að sinni, enda varð bylting í Rúmeníu þá um haustið. Ári síðar komu þeir Karo og Winter svo til Clejani til að eyða þar sumrinu. Þeir ákváðu í framhaldi af því, að taka upp plötu með hljómsveitinni og senda hana í tónleikaferðir. Eins og getið er kallaðist hljómsveitin Lautari de Clejani eða Taraf de Clejani, tónlistarmenninrir / hljómsveitin frá Clejani, en það þótti þeim Karo og Winter heldur loðin lýsing. Þeir settu því saman nafnið Taraf de Haidouks, en haidouk er stigamaður eða ræningi.

Ekki vantaði tónlistarmenn í Clejani og það tók þá Laro og Winter drjúgan tíma að setja saman sex manna kjarna, sem í voru meðal annars elstu og reyndustu tónlistarmennirnir, en þegar upp var staðið var hljómsveitin ellefu manna á aldrinum frá þrettán ára fram yfir sjötugt. Sú sveit hélt síðan í sína fyrstu tónleikaferð um Evrópu, lék meðal annars á Womad hátíðinni bresku og vakti að sögn gríðarlega athygli, en svo vel tókst til að belgíska fyrirtækið Crammed Discs samdi við sveitina um útgáfu á plötu. 1991 kom síðan út platan Musique Des Tziganes De Roumanie, sem byggist að einhverju leyti á Ocora plötunni gömlu. Platan seldist afskaplega vel og komst meðal annars ofarlega á lista yfir sölu á þjóðlegri tónlist og fjöldi tónleikaferða fylgdi í kjölfarið.

Upp frá því má segja að Taraf de Haidouks hafi verið á sífelldu ferðalagi og er með vinsælustu tónleikasveitum í Evrópu að því er fróðir menn segja, enda verður allt vitlaust á tónleikum sveitarinnar. Hún hefur einnig hrifið menn vestan Atlantsála og til að mynda leikið inn á plötu með Kronos kvartettinum og í einkasamkvæmum Johnny Depp. Plata númer tvö, Honourable Brigands, Magic Horses and Evil Eye, kom svo út 1994 og Dumbala Dumba 1998.

Fyrstu tónleikarnir í Búkarest

Þrátt fyrir gríðarlegar vinsældir víða í Evrópu er Taraf de Haidouks flokkurinn ekki ýkja vinsæll í heimalandinu, enda andúð á sígaunum sterk þar í landi og ekki langt síðan stjórnmálamaður, sem meðal annars vildi senda alla sígauna siglandi til Indlands, í pappakössum, fékk þriðjung atkvæða í forsetakosningum þar í landi. Að auki keppast Rúmenar við að standa jafnfætis vestrænum nágrönnum sínum, ef ekki í rækt við menningu sína og hefðir, þá í neyslu og tískutildri og finnst sígaunatónlist gamaldags og hallærisleg. Meðal annars til að koma sveitinni á framfæri heima fyrir, ákvað Crammed útgáfan að setja upp fyrstu tónleikana með hljómsveitinni í Búkarest. Þrennir tónleikar voru síðan haldnir í desember á síðasta ári og hljóðritaðir. Úr upptökusafninu var síðan valið á eina plötu, Band of Gypsies, sem kom út fyrir stuttu. Á plötunni má vel heyra hvað það er sem gert hefur Taraf de Haidouks eins vinsæla og raun ber vitni, en í nokkrum lögum er önnur sígaunasveit, Kocani Orkestar lúðrasveitin, í aukahlutverki og setur óneitanlega svip sinn á það sem fram fer með villtri spilamennsku.

Þeir sem gaman hafa af fjörlegri tónlist eiga eftir að taka Taraf de Haidouks opnum örmum og ástæða til að benda aðdáendum Buena Vista flokksins á skífur sveitarinnar, þótt tónlistin sé vitanlega harla frábrugðin gamaldags kúbverskri sveiflu. Síðan er bara að vona að einhver gerist svo framtakssamur að flytja sveitina inn.