Flotahöfnin: Teikning Karls Júlíussonar.
Flotahöfnin: Teikning Karls Júlíussonar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fáir íslenskir listamenn hafa náð lengra í alþjóðlegri kvikmyndagerð en Karl Júlíusson, leikmynda- og búningahönnuður. Hann vinnur nú risavaxnar leikmyndir fyrir kvikmyndina K-19: The Widowmaker. Árni Þórarinsson talaði við hann.
Í NÍU ár hefur hann búið í Noregi en starfað vítt og breitt, einkum þó á Norðurlöndum með helstu leikstjórum þar, eins og Jan Troell, Liv Ullmann og Lars von Trier , svo aðeins örfáir séu nefndir. Fyrir leikmyndina í síðustu mynd von Triers , Myrkradansaranum eða Dancer in the Dark , hreppti hann í vetur enn einn Robert-inn, sem er verðlaun dönsku kvikmyndakademíunnar; áður hafði hann fengið sömu verðlaun fyrir myndina Fimmta vetur dávaldsins eða Magnetisörens femte vinter eftir Morten Henriksen . Núna er Karl Júlíusson að störfum í Kanada þar sem hann gerir leikmynd fyrir stórmyndina K-19: The Widowmaker, sem Sigurjón Sighvatsson framleiðir og Ingvar E. Sigurðsson leikur stórt hlutverk í, eins og fram hefur komið hér í Morgunblaðinu. Þetta er önnur myndin sem Karl vinnur að fyrir Sigurjón og bandaríska spennumyndaleikstjórann Kathryn Bigelow . Sú fyrri var The Weight Of Water sem ekki er komin í dreifingu. "Ég kann ákaflega vel við að vinna með Katrínu ," segir Karl . "Hún er mjög fær leikstjóri."

K-19: The Widowmaker er hasar- og spennumynd sem byggist á sannsögulegum atburðum þegar slys var um borð í fyrsta sovéska kjarnorkukafbátnum árið 1961 með afdrifaríkum afleiðingum fyrir áhöfn og hugsanlega umheiminn allan. Leikmyndagerð Karls Júlíussonar fyrir þessa mynd er að sögn framleiðandans Sigurjóns Sighvatssonar "afrek", enda kosta leikmyndirnar um einn milljarð íslenskra króna og Karl hafði um 480 manns í vinnu við byggingu þeirra þegar mest var. "Þetta er sannarlega risaverkefni," segir Karl í samtali við Morgunblaðið. "Við fengum gamlan sovéskan kafbát, 86 metra langan, og lengdum hann um 40 metra og byggðum á hann nýjan turn, tókum úr honum innviðina og notuðum í leikmynd af bátnum að innan. Síðan erum við með herskip og annan kafbát að auki. Hér í Halifax byggðum við heila sovéska flotahöfn og allar leikmyndir eru stórar í sniðum, sem er töluverð viðbrigði fyrir mig en að sama skapi afskaplega skemmtilegt að fást við. Og þótt við höfum sem nemur milljarði króna í leikmyndina hefur gengið vel að eyða því!"

Karl hannaði leikmyndina í samvinnu við bandarískan leikmyndahönnuð. "Við skiptum þessu með okkur, því þetta er í fyrsta skipti sem ég geri leikmynd af þessari stærðargráðu. Undirbúningstíminn var tveir og hálfur mánuður en samanlagt er þetta sjö mánaða verkefni. Ég byrjaði á því að ná mér í allar þær bækur sem skrifaðar hafa verið um sovéska kafbáta en þær eru þó nokkuð margar. Síðan var ég svo heppinn að komast yfir teikningu af þessum tiltekna kjarnorkukafbáti sem lenti í slysinu og það hjálpaði mér mikið. Vinnan hefur verið afskaplega skemmtileg og gengið prýðilega í heildina. Við nutum góðrar aðstoðar rússneska sjó- og landhersins, en myndin er að hluta tekin í Rússlandi, og vorum meira að segja fyrstu Vesturlandabúarnir sem fengum leyfi til að fara inn á leynilega sovéska kafbátahöfn. Þetta hefur verið hið mesta ævintýri, og ekki síst í Rússlandi, - að upplifa allar þær breytingar sem þar hafa orðið þótt að vísu hafi verið dapurlegt að sjá hvað Rússar eru illa haldnir. Vaninn er að hugsa um Rússa sem Óvininn, kommúnista, en þeir eru hið besta fólk."

Hann segir að töluverður munur sé að starfa með kanadísku og bandarísku kvikmyndagerðarfólki en norrænu. "Samfélagsgerðin er svo ólík. Framleiðnin er mikilvægari hér vegna þess að ef þú stendur þig ekki kemur bara einhver annar í staðinn. Í Skandinavíu er fólk meira gróið í sínum störfum. Þar fyrir utan eru hér auðvitað miklu meiri peningar í spilinu og því meiri alvara á ferð."

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu stendur til að Karl Júlíusson geri næst leikmynd fyrir kvikmyndina A Little Trip to Heaven sem Baltasar Kormákur mun gera síðsumars fyrir Sigurjón Sighvatsson . Karl segir að þeir Sigurjón hafi þekkst frá því þeir voru fjórtán ára gamlir en samstarf þeirra hafi byrjað sem næst fyrir tilviljun vegna myndar Bigelows The Weight Of Water. "Þegar K-19 er lokið ætlaði ég að taka mér frí til áramóta eftir mjög langa vinnutörn undanfarið en mig langar til að vinna með Baltasar . Ég hef ekki starfað með íslenskum leikstjóra frá því ég fluttist út til Noregs. Mynd Baltasars verður væntanlega tekin hér í Halifax, sem er notalegur bær þar sem ég þekki mig orðið vel. Ég hlakka því til þess verkefnis."