Vegna breytinga á lögum um almannatryggingar er samþykktar voru á síðustu dögum Alþingis skal eftirfarandi tekið fram. Í stórum dráttum eru kröfur FEB þessar: 1.að ríkisstjórnin fari að landslögum og láti ellilaun fylgja launaþróun. 2.
Vegna breytinga á lögum um almannatryggingar er samþykktar voru á síðustu dögum Alþingis skal eftirfarandi tekið fram.

Í stórum dráttum eru kröfur FEB þessar:

1.að ríkisstjórnin fari að landslögum og láti ellilaun fylgja launaþróun.

2.að grunnlífeyrir verði hækkaður

3.að frítekjumark hækki a.m.k. til samræmis

Lítið hefur áunnist sem sjá má af dæmum sem tekin eru um einhleypan ellilífeyrisþega með lífeyristekjur frá 0/21.000/50.000 að um leið og lífeyristekjur hafa náð kr. 21.000 þá fellur niður tekjutryggingaraukinn. Það sama má segja um hjón. Tekjutryggingaraukinn fellur niður við 32.000 kr. tekjur hjóna úr lífeyrissjóði.

Ellilífeyrisþegi fær aðeins 4.249 kr. meira þrátt fyrir 21.000 kr. lífeyristekjur. Þessi skerðingarákvæði eru óviðunandi. Jaðarskattar eru einnig óeðlilega miklir en þar eigum við Norðurlandametið og vel það. Sem dæmi má nefna að einhleypur ellilífeyrisþegi missir 80% af 21.000 kr. lífeyrissjóðsgreiðslu í skatta og skerðingar en hjón með 32.000 kr. í lífeyrissjóðsgreiðslur missa 68%. Þess vegna telur FEB að hækka beri grunnlífeyri. Nýju lögin veita litlar úrbætur nema nokkra hækkun frítekjumarka og öryrkjum er gefinn kostur á lengri vinnutíma. Samkvæmt útreikningum okkar fær t.d. einhleypur lífeyrisþegi minni hækkun samkvæmt nýju lögunum en hann hefði fengið ef ríkisstjórnin hefði farið að landslögum um hækkun bóta samkvæmt launavísitölu. Það samræmist heldur ekki dómi Hæstaréttar frá desember 2000 að telja helming tekna útivinnandi maka til tekna lífeyrisþegans. Því má heldur ekki gleyma að bættar lífeyrissjóðstekjur eftir 10-15 ár gagnast ekki þeim sem nú eru ellilífeyrisþegar og því síður öryrkjum.

ÓLAFUR ÓLAFSSON,

formaður Félags eldri borgara.

Frá Ólafi Ólafssyni: