Um leið og ég fagna því að hljómsveitin Rammstein skuli ætla að bæta við tónleikum í Laugardagshöll 16. júní nk., get ég ekki glaðst eins mikið yfir því hvernig staðið var að miðasölu á fyrri tónleika sveitarinnar á dögunum.
Um leið og ég fagna því að hljómsveitin Rammstein skuli ætla að bæta við tónleikum í Laugardagshöll 16. júní nk., get ég ekki glaðst eins mikið yfir því hvernig staðið var að miðasölu á fyrri tónleika sveitarinnar á dögunum. Mikil eftirvænting ríkti hjá mér og augljóslega fleirum því miðarnir seldust eins og heitar lummur. Hundruð manna höfðu safnast í langar biðraðir við sölustaði og áhuginn greinilega með mesta móti, enda úrvalstónleikaband á ferðinni og ég (eins og allir sem voru í röðinni) ætlaði ekki að missa af miða. Reyndar var ég einn hinna heppu sem náði að troðast að borðinu og ná í miða áður en það var um seinan. Ég keypti þrjá miða og því kom það mér á óvart þegar maðurinn fyrir aftan mig bað um 30 miða. Og ekki var það versta tilfellið. Dæmi eru um að menn hafi keypt allt að 150 miða í einu og því kannski ekki skrítið að selst hafi upp á rúmum klukkutíma. Þegar viðburðir af þessu tagi eru á döfunni virðist vera að menn séu sendir til að kaupa miða fyrir heilu fyrirtækin og vinahópinn að auki. Má ég benda þessu fólki á að það getur bara beðið í röðum eins og aðrir. Ekki voru þó allir að hamstra miða í þessum tilgangi, því jafnskjótt og miðarnir kláruðust var farið að selja þá á uppsprengdu verði. Og það (í þessu tilfelli) beint fyrir framan sölustaðinn. Að þetta fólk skuli hafa komist upp með þetta er nógu slæmt, en enn verra að ekkert hafi verið gert í því. Réttast hefði verið að siga löggunni á lýðinn, enda veit ég ekki betur en að hvers kyns svartamarkaðsbrask sé bannað með lögum á Íslandi.

Ég er ekki að ásaka neinn sem tengist miðasölu á tónleikana um neitt. Menn á þeim bænum hafa væntanlega reynt að gera sitt besta og e.t.v. ekki búist við hinni gríðarlegu eftirspurn. Ég er eingöngu að benda á að ekki gengur að selja einum einasta einstaklingi tugi miða með þeim rökum að hann sé að kaupa fyrir kunningjana eða vinnufélagana, eða með engum rökum yfirhöfuð. Það er sennilega þessi söluaðferð sem valdið hefur því að svarti markaðurinn í kringum tónleikana hefur blómstrað með eindæmum. Réttara væri (að sjálfsögðu einungis að mínu mati) að setja kvóta á það hvað hver einstaklingur má kaupa marga miða í senn, t.d. 5 stk. Þessi aðferð hefur gefist vel erlendis, þótt það sé hálfpínlegt að þurfa alltaf að benda á hvernig málum sé háttað erlendis. Það undirstrikar einungis að hér á landi eigi menn talsvert í land í skipulagningu tónleika af þessari stærð (í það minnsta þegar kemur að skipulagningu miðasölu) og reyndar stöndum við langt að baki á miklu fleiri sviðum en skal það látið liggja á milli hluta hér.

EIRÍKUR STURLA

ÓLAFSSON,

Goðheimum 16, Reykjavík.

Frá Eiríki Sturlu Ólafssyni: