Runólfur markaði nýborið lamb. Ærin og Kolur fylgdust með. Eftir að blaðamenn kvöddu bar ærin öðru lambi, alveg óvænt!
Runólfur markaði nýborið lamb. Ærin og Kolur fylgdust með. Eftir að blaðamenn kvöddu bar ærin öðru lambi, alveg óvænt!
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fljótsdalur er innsti bær í Fljótshlíð. Þar býr Runólfur Runólfsson með óviðjafnanlegt útsýni fyrir augum. Guðni Einarsson og Ragnar Guðni Axelsson heimsóttu fjárbóndann í Fljótsdal.
Runólfur Runólfsson hefur búið í Fljótsdal frá 1966. Hann flutti þangað frá Bakkakoti í Meðallandi þar sem hann er fæddur og uppalinn. Runólfur segir að sér hafi ekki þótt neitt sniðugt að eiga alltaf heima þar og því ákveðið að flytja sig um set. "Ég var svo hneigður fyrir sauðkindur og að stunda fjárbúskap. Þá var þetta nokkuð heppilegur staður, að lenda á þessari jörð hér."

Þegar Runólfur kom í Fljótsdal var einn maður með jörðina. Af og til í aldanna rás hefur verið þar tvíbýli og þar staðið tvö íbúðarhús. Runólfur bjó ein fimmtán ár í gömlum bæ. Þá reisti hann núverandi íbúðarhús, einingahús frá Hvolsvelli, 200 metrum austan við gamla bæinn og nær afréttinum. Veturinn eftir brann gamli bærinn sem hann hafði búið í. Hann segir að smiðurinn hafi viljað láta nýja húsið snúa þannig að stofuglugginn vissi í suður. Það vildi Runólfur ekki. Hann þekkti sín heimatún og sá að þá myndu austanveðrin, sem geta orðið hörð, blása bleytunni upp eftir þakinu. Glugginn snýr því í austur.

Runólfur bauð okkur til sætis við stofugluggann og sagði: "Þetta er málverk sem ég hef daglega fyrir augunum. Að sjálfsögðu eitthvað mismunandi eftir árstíðum."

Útsýnið er óviðjafnanlegt. Við augum blasa Þórólfsfellið og Þórsmörkin. Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull ramma sjóndeildarhringinn af. Næst bænum blasa við túnin og fjárhúsin. Bæjarstæðið í Fljótsdal er ákaflega fallegt. Fyrir framan bæinn eru Markarfljótsaurar og tignarlegur Eyjafjallajökull gnæfir til suðurs. Til vesturs rís Stóri-Dímon upp úr flatneskju sandanna. Það var einmuna blíða daginn sem við heimsóttum Runólf. Fjöllin skörtuðu sínu fínasta og náttúran öll að lifna. Nýbornar lambær að kroppa nýgræðinginn og syngjandi mófuglar um öll tún.

Út um stofugluggann sjást greinilega tveir skriðjöklar sem falla úr Eyjafjallajökli, Falljökull og Steinholtsjökull. Runólfur var spurður hvort henn héldi að Eyjafjallajökull ætti eftir að gjósa?

Hætt að hugsa um vetrarbeit

"Þetta er bara möguleiki sem er fyrir hendi," segir Runólfur. "Annars er talið nú að jöklarnir séu að minnka. Það eina sem ég sé í sambandi við það er við vestari skriðjökulinn, Falljökul. Þú sérð kambinn sem er fast upp við jökulinn. Fyrir þremur árum var skriðjökullinn upp fyrir kambinn alla leið niður, nú er þarna svæði sem hann hefur skroppið saman og nær hann ekki lengur yfir malarkambinn að neðanverðu héðan séð. Það er eins efst. Þegar ég kom hingað var smáslakki milli hnjúkanna fyrir ofan Falljökulinn. Nú er orðið þarna gjögur niður, jökullaust."

Runólfur segir að Fljótsdalurinn hafi verið mjög góð fjárjörð á árum áður þegar hún átti Þórólfsfellið ein. Hreppurinn keypti síðan þann part úr jörðinni og gerði að beitarlandi allra í hreppnum. "Ég hef aðgang að því eins og aðrir hreppsbúar. Svo hefur þróunin verið þannig að það er hætt að hugsa um vetrarbeit, eins og siður var í fyrri daga. Eftir að farið er að sýna skepnunum hey á haustin þá nenna þær ekki að fara fram til beitar. Vilja bara sína gjöf."

Kindurnar tók Runólfur að stofninum til með sér úr Meðallandinu. "Árið sem ég flutti er held ég eina árið sem leyft var að fara með líflömb á milli landshluta," segir Runólfur. "Ég kom með lömb af stofni sem ég átti fyrir austan. Núna lengi hef ég notað sæðingar og sælist eftir að fá hrúta til ásetnings úr því sem þær gefa. Þannig kemur nýtt blóð inn í hjörðina."

Runólfur segist hafa heldur sóst eftir því að eiga hyrnt fé. "Það þróaðist út af því að þegar ég var barn voru leikföngin hornin af kindunum. Mér þótti svo eðlilegt og sjálfsagt að kindurnar væru hyrndar. Svo hefur það haldist við. Eftir að þessar sæðingar komust í gang eru hyrndu ærnar sæddar frá hyrndum hrútum og kollóttar frá kollóttum."

Runólfur segir ekki að horn, eða hnýflar, á lömbum valdi neinum erfiðleikum þegar ærnar bera. "Yfirleitt hafa mínar ær getað borið úti í náttúrunni vandræðalaust."

Flestar kindurnar eru hvítar, en eitthvað af mislitu. Ef dæma má af ullinni sem lögð er inn heldur Runólfur að um þriðjungurinn sé mislitur.

Runólfur segist ekki vera með stórt bú, um 200 ær. Rétt eitthvað til að lifa af. En er hægt að lifa af 200 ám? "Ég veit það bara ekki," svarar Runólfur. "Frúin er í vinnu og ég bara velkist við þetta einhvern veginn. Svo er ég kominn á þann aldur að ég fæ orðið ellilífeyri eitthvað."

Skógur frá fornu fari

Ofan við bæinn eru tveir trjáreitir. Nýbúið er að girða af annan reitinn og planta í hann. "Það er myndarlegur blettur sem fær að vaxa það sem ég á ólifað," segir Runólfur.

-Sumu skógræktarfólki er heldur illa við fé, hvað finnst þér um það?

"Ég veit það ekki. Ég er að hluta til kindadellukarl - hef gaman af kindum."

Runólfur segir að Þórólfsfell hafi verið vaxið skógi um landnám. Það hafi allt blásið af þar sem féð náði í skóginn. Í gljúfrum má enn sjá birkihríslur sem eru leifar af gamla skóginum. Búið er að friða í Þórsmörk fyrir sauðfé. Runólfur segir að þar hafi gengið fé fram á síðustu öld. "Það voru viss býli í Fljótshlíð sem áttu land þar innfrá. Þar eru til bæði Múlatungur og Teigstungur. Það bendir til þess að þessi býli hafi átt þar land. Þeir voru þarna með fé á útigangi. Svo komust þeir upp á að fara á haustin og taka hrútana. Fara svo með þá aftur um áramót og fá þannig meiri afurðir af fénu. Ærnar fengu því ekki fyrr en á eðlilegum tíma. Menn fóru þetta ríðandi, hér yfir fljótið. En hvernig þeir komu hrútunum veit ég ekki. Kannski haft þá í bandi og dregið þá yfir. Þetta gerðu þeir fram undir lok 19. aldar að mér er sagt."

Rændi konunni

Gamall bær stendur enn í brekkunni vestan við hús Runólfs. Á bænum er torfþak og afgirtur trjágarður ofan við bæinn. Þarna hefur verið rekið farfuglaheimili á sumrin um árabil. Breskur maður er þar með aðstöðu og skipuleggur gönguferðir, aðallega um Syðri-Fjallabaksleið og Hornstrandir.

"Það er enskt fólk þarna öll sumur, það var byrjað að koma áður en ég kom hingað. Það er sérstakast við þau samskipti að ég rændi frá honum konunni," segir Runólfur.

-Þú segir það án þess að blikna?

"Þetta eru bara staðreyndir," segir Runólfur. "Það þýðir ekki að spá í annað en að segja satt."

-Var Bretinn sáttur við það?

"Það hef ég ekki hugmynd um," svarar Runólfur kíminn. "Þau voru búin að vera þarna allavega einhver ár, kannski tíu, en voru barnlaus. Ég hef eignast með henni tvö börn sem eru komin yfir tvítugt núna og farin að heiman."

Kona Runólfs heitir Margrét og er frá London. Hún starfar hjá Sláturfélagi Suðurlands á Hvolsvelli og ekur daglega til vinnu innan úr Fljótsdal. Runólfur segir að þessi viðskipti hans og Bretans hafi engu breytt um leiguna á farfuglaheimilinu.

"Það hafa verið þarna í nokkuð mörg ár hjón sem hafa séð um þetta fyrir hann. Konan er bústýra og hugsar um að gefa fólkinu að borða áður en það leggur af stað í hópferðirnar og eins þegar það kemur. Maðurinn er aftur fylgdarmaður með hópunum." Runólfur segir að hóparnir miðist við 16 manns og þeir gangi á einni viku úr Fljótsdal austur Syðri-Fjallabaksleið í Skaftártungu. Svo er komið með annan hóp til baka, þannig að fylgdarmaðurinn er hálfan mánuð í ferðinni.

Einu sinni fór Runólfur með fólki þessa leið austur og var þá farið á hestum. "Við vorum tvo daga og ég held að við höfum gist í Hvanngili. Fórum á miðjum degi héðan og komumst inn í Hvanngil. Fórum svo seinni daginn austur að Snæbýli." Runólfur segir að göngufólkið gisti mest í skálum á leiðinni. "Íslendingar taka lítið eða ekkert þátt í þessu. Þeir vilja bara hafa þægindin og bílinn." Runólfur segir að ferðaþjónustan sé smábúsílag fyrir búið. Honum sýnist að hún hafi ekkert breyst frá því hann kom í Fljótsdal.

Appelsínutré í uppvexti

Við gengum í gamla bæinn þar sem farfuglaheimilið er. Leiðin liggur yfir litla trébrú sem lögð er yfir lækjargil. Hestar hafa komist inn í húsgarðinn eins og sjá má af nokkrum taðhraukum. Runólfur býður okkur inn í borðstofuna og við skrifum í gestabókina. Á meðan nær hann í vatn og vökvar plöntur í suðurglugganum, þar sprettur upp af appelsínukjörnum sem hann stakk í mold. Útsýnið er stórkostlegt yfir Markarfljótsaurana og upp á Eyjafjallajökulinn sem baðar sig í vorsólinni. Engin furða að fólk verði agndofa á þessum stað.

Runólfur segir að þarna sé skjólsælt í norðan- og sunnanáttum. Austanáttin gat verið stíf. Þá sló niður í skarðið á milli Þórólfsfells og Tindfjalla. Íbúðarhúsið nýja lenti í strengnum. Runólfur segir að undanfarin tvö til þrjú ár hafi verið samfelld blíða, annað en óveðrin sem gerði fyrst eftir að hann flutti.

Lækir heita ár

Runólfur segir að það sé ekki snjóþyngra í Fljótsdal en annars staðar. Hann lendir sjaldan í erfiðleikum við að komast í fjárhúsin út af óveðri. "Það er lækur hér austan við húsið. Hann getur orðið ófær. Þetta blæs upp af frosti, hleður undir sig og krapar og frýs. Það kom aldrei neitt svoleiðis fyrir í vetur."

-Heitir hann eitthvað, þessi lækur?

"Marðará. Vatnsföll af þessari stærð voru kölluð lækir í minni heimabyggð í gamla daga. En hér eru það ár, eins og Marðará og Þórólfsá."

Runólfur segir að það sé lítið eitt af fiski í þessum lækjum, en hann ekki nema einu sinni veitt í matinn.

Sauðburður

Í haust komust lambhrútar í ærnar og lembdu nokkrar fyrr en til var ætlast. Þær voru bornar þegar við vorum í heimsókn. Runólfur sýndi okkur eina ána sem bar lambi um morguninn. Við röltum út í fjárhús og hundurinn Kolur fylgdi með. Er eitthvað gagn af honum við féð?

"Þetta er bjáni," sagði Runólfur. "Það er tilviljun að það sé gagn af honum ef maður sendir hann eitthvað."

Flestar ærnar hans Runólfs eru tvílembdar. Þó ekki sú sem bar um morguninn. "Hún var svo ókurteis að koma bara með eitt," sagði bóndinn. "Þetta er undan einum lambhrútnum."

Ærin var búin að kara lambið og kumraði við það í stíunni. Runólfur tók litlu gimbrina í fangið og sótti markatöng í traktorinn. Hann settist undir fjárhúsvegg og markaði fimum höndum. Tvö stig aftan vinstra. Ærin fylgdist með áhyggjufull, en Kolur fullur forvitni. Svo las Runólfur brennimarkið af horninu á ánni og sagði að hún væri nokkuð við aldur, minnsta kosti sex vetra. Hann þreifaði á júgrinu og sagði allt í stakasta lagi. "Þetta verður eðlilegur og fínn dilkur í haust," sagði hann og sleppti lambinu sem hljóp til móður sinnar.

Það er ekki allt sem sýnist. Nokkru eftir að blaðamenn kvöddu Fljótsdal bar ærin öðru lambi, gimbur engu minni en þeirri sem á undan var komin. Runólfi kom þetta á óvart, því þegar við vorum hjá ánni sýndi hún þess engin merki að eiga eftir að bera. Hann sagði að þetta hefði aldrei fyrr gerst í hans búskap, að tvílembingur kæmi í heiminn og búið að marka hinn sem á undan kom.

Hvað framtíðin ber í skauti sér í Fljótsdal er óvíst líkt og annars staðar. Runólfur segist ekki vita hvort börnin hafa áhuga á að taka við búinu, telur þó líkur á því minni en meiri. Hann unir þó glaður við sitt, vinnur við það sem honum er kærast, fjárbúskap, og býr í umhverfi þar sem fegurðin er ólýsanleg.