"Svipdagur", frá 1999-2000, er með athyglisverðustu verkum Braga Ásgeirssonar á sýningunni í Galleríi Fold.
"Svipdagur", frá 1999-2000, er með athyglisverðustu verkum Braga Ásgeirssonar á sýningunni í Galleríi Fold.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til 14. júní í Gallerí Fold; og 21. júní í Galleríi Sævars Karls. Opið daglega í Gallerí Fold frá kl. 10-18; laugardaga frá kl. 10-17; og sunnudaga frá kl. 14-17. Opið á verslunartíma í Galleríi Sævars Karls.
BRAGI Ásgeirsson, listmálari og gagnrýnandi, varð sjötugur þann 28. maí. Í tilefni af þeim tímamótum hefur honum verið boðið að sýna á tveim stöðum samtímis, í Galleríi Sævars Karls í Bankastræti og Gallerí Fold við Rauðarárstíg. Á fyrri staðnum eru þrettán verk, en í Fold eru þau hvorki meira né minna en fjórir tugir. Þetta er þó langt frá því að vera met hjá Braga því árið 1980 hélt hann einkasýningu á Kjarvalsstöðum og lagði þá allt húsið undir jafnmörg verk og dagarnir eru í árinu. Trúlega er það Íslandsmet í fjölda verka á einni einkasýningu.

Bragi fæddist í Reykjavík, árið 1931 og stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann frá 1947 til 1950. Næstu tvö árin dvaldi hann við framhaldsnám í Konunglegu Akademíunni í Kaupmannahöfn, en hélt þá til Osló til náms við Konunglegu Akademíuna þar. Veturinn 1952 til 1953 dvaldi Bragi í Róm og Flórens, en 1955 til 1956 var hann aftur staddur í Kaupmannahöfn og lagði þar stund á grafík við Konunglegu Akademíuna. Vorið 1955 hélt Bragi fyrstu einkasýningu sína í Listamannaskálanum við Kirkjustræti og ári síðar hélt hann einkasýningu í Kaupmannahöfn.

Árin 1958 til 1960 stundaði Bragi enn framhaldsnám erlendis, nú í München og 1960 hélt hann aftur einkasýningu í Listamannaskálanum og enn, sex árum síðar. Þá tóku við fimm einkasýningar í Norræna húsinu og þrjár á Kjarvalsstöðum, auk fjölda minni einkasýninga í Reykjavík og úti á landi. Eru þá ótaldar samsýningarnar heima og erlendis sem borið hafa verk Braga til Buenos Aires, New York og Moskvu, svo fáein dæmi séu nefnd.

Braga hefur hlotnast ýmiss heiður, svo sem dvalar- og námsstyrkir á öllum Norðurlöndunum. Til dæmis fékk hann Edvard Munch-styrkinn árið 1977, og Bjartsýnisverðlaun Brøste árið 1982. Árið 1978-1979 hlaut hann starfsstyrk íslenska ríkisins og 1985 var hann valinn Borgarlistamaður Reykjavíkur. Frá 1966 hefur Bragi verið listgagnrýnandi Morgunblaðsins og sem slíkur ritað fjölda greina um íslenska list, en einnig í íslensk og erlend tímarit. Þá var Bragi kennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands nær samfellt frá 1956 til 1996.

Þannig hefur Bragi átt afar farsælan feril á fjölmörgum ólíkum sviðum myndlistar frá því hann steig sín fyrstu spor á þeirri braut í upphafi sjötta áratugarins. Af sýningunum tveim má ýmislegt ráða um framvindu hans sem listmálara, en auk þess hefur Bragi ætíð verið mikilvirkur teiknari og svartlistarmaður á ríflega fjörutíu ára löngum ferli sínum. Það er ef til vill auðveldara að ráða í þróun Braga og umfang listar hans út frá sýningunni í Gallerí Fold en hinni hjá Sævari Karli, vegna þess að sú síðarnefnda er mun syrpukenndari, með verkum af áþekkri gerð og stærð.

Í Fold kennir með öðrum orðum ýmissa grasa, allt frá geometrískum verkum til fígúratífra, með viðkomu í ljóðrænni abstraktlist og óformlegri. Sum verkin eru nær mónókróm, eða einlit, en önnur eru byggð á samsetningu ólíkra eininga. Þá eru verk þar sem ríkuleg áhersla er lögð á efniskennd miðlanna, eða fundið dót látið byggja upp flötinn. Í þeim efnum var Bragi frumkvöðull og átti glæsilegt skeið sem rusllistamaður - junk artist - einkum þegar saman fór hógvær litanotkun og upplímt fjörudót.

Það virðist næsta augljóst að Bragi er bestur þar sem hann er í mestum og nánustum tengslum við samtíma sinn. Það er hvorki sem síðbúinn kúbisti eða reglufastur hreinflatamálari sem hann lætur mest að sér kveða, né heldur sem fígúratífur listamaður. Nei, Bragi er bestur þegar hann er sem frjálsastur og gleymir öllu því sem skólunin kenndi honum. Efniskönnunin og frjálst pensilfarið - ferð án fyrirheits - í ljóðrænu myndunum lýsir málara sem hefur alla burði til að vera óhaminn og leikandi. Það vill oft gleymast að Bragi er af sömu kynslóð og Gerhard Richter og Jasper Johns, eilítið yngri en Cy Twombly og Yves heitinn Klein, en örlítið eldri en Jim Dine.

Án of njörvaðrar áætlunar og of sterkrar sjálfsvitundar verða til verk í höndum Braga sem geisla af fjöri og dirfsku, svo sem þegar rauðmáluð, gagnsæ plata er límd á rauðan grunn, eða ómengaðir frumlitir dansa á hvítmáluðum fleti. Í slíkum tilvikum verða pensilstrokurnar lifandi og leikandi svo verkið öðlast margræða dýpt, einmitt vegna þess að það er ekki alls kostar til lykta leitt heldur látið haldast opið í allar áttir. Einmitt það að leiða hlutina ekki til lykta er meðal þess sem gert hefur nútímalist áðurnefndra samferðarmanna Braga svo ferska og fjörmikla.

Að sama skapi er Bragi vafasamastur þegar hann minnist um of skólanna sem reyndu að drepa fjör hans í dróma. Gleymum ekki einkunninni sem Svavar heitinn Guðnason gaf Akademíunni í Kaupmannahöfn. Rykfallnara apparati hafði hann ekki kynnst nema ef vera kunni skóli Fernand Léger í París, sem hann sótti í eina viku ásamt Nínu Tryggvadóttur, en þoldi ekki við lengur. Sú trú margra Íslendinga að sama tegund handsals gilti á tuttugustu öldinni og verið hafði við lýði í gildakerfi gotneska tímans eða endurreisnarinnar á síð-miðöldum - meistara-lærlinga-kerfinu - varð til þess að þeir fengu ofurtrú á ákveðinni skólastefnu sem setti kúbismann í öndvegi sem beinan arftaka gotneska stílsins á Ítalíu. Franski málarinn Albert Gleizes ímyndaði sér til dæmis að hann væri arftaki Lorenzetti-bræðranna frá Siena á 14. öld.

En allir sómakærir listamenn vísuðu slíkri vegleysu á dyr. Matisse hætti til dæmis með skólann sinn eftir fjögur ár því honum blöskraði ósjálfstæði nemenda gagnvart sér og vildi ekki unga út fleiri vasaútgáfum af eigin verkum og Richard Mortensen var beinlínis hryggur yfir sauðslegri fylgni nemenda sinna við sig þegar hann starfaði sem prófessor við Akademíuna í Kaupmannahöfn. Listaskólar eru ekki til að móta nemendur heldur veita þeim það veganesti sem þeir þurfa til að marka sér eigin braut.

Sem betur fer rekur Bragi af sér allt slíkt akademískt slyðruorð í bestu myndum sínum, sem jafnframt eru í flokki hans nýjustu. Hvort sem hann notar striga eða olíuborið masónít sem undirstöðu nær hann leikandi töktum með skafinni áferð. Þar sem efnið fær að anda og er ekki njörvað við skreytikenndar stílfærslur bregður hvarvetna fyrir þeim snertiflötum við lífið og leiknina sem einkennir bestu hliðar Braga.

Í Galleríi Sævars Karls má sjá afgerandi áhrif expressjónískrar abstraktlistar þeirra Rothko og Newman á Braga. Ef til vill hvílir syrpan á of stórum grunnflötum því Bragi er mun evrópskari en svo að hann þurfi á miklum stærðum að halda. Ofurflekar henta honum alls ekki vel. Tilfinningalega stendur hann mun nær Klee, Fautrier, Wols, Michaux og minni myndum Fontana, en síðastnefndi listamaðurinn er ef til vill sá málari sem fyrst kemur upp í hugann þegar spurt er hverjum Bragi sé andlega skyldastur. Að vísu sker sig úr eitt prýðisverk hjá Sævari sem minnir sumpart á Poliakoff þótt efnistök séu allt önnur, og sannar enn sem fyrr að ljóðræn og ryþmísk abstraktlist hentar afmælisbarninu best.

Syrpan gefur þó fögur fyrirheit um framhald þar sem ýmsar pælingar hreiðra um sig á þrískiptum fleti sem virðist spretta af dásamlegu útsýninu yfir sundin úr hátimbraðri vinnustofu Braga yfir Laugarásnum. Í verkunum er mikil hafræna og sólskin sem ávallt býr yfir dulúð hins óendanlega svo sem við þekkjum af verkum Turner og Nolde. Þar sem þessi lágrétta speglun ljóss og lita fer saman við ríkulega efnisnotkun tekst Braga að yfirvinna öll tregðulögmál sem ógna ágæti hans sem málara. Hið merkilega við syrpuna í Galleríi Sævars Karls er hve sterkt hún vísar til framtíðar. Enginn óþarfa söknuður eftir horfinni formfræði eða ónýtu skreyti íþyngir henni. Svo virðist sem frá þessari syrpu séu Braga allir vegir færir.

Halldór Björn Runólfsson