Páskaliljur
Páskaliljur
Það er árvisst kraftaverk að fræ vakna úr frera að vori og verða að blómum og trjám. Stefán Friðbjarnarson staldrar við fræ trúarinnar, sem sáð er í huga fólks á barnsaldri.

...Fegursta vísan um vorið er vísan um fræið í moldinni. (Davíð Stefánsson.)

...Fegursta vísan um vorið

er vísan um fræið í moldinni.

(Davíð Stefánsson.)

Þegar þessar línur koma fyrir augu lesenda, á hvítasunnu, er skammt í hásumarið þegar gróðurríkið skartar sínu fegursta. Upp í hugann kemur þjóðsaga, sem kynslóð hefur sagt kynslóð - í þúsund ár. Landnámsmaður, sem lá á banabeði, lét bera sig út í vorið og gróandann, út í hvítasunnuna, og fól sig þeim er sólina skóp. Viðbrögð hans skilur sérhver Íslendingur. Þau vóru í ætt við boðskap vorsins. Landið er leyst úr klakaböndum. Gróðurríkið vaknað til nýs lífs. Gæftir á gjöful mið eftir vetrarhörkur. Fuglasöngur í lofti. Það er eins og heilagur andi hafi umvafið og uppvakið lífríkið í íslenzkri náttúru.

Þetta árvissa kraftaverk, er gróðurríkið vaknar til nýs lífs af vetrarsvefni, höfðar mjög sterkt til fólks á norðurslóðum. Það kemur því engum á óvart að Íslendingar eiga ógrynni söngva og ljóða um sólina og sumarið. Í kvæði Hannesar Péturssonar, Vaknað líf, kemst hann svo að orði um fagurt garð- og vorblóm, Páskaliljur:

Þið hringið inn upprisu jarðar, kólflausu klukkur,klukkur af gullnu silki, lifandi silki!

Of skærar augum manns, skammdegið var svo dimmt.Þið skínið í garðinum, sólir, fæddar í mold.

Sólir, sem skínið, klukkur sem kólflausar hringið!Klukkur sem syngið!

Fegursta vísan um vorið er vísan um fræið í moldinni. En hvað þarf til þess að fræið í moldinni losni úr frerans fjötrum og vakni til nýs lífs á sumardegi? Auk moldar og vatns þarf fræið þrennt til lífs og þroska: sól, birtu og yl. Það þarf því engan að undra þó að þríheilagt sé hjá Íslendingum um þessar mundir. Þeir fagna sól í suðri. Þeir lofsyngja "náttlausa voraldarveröld", þegar birtan hefur hrakið myrkrið út úr sólarhringnum. Þeir fagna ylnum í sunnanblænum, þegar sól vermir jörð eftir svalviðrin hörð.

Þegar grannt er gáð er þetta þrennt, sól á heiðum himni, Jónsmessubirtan og ylur sumardægra, eitt og sama fyrirbærið: Þrjú hugtök í einu! Birtan er frá sólu komin. Sumarylurinn sömuleiðis. Af þessum sökum hefur þetta nærtæka þríeina dæmi - sól, birta og ylur - á stundum verið notað til að skýra kristinn boðskap um þríeinan Guð: Föður, son og heilagan anda. Sonurinn kemur frá Föðurnum. Heilagur andi, sem kom yfir postulana á hvítasunnu, er alltumvefjandi hlýja frá kærleikans Guði, huggandi náðarfaðmur í hretum tilverunnar.

Hringrás ársins er á sinn hátt táknmál náttúru og umhverfis, sem lesa má úr sitt hvað um skapara himins og jarðar. Við fögnum komu Frelsarans í mannheim nálægt vetrarsólstöðum, þegar sól hækkar á lofti á nýjan leik. Við fögnum páskum, upprisuhátíðinni, þegar vorið leysir landið úr klakaböndum, "hringir inn upprisu jarðar". Við fögnum kristnitöku þjóðarinnar á Jónsmessu í "náttlausri voraldarveröld".

Já, fagurt er það, ljóð lífsins, um fræið í moldinni, sem teygir stöngul, blöð og blóm í átt til himins á hvítasunnu. En hvað um það trúarinnar fræ sem sáð var í barnshuga okkar? Höfum við hlúð að því og skapað því skilyrði til að þroskast - og bera ávöxt? Þessum spurningum verður hver og einn að svara fyrir sjálfan sig. En það má gjarnan vera gildur þáttur í hugarheimi okkar og lífsstíl að rækta okkar eigin garð, okkar innri mann, það trúarinnar fræ, sem sáð var í barnshug okkar. Það gerum við m.a. með því að vera betri hvert við annað - meðan tími er til, meðan sól gefur birtu og yl. Sú viðleitni er í anda hvítasunnunnar.