Nokkrir framleiðendur, þ.á m. Nissan, Renault og Saab, hafa þróað hnakkapúða sem færast fram við aftanákeyrslu og grípa um höfuðið áður en hnykkur kemur á hálsinn.
Nokkrir framleiðendur, þ.á m. Nissan, Renault og Saab, hafa þróað hnakkapúða sem færast fram við aftanákeyrslu og grípa um höfuðið áður en hnykkur kemur á hálsinn.
SAMKVÆMT niðurstöðum stjórnskipaðrar umferðaröryggisnefndar í Bretlandi, hefur hið áhrifaríka Euro NCAP-árekstrarpróf óbeint leitt til mikillar aukningar hálsmeiðsla í árekstrum.
SAMKVÆMT niðurstöðum stjórnskipaðrar umferðaröryggisnefndar í Bretlandi, hefur hið áhrifaríka Euro NCAP-árekstrarpróf óbeint leitt til mikillar aukningar hálsmeiðsla í árekstrum. Í skýrslu nefndarinnar segir að starfsemi Euro NCAP hafi vissulega leitt til aukins öryggis bíla á síðastliðnum árum, en sá árangur feli um leið í sér mikinn fórnarkostnað. Bílaframleiðendur hafi keppst við að auka öryggi bíla sinna með þeim afleiðingum að bílar séu nánast eins og billjardkúlur og hrökki hver af öðrum við árekstur. Minni skemmdir verði á bílum og minni bjögun verði á farþegarýminu, en á hinn bóginn hafi átök á háls þeirra sem í árekstri lenda aukist gríðarlega. Samkvæmt niðurstöðutölum í skýrslunni var meðalkraftur á ökumann við árekstur á 15 km hraða um 7 g árið 1983. Þessi kraftur sé nú kominn upp í 12 g að meðaltali og hafi mælst 16 g í bíl frá ónefndum þýskum framleiðanda. Talsmaður Euro NCAP hefur vísað þessum ásökunum á bug og segir engar sannanir hafa komið fram um aukna hættu á hálshnykkjum frá því prófanirnar hófust árið 1997. Hann lýsti á hinn bóginn yfir áhyggjum af aukinni tíðni slíkra meiðsla og gaf í skyn að mælingar á hættu á hálshnykkjum gætu orðið hluti af árekstrarprófun Euro NCAP. Hálshnykkir valda gríðarlegum kostnaði í heilbrigðiskerfinu og eru um 80% allra bótakrafna á hendur breskum tryggingafélögum, sem hefur valdið hækkunum á iðgjöldum þar í landi. Rétt stilling á hnakkapúðum er eina vörnin gegn hálshnykkjum, en könnun nefndarinnar leiddi jafnframt í ljós að 72% allra ökumanna stilla hnakkapúðann rangt.