"Daníel Daníelsson var frumkvöðull að ferðaþjónustu á Kjalarnesi," segir í "Kjalnesingar", riti um íbúa og jarðir á Kjalarnesi. Þar er ljósmynd af Daníel og tveimur gestum hans, sem heimsóttu hann í Brautarholt í júlí 1909. Það eru Mart
"Daníel Daníelsson var frumkvöðull að ferðaþjónustu á Kjalarnesi," segir í "Kjalnesingar", riti um íbúa og jarðir á Kjalarnesi. Þar er ljósmynd af Daníel og tveimur gestum hans, sem heimsóttu hann í Brautarholt í júlí 1909. Það eru Mart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ mun vera um það bil hálfur annar áratugur liðinn síðan öldruð reykvísk kona í vesturbænum hringdi til mín og bað mig heimsækja sig og vitja nokkurra ljósmynda er hún kvaðst ætla að afhenda mér í trausti þess að þeim yrðu gerð verðug skil og tilefnis...
ÞAÐ mun vera um það bil hálfur annar áratugur liðinn síðan öldruð reykvísk kona í vesturbænum hringdi til mín og bað mig heimsækja sig og vitja nokkurra ljósmynda er hún kvaðst ætla að afhenda mér í trausti þess að þeim yrðu gerð verðug skil og tilefnis getið. Nú er komið að því að efna loforðið og þó fyrr væri. Konan var Ósk Guðjónsdóttir, fædd 15. júlí 1907, búsett á Vesturgötu 56. Ósk lést á elliheimilinu Grund í janúar 1996.

Fyrsta ljósmyndin sem Ósk afhenti mér var af Martin Andersen-Nexö, dönskum rithöfundi er gat sér frægðarorð og fyrri eiginkonu hans, Margarethe.

Martin Andersen-Nexö var fararstjóri fjölmenns ferðamannahóps, sem hingað kom á vegum danska stórblaðsins "Politiken" árið 1909 í júlímánuði. Karl Nikulásson konsúll hafði verið einn í flokki fylgdarmanna og túlka sem Ditlev Thomsen, konsúll og forstjóri Thomsensmagasins, réð sem leiðsögumenn dönsku gestanna. Karl hafði stundað nám í dýralækningum í Kaupmannahöfn en kom heim árið 1900. Lagði stund á dýralækningar en stundaði jafnframt kennslu og verslunarstörf. Hann varð franskur konsúll á Akureyri um skeið. Tók virkan þátt í félagsstarfi góðtemplara og verslunarmanna. Martin Andersen-Nexö, hefir tengst tryggðaböndum við Karl Nikulásson og konu hans sem var Valgerður Ólafsdóttir (Jónssonar kaupmanns í Hafnarfirði). Þess vegna sendir hann Karli ljósmynd sem tekin er af skáldinu og konu hans. Þau eru þar í útreiðartúr eins og það hét á þeirra tíma máli. Myndin er tekin í nágrenni Reykjavíkur. Kann að vera að þau hafi verið í heimsókn í Brautarholti á Kjalarnesi, en þar bjó þá Daníel Daníelsson gestgjafi og ljósmyndari, kunnur hestamaður, reiðgarpur og fararstjóri, fylgdarmaður konunga og hirðmanna, en seinna fullhugi og hraðboði Hriflu-Jónasar, sem geymdi frýsandi góðhesta sína fáein fet frá stjórnarráðshúsinu þar sem "þeir hneggjuðu við stall með öllum tygjum".

Í Kjalnesingasögu er birt ljósmynd sem tekin er í Brautarholti á Kjalarnesi. Einn maður er þar nafngreindur af þremur. Það er Daníel sem bjó í Brautarholti. Hefir jörðina á leigu hjá Sturlubræðrum. Í myndatexta er sagt að mennirnir tveir séu gestir. Þeir sem ritað hafa myndatextann hafa eigi kunnað skil á "gestunum". Það eru þeir Martin Andersen-Nexö og Karl Nikulásson. Margar fleiri ljósmyndir voru teknar af dönsku ferðamönnunum og fylgdarmönnum þeirra og túlkum. Greinarhöfundur birti frásögn um heimsókn danska ferðahópsins í Morgunblaðinu.

Dönsku stórblöðin "Berlingske Tidende" og "Politiken" eyddu talsverðu púðri á Íslendinga á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Aðalritstjóri "Berlingske", Svenn Poulsen keypti stórbýlið Bræðratungu á sínum tíma. Þá gaf hann út sögu konungsheimsóknar Friðriks 8. árið 1907. Íslenskir höfundar áttu vini að fagna þar sem Svenn Poulsen sat í sæti ritstjóra. Þá voru bræður hans leikararnir Adam og Johannes tengdir Íslandi og íslenskum leikurum með margvíslegum hætti.

"Politiken" átti sér traustan hóp lesenda á Íslandi. Ritstjórar þess og blaðamenn höfðu talsverðan áhuga á Íslandsmálum. Sumir íslenskir blaðamenn höfðu svo mikla trú á Íslandsáhuga ritstjórnarinnar að einn úr flokki ungra framsækinna ritstjóra taldi nær fullvíst að Danir fengjust til þess að kosta útgáfu málgagns á Íslandi, sem tæki að sér að tengja löndin tryggðaböndum. Ungur fullhugi, sem hafði kvatt sér hljóðs með kvæðum og greinum, Jónas Guðlaugsson, prófastssonur frá Stað í Steingrímsfirði. Börn séra Guðlaugs og konu hans frú Margrétar Jónasdóttur urðu flest þjóðkunn, þau sem náðu fullorðinsaldri.

Henrik Cavling, ritstjóri "Politiken", naut virðingar í starfi sem afburðasnjall blaðamaður. Honum tókst með fjörlegum og liprum stíl sínum að vekja athygli lesenda á efni því sem hann valdi til umræðu, og það engu síður og þrátt fyrir það að sumir lesendur hans, eins og t.d. Björnson, töldu hann nálgast viðfangsefni sitt af yfirlæti og hirða lítt um staðreyndir "sem hann veit í flestum tilvikum svo fjandi lítið um", en meðfæddir hæfileikar og stílsnilld hófu hann til vegs og virðingar, enda varð hann brimbrjótur og brautryðjandi danskra blaðamannasamtaka. Líklegt má telja að Cavling ritstjóri hafi fagnað liðveislu Andersen-Nexö, sem einmitt um þær mundir, sem hann gerist fararstjóri í leiðangri "Politiken" í kjölfar konungsheimsóknar og örlagaríkra alþingiskosninga, öðlast frægð fyrir nýútkomna skáldsögu sína, "Pelle Erobreren".

Þá rennir það styrkari stoðum undir þau rök að Morgunblaðinu beri að halda á loft nafni Henriks Cavlings ritstjóra Politiken að hann mun hafa fyrstur manna fengið vitneskju um þau áform Vilhjálms Finsens, að stofna Morgunblaðið og hefja útgáfu þess. Þessi danski ritstjóri varð trúnaðarmaður Finsens og var fyrstum trúað fyrir leyndarmáli unga íslenska loftskeytamannsins að stofna íslenskt dagblað í Reykjavík, en ungur íslenskur prentari með blátt ungmennafélagsblóð í æðum fékk hugljómun á góðri stund í glaðra vina hópi og nefndi málgangið: "Morgunblaðið". Það var Guðbrandur Magnússon, síðar forstjóri Áfengisverslunar ríkisins.

Vilhjálmur Finsen þakkar Cavling ristjóra alla velgengni sína í blaðamennsku og ritstjórn. Af honum lærði hann allt stafróf ritlistarinnar. Að sneiða hjá hisminu, en komast að kjarnanum.

Hver veit nema Morgunblaðið og Politiken eigi eftir að stofna til gagnkvæmra kynnisferða lesenda beggja blaðanna og minnast með þeim hætti samvinnu tveggja ritstjóra.

Einar Olgeirsson, alþingismaður og ritstjóri tímaritsins "Réttur", greinir frá því að hann hafi skrifað Nexö og beðið hann leyfis að birta smásögu hans De tomme Pladsers Passagerer eða "Auðu sætin" í Rétti. Finnur Jónsson á Ísafirði hafði þýtt söguna. Nexö skrifaði Einari og veitti honum leyfið og lét þess getið að hann hefði skrifað grein í "Politiken" sem birtist í íslenskri þýðingu í "Ísafold" 18. ágúst 1909.

Mér finnst það standi Morgunblaðinu hjarta næst að birta grein þá sem Björn Ísafoldarritstjóri kaus að flytja lesendum blaðs síns. Skoðanir danska skáldsins, sem hér vék vinsamlegum orðum að Íslendingum, áttu eftir að breytast og um það fjallar framhald þessara orða. Þar vék skáldið af vináttubraut og er það verðugt rannsóknarefni hvernig gallharður bolsévíki og seinna harðlínumaður kommúnista, sem sparaði fé í þágu flokksins og kaus að ferðast á hörðum bekkjum þriðja farrýmis gat tekið þvílíkum sinnaskiptummeðan tískuklæddir ungir vefarar frá Kasmír spókuðu sig á fyrsta farrými og fitluðu við talnabönd kaþólskra á leið frá Unuhúsi í opinn faðm betri borgara og innblástur gólfteppa við Fýrisá.

Island

Eftir Martin Andersen Nexö í Politiken

"Mikið haf, sem lítið hefir verið ferðast um, er milli Danmerkur og Íslands, eyðilegur, þungur sjór, og enn er sem vér heyrum dunur af ferðum útflytjenda fyrir þúsund árum; svo lítið hefir verið þar um umferð síðan. Íslendingar hafa sætt sama hlutskifti eins og títt er um útflytjendur, hafa sjálfir orðið að annast sambandið við móðurlandið. Hafið hefir ekki flutt mikið af gestum þangað norður. Borið hefir það við, að konungssnekkja hefir komið þangað. En konungaferða er að engu getandi. Tilgangur þeirra er sá, að strá sandi á tómlætið og gylla hina daglegu ómensku. Ekki hefir heldur verið lögð fyrir oss nein ný reynsla úr konungsförinni, er oss gæti að haldi komið eftirleiðis. Þar á móti hafa hleypidómarnir orðið meiri á báðar hliðar, misskilningurinn farið vaxandi.

Á hinu ríður oss, að mikið verði um kynni óbreyttra hversdagsmanna frá báðum hliðum - og æskumanna; og í því efni mun Íslandsferðar Pólitíkurinnar verða að nokkuru getið; þessi byrjun, - sem tókst svo vel og varð svo arðsöm - hlýtur að hafa áhrif á ferðamannastrauminn. Danir eru ferðamenn miklir. Í hugum þeirra er þrá eftir að færa út kvíarnar, og oft er þá farið gömlu þjóðbrautirnar. Alstaðar þar sem menn hafa komið sér saman um, að eitthvað merkilegt sé að sjá fyrir sunnan okkur, standa Danir í halarófu og bíða þess þolinmóðir, að að þeim komi að verða frá sér numdir. Suðurlönd eiga forn ítök í oss, útþráin hefir smám saman orðið að andvarpi eftir meiri sól. En sú kynslóð, sem nú tekur við stjórntaumunum, er ekki kveifarleg, og hún hlýtur að breyta þessu eins og fleiru. Kalt vatn og íþróttir eru að koma oss í samræmi við það loftslag, sem vér höfum; og þetta mun enn betur takast, ef vér leitum að loftbreyting norðan við oss, en ekki sunnan við. Og nú er verið að kanna af nýju gamlar leiðir til nýrrar veraldar: mikilfenglegrar náttúrufegurðar og þjóðar, sem vér uppgötvum, oss til mikillar furðu, að er bræður vorir.

Á Íslandi hafa menn árangurslaust verið á gægjum eftir oss hvert árið eftir annað, og vonbrigðin hafa haft þau áhrif, sem vér megum ekki misskilja. Þjóðaflokkur beitir þar fyrir sig sínum beztu kröftum, sem yztu útvörðum norðanmegin - og slítur sambandið sundur hörðum höndum, svo að mennirnir verða að bjarga sér eins og þeir bezt geta eða farast. Þeir bjarga sér svo vel, að þeim er sæmd að, en í hugunum er nokkur gremja gegn heimaþjóðinni. Íslandsfarar munu eftirleiðis skilja þessa gremju og þykja vænt um hana, vegna þess hugarfars, sem þar kemur fram.

Að nokkuru leyti er dönsku aðgerðaleysi um að kenna, hve lélega vitneskju menn hafa hér heima um það, hvernig til hagar á Íslandi, en að nokkuru leyti er það Íslendingum sjálfum að kenna. Allir helztu menn þeirra hafa komið til Danmerkur, og að miklu leyti fengið mentun sína þar; en sú kynslóð, sem fekk framgengt viðreisn íslenzkrar þjóðar, hefir, svo að mikið hefir á borið, einangrað sig í Danmerkur-vist sinni, ef til vill af óþýðum ótta við það að missa eitthvað, sem þeim var eiginlegt, við nánara samblendi, ef til vill líka af varfærni-löngun, sem myndast hefir heima hjá þeim. Þeir hafa komið fram og talað hyggilega - um umbætur, um meiri sjálfstjórn, sumir um skilnað; en það, sem í raun og veru er um að tefla, hina miklu, instu ástæðu, hafa þeir ekki sagt oss. Meðal allra tilkvæmdarmanna þeirra virðist þann manninn hafa vantað, sem gat virt alt smástaglið vettugi og lýst hreyfingunni í stórum og einföldum dráttum, sýnt oss, að hér er æskan að láta til sín taka.

Þessa höfum þá vér sjálfir orðið vísari. Danir munu fyrst um sinn halda áfram að sigla til Íslands, stútfullir af fornsagna-hugmyndum. Þegar þeir ganga á land, eru þeir við því búnir að hitta nokkura önuga menn, fjandsamlega öllu því sem danskt er, niðja hinna fornu ættarhöfðingja, þjóð, sem sitji við fornsagnalestur eða þvaðri um lýðveldi - og fyrir þeim verður það sem dásamlegast er alls, þjóð, sem er að lifa æsku sína. Hér er engin fornsaga hún er 1000 ára gömul - á botni mannkynssögunnr; hér starfa menn, meðan dagur vinst, önnum kafnir, heil þjóð, en lítil, - ekki nema tæpar hundrað þúsundir manna - þjóð, sem lifir lífi, er myndast hefir með henni sjálfri, og fylkir sér þétt utan um sína eigin lifandi tungu, sín eigin lög, sín eigin stórmenni. Síðustu öldina hafa þeir verið að undirbúa sig í kyrþey, án þess að veröldin vissi neitt af því, og eru þess nú albúnir að stökkva aftur sem æskumenn fram á vígvöll tímans, eftir þúsund ára hvíld. Fjölmennir eru þeir ekki - ekki fleiri en svo, að vér Danir getum þetta eina skiptið látið oss finnast sem vér séum stórveldi; en æskan leggur veröldina undir sig með trú sinni, ekki með mannfjölda, og hver veit nema þessir menn vinni heiminn? Yfir hverju nýfæddu barni svífur óljós tilfinning þess, að það eigi mikla dularfulla framtíð fyrir höndum; þeirrar tilfinningar verða menn hér varir í auknum mæli. Óneitanlega hefir nokkuð fyrir okkur borið: við leggjum af stað til þess að koma að sögulegri gröf - og rekum okkur í stað þess á þjóðar-vöggur.

Framtíð Íslendinga liggur enn utan við sjóndeildarhringinn. Þeim er eins farið og öllum æskumönnum, að ráðsettum og rosknum mönnum þykir það óljóst, sem fyrir þeim vakir; en menn eiga ekki að taka því sem nýtt er með óbifanlegum kenningarkerfum, heldur eingöngu með opnum, hleypidómalausum hug. Þeir finna hjá sér þrá eftir að ráða sjálfir yfir framtíðarörlögum sínum, og þeir kunna að hafa verið stóryrtari en þeim hefir í rauninni búið í brjósti; það hendir sérhvern óþolinmóðan ungling, og ekki þarf það að spilla sambúð hans við heimilið. Alt of íhaldssöm mótspyrna frá heimilisins hlið hefir átt sinn þátt í þessu, og sumpart er það áreiðanlega að kenna því, að æskan metur of mikils hin ytri tákn, en sumpart stundardeilum og afstöðu flokkanna í landinu, sem eðlilega vísa hver öðrum yfir í moldarbakkann á móti. Að minsta kosti virðist mönnum vera að hægjast í skapi af meðvitundinni um það, að frá stjórnmála sjónarmiði sé það fengið, sem verulegt er, og að alt sé búið undir þroskann inn á við. Flaggmálið er ekki lengur það undirstöðuatriði, sem það var áður. Menn verða þess mjög varir, að hugirnir séu að hneigjast að þeim skilningi, sem kendur er við Hannes Hafstein, og eðlismunur er á þeirri kynslóð, sem kom málefni Íslands áfram til sigurs og næstu kynslóðinni. Hinir ungu hafa ekki í sér skilyrði gremjunnar, þeir sjá raun bera vitni um það sem verulegt er: Ísland ræður sjálft yfir sínum fjármálum, setur sín eigin lög, getur sjálft mentað embættismannaefni sín, hefir dómsvaldið í sínum eigin málum. Þeir þekkja ekki til neins haturs, þeim þykir vænt um hina mildu dönsku náttúru, sem fyllir út þá náttúrufegurð, sem þeir hafa sjálfir fyrir augum, og býr í hugum þeirra sem hlýleg endurminning gegn vetrarmyrkrinu; þeim er ánægja að því að koma hingað suður. Þeim er Danmörk það landið, sem er hug þeirra næst, þeir líta á það að hálfu leyti sem ættjörð, góða fóstru; og lengra hefir sennilega aldrei neitt land komist með annað land. Svipað þessu er hugarfar þeirrar kynslóðar, sem á að taka við fyrstu framtíðinni; og því sem nú berst til Danmerkur verður þá helzt líkt við undiröldu eftir gamlan storm - það hjaðnar niður.

En eitthvað nýtt getur komið; enginn veit, hverja stefnu nývakin þjóð kann að taka. Stekkur hún beint inn á á yngstu framsóknarbrautirnar, þar sem æskulýður Danmerkur er líka á ferðinni? Eða hygst hún að verða að fara eftir reynslu mannkynssögunnar og leita framtíðargæfu sinnar í landssjálfstæði? Dönsk stjórn má að minsta kosti ekki verða þar þröskuldur á leiðinni. Hún er skyldug til þess fyrst og fremst vegna okkar og þeirra sem enn yngri eru mannanna, sem eiga að taka við og taka afleiðingunum af því, sem gerist hér á landi. Íslendingar eru þjóð, og óskir þeirra sem þjóðar verða að vera fullvalda. Það ber oss nú að höndum, sem annars hendir oss nær því aldrei, að vér erum hinir máttmeiri þetta skiftið.

Það er líkast því sem framþróunin ætlaði sér að reyna í eitt skipti kenningar vorar um þjóðaréttinn á oss sjálfum. Vér höfum komist í sömu raunina áður og ekki staðist hana; það hefir að verulegu leyti veikt friðsamlega baráttu vora gegn ofureflinu. Atferli vort nú getur orðið oss sjálfum afdrifamikið á ókomnum tíma; svo getur farið, að vér búum til fordæmi, sem beitt verður gegn oss sjálfum.

Önnur hliðin á málinu er sambúð vor við Íslendinga; hlutverk vort er, eftir veikum mætti, að koma þjóð, sem er að vakna, inn á framþróunarbrautina. Vér verðum að líta á atferli hennar með móðurlegu langlundargeði, ekki stinga með títuprjónum í stjórnmálunum, jafnvel þótt það sé í því skyni gert að gjalda líku líkt. Til hvers er verið að stofna þetta nýja kennaraembætti í íslenzku og fela það dönskum manni? Öllum öðrum en nöldrunarseggjum stendur á sama um það, hvernig ríkisréttar-samböndum var háttað fyrir 600-700 árum; það er dagurinn í dag, sem oss varðar um. Danmörk tengir ekki Íslendinga við sig með því að grafa upp mygluð skjöl - enda er þjóðin ekki slíkir lagasnápar; og höldum vér uppi lagarétti gegn vilja landsmanna, þá farnast oss illa. Góður hugur utan heimilis er dýrmætari en illur hugur heima fyrir.

Samband vort við Ísland verður að öllu leyti að grundvalla á hugarfarinu. Fyrir því verður það ekki miðað við neinn tíma - góðvild þekkir engan uppsagnarfrest. En Danmörk verður í þessu sambandi að hugsa um sjálfa sig sem móður, skilja svo mikið, sem hún getur, og hugsa ástúðlega til æskumannanna, sem eru að leggja úr garði - þeir þurfa þess. Þá spyrna þeir aldrei fótum við móður sinni - jafnvel ekki við fóstru sinni, en hverfa heim til hennar aftur fyr eða síðar."

Þótt grein Nexös í "Politiken" beri vott um vinarhug í garð Íslendinga er augljóst að höfundurinn er haldinn fordómum og sýnir með orðum sínum að hann skortir þekkingu á stöðu Íslands að fornu og nýju. Sé afstaða Nexös er fram kemur síðar í skrifum hans borin saman við ræðu Friðriks konungs 8. á Kolviðarhóli kemur fram að konungurinn er stórum frjálslyndari en sósíalistinn og heimsborgarinn Nexö. Friðrik konungur talar um "ríkin sín tvö" og sætir ákúrum ráðherra sinna. Martin Andersen Nexö segir i bréfum sínum að Íslendingar fái aldrei viðurkennt konungssamband við Danmörku. Svipuðu máli gildir um þjóðfána. Í þessum efnum er Nexö ekki spámannlega vaxinn. Fáum árum síðar er Íslendingum leyfður eigin fáni. Og átta árum eftir fullyrðingu Nexös um að konungssamband sé óhugsandi eru sambandslögin samþykkt og Ísland er lýst frjálst og fullvalda ríki og íslenskur tjúgufáni dreginn að hún á Stjórnarráðshúsi.

Það vekur furðu að hámenntaðir Danir og menningarfrömuðir skuli " fá kikk" út úr afskiptum sínum af Íslandsmálum eins og Brandes, menningarforkólfurinn mikli, sem líkti sjálfstæðiskröfum Íslendinga við það að "Amager krefðist sjálfstæðis." Knud Berlin, fjandmaður Íslendinga virðist ráða ferðinni hjá fjölda Dana. Danakonungar höfðu þó eigi lýst áhuga sínum að dveljast langdvölum meðal þegna sinna. Þeir áttu ekki einu sinni kjallaraíbúð á Íslandi, hvað þá jarðhæð eða höll. Bárujárnsskúr var reistur á Þingvöllum og kallaður konungshús.. Það voru nú öll herlegheitin. Hvorki Sorgenfri, Det gule Palæ, Amalienborg, né nein önnur skrauthýsi þóttu hæfa skattlandinu í "svalköldum sævi".

Nexö hafði á sínum tíma lýst andúð sinni á sáttaleið samkomulags og málamiðlunarkompromis". Sú afstaða hans gildir þó ekki að því er varðar Íslendinga. Hann ætlar þeim að falla í faðm fóstru sinnar og stjúpu, en kallar sigurvilja sjálfstæðrar þjóðar kenjar og þvermóðsku.

Það var viðtal sem blaðamaður "Politiken", Kr. Dahl, átti við Einar Benediktsson um fánakvæði hans sérprentað, sem varð til þess að Georg Brandes ritaði óvingjarnlega grein um kröfur Íslendinga um fána. Líkti hann fánakröfum Íslendinga við það, að Amager krefðist sér fána. Í þeim fána yrði að vera "gulrót", til merkis um garðyrkju þeirra á Amager. Þannig hæddist bókmenntapáfi íslenskra stúdenta að auðsveipum lærisveinum sínum.

Jónas Guðlaugsson hafði ritað lofsamlega um ljóð Einars Benediktssonar í blað sitt "Valurinn" þá aðeins 19 ára gamall. Einar Benediktson fór lofsamlegu orðum um kveðskap Jónasar Guðlaugssonar.

Það kvað við annan tón er Jónas hvarf frá móðurmáli og feðratungu og tók að yrkja á dönsku. Þá vandaði Einar honum ekki kveðjurnar frekar en samlöndum hans sem fetuðu sömu slóð.

Hinn 27. apríl 1916 birtir Þjóðstefna minningargrein um Jónas Guðlaugsson, sem þá var nýlátinn. Þar er borið lof á Jónas. Hann var "góður drengur, skemmtilegur í viðræðum og glöggur á kveðskap annarra".

Um skáldskap Jónasar fer höfundur svofelldum orðum:

"Jónas heitinn var fremstur meðal þeirra Íslendinga sem nú um nokkurn tíma hafa iðkað úrþýdda ritmennt í Danmörku. Hann átti ósvikna skáldskapar gáfu og hefði að öllum líkindum orðið merkur rithöfundur á bundið mál, ef hann hefði æft list sína á menningarmálinu forna, sem hann var borinn til," tilvitnun í bók Gils Guðmundssonar.

Hugmynd Jónasar Guðlaugssonar um blaðaútgáfu Dana á málgagni um íslensk málefni hlýtur ekki undirtektir hjá Nexö, hann dregur í efa áhuga Politiken eða annars málgagns í Danmörku á íslenskum málefnum. Varar Jónas við því að flytjast búferlum og taka þá áhættu sem því fylgir. Þrátt fyrir aðvaranir Nexös ákvað Jónas að lát undan löngun sinni. Hann hafði kveðið sitt örlagaljóð: "Ó, mig langar til suðrænna landa, ó, mig langar að árroðans strönd."

Segja má að hugmynd Jónasar um útgáfu "Politiken" á blaði um íslensk málefni sem gefið sé út í Danmörku rætist með öðrum hætti. Morgunblaðið hefur göngu sína á Íslandi með vinsamlegum stuðningi "Politiken" og síðar fjárframlagi danskra Íslandskaupmanna.

Koma Friðriks Danakonungs 8. hafði vakið talsverða athygli á sínum tíma. Var mikið fjallað um hana í dönskum blöðum meðan á ferðinni stóð og að henni lokinni. Svo er að sjá sem örlög "uppkastsins", atkvæðagreiðslu um sjórnarfarslegt samband Dana og Íslendinga hafi farið fyrir brjóstið á Dönum. Voru Íslendingar taldir þrjóskir og þvermóðskufullir og að engu tauti væri komandi við þá. Þegar "Politiken", Thorefélagið, skipafélag Th. Tulinius og Ditlev Thomsen konsúll, forstjóri "Thomsensmagasins" gengust fyrir ferðamannaleiðangri til Íslands var siglt með skipi félagsins "Sterling". Þátttakendur í förinni urðu 45. Meðal þeirra Anders Hvass, yfirmálafærzlumaður í Kaupmannahöfn, borgarfulltrúi í Kaupmannahöfn og frú hans, Schultz, direktör í Höfn, Halle skólaumsjónarmaður í Höfn.

Hópurinn ferðaðist víða um land. Til Þingvalla, Gullfoss og Geysis en sumir fóru allt til Ísafjarðar. Fjöldi leiðsögumanna var ráðinn til fylgdar. Nöfn farartækjanna eru skrautleg og litur reiðskjótanna margbreytilegur. Vagnarnir heita: "Plydsvagninn", "Karetinn", "Stokkseyrarvagninn", og "Litli vagninn". Daníel Daníelsson lánar flesta hesta, 73 að tölu og fær 730 krónur greiddar. Faðir minn, Pétur Guðmundsson kennari, kvittar fyrir 20 krónum vegna tveggja hesta sem hann lánar. Jónas Helgason í Litla-Brautarholti tengdafaðir tveggja bræðra minna er kúskur.

Martin Andersen-Nexö kynnist Jónasi Guðlaugssyni ritstjóra og skáldi. Nexö hrífst af hugsjón hins unga manns og skáldlegu hugarflugi. Með þeim tekst vinátta. Nexö tekur að sér að greiða götu Jónasar, er hyggur á Danmerkurför. Bréf Martins Andersens-Nexö til Jónasar Guðlaugssonar.

Dagsett 13. janúar 1910.

Í bréfi sínu til Jónasar segir Nexö að Danir séu farnir að þreytast á málefnum Íslands. Undirstrikar að þar sé um frjálslynt fólk að ræða. Menn segja sem svo: Nú, þegar þið eruð ekki lengur beittir rangindum hefir spursmálið ekki neitt viðlíka þýðingu fyrir Danmörku, sem það kann að hafa fyrir Ísland. Hvað okkur snertir er það ekki og má þess vegna ekki vofa yfir okkur óleyst; það verður að leysa og víkja því svo til hliðar á einn eða annan veg. Svo segir Nexö: "Frelsi getið þið gjarnan fengið. En þingbundna konungsstjórn (Personalunion) getum við ekki samþykkt. Til þess er mismunurinn of mikill, milli þessara tveggja landa og á því sem hvor aðili getur boðið hinum. Ísland getur ekki boðið Danmörku neitt eftirsóknarvert og efnisleg hlunnindi byggjast einvörðungu á dugnaði verslunarstéttarinnar."

Í síðari skrifum Nexös kemur fram að Nexö fagnar þeirri ákvörðun Jónasar Guðlaugssonar að setjast að í Danmörku og snúa baki við íslenskri tungu en rita skáldsögur og ljóð á dönsku. Má það teljast undarleg afstaða heimsborgara og alþjóðasinna þegar skín í Stór-Danann undir skikkju hugsjónamannsins.

Jónas Guðlaugsson skáld er ritstjóri blaðsins "Reykjavík", hann ritar í blað sitt um danskar bókmenntir.

Það verður ljóst af greinum Jónasar Guðlaugssonar að hann er vel kunnugur því viðfangsefni er hann fjallar um. Í grein sinni í blaðinu "Reykjavík" er hann ritar í tilefni af komu danskra ferðamanna segir hann frá Johannesi V. Jensen og Harry Soiberg og Martin Andersen-Nexö.

Johannes V. Jensen kveður hann skáld goðsagnanna, Harry Soiberg skáld sægarpanna á vesturströnd Jótlands, og Martin Andersen-Nexö skáld erfiðismannanna, hinna fátæku í þjóðfélaginu.

Það kemur fram að þeir Jónas Guðlaugsson og Martin Andersen-Nexö tengjast vináttuböndum þegar við fyrstu kynni. Jónas birtir fregn í blaði sínu um andmæli sem ungir socialistar í Kaupmannahöfn hafa borið fram vegna heimsóknar Zarins af Rússlandi í Danmörku. Lætur blaðið þess getið að "hr. M.A. Nexö hafi verið svo velviljaður að láta blaðinu í té fréttir þær sem honum bárust í símskeyti frá Politiken".

Það gætir tvískinnungs í afstöðu Martins Andersens-Nexös til Íslendinga og stöðu þeirra í stjórnskipan og bókmenntum. Í mati sínu á stjórnarbyltingum hæðist Nexö að þeim er aðhyllast byltingar án blóðsúthellinga. Hann líkir þeim er aðhyllast slíkar hreyfingar við garðyrkjukonu sem hyggst reyta garðinn sinn, en treður blómjurtir og nytjagróður undir fótum sér, en lætur illgresið vaxa óáreitt. Í bréfi sem M.A.N. ritar Jacob Appel í nóvember 1910 er ekki annað að sjá en að Nexö komi fram sem hreinræktaður Stór-Dani með hroka nýlenduherrans og fordæmingu á framferði vinnuhjúanna. Nexö fagnar því að Jónas Guðlaugsson, íslenskur rithöfundur, ætli að snúa baki við móðurmáli sínu, íslensku og rita á dönsku.

Höfundur bókarinnar um Nexö segir hann hafa dregið dám af ríkjandi skoðun og afstöðu Dana til Íslendinga, að þeir væru þrjóskir og þvermóðskufullir og að engin leið væri að koma við þá tauti.

Menningarsjóður gaf á sínum tíma út smákver með ljóðum fjögurra skálda, Jóhanns Sigurjónssonar, Sigurðar Sigurðarsonar frá Arnarholti, Jóhanns Gunnars Sigurðssonar og Jónasar Guðlaugssonar. Hannes Pétursson skáld sá um útgáfuna og ritaði um höfundana.

Í kafla þeim sem fjallar um Jónas Guðlaugsson er hvergi minnst á kynni þeirra Martin Andersen-Nexö og Jónasar. Ekki eitt orð um hvatningarorð danska skáldsins og áskorun að snúa baki við móðurmáli og gylla kosti þess að hverfa undir verndarvæng herraþjóðarinnar. Það vekur furðu að öll heila háskólahersingin, að viðbættri sjálfskipaðri akademíu veit ekki sitt rjúkandi ráð um örlög tímamótahöfunda. Hvar er t.d. frumkveðið ljóð Bertels Þorleifssonar, Kolbrún, sem Hannes Hafstein þýddi úr dönsku? Heil öld er liðin án þess að nokkur hafi rumskað. Ótal styrkir eru veittir til bókmenntarannsókna og skipst á vináttuhótum, blíðmælum og faðmlögum, auk styrkjanna. En almúginn er skilinn eftir með Andrés önd og Mikka mús og í besta falli Tarsan apabróður á "bókmenntasýningu" í þjóðarbókhlöðu að forgöngu menntamálaráðherra og háskólabókavarðar.

Jónas Guðlaugsson sendi foreldrum sínum ljósmynd er hann lét taka af sér skömmu fyrir andlát sitt. Hann vonaðist þá enn eftir því að hann hlyti bata og betri tíð væri framundan.

Pétur Pétursson. Höfundur er þulur.