Estrid Brekkan
Estrid Brekkan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ESTRID Brekkan, sendiráðsritari í Stokkhólmi, hefur verið búsett þar í borg í þrjú ár og líkar vel. "Aðalaðdráttaraflið fyrir ferðamenn í Stokkhólmi er Gamla Stan og þar er mikið af góðum veitingastöðum.
ESTRID Brekkan, sendiráðsritari í Stokkhólmi, hefur verið búsett þar í borg í þrjú ár og líkar vel.

"Aðalaðdráttaraflið fyrir ferðamenn í Stokkhólmi er Gamla Stan og þar er mikið af góðum veitingastöðum. Mikið hefur verið fjallað um marga af þessum stöðum og því langar mig frekar að nota tækifærið og mæla með þremur veitingastöðum sem ég held mikið upp á og eru staðsettir í öðrum bæjarhlutum," segir Estrid.

Grænmetisstaður á lofti matvörumarkaðs

Á Östermalm er veitingastaðurinn Örtagården eða jurtagarðurinn en hann er í uppáhaldi hjá Estrid. "Eins og nafnið bendir til er þetta grænmetisstaður. Ég er þó ekki grænmetisæta. Ég man einmitt að þegar átti að draga mig þangað í fyrsta sinn hafði ég ekki mikla trú á staðnum en hann kom mér þó verulega á óvart. Veitingastaðurinn er á lofti Östermalmhallen sem er matvörumarkaður innandyra. Þar er hægt að fá fyrsta flokks hráefni eins og fisk, kjöt, grænmeti og krydd svo fátt eitt sé nefnt. Verðið er hátt í samræmi við gæðin," segir Estrid og bætir við að á leið upp á loft þar sem veitingastaðurinn er sé gott útsýni yfir matvörumarkaðinn en þar er yfirleitt fjöldinn allur af fólki og oftast mikið líf. "Íslenskir matgæðingar ættu ekki að láta þennan stað framhjá sér fara. Veitingahúsið á umræddu lofti er tvískipt, vinstra megin er hægt að fá steiktar kjötbollur í rjómasósu, síld og fleiri rétti sem tilheyra gamaldags matargerð Svía. Hægra megin er síðan grænmetishlaðborð og það er ævintýri líkast. Þar er að finna tugi mismunandi salata og einnig súpur og brauð. Eini gallinn við veitingahúsið er sá hvað diskarnir eru litlir," segir hún.

Máltíðin kostar um 100 krónur sænskar eða tæplega 1.000 krónur íslenskar og hægt er að borða eins mikið og fólk kýs. Þá þarf að greiða aukalega fyrir drykki. "Þetta er notalegur staður, gömul húsgögn úr dökkum við, svolítið þungt andrúmsloft sem passar kannski ekki alltof vel miðað við að þetta sé grænmetisstaður en það er eitthvað sem fær mann til að koma aftur og aftur."

Listaverk á öllum veggjum og á hvern disk

Á Stureplan á Östermalm er yfirleitt mikið um að vera að sögn Estrid enda mikið af veitingahúsum þar, klúbbum og börum. Þar rétt hjá er gata sem heitir Mäster Samuelsgatan og þar er gamall og líflegur staður sem heitir Prinsen. "Frægt fólk hefur iðulega sótt þennan stað. Á veggjum er mikið af andlitsmyndum og teikningum af frægu fólki sem komið hefur þangað og gjarnan þá eftir listamenn sem einnig hafa sótt staðinn. Maður fær á tilfinninguna að maður sé í París þegar maður kemur þangað, stíllinn er þannig," segir Estrid. Hún bætir við að þarna sé hægt að fá gamaldags sænskan mat eins og kjötbollur, hakkað buff, síld og einfaldar súpur nema munurinn sé sá að búið sé að gera hann að frönskum lúxusmat eins og hún orðar það. Að sögn hennar þarf að panta með góðum fyrirvara bæði í hádeginu og á kvöldin. "Þetta er staður í dýrari kantinum en samt ekki eins og það gerist dýrast hér í borg. Það er yfirleitt eldra fólk sem sækir staðinn. Hvítir dúkar eru á borðum og mikið lagt upp úr því hvernig maturinn er borinn fram. Í hvert skipti sem ég borða þarna fæ ég listaverk að borða. Skampisalatið eða risarækju- og hörpudiskssalatið finnst mér það allra besta en það er borið fram volgt með salatsósu," segir hún.

Framandi fisktegundir

"Mörgum Íslendingum finnst þeir ekki geta borðað fisk þegar þeir fara til útlanda og svoleiðis var það með mig á sínum tíma. Í Stokkhólmi kynntist ég hinsvegar veitingastað með afbragðsfiskréttum."

Veitingastaðurinn sem Estrid á við heitir Wedholms Fisk og líkir hún heimsókn á hann við eitt allsherjarævintýri. "Hvernig getur soðinn þorskur verið svo góður að maður eiginlega kemst á flug?! Þannig er í raun best að lýsa staðnum. Þjónustan er fyrsta flokks enda greinilegt að allir kunna vel til verka, bæði þjónar og kokkar. Annars er staðurinn afskaplega einfaldur, trégólf með hvítum og björtum veggjum.

Það er afskaplega gaman að borða framandi fisktegundir enda reyni ég það iðulega. Fastur matseðill á Wedholms Fisk er takmarkaður, framboðið ræður hverju sinni hvað er á boðstólum og er verðið eftir því. Ef maður er að halda upp á eitthvað sérstakt er þetta staður til að fara á."