[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KRÖFTUG umræða um dauðarefsingu er hafin að nýju í Bandaríkjunum í kjölfarið á máli Timothy McVeigh, sem bíður þess nú að dauðadómi yfir honum, fyrir að myrða 168 manns í sprengjutilræði í Oklahoma-borg árið 1995, verði fullnægt.
KRÖFTUG umræða um dauðarefsingu er hafin að nýju í Bandaríkjunum í kjölfarið á máli Timothy McVeigh, sem bíður þess nú að dauðadómi yfir honum, fyrir að myrða 168 manns í sprengjutilræði í Oklahoma-borg árið 1995, verði fullnægt.

Upprunalega átti að taka McVeigh af lífi 16. maí og litu stuðningsmenn dauðarefsingar svo á að betri réttlætingu fyrir því að beita slíkri refsingu væri vart hægt að finna. McVeigh viðurkenndi með stolti að hafa sprengt sprengjuna í Oklahoma-borg. Hér var ekki á ferðinni maður, sem hafður var fyrir rangri sök og glæpurinn, sem hann framdi, var svo grimmilegur að erfitt er að koma honum til varnar. McVeigh vildi meira að segja láta taka sig af lífi.

Síðan kom hins vegar í ljós að bandaríska alríkislögreglan (FBI) hafði ekki látið lögmenn McVeighs hafa öll gögn og skjöl. Einar fjögur þúsund blaðsíður vantaði. Aftöku McVeighs var frestað um mánuð og nú á að taka hann af lífi 11. júní. Lögfræðingar hans hafa farið fram á að aftökunni verði frestað enn frekar og McVeigh, sem hafði gefið samföngum sínum allar eigur sínar og búið sig undir að deyja eins og hermaður ef marka má frásögn eins samfanga hans, er ekki lengur jafnáfjáður í að verða tekinn af lífi.

Robert Jay Lifton, meðhöfundur bókarinnar "Hver á dauðann?", telur að í McVeigh togist á löngunin til að verða píslarvottur og freistingin að fletta ofan af fúski stjórnvalda.

Eftir að mistök alríkislögreglunnar komu í ljós er mál McVeighs skyndilega orðið vatn á myllu andstæðinga dauðarefsingar, sem spyrja hvers lags klúður eigi sér stað dags daglega í málatilbúnaði hins opinbera fyrst hægt er að gera slík glappaskot í þessu máli, sem fór fram undir smásjá fjömiðla og ætla má að ákæruvaldið hafi lagt áherslu á að vanda sérstaklega til verka í.

Á skjön við önnur vestræn ríki

Bandaríkjamenn eru fremur á skjön við önnur vestræn ríki hvað dauðarefsingar varðar. Hér á landi fór síðasta aftakan fram árið 1830, en dauðarefsing var hins vegar ekki numin úr lögum fyrr en 1928, en almennt höfðu dauðarefsingar mjög víða verið afnumdar í lok sjöunda áratugarins. Í mannréttindasáttmála Evrópu, sem 39 ríki hafa undirritað, eru dauðarefsingar bannaðar og dregnar í dilk með þjóðarmorði og pyntingum. Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu árið 1972 að lögin um dauðarefsingar eins og þau voru þá samræmdust ekki stjórnarskránni. 1976 féll dómur í réttinum þess efnis að dauðarefsingar sem slíkar stæðust stjórnarskrá og síðan hafa mörg ríki Bandaríkjanna gert breytingar á lögum sínum til að uppfylla kröfur hæstaréttar um að tiltaka skuli þá glæpi eða aðstæður, sem leitt geta til dauðadóms.

716 manns hafa verið teknir af lífi síðan hæstiréttur gaf grænt ljós á að taka upp dauðarefsingar að nýju árið 1976. Dauðarefsingar eru nú löglegar í 38 ríkjum. Flestar aftökur hafa farið fram í Texas, eða 246 sem er rúmlega þriðjungur af aftökum í Bandaríkjunum öllum. Síðan koma Virginía og þar á eftir Flórída. Það er hins vegar athyglisvert hvað dauðarefsingar eru svæðisbundnar í Bandaríkjunum. 31 ríki hefur beitt dauðarefsingum á undanförnum 25 árum, 82% dauðarefsinga hefur verið fullnægt í 10 ríkjum.

Verjendur drukknir og

sofandi

Í Texas voru 40 fangar teknir af lífi árið 2000 og þau sex ár, sem George Bush, núverandi forseti, var ríkisstjóri þar voru 150 manns teknir af lífi. 2001 hefur aftökum hins vegar fækkað mjög og hafa aðeins sjö manns verið teknir af lífi í Texas það sem af er árinu. Í Texas er um þessar mundir verið að endurskoða lögin um dauðarefsingar og hefur þegar verið samþykkt að taka á því hvernig verjendur þeir fá, sem sakaðir eru um morð, og að DNA-greining fari fram í málum bæði þeirra sem hafa verið ákærðir og dæmdir. Nýi ríkisstjórinn, Rick Perry, hefur þegar staðfest DNA-lögin og talið er að hann muni undirrita lögin um að sakborningar fái hæfa verjendur, en Bush beitti á sínum tíma neitunarvaldi til að stöðva slíka löggjöf. Hann hefur hins vegar enn ekki ákveðið hvernig hann ætli að taka á lögum um að banna aftökur þeirra, sem eru geðfatlaðir, en Texas yrði þá 14. ríki Bandaríkjanna til að banna slíkt.

Það er reyndar tekið eftir hinu breytta andrúmslofti í Texas. Bush varði dauðarefsingakerfið af mikilli elju í kosningabaráttunni á liðnu ári, en hin mikla umfjöllun um það í fjölmiðlum virðist hafa vakið menn til umhugsunar. Þar komst meðal annars í hámæli að í Texas geta sakborningar átt von á því að lögmenn þeirra komi drukknir til réttarhalda eða sofi meðan á þeim stendur. Samkynhneigður sakborningur mátti sitja undir því að saksóknarinn beitti þeim rökum fyrir því að dæma ætti hann til dauða að það væri "ekki mikil refsing" fyrir samkynhneigðan mann að vera sendur í fangelsi án þess að verjandi hans hreyfði svo mikið sem mótbárum, enda svaf hann mestan hluta réttarhaldanna. Þegar sakborningurinn hugðist áfrýja og hafði leitað sér annars lögfræðings vildi hann fá í hendur málsgögn verjandans, sem reyndust vera fimm handskrifaðar síður, alls 269 orð. Þrátt fyrir þetta staðfesti áfrýjunarréttur í Texas dóminn yfir manninum. Þegar málið var endurskoðað á alríkisstigi komst dómarinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að "sofandi verjandi væri verri en enginn verjandi". Stjórnvöld í Texas hafa áfrýjað niðurstöðu hans.

Í öðru tilfelli hafði lögmaðurinn ekki annað að segja þegar hann baðst vægðar fyrir skjólstæðing sinn: "Þið eruð mjög greindur kviðdómur. Þið hafið líf þessa manns í ykkar höndum. Þið getið tekið það eða ekki. Meira hef ég ekki að segja." Maðurinn var dæmdur til dauða og þegar hann áfrýjaði þótti sú vörn, sem hann hafði fengið, vera í stakasta lagi.

Þessi vinnubrögð eru ekki einsdæmi fyrir Texas og rannsóknir hafa sýnt að ferlið er bæði ófullnægjandi og fullt af fordómum. Fórnarlömb óhæfra verjenda eru flest fátæk. Um 90% þeirra, sem hafa verið dæmdir til dauða og bíða aftöku, eru það fátæk að þau höfðu ekki efni á að greiða kostnað af málsvörn sinni. Þriðjungur þeirra, sem teknir eru af lífi, er svartur. Þá skiptir landafræðin máli. Sakborningar geta átt von á misþungum dómum eftir því hvar réttarhaldið fer fram og þá skiptir ekki aðeins máli hvort það er í suður- eða norðurríkjum Bandaríkjanna, heldur hvar í sama ríkinu.

Ein ástæðan fyrir því að Bandaríkjamenn eru hlynntir dauðarefsingu er sú að fólk hefur á tilfinningunni að dæmdir morðingjar muni brátt ganga lausir á ný og drýgja frekari ódæðisverk. Komið hefur fram í könnunum að flestir þeir, sem tækir eru til að vera kvaddir í kviðdóm, myndu síður vilja dæma morðingja til dauða ef tryggt væri að í staðinn myndi hann sitja mjög lengi í fangelsi og fyrir lífstíð ef glæpamaðurinn væri sérstaklega hættulegur. Þeir sem sitja í kviðdómum hafa hins vegar enga trú á að sú verði raunin. Fyrir skömmu var gerð rannsókn þar sem rætt var við um eitt þúsund kviðdómara og kom í ljós að flestir höfðu gegnt skyldu sinni og setið í kviðdómnum án þess að hafa hugmynd um þá refsikosti, sem í boði væru. Nokkrir þessara kviðdómara voru í ríkjum þar sem lífstíðarfangelsi þýðir 25 til 40 ár og fyrir verstu glæpina kæmi ekki til greina að viðkomandi fengi reynslulausn fyrr.

Í Flórída hefur 51 maður verið tekinn af lífi frá 1976. Þar hefur hins vegar í raun verið ákveðið að engar aftökur skuli fara fram, í það minnsta í ákveðnum tilvikum, eftir að DNA-greining sýndi að maður, sem dæmdur hafði verið til dauða fyrir nauðgun og morð, var saklaus. Niðurstaðan kom 11 mánuðum eftir að hann hafði verið tekinn af lífi. Nú á að kanna hvort sams konar greining breytir einhverju um mál þeirra, sem nú bíða aftöku í ríkinu.

Alls hafa 95 manns, sem biðu aftöku, verið látnir lausir eftir að hafa verið gerðir sýknir saka, þar af 20 í Flórída, sem er meira en í nokkru öðru ríki. Í Illinois hefur öllum aftökum verið slegið á frest eftir að 13. fanginn, sem beið fullnægingar dauðadóms, var látinn laus á þrettán árum. Þing 16 ríkja hafa tekið til umræðu tillögur að láta engar aftökur fara fram.

Það er ekki nóg með að þeir, sem eiga dauðadóm yfir höfði sér, geti átt von á því að fá óhæfa lögfræðinga, óvandaðri meðferð sönnunargagna og fordómum í kerfinu. Sjálf aftakan gengur heldur ekki alltaf snurðulaust. Síðan 1982 hafa 32 aftökur mistekist. 1990 var Jesse Joseph Tafero settur í rafmagnsstólinn í Flórída. Vitni sögðu að bláar og appelsínugular eldtungur hefðu skotist út úr höfði hans og það hefði tekið fjórar mínútur og þurft að gefa honum tvö þúsund volta straum í þrígang til að taka hann af lífi. Þegar Pedro Medina var tekinn af lífi 1997 gerðist það sama - það kviknaði í höfðinu á honum. Þá var ákveðið að taka stólinn úr umferð og smíða nýjan. Allen Lee Davis settist í hann fyrstur og þegar straumi var hleypt á lagaði blóð úr munni hans. Ákveðið var að reyna eitthvað nýtt og var notað eitur í næstu aftöku. Í einu tilviki á síðasta ári þurfti hinn dauðadæmdi, Bennie Demps, að liggja í rúman hálftíma á meðan verið var að reyna að stinga í hann nálunum. Yfir höfði hans var hljóðnemi og heyrðist hann hrópa að hann hefði verið skorinn í nára og læri og honum blæddi mikið.

Í umræðunni um dauðarefsingar beinist athyglin óhjákvæmilega einkum að þeim, sem teknir eru af lífi. Þeir eru hins vegar sýnu fleiri, sem bíða aftöku. Milli 1973 og 1999 voru um 6.700 menn dæmdir til dauða, en 598 voru teknir af lífi, eða einn af hverjum 11. Að meðaltali bíða menn í 11 ár eftir að dauðadómi verði fullnægt, en ekki er óvenjulegt að biðin sé 20 ár.

Þá er kostnaðurinn af kerfinu ekki lítill. Sem dæmi má nefna að í Kaliforníu kostuðu dauðarefsingamál kerfið einn milljarð dollara eða 105 milljarða íslenskra króna á tímabilinu 1977 til 1993. Á þeim tíma voru tveir teknir af lífi. Dagblaðið Dallas Morning News, komst að þeirri niðurstöðu að það kostaði fangelsiskerfið 2,3 milljónir dollara (240 milljónir króna) að dæma mann til dauða og fyrir sama fé mætti vista fanga, sem væri einn í klefa við ströngustu öryggisgæslu í 40 ár.

Á miðvikudag beindu samtökin Amnesty International spjótum sínum að Bandaríkjunum og sögðu að þau hefðu með því að dæma menn til dauða fyrirgert tilkalli sínu til forustu í mannréttindamálum. William Schulz, yfirmaður Bandaríkjadeildar samtakanna, lýsti yfir því á blaðamannafundi að Bandaríkin væru í sama skammarlega hópnum og Kína, Íran og Sádí-Arabía. 88% af öllum aftökum færu fram í þessum fjórum ríkjum og þau væru á skjön við þróunina annars staðar í heiminum. Benti hann á að rúmlega 60 ríki hefðu lagt dauðarefsingar af frá því að Bandaríkjamenn tóku þær upp að nýju árið 1977.

Í Bandaríkjunum eru geðfatlaðir og heilaskaddaðir meira að segja teknir af lífi. Þar eru Bandaríkin í hópi með Kyrgystan og Japan.

Afstaðan til dauðarefsinga að snúast

Afstaða almennings í Bandaríkjunum til dauðarefsinga virðist vera að snúast um þessar mundir, þótt ekki sé ljóst hvaða áhrif mál McVeighs hafi á þá þróun. Í öllum skoðanakönnunum, sem gerðar voru áður en taka átti hann af lífi 16. maí var afgerandi meirihluti hlynntur aftökunni. Árið 1994 voru 80% Bandaríkjamanna hlynnt dauðarefsingum, en á þessu ári hefur stuðningur mælst 66%, samkvæmt könnun Pew-stofnunarinnar. Hins vegar mældi sama stofnun 75% stuðning við aftöku McVeighs. Gallup gerði könnun í apríl þar sem 22% kváðust vera andvíg dauðarefsingum, en vildu hins vegar að McVeigh yrði tekinn af lífi.

Afstaðan til dauðarefsinga hefur farið bæði eftir straumum í bandarísku þjóðfélagi og tíðni glæpa. Á sjötta áratug liðinnar aldar voru um tveir af hverjum þremur Bandaríkjamönnum fylgjandi dauðarefsingu, sem er svipað hlutfall og nú. Á sjöunda áratugnum minnkaði stuðningur við dauðarefsingar hins vegar mjög og fór niður í 42% í Gallup-könnun, sem gerð var 1966. Vaxandi tíðni glæpa varð hins vegar til þess að stuðningur við dauðarefsingar færðist í aukana á ný og í lok sjöunda áratugarins var hann kominn upp í 51%. Bandarískt þjóðfélag sveigðist til hægri á næstu áratugum og fylgi við dauðarefsingar jókst. 1986 var það komið upp í 72% og náði hann hámarki í 80% 1994, sama ár og repúblikanar náðu meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings.

Síðan hefur dregið úr stuðningi, en það virðist þó fremur eiga rætur að rekja til þess að almenningur hafi áhyggjur af því að réttarkerfið sé að bregðast með því að dæma saklausa menn til dauða, en að dauðarefsingin sem slík sé röng. Almenningur virðist engu að síður vera farinn að hverfa frá því að dauðarefsingin gagnist til að draga úr tíðni morða. Í apríl birtist skoðanakönnun sem gaf til kynna að meirihluti Bandaríkjamanna taldi í fyrsta skipti í 15 ár að dauðarefsingar drægju ekki úr morðum. Samkvæmt þeirri könnun töldu þó flestir að fælingarmáttur dauðarefsinga væri helsta réttlæting þeirra, fremur en það að ódæðismaðurinn fengi makleg málagjöld.

Reyndar hefur einnig komið í ljós að trúin er mikilvægur þáttur í breyttri afstöðu almennings til dauðarefsinga og vísuðu menn oftast til trúarinnar í könnun Pew-stofnunarinnar er þeir rökstuddu andstöðu sína. Svo virðist því sem í Bandaríkjunum sé að myndast bandalag ólíklegra samherja gegn dauðarefsingum þar sem fara saman öflin á vinstri vængnum, minnihlutahópar og hægri menn úr röðum bæði katólikka og mótmælenda.

Kristilegir og vinstrimenn í eina sæng

Kristilegir íhaldsmenn eru stór þrýstihópur í Bandaríkjunum og áhrif þeirra töluverð. Það er til dæmis segin saga að þeir sem berjist um útnefningu til að verða forsetaefni repúblikana eigi litla möguleika reyni þeir ekki að höfða til kristilega vængsins í flokknum. Öflugur stuðningur kristinna hópa á hægri vængnum við dauðarefsingar hefur ekki farið saman við málflutning um kristilegt siðgæði og til dæmis baráttu þeirra gegn fóstureyðingum á grundvelli þess að hvert líf sé heilagt. Forustumenn í katólsku kirkjunni í Bandaríkjunum hafa á undanförnum tveimur árum tekið afgerandi afstöðu gegn dauðarefsingum. Í hópi bókstafstrúarmanna hefur einnig orðið mikil breyting, sem rekja má til aftöku Körlu Faye Tucker árið 1998. Tucker frelsaðist í fangelsi og ýmsir kristilegir hópar með Pat Robertson fremstan í flokki báðu um að henni yrði þyrmt. Þegar hún var engu að síður tekin af lífi fordæmdi Robertson hina "dýrslegu hefnigirni", sem gagnsýrði bandarískt þjóðfélag. Skömmu eftir aftökuna birtist leiðari í einu helsta málgagni mótmælenda í Bandaríkjunum, Christianity Today, með fyrirsögn þess efnis að hin trúarlegu viðbrögð gegn aftöku Tucker hefðu verið rétt, en ekki af þeirri ástæðu að hún var kristin. Komust höfundar leiðarans að þeirri niðurstöðu að útséð væri um notagildi dauðarefsingar, mismunun fælist í því hvernig henni væri beitt og aðeins hefnigirni byggi að baki. Robertson gekk enn lengra fyrir rúmu ári þegar hann lýsti yfir því að setja ætti bann við aftökum, en aðeins tíu árum áður sagði hann að dauðarefsingar væru nauðsynlegar til að draga úr ofbeldisglæpum.

Afstöðubreytingu katólikka má rekja til heimsóknar Jóhannesar Páls páfa annars til Bandaríkjanna í byrjun árs 1999. Gerði hann dauðarefsingar þá ítrekað að umtalsefni og í ræðu í St. Louis sagði hann að hin nýja kirkja kvæði á um það að "fylgjendur Krists eigi skilyrðislaust að styðja lífið, undir öllum kringumstæðum". Andstæðingar fóstureyðinga í Bandaríkjunum orða andstöðu sína svo að þeir vilji að fóstrið fái að lifa, þeir séu stuðningsmenn lífsins, og orðalag páfans þótti taka af allan vafa um að hann teldi að sá stuðningur skyldi ekki aðeins eiga við um fóstur í móðurkviði.

Þessar tilhneigingar kunna á endanum að leiða til þess að dauðarefsingar verði afnumdar í Bandaríkjunum, en það er hins vegar ekkert gefið í þeim efnum. Það hefur hingað til verið mun auðveldara fyrir stjórnmálamenn, sem vilja sýna fram á að þeir hyggist taka af hörku á glæpum, að lýsa sig fylgjandi dauðarefsingum en andvíga. George Bush eldri, faðir núverandi forseta, beitti slíkum málflutningi í kosningabaráttunni við Michael Dukakis árið 1988 og hafði það afgerandi áhrif. Dauðarefsingar hafa heldur ekki verið einkamálstaður repúblikana. Bill Clinton var einarður stuðningsmaður dauðarefsinga og tók sér meira að segja hlé frá kosningabaráttunni 1992 þegar hann var ríkisstjóri í Arkansas til að snúa þangað vegna aftökunnar á Rickey Ray Rector. Margir höfðu beðið Clinton að vægja honum vegna þess að hann væri heilaskaddaður. Rector skaut lögregluþjón og hugðist síðan skjóta sjálfan sig. Kúlan fór í gegnum heila hans, en hann lifði af. Clinton ákvað, þrátt fyrir áköll, að láta taka hann af lífi. Rector gerði sér hins vegar ekki meiri grein fyrir því hvað var í vændum en svo að þegar hann sté upp frá síðustu máltíð sinni og fór til aftökunnar bað hann verðina að geyma eftirréttinn svo hann gæti klárað hann þegar hann kæmi aftur. Þótt ýmislegt hafi skilið að Bush og Al Gore í kosningabaráttunni á síðasta ári voru þeir sammála um að ekki ætti að leggja af dauðarefsingar.