Þessi uppstilling tekur á móti gestum á Sólheimum og er merkt Djöflaeyjan.
Þessi uppstilling tekur á móti gestum á Sólheimum og er merkt Djöflaeyjan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Sólheimum í Hrunamannahreppi býr bóndinn og Búkollukonan Esther Guðjónsdóttir ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur orð á sér fyrir að vera listræn og dularfull. Sumir telja hana jafnvel búa yfir fjölkynngi. Kristín Heiða Kristinsdóttir sótti galdrakonuna heim í sveitasæluna.
Þrátt fyrir nálægð við Kristshúsið í Hruna koma kirkjulegir hlutir fáum í hug þegar þeir renna í hlað á Sólheimum. Neðan við bæinn tekur á móti vegfarendum vel merkt Djöflaeyja með tilheyrandi gapandi hauskúpum af hrútum og kúm ásamt hrafnshræi í gálga.

"Jú, þeim verður sumum hverft við hauskúpurnar ferðamönnunum sem villast hingað á leið sinni inn í Landmannalaugar eða Þjórsárdal. Við Jói maðurinn minn bjuggum eyjuna til í einhverjum prakkaraskap og tilvist hennar hefur ekki dregið úr vangaveltum sveitunganna um galdraeðli mitt. Ég er ekki frá því að sumir séu hálfhræddir við mig. Og ekki batnaði það þegar ég hélt hátíðarræðu 17. júní í fyrra og jörðin skalf ógurlega skömmu síðar. Þetta var auðvitað jarðskjálftinn stóri sem gerði mér þann grikk eða greiða að ríða yfir á þessum tíma. Ég var þar af leiðandi talin standa á bak við öll ósköpin," segir Esther Guðjónsdóttir og hlær.

Hún telur fyrrnefndan ótta við sig frekar stafa af því að hún skrifar stundum greinar í blöð og skammast yfir því sem henni þykir betur mega fara í sveitinni. Hún segir það nýtast sér ágætlega í baráttunni að vera álitin hyrnd og hæfilega herská.

Forneskja að vestan í farteskinu

Esther er uppalin á Álftanesi en rekur ættir sínar í báða leggi vestur á firði.

"Ingimundur móðurlangafi minn ólst upp á Hornströndum. Hann var fæddur á Látrum í Aðalvík og Guðbjörg langamma fæddist á Litlu Ávík í Trékyllisvík. Í föðurættinni kemur svo langamma mín frá Bæ á Selströnd. Ég tel að þetta villta eðli sem í mér býr sé komið að vestan og kannski líka hæfileiki minn til að skynja og sjá margt sem öðrum er hulið. Vestfirðingar hafa jú löngum verið taldir magnaðir. Og dökka yfirbragðið er gegnumgangandi í minni fjölskyldu."

Hún segir frönsku sjómennina ekki vera eina um að hafa gefið Vestfirðingum svarta hárið því talið er að Indverji nokkur hafi tekið land á Vestfjarðakjálkanum á 18. öld, sest þar að og blandað blóði við heimamenn. Ekki er laust við að bregði fyrir indverskum svip í andliti Estherar og hún og börnin hennar hafa dökka húð sem verður svört við minnsta sólarljós og þá lýsir nánast af hvítum lófunum.

"Systur mínar eru líka svona dimmleitar, en við erum bara þrjár og kannski eins gott því við erum alveg ferlegar þegar við komum saman. Ég puttabraut aðra þeirra einu sinni í látunum. Við virðumst ekki vaxa upp úr prakkaraskap og uppátektasemi. Nýlegasta dæmið er afmælisgjöf sem þær gáfu mér um daginn þegar ég varð 35 ára. Þær komu hér með bros á vör og gáfu mér svín! Þrælfjöruga þriggja vikna gyltu. Sannkölluð hrekkjusvínagjöf. Ég gaf gyltunni nafnið Gedda grís, eftir Gerði yngri systur minni sem átti hugmyndina. Gedda stækkar hratt enda svelgir hún í sig mjólk líkt og kálfur, því hún neitar að drekka vatn eins og almennileg svín gera. En ég ætla að koma með hrekk á móti systrum mínum og bjóða þeim í grillveislu til mín í ágúst. Þá skulu þær fá að éta svínið. Þau þykja einmitt best um sex mánaða aldurinn," segir Esther og glottir með stríðnisglampa í augum.

200 ára rúm og draumfarir

Aðspurð hvernig það kom til að stúlkan við sundin blá varð sveitakona segist Esther alltaf hafa ætlað að verða bóndi, alveg frá því hún man eftir sér.

"Þegar ég var að alast upp á Álftanesinu voru þar kindur, kýr og hestar allt í kringum okkur. Og 13 ára gömul var ég send sumarlangt í sveit. Þá fór ég í Landeyjarnar á bæ sem heitir Strandarhjáleiga. Fyrir mig borgarbarnið var þetta eins og að hoppa mörg ár aftur í tímann því þar var ekkert heitt vatn og ekkert klósett. Ég svaf í 200 ára gömlu rúmi með heydýnu. Á gólfunum voru ólökkuð tréborð og þau þurfti að skrúbba með sandi. Erfiðast fannst mér að komast ekki í bað nema einu sinni yfir allt sumarið. En þótt þarna hafi hvorki verið sjónvarp né annað sem ég átti að venjast var þetta gaman og mér leið vel. Bóndinn á bænum var gamall maður sem hét Ísleifur og var ógiftur en hjá honum var ráðskona sem hafði sinnt því starfi í meira en 30 ár. Þetta var allt mjög sérstakt, hann Ísleifur var yndislegur karl og safnaði bókum sem voru upp um alla veggi og fyrir vikið mynduðust göng inni í herbergjunum."

Löngu seinna og mörgum árum eftir að Ísleifur dó ásótti hann Esther ítrekað í draumi og sagðist hafa áhyggjur af dótinu sínu. Kvað svo hart að þessu að hún var hætt að geta sofið.

"Ég hringdi í bróður hans sem sagði mér að það væri verið að umbreyta gamla bænum, ýta yfir útihúsin og henda gömlu hlutunum. Ég fór á staðinn og þarna voru bækurnar hans komnar í svarta ruslapoka og allt á rúi og stúi. En sem betur fer var látið vita á byggðasafninu í Skógum af öllu þessu dóti og þeir tóku eitthvað af því í sína vörslu. Mig hefur ekki dreymt Ísleif síðan. Mér þykir vænt um að hafa orðið honum að liði og að hann skyldi ná sambandi við mig með þessum hætti."

Sælust í sveitinni

Eftir vistina hjá gamla manninum sleppti Esther aldrei úr sumri í sveitum landsins. Hún var 19 ára þegar hún útskrifaðist af tungumálabraut frá Fjölbraut í Garðabæ, hún mátti ekkert vera að því að eyða meira en þremur og hálfu ári þar.

"Mér lá svo á út í lífið, ég nennti ekkert að hanga yfir þessu lengur. Ég var komin með bóndason upp á arminn og sveitin átti hug minn allan. Ég var einmitt fjósakona hjá honum Halla vini mínum í Einholti í Biskupstungum þegar við Jói náðum saman. Það var alveg frábært að vera í Einholti, þar var riðið út á hverjum degi."

En þegar Esther og Jói tóku saman var hann ekkert á þeim buxunum að verða bóndi. Þau stofnuðu sitt fyrsta heimili á Flúðum og Jói vann á bifvélaverkstæði en Esther hjá garðyrkjubændum staðarins. Árin liðu, þeim fæddust tvö börn og loks rættist draumurinn.

"Ég hafði það af á endanum að fá Jóa til að fara út í búskap. Hann er einkabarn foreldra sinna sem bjuggu hér á undan okkur og það var ekki fyrr en að því kom að þau ætluðu að hætta búskap, sem hann lét þetta eftir mér. Það var árið 1994 og þá var ég ófrísk að þriðja og yngsta barninu okkar. En það var annaðhvort að hrökkva eða stökkva."

Esther og Jói höfðu leiguskipti við foreldra hans, Kormák og Erlu; þau búa núna í húsinu þeirra á Flúðum en ungu hjónin tóku við búrekstrinum á Sólheimum.

"Fyrirkomulagið hjá okkur er þannig að við eigum vélarnar og skepnurnar en þau eiga húsin og jörðina. Hér er svokallaður hefðbundinn búskapur, við erum með kýr, kindur og hross. Mér finnst hestarnir skemmtilegastir en ég hef lítið getað sinnt þeim vegna anna við bústörfin."

Skötuhjúin eru dugleg að lífga upp á hversdaginn með gamansemi hvar sem því verður við komið í búskapnum.

"Það skiptir máli að gera þetta skemmtilegt og nostra við hluti sem maður hefur gaman af. Öðrum megin í fjósinu eru til dæmis kýrnar mínar og hinum megin kýrnar hans Jóa. Svo metumst við um þær okkar á milli. Eins finnst okkur gaman að rækta sjaldgæfa liti, bæði í kúnum og sauðfénu. Við reynum að leggja rækt við golsóttar og botnóttar kindur og við erum að reyna að ná upp mórauða litnum, hann var alveg að hverfa hjá okkur og það fannst mér ómögulegt. Svo gefum við öllum kindunum nafn og það getur reynt á frumlegheitin að finna 200 nöfn, sumar þeirra hafa þurft að sætta sig við að bera bílanöfn. Við eigum hrút sem heitir Clinton því hann var svo frekur til kinda, var alltaf að brjótast þangað sem hann átti ekki að vera. Annar hrútur heitir Ágangur því hann sótti svo í tún hjá nágranna okkar. Í fjósinu fylgjum við þeirri reglu fast eftir að nota aldrei sömu nöfn á kýrnar aftur. Fyrir vikið verða þau stundum svolítið skondin eins og Upprisa, Auðvita og Rúsína eru ágætt dæmi um."

Í liði með Búkollu

Þegar talið berst að kúnum hleypur kapp í Esther enda er hún ein af stofnendum Búkollu, félags um verndun íslenska kúakynsins.

"Íslenska kýrin er partur af þjóðararfinum, hún hefur fylgt okkur alla tíð. Og það er ekkert sem mælir með innflutningi annarra stofna. Nú hefur verið sýnt fram á að sú íslenska mjólkar meira en sú norska ef hún fær jafn mikið fóður, svo það er alveg ástæðulaust að fórna svona miklu fyrir ekki neitt."

Og Esther lætur ekki staðar numið við kýrnar. Hún segir að Búkolla vilji láta friða alla íslensku landnámsbúfjárstofnana.

"Það er mjög áríðandi fyrir íslenskan landbúnað að halda sérstöðunni, í því felast sóknarfæri framtíðarinnar. Við komum aldrei til með að keppa í verði, við eigum að keppa í gæðum og höfum mikla möguleika til þess."

Við stofnun Búkollu tók Esther að sér mikla undirbúningsvinnu ásamt Sigríði Jónsdóttur, bónda í Gýgjarhólskoti, og öðru góðu fólki.

"Ég og séra Axel í Tröð komum heimasíðunni á laggirnar og ég hélt utan um skráningu félaga, leitaði að greinum og viðtölum. Þetta var rosalega mikil vinna. Þegar verst lét var ég fimm tíma í símanum á dag og þrjá tíma yfir nótt að skrá nýja félaga. Svo bættust mjaltir og önnur sveitastörf þar ofan á. En þetta var sannarlega þess virði og hefur gengið framar öllum vonum. Við létum gera Gallupkönnun og íslenska kýrin er með rúmlega 80% fylgi meðal landsmanna og við erum auðvitað alsæl með það."

Í ljósi þess að tvær konur voru driffjaðrirnar í stofnun Búkollu spyr ég Esther að því hvort konur í bændastétt séu að verða sýnilegri og láti meira til sín taka.

"Þetta hefur verið þannig að karlarnir eru alltaf á einhverju flakki og fundahöldum en konurnar heima að mjólka. Af þeim ástæðum þekkjum við kýrnar vel og kannski þess vegna stöndum við upp þeim til varnar. Konur á sveitaheimilum vinna langflestar jafn mikið og karlinn við útistörfin og þær halda oft auk þess utan um ósýnilegu hlutina eins og ræktun, bókhald og fleira. En sem betur fer eru konurnar farnar að beita sér meira og þora að standa upp og berja í borðið á fundum. Við titlum okkur ekki sem húsmæður, við erum fyrst og fremst bændur."

Fær útrás við málverkin

Esther lætur sér fátt fyrir brjósti brenna og þrátt fyrir annir við búskapinn gefur hún sér tíma til að vasast í mörgum málum. Hún er formaður foreldrafélagsins, ritari nautgriparæktarfélagsins og ýmislegt fleira. Auk þess grúskar hún í ættfræði, saumar föt og safnar gömlum bókum. Og ekki má gleyma myndlistargyðjunni sem hefur kallað hana til fylgilags við sig eftir margra ára hlé.

"Ég málaði svolítið sem unglingur en hafði lítinn tíma til að sinna þessu eftir að ég lagði af stað út í fullorðinslífið. En svo tók ég olíulitina upp aftur í fyrra þegar við fórum nokkur saman héðan úr sveitinni á námskeið á Flúðum. Þar fengum við leiðsögn í því sem mátti betur fara í málverkunum okkar. Að öðru leyti hef ég aldrei lært neitt í myndlist. Þetta er ákveðin þörf sem hellist yfir mig, ég verð óróleg í höndunum og þá verð ég að mála. Ég mála hratt á meðan andinn er yfir mér og stend helst ekki upp fyrr en ég er búin með myndina. Skemmtilegast finnst mér að mála með puttunum, þannig fæ ég mesta útrás."

Esther málar aðallega landslagsmyndir og dýramyndir en fyrstu andlitsmyndina málaði hún af sjálfum oddvitanum í Hrunamannahreppi, Lofti Þorsteinssyni. Hún selur heilmikið af myndum og málar einnig eftir pöntun.

"Eitt af skemmtilegri verkefnum sem ég hef fengið var þegar hann Jón í Götu bað mig að mála altaristöflu fyrir sig. Hann er með einkakapellu í bílskúrnum hjá sér. Ég varð fúslega við þessari bón og málaði Frelsarann í fullri stærð. Myndin og kapellan voru svo blessuð af prestinum."

Hún á ekki langt að sækja listamannshæfileikana því þeir liggja í báðum ættum. Kolbrún móðir hennar er lærð myndlistarkona og snillingur með vatnsliti, Ingimundur langafi hennar gerði mikið af því að höggva og móta í stein. Einnig gerði hann lampa úr hvalahauskúpum og víkingaskip úr kjálkabeinum stórgripa. Og ekki má gleyma föður Estherar, sem er liðtækur með vatnsliti.

Dóttir huglæknis

Esther er dóttir Guðjóns Hafsteins sem er í daglegu tali kallaður Hafsteinn en þær systurnar eru allar skrifaðar Guðjónsdætur. Hafsteinn er mjög öflugur læknamiðill og af þeim sökum ruglar fólk honum stundum saman við Hafstein Björnsson miðil sem allir þekktu hér áður fyrr.

"Pabbi er Guðbjörnsson og miklu yngri maður en sá Hafsteinn. Auk þess að vera milligöngumaður lækna að handan fæst faðir minn við að biðja fyrir látnu fólki sem lætur af sér vita. Hann hefur starfað við þetta í 15 ár á vegum Sálarrannsóknarfélags Íslands."

Esther fer ekki leynt með að hún býr sjálf yfir dulrænum hæfileikum.

"Ég skynja oft eitthvað áður en fólk kemur hingað. Þá sé ég einhvern á sveimi skömmu áður, sumir kalla það fylgjur. Stundum þegar síminn hringir veit ég nákvæmlega hver er að hringja. Og í djúpri slökun get ég farið út úr líkamanum og flakkað um. Þetta gerðist fyrst hjá mér fyrir tæpum tíu árum og þá varð ég rosalega hrædd. Ég hélt að ég væri að deyja. Ég horfði á sjálfa mig spriklandi í rúminu að berjast við að koma til baka. Þegar það loksins tókst hugsaði ég með mér að þetta mætti aldrei gerast aftur. En svo prófaði ég seinna að ferðast svona úr líkamanum og þá komst ég að því að ég gat farið til baka þegar ég vildi. Þá var ég ekkert hrædd við þetta lengur og nú get ég flakkað hvert sem ég vil. Stundum fer ég yfir fjallið og túnin. Þetta er eins og að svífa og er mjög mögnuð upplifun."

Amerískir kaggar

Esther hefur ýmis áhugamál sem eru á jarðbundnara sviði en sálnaflakk. Hún er verulega veik fyrir stórum og kraftmiklum bílum.

"Ég hef alltaf haft mjög gaman af bílum og amerískir bílar heilla meira en aðrir. Þessir japönsku eru ekki fullgildir í mínum huga. Ég vil hafa mína bíla stóra og láta bera virðingu fyrir mér á vegunum. Jói hefur gert nokkrar tilraunir til að fá mig til að kaupa japanskar dósir. Ef honum tekst að fá mig í prufutúr á slíkum bíl hef ég iðulega beðið hann að stoppa eftir 500 metra og ég hef gengið til baka. Þar með er málið útrætt."

En eiginmaðurinn er ekki síður fyrir ameríska bíla og Esther segir það hafa átt sinn þátt í að þau rugluðu saman reytum sínum.

"Ég neita því ekki að ég kunni að meta bílinn sem Jói átti þegar við tókum saman og við eigum hann reyndar ennþá. Þetta er svartur Oldsmobile árgerð 1978 og hann er enn í fullri notkun. Hann er svo gamall og virðulegur að þegar ég fer á honum til Reykjavíkur víkja allir fyrir mér," segir Esther og hlær. Þau luma líka á rauðum sparibíl sem er Plymouth '67 og þau gerðu upp saman þegar Esther gekk með fyrsta barn þeirra hjóna. Og svo eiga þau hvort sinn vörubílinn.

Reyndar er þeim svo annt um bíla að fyrir ofan bæinn hafa þau komið upp bílakirkjugarði. Þar eru á milli 50 og 60 bílar, öllum haganlega upp raðað eftir tegundum. Og nærri má geta að Plymouth, Chrysler og Oldsmobile eru þar í miklum meirihluta.

"Sveitungarnir hafa líka fengið að bæta í kirkjugarðinn ef þeir tíma ekki að henda gömlum bílum eða vilja geyma þá í varahluti."

Veðmál í hlaðvarpanum

Óneitanlega eru miklar andstæður í konunni sem vill aka um á amerískum drekum því hana dauðlangar líka að búa í torfbæ og helst vildi hún hafa hreindýr í fjallinu. Hún segist vera ævintýramanneskja og finnst gaman að taka áhættu, sérstaklega í hrossamálum.

"Einu sinni keypti ég óséða hryssu af mjólkurbílstjóranum því hann ætlaði að farga henni. Foreldrar hennar voru bæði undan Hrafni frá Holtsmúla svo ég sló til. Ég byrja að temja undan henni í vor og það verður gaman að sjá hvað kemur út úr því. Og einhverju sinni veðjaði ég við mann sem kom hingað og varð vitni að því að veturgamalt trippi var að riðlast á merunum í gríð og erg. Hann var handviss um að út úr þessu kæmu mörg folöld. Ég var ekki á sama máli og greip tækifærið og spurði hvort hann vildi veðja. Hann tók því og við gerðum samkomulag um að hann fengi eitt folald ef kæmu þrjú eða fleiri undir, en hann yrði að láta mig fá tvær endur ef ekkert folald kæmi. Ég vann veðmálið og endurnar eru hér enn og við borðum núna eingöngu andaregg því hænurnar hættu að verpa þegar endurnar fluttu inn á þær. Ég leyfi hænunum að lifa því þær eru svo fallegar, rammíslenskar að sjálfsögðu," segir Esther sem er svo annt um íslensku búfjárstofnana.

Hún vill hvergi annars staðar vera en í Hrunamannahreppi, segir sveitina fallega og samneytið gott við nágrannana. En er hagkvæmt að vera ungur bóndi í dag?

"Já, það er alveg þokkalegt en auðvitað skiptir mestu máli að starfa við það sem hugurinn stendur til. Mörgum finnst svo bindandi að vera með kýr en það finnst mér ekki. Mér finnst miklu meira bindandi að vera í vinnu frá átta til fimm. Þetta snýst auðvitað um hugarfar eins og svo margt annað. Mér finnst mikils vert að vera minn eigin herra og svo hóa ég bara í tengdamömmu til að mjólka fyrir mig ef á þarf að halda!"

Ég kveð Esther Djöflaeyjarbónda eftir að hafa sporðrennt ljúffengum jólakökum sem hún bakar í massavís og grípur til þegar gesti ber að garði. Ég velti því fyrir mér hvort glampinn í augum hennar eigi meira skylt við galdur eða prakkaraskap. Þegar ég ek í burtu kemst ég að því að hrafninn á bænum er ekki síður stríðinn en ábúendurnir. Ég get ekki betur séð en hann sé að reyna að lokka hundinn fram af klettabrún.