Stefán E. Matthíasson
Stefán E. Matthíasson
Stefán E. Matthíasson fæddist á Akureyri 4. maí 1958. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1978 og læknaprófi frá Háskóla Íslands 1985.

Stefán E. Matthíasson fæddist á Akureyri 4. maí 1958. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1978 og læknaprófi frá Háskóla Íslands 1985. Hann stundaði sérnám í almennum skurðlækningum í Svíþjóð og í framhaldi af því sérnám í æðaskurðlækningum í háskólasjúkrahúsinu í Málmey. Hann lauk sérfræðidiplómu frá því sjúkrahúsi og doktorsprófi í skurðlækningum frá háskólanum í Lundi. Hann starfaði eftir það við æðaskurðlækningar og líffæraflutninga í Málmey en flutti svo til Íslands og hóf störf á Sjúkrahúsi Reykjavíkur í byrjun árs 1997 og hefur starfað á því sjúkrahúsi síðan, eftir sameiningu við æðaskurðlækningadeild Landspítala í Fossvogi.

Stefán E. Matthíasson fæddist á Akureyri 4. maí 1958. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1978 og læknaprófi frá Háskóla Íslands 1985. Hann stundaði sérnám í almennum skurðlækningum í Svíþjóð og í framhaldi af því sérnám í æðaskurðlækningum í háskólasjúkrahúsinu í Málmey. Hann lauk sérfræðidiplómu frá því sjúkrahúsi og doktorsprófi í skurðlækningum frá háskólanum í Lundi. Hann starfaði eftir það við æðaskurðlækningar og líffæraflutninga í Málmey en flutti svo til Íslands og hóf störf á Sjúkrahúsi Reykjavíkur í byrjun árs 1997 og hefur starfað á því sjúkrahúsi síðan, eftir sameiningu við æðaskurðlækningadeild Landspítala í Fossvogi.

Norrænt þing æðaskurðlækna verður haldið í Reykjavík í Odda, húsnæði HÍ, dagana 7. til 9. júní. Það er Æðaskurðlækningafélag Íslands sem hefur staðið að undirbúningi þingsins en samtímis því verður námskeið fyrir verðandi æðaskurðlækna Norðurlanda í sama húsnæði. Dr. Stefán E. Matthíasson er formaður Æðaskurðlækningafélags Íslands. Hann var spurður hvað efst yrði á baugi á þinginu?

"Meginviðfang þessa þings verður annars vegar ítarleg umfjöllun um nýjungar í meðferð æðakölkunar, og mun prófessor Bauer Sampio frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum verða aðalfyrirlesari á þeim hluta þingsins ásamt prófessor David Bergquist frá háskólanum í Uppsölum og prófessor Mauri Lëppentalo frá Helsinki o.fl., og hins vegar tækninýjungar í innæðaaðgerðum og mun prófessor Amman Bolia frá háskólanum í Lechester á Englandi leiða þá umfjöllun."

-Eru margir sérfræðingar á þessum sviðum gestir þingsins?

"Allir fremstu sérfræðingar Norðurlandanna á þessu sviði verða á þinginu, sem er einstaklega ánægjulegt. Æðaskurðlækningafélag Íslands hefur ekki áður haldið svona þing hér en þetta er fimmta þingið af þessum toga sem er haldið."

-Hvað verður fjallað um á fyrrnefndu námskeiði?

"Það er liður í ítarlegri þjálfun æðaskurðlækna. Gríðarlegur skortur er á sérfræðingum á þessu sviði á öllum Norðurlöndunum og mikið áhyggjuefni að ungir læknar virðast síður leggja á sig framhaldsnám í þessari sérgrein og öðrum, þar sem langs sérnáms er krafist og vaktavinnu. Með þessu námskeiði er Félag norrænna æðaskurðlækna að reyna að glæða áhuga á þessari sérgrein."

-Er mikil þróun að eiga sér stað núna í þessari grein lækninga?

"Undanfarið hafa átt sér stað miklar tækninýjungar sem gera okkur kleift að meðhöndla sjúkdóma á mun einfaldari hátt en áður. Sumir sjúklingar geta jafnvel farið heim samdægurs eða daginn eftir sem áður þurftu að gangast undir langar og strangar skurðaðgerðir. Mjög ánægjuleg þróun hefur orðið á Íslandi við stofnun einnar æðaskurðlækningadeildar við Landspítalann í Fossvogi. Þar var nýverðið tekið í notkun mjög fullkomið æðaþræðingatæki sem nýtist til innæðaaðgerða. Nú er einnig hafin bygging sérhæfðrar skurðstofu fyrir æðaskurðlækningar á sama sjúkrahúsi. Mun þetta gera læknum deildarinnar mögulegt að meðhöndla æðasjúkdóma með allri þeirri hátækni sem fyrirfinnst í dag."

-Eru æðasjúkdómar mikið vandamál?

"Æðasjúkdómar eru verulega vaxandi vandamál, að hluta til afleiðing hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar, svo og vegna áhrifa lífshátta, svo sem reykinga, sem enn þann dag í dag eru stærsti áhrifavaldur æðakölkunarsjúkdóma."

-Hvenær var Æðaskurðlækningafélag Íslands stofnað?

"Það var stofnað 1997 og er félagsskapur æðaskurðlækna, svo og æðaröntgenlækna. Hlutverk félagsins er að standa að kynningu á æðasjúkdómum og meðferð þeirra, svo og að vera ráðgefandi fyrirtækjum og heilbrigðisyfirvöldum um álitamál þessa málaflokks. Einnig er á vegum félagsins stundað öflugt rannsóknarstarf í tengslum við Íslenska erfðagreiningu um erfðaþætti æðasjúkdóma."

-Verður sagt frá rannsóknum af þessu tagi á komandi þingi?

"Á þinginu verða kynntar vel á annan tug nýrra rannsókna frá Íslandi og Norðurlöndunum á sviði æðaskurðlækninga. Kynnt verður m.a. íslensk rannsókn á vegum Æðaskurðlækningafélags Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar á erfðum útæðasjúkdóms, þar sem staðfest hefur verið að ætt og uppruni einn og sér getur verið sjálfstæður áhættuþáttur fyrir æðakölkunarsjúkdóm. Á þinginu verður einnig fjallað um genameðferð við æðakölkunarsjúkdómi og mun prófessor Sampio, sem er meðal fremstu vísindamanna á þessu sviði, greina frá stöðu þessara mála í dag. Á þessu þingi verður einnig velt upp gömlum meðferðarformum, svo sem gildi gamalgróinna húsráða við meðferð á æðasjúkdómum og líka verður ítarlega fjallað um forvarnir við sjúkdómnum. Loks má geta þess að hluti þingsins fjallar um gagnabanka varðandi eftirlit og meðferð æðasjúkdóma, en slíkir gagnabankar hafa verið settir á laggirnar á öllum Norðurlöndunum og er nú slíkur banki í undirbúningi hér á landi á vegum Æðaskurðlækningafélags Íslands ef nægjanlegt fjármagn fæst. Bankar sem þessir hafa sýnt sig að vera hafsjór af fróðleik og þekkingu sem nýtast til vísindarannsókna og gerðar gæðastaðla á þessu sviði."