Búið er að koma nýja umferðargreininum fyrir á annarri akrein þjóðvegar 1 við Esjumela og verður búnaðurinn settur í hina akreinina eftir hvítasunnu.  Slíkum búnaði verður komið upp víðar á næstu árum.
Búið er að koma nýja umferðargreininum fyrir á annarri akrein þjóðvegar 1 við Esjumela og verður búnaðurinn settur í hina akreinina eftir hvítasunnu. Slíkum búnaði verður komið upp víðar á næstu árum.
VEGAGERÐIN er setja upp nýja kynslóð af tæknibúnaði á þjóðvegi 1 við Esjumela sem safna á margs konar upplýsingum um umferð.
VEGAGERÐIN er setja upp nýja kynslóð af tæknibúnaði á þjóðvegi 1 við Esjumela sem safna á margs konar upplýsingum um umferð. Með honum er unnt að skoða álag á vegakerfið og er ætlunin að koma þessum nýja búnaði upp á nokkrum stöðum í vegakerfinu á næstu árum.

Eldri gerð svokallaðra umferðargreina hefur verið á fimm stöðum á þjóðvegum landsins og er nýi búnaðurinn samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og erlendra aðila.

Nicolai Jónasson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, tjáði Morgunblaðinu að búnaðurinn væri annars vegar skynjarar sem komið er fyrir í sjálfri akbrautinni og nema þeir fjölda ökutækja, hraða þeirra, bil milli bíla, bil milli öxla og þyngd hvers þeirra um sig og geta skynjararnir jafnframt numið heildarþyngd ökutækja. Hins vegar er um að ræða hugbúnað sem les úr upplýsingunum og er unnið úr þeim á aðalskrifstofu Vegagerðarinnar í Reykjavík.

"Þetta er fullkomnari búnaður en við höfum haft til þessa og gerir okkur kleift að fá meiri og nákvæmari upplýsingar um álag á vegakerfið á ákveðnum stöðum," segir Nicolai. Hann segir mikilvægt að safna upplýsingum sem þessum, ekki síst um umferð flutningabíla sem sífellt fari fjölgandi með auknum flutningum um þjóðvegakerfið. Segir hann umferðarþungann af fólksbílum nánast ekki skipta máli hvað varði þungaálag á vegum, þungaflutningarnir, bílar með 10 til 11 tonna öxulþunga, hafi mesta álagið í för með sér. Mestur leyfilegur heildarþungi flutningabíla er 49 tonn.

Kostar 6 til 7 milljónir

Upplýsingarnar úr umferðargreinunum má nota til að kanna og meta atriði eins og umferðaröryggi út frá bili milli bíla, skoða umferðarhraðann og hvort grípa þurfi til ráðstafana vegna hans og gögnin má líka nota til að meta áhrif mengunar frá umferðinni, en þau geta gefið vísbendingu um þau umhverfisáhrif sem umferðin veldur. Má með rannsóknum á sambandi þyngdar ökutækis og útblásturs ýmissa mengandi efna ráða í hver mengunin er sem umferðin veldur. Nicolai segir að Vegagerðin og aðrir aðilar sem sinna umferðarmálum geti nýtt sér þennan gagnagrunn.

Nýi búnaðurinn kostar milli 6 og 7 milljónir króna og segir Nicolai ráðgert að koma honum upp á 6 til 10 stöðum á landinu á næstu árum. Verður það við helstu þéttbýlissvæðin á hringveginum í öllum landshlutum, svo og á Suðurnesjum. Lokið verður við að setja upp búnaðinn á Esjumelum eftir hvítasunnu.