Guðfinna S. Bjarnadóttir rektor og Agnar Hansson deildarforseti kynntu nám með vinnu í nýbyggingu Háskólans í Reykjavík, sem taka á í notkun í haust. Um er að ræða annan áfanga af þremur í húsbyggingum skólans, 4 þúsund fermetra húsnæði líkt og bygging fyr
Guðfinna S. Bjarnadóttir rektor og Agnar Hansson deildarforseti kynntu nám með vinnu í nýbyggingu Háskólans í Reykjavík, sem taka á í notkun í haust. Um er að ræða annan áfanga af þremur í húsbyggingum skólans, 4 þúsund fermetra húsnæði líkt og bygging fyr
HÁSKÓLINN í Reykjavík kynnti á miðvikudag nýja námsleið innan viðskiptadeildar sinnar sem gefur vinnandi fólki kost á að stunda fullgilt háskólanám og ljúka BS-prófi eða diploma prófi á tveimur til þremur árum.
HÁSKÓLINN í Reykjavík kynnti á miðvikudag nýja námsleið innan viðskiptadeildar sinnar sem gefur vinnandi fólki kost á að stunda fullgilt háskólanám og ljúka BS-prófi eða diploma prófi á tveimur til þremur árum. Um er að ræða fjórar námsbrautir sem allar byggjast á þeim grunni sem lagður hefur verið í hefðbundnu námi í viðskiptadeildinni. Hægt verður að taka 90 eininga BS-nám í viðskiptafræði og útskrifast sem viðskiptafræðingur og diploma-leiðirnar eru þrjár og hver þeirra með 45 eininga nám. Þær eru með áherslu á fjármál og rekstur, stjórnun og starfsmannamál og loks markaðsfræði og alþjóðaviðskipti.

Námið, sem á að hefjast næsta haust, er sérsniðið með þarfir fólks úr atvinnulífinu í huga þannig að einstaklingar geti stundað vinnu samhliða náminu. Fyrirkomulag kennslunnar verður með þeim hætti að kennt verður þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga frá kl. 16 til 19 og munu nemendur taka þrjú þriggja eininga námskeið á hverri önn, alls 9 einingar í stað 15 í hefðbundnum dagskóla. Þá verða einnig kennd þrjú námskeið yfir sumarið, þ.e. í maí, júní og ágúst en frí tekið í júlí. Nemendur ljúka því 27 einingum á þremur önnum á ári, í stað 30 eininga í hefðbundnu háskólanámi, og 45 einingum á 21 mánuði. Einstaklingur sem hefur nám í ágúst 2001 lýkur þannig diploma-gráðu í júní 2003.

Námið veitir fullgildar einingar á háskólastigi og mun nemendum standa til boða að halda áfram úr diploma-námi inn í BS-námið. Eins er ætlunin að þeir sem skrá sig í BS-nám með vinnu taki þriðja og síðasta árið í dagskólanum til að geta nýtt að fullu öll þau valnámskeið sem þar eru í boði.

Lögð verður áhersla á notkun Netsins í samskiptum milli nemenda og kennara, t.d. verður hluti fyrirlestra vistaður á Netinu, verkefnaskil verða möguleg á rafrænu formi og nemendur geta tekið þátt í umræðuþráðum sem settir verða upp á innra neti skólans.

Við val á umsækjendum verður sérstaklega horft til starfsreynslu þeirra einstaklinga sem boðin verður skólavist en einnig er ætlast til að þeir hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. Umsóknarfrestur er til 1. júlí næstkomandi og kostar hver önn 79 þúsund krónur. Diploma-nám til 45 eininga kostar því 395 þúsund krónur og BS-námið 790 þúsund krónur, samkvæmt núgildandi gjaldskrá.

Einsdæmi í íslenskri háskólasögu

Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, sagði á blaðamannafundi í fyrradag í nýbyggingu skólans, sem tekin verður í notkun næsta haust, að þetta nýja nám væri byltingarkennd nýjung og einsdæmi í íslenskri háskólasögu. Námið gæfi einstaklingum úr atvinnulífinu nýtt tækifæri til að bæta menntun sína og auka valmöguleika varðandi störf og starfsgetu. Guðfinna sagði skólann hafa fundið fyrir skorti á námi sem þessu og mikið verið spurt um þennan möguleika.

"Við vonum að fólk í atvinnulífinu sjái sér hag í því að fara í þetta nám, fólk sem hefur hætt námi eftir stúdentspróf eða í miðju háskólanámi og farið út á vinnumarkaðinn. Nú er þenslan aðeins að minnka í efnahagskerfi okkar og tilvalið að nota þá tækifærið og flykkjast í skólana. Okkur vantar fleira vel menntað fólk út í atvinnulífið," sagði Guðfinna og minnti á eitt meginhlutverk skólans sem væri að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Agnar Hansson, deildarforseti viðskiptadeildar, sagði á blaðamannafundinum að með nýju námsleiðunum gæfist einstakt tækifæri fyrir fólk sem hefði áralanga reynslu úti í atvinnulífinu. Skólinn hefði fyrst og fremst það fólk í huga með þessum námsleiðum.

"Við teljum að sú reynsla og þekking sem kemur inn með slíku fólki muni bæði nýtast þeim nemendum sem eru hér fyrir og eins okkur kennurum og öðrum sem koma að skólastarfinu. Það mun efla okkur þegar til lengri tíma er litið," sagði Agnar.

Skólinn að mæta aukinni eftirspurn

Hann sagði tvær meginástæður vera fyrir því að Háskólinn í Reykjavík ákvað að bjóða upp á nám með vinnu. Í fyrsta lagi væri ástæðan sú að aðsókn að skólanum hefði verið mjög mikil á undanförnum árum og skólinn þurft að vísa frá tveimur þriðju hluta þeirra umsókna sem hefðu borist. Með auknu námsframboði væri verið að mæta aukinni eftirspurn og bjóða fleirum tækifæri til náms. Í öðru lagi væri samdráttur á vinnumarkaði og í efnahagslífinu og með aukinni menntun á þeim tímum gæfust möguleikar á að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Að sögn Agnars er reiknað með að 15-20 nemendur verði teknir inn á hverja af þeim fjórum námsleiðum sem boðið verður upp á, eða alls 60-80 manns. Þá sagði hann líklegt að námsleiðunum yrði fjölgað í framtíðinni þar sem blanda mætti saman viðskiptafræði og upplýsingatækni, auk þess sem bjóða mætti upp á nám í einhvers konar nýsköpun.

Háskólinn í Reykjavík mun á næstunni útskrifa í fyrsta sinn úr viðskiptadeildinni einstaklinga með BS-próf og til að auka enn frekar metnað í skólastarfinu stendur til að veita veglega námsstyrki í haust til þeirra nemenda sem skara fram úr í náminu. Þá hófst MBA-nám við skólann á síðasta ári í alþjóðlegu samstarfi við 9 háskóla beggja vegna Atlantshafs.