Ein af eftirminnilegustu ferðum Jóns Hákonar Magnússonar, framkvæmdastjóra KOM ehf., var í skosku hálöndin.
Hvert er eitt þitt eftirminnilegasta frí?

Það er fimm daga ferð sem við hjónin fórum í fyrir tveimur árum til Skotlands. Við fórum til Edinborgar, tókum lest til Innverness, dvöldum þar um slóðir í nokkra daga, tókum síðan lestina aftur til Glasgow og flugum þaðan heim.

Með hverjum fórstu?

Með eiginkonu minni Áslaugu G. Harðardóttur.

Einhver sérstök ástæða fyrir ferðinni?

Við fórum að heimsækja vini okkar. Þessir vinir okkar ráku einn frægasta einkaklúbbinn í London, Les Ambassadeurs, sem ég er meðlimur í, en þau seldu hann og fluttu til Skotlands. Þar búa þau á sveitasetri, St. Callans Mance, í þorpi sem heitir Rogart en það er í tæplega tveggja tíma akstursfjarlægð frá Innverness. Þau hafa nú gert upp nokkur gömul steinhús á jörð sinni, þar sem vinnufólkið bjó, og leigja þau nú ferðamönnum.

Einhverjir staðir sem vert er að heimsækja á þessum slóðum?

Það er mjög gaman að koma í skosku hálöndin en þetta var í fyrsta sinn sem við hjónin fórum þangað. Við kynntumst nokkrum bændum sem flestir eru tiltölulega fátækir leiguliðar. Heimamenn eru mjög viðkunnanlegir og veran þarna minnti mig um margt á Vestfirðina, þetta var nánast eins og að vera kominn vestur á Ísafjarðardjúp þaðan sem ég er ættaður. Þeir sem eiga leið um skosku hálöndin ættu að gefa sér tíma til að kynnast heimamönnum en einn skemmtilegasti dagurinn þar var þegar ég aðstoðaði nokkra bændur við að laga sauðfjárgirðingar uppi á heiði, það hefði alveg eins getað verið á Þorskfjarðarheiði.

Í þessari ferð minni var mér einnig boðið í laxveiði í hina rómuðu Hjálmsdalsá eins og hún heitir á íslensku. Veðrið var bara svo gott að veiðin gekk ekkert. Það skipti samt ekki máli því aðaltilgangurinn var að njóta kyrrðar og náttúru landsins. Þann dag skruppum við tvisvar á krána en það gera heimamenn iðulega í veiðiferðum.

Þá mæli ég með því að fólk keyri um nærliggjandi sveitir, stingi sér inn á krárnar og litlu veitingahúsin sem þar er að finna.

Þessi ferð einkenndist fyrst og fremst af afslöppun og við vorum því endurnærð hjónin þegar við komum heim.

Einhverjir veitingastaðir sem þú mælir með?

Maturinn var fínn, skoskur sveitamatur þar sem lambakjötið er í öndvegi og auðvitað "haggis". Þarna eru þó engin stórkostleg veitingahús en nokkuð um minni veitingastaði og krár.

Einhver ferð fyrirhuguð á næstunni?

Við fjölskyldan erum að velta því fyrir okkur að aka um miðvesturríki Bandaríkjanna í sumar en þar var ég við nám í fjögur ár á árum áður.