DIAPENDRA, krónprins í Nepal, skaut foreldra sína, Birenda konung og Aiswarya drottningu, tvö systkin og fjóra aðra ættingja til bana í konungshöllinni í Katmandu á föstudag.

DIAPENDRA, krónprins í Nepal, skaut foreldra sína, Birenda konung og Aiswarya drottningu, tvö systkin og fjóra aðra ættingja til bana í konungshöllinni í Katmandu á föstudag. Fyrstu fregnir af atburðinum voru óljósar en sagt að krónprinsinn hefði reynt að fyrirfara sér en væri enn á lífi.

NÝJAR skoðanakannanir í Bretlandi í vikunni bentu til stórsigurs Verkamannaflokks Tony Blairs forsætisráðherra í kosningunum á fimmtudag. Ef spárnar ganga eftir fær flokkurinn 267 atkvæða meirihluta í neðri deild þingsins en hefur nú 179 sæta meirihluta.

ROLAND Dumas, sósíalisti og fyrrverandi utanríkisráðherra Frakklands, var á miðvikudag dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa tekið við ólöglegum greiðslum úr sjóðum olíufélagsins ELF. Hann fékk einnig skilorðsbundinn fangelsisdóm til tveggja ára og sekt er nemur andvirði 13 milljóna króna.

SERGEI Ívanov, varnarmálaráðherra Rússlands, sagði í vikunni ólíklegt að tekið yrði væntanlegu tilboði Bandaríkjamanna um að þeir kaupi S-300 eldflaugar af Rússum og annan búnað. Í staðinn eiga Rússar að samþykkja að samningur um bann við gagneldflaugum falli úr gildi.