Sjálfsmorðsárás í Tel Aviv MIKIÐ mannfall varð í Ísrael er palestínskur hryðjuverkamaður gerði sjálfsmorðsárás á hóp fólks fyrir utan næturklúbb í Tel Aviv á föstudagskvöld. Vitað er að 17 manns fórust og um 80 slösuðust, aðallega ísraelsk ungmenni.

Sjálfsmorðsárás í Tel Aviv

MIKIÐ mannfall varð í Ísrael er palestínskur hryðjuverkamaður gerði sjálfsmorðsárás á hóp fólks fyrir utan næturklúbb í Tel Aviv á föstudagskvöld. Vitað er að 17 manns fórust og um 80 slösuðust, aðallega ísraelsk ungmenni. Ríkisstjórn landsins var þegar boðuð á fund til að ræða viðbrögð við árásinni. Þau kenndu Yasser Arafat, leiðtoga Palestínustjórnar, um árásina þar sem hann hefði ekki "lyft litlafingri" til að stöðva árásir gegn Ísraelum.

Ein helsta hryðjuverkahreyfingin úr röðum Palestínumanna, Hamas, hefur áður hótað að gera fjölda sjálfsmorðsárása á Ísraela og hefur sagt að þegar sé til reiðu nóg af "píslarvottum" er vilji fórna sér fyrir málstað Palestínumanna.

Arafat og fjölmargir þjóðarleiðtogar fordæmdu þegar tilræðið, meðal þeirra voru Vladímír Pútín Rússlandsforseti og George W. Bush Bandaríkjaforseti. Arafat átti á miðvikudag fund með æðstu ráðamönnum Evrópusambandsins og óskaði hann eftir því að þegar í stað yrðu sendir alþjóðlegir eftirlitsmenn til Ísraels og heimastjórnarsvæða Palestínumanna til að aðstoða við að stöðva blóðbaðið.

Wahid Indónesíuforseti stokkar upp í stjórn sinni

ABDURRAHMAN Wahid, forseti Indónesíu, stendur enn í ströngu vegna ásakana á hendur honum um fjármálaspillingu. Hann stokkaði upp í stjórn sinni á föstudag til að reyna að friða andstæðinga sína en þingið hefur samþykkt að hefja málshöfðun til embættismissis á hendur Wahid. Flokkur Megawatis Sukarnoputris varaforseta hefur krafist afsagnar Wahids.